„Um leið og maður þjáist af streitu eða kvíða hefur það áhrif á allt sem maður gerir, og þar er kynlífið alls ekki undanskilið. Höfuðið fer á yfirsnúning, maður nær ekki að slaka á og það segir sig sjálft að það er mjög erfitt að koma sér í stuð eða halda sér í stuði ef maður er að hugsa um eitthvað allt annað,“ segir Sigga Dögg kynfræðingur.
Til að vera í núinu í kynlífinu þarf einfaldlega að beita sömu aðferðum og vera í núinu almennt. „Gott er að skipta yfir í hægari fasa og njóta hvors annars. Það er líka allt í lagi að vera ekki í stuði, kynlíf er ekki bara samfarir, við erum alltaf með haus og hendur og það má njóta hvors annars með því að strjúka hvort öðru og litlum kossum og knúsum. Ég held að þegar fólk hugsar um kynlíf hugsi það oft ósjálfrátt um samfarir en ekki allt litrófið og regnbogann sem kynlíf er.“
Það er samt líka allt í lagi að vera ekki í stuði eða ná honum ekki upp, að sögn Siggu Daggar sem verður í spjalli í Heilsutímanum, sjónvarpsþætti sem sýndur er á Hringbraut öll mánudagskvöld. Þar mun hún ræða tengsl heilsu og kynlífs og mikilvægi þess að vera í núinu í kynlífinu. „Þetta snýst um að eyða tíma með hvort öðru og gefa sér tíma til að vera ekki í símanum, tölvunni eða sjónvarpinu.“
The post Kynlíf í öllum regnbogans litum appeared first on Fréttatíminn.