Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Frakklandi eftir að minnsta kosti 120 voru myrtir í hryðjuverkaárásum í gærkvöld. Til viðbótar eru um 200 manns slasaðir, þar af eru 80 alvarlega slasaðir.

Átta tilræðismenn eru fallnir að sögn saksóknara. Þar af féllu sjö í sjálfsvígssprengjuárás. Lögregla leitar samverkamanna tilræðismannanna. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á þessum árásum.
Skotárásir og sprengjuárásir voru gerðar á sex stöðum í París. Árásirnar voru gerðar á veitingastöðum, Bataclan tónleikahöllinni þar sem hljómsveitin Eagles of Death Metal kom fram og við þjóðarleikvanginn Stade de France í norðurhluta borgarinnar. Þar fór fram vináttuleikur Frakklands og Þýskalands í knattspyrnu.

Í Bataclan létust að minnsta kosti 87 manns auk þriggja árásarmanna sem sprengdu sprengjubeltu sem þeir báru.
François Hollande, forseti Frakklands, hefur látið loka landamærum landsins vegna þessara hræðilegu atburða og yfirvöld hafa beðið fólk í París um að halda sig innandyra.
The post Hryðjuverk í París: Að minnsta kosti 120 myrtir appeared first on Fréttatíminn.