„Ég fæ oft ýmis skilaboð sem eru ætluð þingmanninum, sem snúast yfirleitt um það að ég sé ekki að standa mig og mér finnst þetta alltaf jafn fyndið,“ segir hin 26 ára gamla Vigdís Hauksdóttir. „En ég er ekki í símaskránni þannig ég hef ekki fengið símtöl, sem er ágætt.“ Síðastliðinn sunnudag fékk Vigdís skilaboð líkt og oft áður, auk myndbands, og ákvað hún því í þetta skiptið að deila þeim skilaboðum konu einnar með vinum sínum á Facebook. Í skilaboðunum stóð meðal annars: „Manstu kannski ekkert eftir því hverju þú hést í kosningabaráttunni? Er það allt gleymt og grafið?“

„Mér fannst þetta bara svo fyndið. Ég hef ekki hugmynd um hvaða kona þetta er en hún hefur greinilega verið í einhverju brjálæði, sem tengist kannski því að ég fékk skilaboðin fljótlega eftir að Vigdís þingmaður var í viðtali í fjölmiðlum um helgina. Það fyrsta sem ég hugsaði var einfaldlega hvort hún hefði ekki skoðað einkennismyndina mína á Facebook,“ segir Vigdís, en þar sést bersýnilega að ekki er um þingmanninn að ræða. Auk þess er einkennismyndin af henni að hoppa í hyl við foss, sem kannski gæti verið þingmaðurinn úr ákveðinni fjarlægð, hver veit?
Ætlar ekki að skipta um nafn en íhugar blómaskreytingar
Vigdís segist oft vera spurð um hvort hún sé skyld nöfnu sinni, en sú er ekki raunin. „Við erum hins vegar tvær í fjölskyldunni sem heitum Vigdís Hauksdóttir, en við tengjumst þingmanninum ekki neitt.“ Hún berist þó oft í tal, jafnvel á hinum ólíklegustu stöðum. „Einu sinni var ég í leghálskrabbameinsskoðun og fékk þá spurninguna: „Já, ert þú þá líka í Framsóknarflokknum?“ Ég fæ þessa spurningu því á ótrúlegustu tímum.“
Vigdís ber nafn sitt með stolti og hyggst ekki breyta því. „Ég er mjög ánægð með nafnið mitt og væri því frekar til í að hún myndi breyta sínu nafni,“ segir hún og hlær – og á þá við þingmanninn, nöfnu sína. Vigdís getur þó hugsað sér að líkjast nöfnu sinni á einn hátt. „Ég ætti kannski að leggja blómaskreytingar fyrir mig, til að bæta aðeins við ruglinginn.“
The post Fær reiðipósta vegna ummæla Vigdísar Hauks appeared first on Fréttatíminn.