„Ég fann snemma fyrir einhverskonar ókyrrð. Frá því ég man eftir mér fyrst var ég á einhvern hátt ófullnægður á öllum sviðum og hagaði mér eftir því. Ég fann bara aldrei neina eirð,“ segir Sigurþór Jónsson, 34 ára gamall Hafnfirðingur og fyrrverandi landsliðsmaður í golfi, sem til ársins 2010 lifði því sem virtist vera hamingjusamt og innihaldsríkt líf.
„Ég kem frá góðu heimili. Mamma var góðri vinnu og fósturpabbi minn var skipstjóri og vélstjóri. Mig skorti aldrei neitt í æsku. Ég átti gott samband við pabba minn en það var lítið, við hittumst bara um helgar. Ég fékk í raun allt sem ég vildi en sambandið við fósturpabba minn var erfitt, mér fannst hann aldrei samþykkja mig. Og ég held að hann hafi aldrei gert það. Hann vildi bara mömmu mína og ég upplifði mig alltaf sem bagga á þeirra sambandi. Ég sá líka hluti í þeirra sambandi sem lítil börn ættu ekkert að upplifa án þess að fara eitthvað nánar út í það. Ég var oft hræddur og kvíðinn sem barn en það eru tilfinningar sem lítil börn eiga ekki að upplifa.“
Fann sig í golfinu
„Það var allskonar rugl á mér í skóla. Ég lenti í slagsmálum og einelti og lagði sjálfur aðra í einelti. Ég var til vandræða en samt ekkert alltaf og ég var alls ekki vondur. Ég átti mjög erfitt með að læra og leið ekki vel, var ekki í jafnvægi en gat samt aldrei talað um það. Ég byrgði allt inni og svo þegar eitthvað kom upp á þá bara sprakk ég. Ég náði ekki að eignast nána vini, og fór því bara eitthvert annað til að tengjast. Svo gerist það að móðurbróðir minn dró mig með sér í golf þegar ég var ellefu ára. Þá bara gerðist eitthvað, ég náði allt í einu að einbeita mér og fannst gaman. Þarna fann ég fjölina mína og það var ekkert aftur snúið,“ segir Sigurþór varð fljótlega mjög efnilegur golfari og keppti þrettán ára á fyrsta mótinu sínu. „Ég var öll sumur á golfvellinum og dagana sem ég átti að vera að læra undir samræmdu prófin var ég á golfvellinum.“
Kynntist kókaíni tvítugur
„Ég byrjaði svo að drekka sextán ára og fann þar leið til að sleppa tökunum og hleypa öllu út. Feimnin fór, ég fékk útrás og varð oftast mjög erfiður. Eftir nokkur fyllirí fór ég svo að nota eiturlyf, fikta við hass og amfetamín en neyslan var ennþá bara tengd við helgar á þessum tíma. En fiktið komst upp og ég var sendur í meðferð. Ég var samt alls ekkert á leið í meðferð til að hætta að drekka, fannst ég bara hafa verið að hlaupa af mér hornin, og þegar ég var tvítugur datt ég í það aftur. Og þá kynntist ég kókaíni. Kókaínið varð mitt aðalefni í tólf ár fyrir utan einhverja tímapunkta þegar ég var á fullu í golfinu.
Ég var það sem kallað er „fúnkerandi alkóhólisti“. Ég var í góðri vinnu sem verslunarstjóri í herrafataverslun, átti konu og tvö stjúpbörn og var á fullu að keppa í golfinu. Var landsliðsmaður frá 2007-2010 og lífið virtist vera í góðu lagi utan frá. En allar helgar snerust um að detta í það og taka kókaín. Auðvitað missti ég stjórnina öðru hverju, var aðeins of lengi á djamminu, hvarf stundum í einn eða tvo daga og eyddi allt of miklum peningum, en ég gat samt alltaf komið heim aftur og var alltaf fyrirgefið því ég er góður strákur inn við beinið. Ég var ekki að skaða neinn nema sjálfan mig á þessum tíma, að mér fannst.“
Missti allt á nokkrum mánuðum
Þegar Sigurþór komst í landsliðið árið 2007 fór hann í fyrsta sinn að fá efasemdir um rútínuna sem var farin að stjórna lífi hans. „Ég vissi í raun alltaf inn við beinið að ég væri alkóhólisti en þarna áttaði ég mig í fyrsta sinn á því að þetta var farið að hafa allt of mikil áhrif á líf mitt. En ég var ekki kominn í neinar skuldir á þessum tíma svo ég náði að halda áfram á þessari braut. Alveg þangað til pabbi dó úr krabbameini árið 2010. Ég skildi við sambýliskonu mína árið 2008 og hafði búið hjá pabba síðan. Ég var einkasonur hans, við vorum bestu vinir og mjög nánir. Ég meikaði þetta engan veginn og það bara brast eitthvað. Það var eins og það hefði verið losað um einhverja stíflu.
Ég hafði verið edrú í nokkurn tíma áður en pabbi dó til að vera til staðar fyrir hann en um leið og ég vissi að hann væri að fara byrjaði ég að nota aftur. Ég höndlaði engar tilfinningar því ég var í raun eitt stórt sár sem hafði aldrei náð að gróa,“ segir Sigurþór sem á innan við sex mánuðum missti allt. „Ég missti vinnuna, íbúðina, fjölskylduna og allt sem ég hafði erft frá pabba. Ég gaf algjört fokk í lífið og á engum tíma var ég kominn á götuna. Það fór allt á einu bretti og mér var drullusama, gat bara dópað og glæpað eins og ég vildi.“
Ellefu meðferðir á þremur árum
Sigurþór fór í ellefu meðferðir á næstu þremur árum. Hann fékk þess á milli að gista hjá móður sinni eða vinum en segist hafa sofið mest lítið. Sumarið 2013 bjó hann á götunni, skuldaði margar milljónir í yfirdrátt og enginn úr fjölskyldunni vildi sjá hann. „Skiljanlega vildi enginn neitt með mig hafa og mér var alveg sama. Þetta er alkóhólismi í sinni verstu mynd. Ég man að þann 5. ágúst árið 2013 sat ég í 10-11 í Lágmúlanum með fullan vasa af kóki í vasanum sem ég hafði fengið eftir ömurlegum leiðum. Ég hafði í engin hús að vernda en seldi starfsmanni í búðinni kók sem svo bauð mér í heimsókn þar sem ég steindrapst. Þegar ég svo vaknaði þá fann ég algjöra uppgjöf. Það var svo mikill þungi yfir mér að ég fann að annaðhvort hætti ég þessu eða tæki mitt eigið líf.“
Stuttu síðar fékk Sigurþór pláss í Hlaðgerðarkoti og sárin fóru í fyrsta sinn að gróa. „Ég man þegar mamma hringdi í mig grátandi af gleði til að tilkynna mér að ég hefði fengið pláss. Og í fyrsta sinn fannst mér það frábært. Ég vildi bara borða og sofa og fá hjálp en endaði á því að vera þar í hálft ár. Það var mér í rauninni til happs að ég hafði ekki í nein önnur hús að vernda því þegar ég efaðist og langaði út þá vissi ég að ég hefði engan stað til að fara á. Svo fór ég bara smátt og smátt að takast á við sorgina og fortíðina. Og í fyrsta sinn fann ég að þetta var að virka, mig langaði í bata. Eftir þessa sex mánuði fór ég svo á áfangaheimili í 9 mánuði þannig að ég var í meðferð í 15 mánuði.“
Batinn kemur ekki á silfurfati
Í dag segist Sigurþór vera í góðu jafnvægi. Hann hefur búið sér heimili og fundið ástina auk þess að vera í góðri vinnu. Hann segir bataferlinu þó hvergi vera lokið. „Batinn kemur ekkert á silfurfati. Sambandið við félagana og fjölskylduna er ekkert komið í lag. Mamma mín er algjörlega yndisleg og hún á yndislegan mann í dag og þau styðja vel við bakið á mér. Systir mín er eins og klettur og ég á raunverulega vini, bæði nýja og gamla, sem eru til staðar, en eðlilega slá sumir ennþá varnagla við mér og sumstaðar á ég ekki afturkvæmt. Þetta er enginn dans á rósum og það koma upp mál sem rífa í sárin.
Í fyrra fékk ég símtal úr fortíðinni frá manni sem var að reyna að kúga af mér fé byggt á einhverjum lygum. Það var erfitt því ég þurfti að hitta mína gömlu vini úr fortíðinni. Þetta er svo ljótur heimur, þessir undirheimar og þetta líf sem snýst um að redda sér. Þetta er viðbjóður og ég verð ævinlega þakklátur Samhjálp sem hjálpaði mér að komast úr þessu líferni og ekki síður við að koma undir mig fótunum eftir meðferðina. Þar fékk ég líka hjálp við að koma fjármálunum á hreint og í dag skulda ég ekkert, sem er ótrúlegt frelsi. Ég byrjaði svo aftur að spila golf í fyrravor og er kominn aftur í núll í forgjöf og topp tíu á Íslandi. Golfið hefur alltaf verið líflínan mín og ég hlakka til að bæta mig enn frekar þar. Ég veit ekki hvar ég væri án þess og allra minna góðu vina.“

1996 Íslandsmeistari unglingasveitar Keilis
1998 Íslandsmeistari unglinga
2000 Íslandsmeistari með sveit Keilis
2007 Þátttökuréttur á Nordic Tour
2007-2010 Landsliðsmaður
2010 Sigrar í móti í Eimskipsmótaröðinni
2015 Topp 10 á Eimskipsmótaröð, eftir þriggja ára fjarveru.
Samhjálp leitar til landsmanna
Samhjálp keypti Hlaðgerðarkot af Mæðrastyrksnefnd árið 1974 og hefur rekið þar meðferðarheimili allar götur síðan. Húsnæðið var upphaflega byggt af vanefnum og er núna í mjög slæmu ástandi og því löngu tímabært að ráðast í endurbætur og nýbyggingu til að hægt sé að uppfylla kröfur yfirvalda. Ef engin hjálp fæst er fyrirséð að starfsemin muni leggjast af og hefur því verið sett af stað landssöfnun sem verður í opinni dagskrá á Stöð 2 á morgun, laugardaginn 21. nóvember.
-60-70 manns eru jafnan á biðlista í Hlaðgerðarkoti.
-400 einstaklingar þurftu frá að hverfa árið 2014.
-Yfir helmingur skjólstæðinga Hlaðgerðarkots er á aldrinum 18-39 ára.
-Samhjálp rekur einnig áfangaheimilin Brú og Spor.
-Kaffistofa Samhjálpar, þar sem hægt er að fá morgunkaffi og heitan mat í hádeginu, er opin alla virka daga.
The post Bjó á götunni fyrir tveimur árum appeared first on Fréttatíminn.