„Það má segja að röddin sé í raun vöðvi sálarinnar,“ segir Þórey. „Það hvernig okkur líður endurspeglast í röddinni og þegar við þjálfum röddina hefur það góð áhrif á sálina.“ Þórey kynntist mætti raddarinnar fyrst fyrir um það bil 20 árum og í dag kennir hún sjálfstyrkingarnámskeið fyrir þá sem vilja styrkja framkomu sína og rödd undir yfirskriftinni „Röddin – vöðvi sálarinnar.“
„Nafnið á námskeiðinu er tilvísun í Roy Hart, sem er þekktur úr leikhúsheiminum. Hann byrjaði að gera tilraunir með röddina á sjöunda áratugnum og sótti innblástur frá tónlistarmanni að nafni Alfred Wolfsohn sem var hermaður í fyrri heimstyrjöldinni. Í stríðinu missti hann marga félaga sem hafði mikil áhrif á hann og eftir stríðið ásóttu þessi hljóð hann, hljóðin úr deyjandi líkömum. Til að vinna úr þessari erfiðu reynslu notaði hann ákveðna tækni til að heila sig í gegnum röddina.“
Upplifði röddina á nýjan hátt
Þórey kynntist þjálfunartækninni fyrir tveimur áratugum. „Ég fór á námskeið hjá Nadine George sem hefur mótað þessa raddþjálfunaraðferð og námskeiðið breytti lífi mínu, svo einfalt er það. Ég upplifði röddina á alveg nýjan hátt.“ Þórey lauk kennsluréttindum frá Voice Studio International, sem Nadine George stendur fyrir, og hefur hún meðal annars kennt leiklistarnemum í Listaháskóla Íslands og Kvikmyndaskóla Íslands raddbeitingu. Hún segir þó að þessi tækni nýtist á öllum sviðum samfélagsins. „Það að vinna í röddinni skapar svo góðan jarðveg fyrir annars konar vinnu, hvort sem það tengist texta, myndlist eða sjálfstjáningu. Þú tengir þig beint við sjálfið og sköpunarkraftinn.“
Góð raddbeiting skapar góða nærveru
Á námskeiðunum er unnið að því að finna jafnvægi í gegnum öndunar- og raddæfingar. „Þetta er í raun ný vakning í heildrænni líkamsrækt. Röddin er mjög líkamlegur hluti en verður gjarnan útundan þegar talað er um líkamsrækt. Röddin endurspeglar gjarnan hvernig okkar líður, mótar sjálfsmyndina og tengir þannig saman líkamlega og andlega heilsu okkar,“ segir Þórey. Hún vill því varpa ljósi á röddina og segir mikilvægt að þjálfa hana eins og hvern annan vöðva.
„Ég held að fæstir geri sér líka grein fyrir möguleikunum sem felast í því að þróa röddina sem atvinnutæki. Það er hvaða starfi maður gegnir, það er alltaf meiri krafa á að geta staðið upp og gert grein fyrir máli sínu og því er svo mikilvægt að geta beitt röddinni rétt.“ Góð raddbeiting skapar auk þess góða nærveru og hefur jákvæða áhrif á sjálfsmyndina, að sögn Þóreyjar. „Röddin er yfirleitt það fyrsta sem hverfur þegar við finnum fyrir óöryggi en ef við höfum þjálfað hana og höfum tækni til að byggja á, þá brestur hún okkur ekki undir krefjandi kringumstæðum.“

Námskeiðið fer fram í Tveimur heimum, miðstöð fjölbreyttrar hreyfingar, en meðal námskeiða sem þar er hægt að sækja er hugleiðsla með Birni Bjarnasyni, fyrrverandi ráðherra. „Röddin er svo sannarlega vöðvi sálarinnar og með því að tengja saman líkama og sál með öndun og æfingum líður manni svo vel, bæði andlega og líkamlega.“
The post Röddin er vöðvi sálarinnar appeared first on Fréttatíminn.