Rut Káradóttir er sennilega eitt þekktasta nafnið í heimi innanhússarkitektúrs og innanhússhönnunar á Íslandi í dag en konuna á bak við nafnið þekkja færri. Hún á sér þó merkilega sögu, bæði innan og utan starfs, allt frá því að ráskast með húsmuni móður sinnar á Húsavík til þess að búa með ítölskum greifa á Ítalíu, elta manninn sem hún vissi að hún myndi giftast heim úr ræktinni og fá svo tækifæri til starfa við það sem hana dreymdi um frá æsku.
„. Ég bjó meira eða minna á Ítalíu í 9 ár og drakk í mig menninguna, söguna og andrúmsloftið, en það voru svo sannarlega tvær hliðar á þeim draumaheimi. Ég fór fyrst í ítölskunám í Perugia og varð þar svona yfir mig ástfangin af strák, sem allir kölluðu greifann. Ég hélt að það væri bara vegna þess hvað hann var pjattaður og alltaf fínn í tauinu, komst ekki að því að hann væri greifi í alvörunni fyrr en við vorum byrjuð að vera saman. Þetta var mjög efnuð fjölskylda og þau voru yfir sig ánægð með að ég skyldi vera erlend þar sem þær ítölsku væru örugglega bara að reyna að giftast honum til fjár. Þau tóku það upp hjá sjálfum sér að móta mig svo ég passaði inn í fjölskylduna og ég hef aldrei farið í gegnum annan eins heilaþvott á ævinni. Það var rosalega töff verkefni fyrir svona sveitamanneskju eins og mig að verða fín frú og læra að haga mér skikkanlega. Ég var alltaf að tala við rangt fólk eða segja eitthvað rangt og oftar en ekki var sparkað hraustlega í mig undir borðum þegar þeim fannst ég vera að verða þeim til skammar í fínum boðum eða ef ég ætlaði að leyfa mér að rökræða við fjölskylduföðurinn,“ segir Rut meðal annars um Ítalíuævintýrið í ítarlegu viðtali í Fréttatímanum á morgun. Þar tjáir hún sig líka um glamúrvæðingu á starfi hönnuðarins, ástina sem hún fann í ræktinni og ýmsilegt fleira.
Ekki missa af forsíðuviðtali Fréttatímans.
The post Tvær hliðar á draumaheiminum appeared first on Fréttatíminn.