Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Höfrungahlaupið hamið

$
0
0

Þrátt fyrir nær tvöfalt meiri launahækkanir hérlendis en á hinum Norðurlöndunum undanfarin 15 ár hefur kaupmáttur aukist helmingi minna hér en þar. Uppsafnað munar ríflega 14% í hreinum kaupmætti á þessum árum. Á þetta er bent í samkomulagi sem heildarsamtök launafólks og atvinnurekenda á almennum og opinberum vinnumarkaði gerðu í októberlok og var ekki vanþörf á, miðað við þróun kjarasamninga hér á landi. Þar kom enn fremur fram að verðbólga á Íslandi hefur verið þrefalt meiri en á hinum Norðurlöndunum síðustu fimmtán árin. Frá aldamótum hefur gengi krónunnar fallið um 50% en gengi mynta hinna Norðurlandanna haldist nær óbreytt gagnvart evru. Vegna mikillar verðbólgu og efnahagslegs óstöðugleika á Íslandi hafa vextir að jafnaði verið þrefalt hærri en á hinum Norðurlöndunum.

Þessa óheillaþróun þarf að stöðva. Fyrrgreint samkomulag aðila vinnumarkaðarins er nauðsynleg aðgerð í þá veru. Innistæðulaus krónutöluhækkun launa er ekki aðeins gagnlaus heldur beinlínis skaðleg vegna verðbólguáhrifa sem snerta alla. Það er aukning kaupmáttar sem skiptir máli.

Samkomulagið, sem gert var undir forystu ríkissáttasemjara, nær til nær til 70% launafólks sem á aðild að stéttarfélögum en að því standa Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og samninganefnd ríkisins fyrir hönd fjármálaráðuneytisins. Það felur í sér mörkun sameiginlegrar launastefnu til ársins 2018 til að stöðva svokallað höfrungahlaup á vinnumarkaði. Nýtt samningalíkan gerir ráð fyrir því að svigrúm til launahækkana verði skilgreint út frá samkeppnisstöðu gagnvart helstu viðskiptalöndum, fyrirtæki sem framleiða vöru og þjónustu til útflutnings eða í samkeppni við innflutning móti svigrúm til launabreytinga. Þá er gert ráð fyrir jöfnun lífeyrisréttinda á almennum og opinberum markaði en jafnframt að opinberum starfsmönnum verði tryggð hlutdeild í launaskriði á almennum markaði. Með þessum hætti er stefnt að því að kjarasamningar miði að því að auka kaupmátt á grundvelli stöðugs gengis. Með auknu samstarfi verði minni átök á vinnumarkaði sem hafi í för með sér aukinn efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.

Áhersla er lögð á sameiginlega ábyrgð enda er hlutverk vinnumarkaðar stórt, ásamt efnahagsstefnu stjórnvalda og peningastefnu Seðlabankans þegar kemur að stöðugleika. Þess vegna er þessi formlegi vettvangur mikilvægur þar sem forystufólk vinnumarkaðar, ríkisstjórnar og Seðlabankans geta stillt saman strengi. Fyrir löngu var tímabært að koma á þeim samráðsvettvangi. Vinnudeilur og þrálát verkföll undanfarinna missera – og lagasetning á verkföll – hafa enn og aftur sýnt okkur hve knýjandi þörfin er á breyttum vinnubrögðum. Viðsemjendur beggja vegna borðs hafa gert sér grein fyrir þessu en erfitt hefur reynst að koma í veg fyrir höfrungahlaupið svokallaða, sem litlu skilar þegar til lengri tíma er litið, nema verðbólgu sem étur upp þá kjarabót sem um var samið.

Enn eru þeir þó til sem virðast vilja halda sig við gamla og úrelta fyrirkomulagið. Í kjölfar fyrrgreinds samkomulags hinna stóru aðila vinnumarkaðarins lagði Verkalýðsfélag Akraness fram stefnu í Félagsdómi gegn hópnum sem að því stendur. Haft var eftir Vilhjálmi Birgissyni, formanni félagins, að það væri mat þess að samkomulagið skerti samningsrétt og frelsi stéttarfélaganna. Það sé andstætt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur þegar fyrirfram sé búið að ákveða hvað megi semja um.

Sjálfsagt er að láta reyna á slíkt fyrir félagsdómi en ekki verður annað séð en það sé í þágu félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness, eins og annarra, að fremur sé stefnt að auknum kaupmætti en viðbótarkrónum sem brenna upp á verðbólgubáli.

Aðilar beggja vegna borðs eru með hagdeildir sem vita um hvað er að semja, hvert svigrúmið er til launabreytinga. Kjarasamningar sem leiða til verðbólgu og rýrnunar krónu eru engum í hag. Samningarnir eiga, eins og nýtt líkan gerir ráð fyrir og fram kemur hér að ofan, að miða að auknum kaupmætti á grundvelli stöðugs gengis.

The post Höfrungahlaupið hamið appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652