Guðrún Sæmundsen hefur alla tíð skrifað ljóð og smásögur og nýlega gaf hún út sína fyrstu skáldsögu, Hann kallar á mig. Þó bókin sé skáldskapur þá byggir hún á reynslu og raunverulegum upplifunum Guðrúnar sjálfrar sem barðist við alkóhólisma og kvíða í nokkur ár. Hún segist ekkert skafa af reynslu sinni í bókinni sem hafi í upphafi valdið henni kvíða, því samfélagið eigi það til að dæma konur hart. Í dag viti hún þó að efnið sé of gott til í liggja ofan í skúffu.
„Þetta er bók sem byggir að einhverju leyti á minni eigin reynslu svo lesandinn á örugglega eftir að hugsa hvað úr sögunni sé raunverulegt,“ segir Guðrún Sæmundsen, 33 ára Hafnfirðingur, sem gaf nýverið út sína fyrstu skáldsögu. Bókin nefnist „Hann kallar á mig“ og er að sögn Guðrúnar bersögul samtímasaga sem fjallar um fíkn, ofbeldi, vináttu og svik.
Notar eigin upplifun í skáldskapinn
„Sagan er dramatísk og spennandi en það er líka léttleiki í henni. Þetta er örugglega oft á tíðum áhrifamikil lesning enda eru þetta raunsannar lýsingar. Ég hef heyrt frá fólki sem fannst á köflum erfitt að lesa söguna, því hún snerti djúpt en síðan gat það hlegið að húmornum. En það er einmitt það sem mig langar að gera, hrista upp í fólki. Ég reyni að lýsa vel tilfinningum, hugsunum og hegðunarbreytingum söguhetjunnar og því hvernig fíknin breytir henni og samskiptum hennar við alla sem þykir vænt um hana. Þeir sem þekkja mig geta alveg pikkað út einhver karaktereinkenni, því að einhverju leyti er ég að nota mína eigin upplifun, en sögupersónur og aðstæður eru skáldaðar. Ég myndi segja að þetta væri mikil saga með sterk skilaboð. Hún fjallar um það hversu mikilvægt það er að halda alltaf áfram, sama hvað bjátar á,“ segir Guðrún sem byrjaði fyrst að vinna í bókinni árið 2011, árið sem hún hætti að smakka áfengi.
Snjóboltaáhrif kvíða og drykkju
„Ég var fúnkerandi alkóhólisti í nokkur ár. Ég vann mína vinnu, kláraði nám og gerði allt sem ég þurfti að gera, en áfengið fylgdi mér alltaf og ég réð engan veginn við það. Ég hef alltaf verið kvíðin og á tímabili félagsfælin og átti erfitt með að vera í kringum mikið af fólki. Mér leið best undir áhrifum og það ágerðist með tímanum. Kvíða og drykkju fylgja þessi snjóboltaáhrif, kvíðinn ágerist með meiri drykkju og á endanum hættir áfengið að slaka á kvíðanum sem gerir það að verkum að maður drekkur alltaf meira. Á endanum er hægt að segja að ástandið sem maður sækir í sé „blackout“, sem er náttúrulega bara ógeð.
Ég var meðvituð um það að flest vandamál í mínu lífi voru tengd áfengi en gerði mér þó engan veginn grein fyrir því að ég gæti verið alkóhólisti. Áður en ég hætti að drekka þá var alkóhólisti fyrir mér einhver sem hafði misst allt, átti hvergi heima og væri það sem í daglegu tali er kallaður róni, en maður getur auðvitað verið með fordóma fyrir því sem maður þekkir ekki. Ég hafði nokkrum sinnum reynt að hætta sjálf en gat það ekki og byrjaði alltaf aftur. Og í hvert einasta skipti sem ég byrjaði aftur varð neyslan miklu verri.“
Missti vinnuna og byrjaði að skrifa
„Fyrsta árið eftir að ég varð edrú neitaði ég allri utanaðkomandi hjálp við að ná bata því ég hafði enga trú á því að ég þyrfti aðstoð. En það var fyrst þá sem ég upplifði geðveikina sem fylgir þessum sjúkdómi. Þetta eina ár er það langerfiðasta sem ég hef upplifað í mínu lífi. Þá koma allar erfiðu tilfinningarnar fram en það er ekki hægt að deyfa sig og svo er þetta líka svo róttæk lífsbreyting. Það var svo ekki fyrr en ég var algjörlega andlega búin sem ég loksins sá að ég þurfti hjálp. Ég átti ekkert eftir. Það var svo mamma sem fór að ýja að því við mig hvort ég þyrfti ekki bara aðstoð og opnaði í raun augu mín fyrir því.“
Það var á þessu erfiðasta ári í lífi Guðrúnar sem hún byrjaði að skrifa söguna. „Ég fór að skrifa niður hugmyndir og ætli ég hafi ekki í upphafi verið að skrifa mig frá ákveðnum hlutum. Sagan var samt engan veginn fullmótuð á þessum tíma, ég var bara að skrifa fyrir sjálfa mig. Það hefur alltaf verið stór hluti af mér að skrifa. Sem krakki sat ég alltaf við skrifborðið heima að skrifa og semja ljóð. Það er til fullt af ljóðum og smásögum eftir mig frá því ég var lítil en síðustu árin hef ég mest verið að semja ljóð því mér finnst svo gott að setja mína eigin líðan í þetta knappa form,“ segir Guðrún sem ákvað svo að nýta þessi ómótuðu brot í söguna sem nú hefur litið dagsins ljós. „Þegar ég missti vinnuna í fyrra þá kom eitthvað svo sterkt til mín að nú ætti ég að ljúka við söguna. Tilfinningin lét mig ekki í friði, svo ég bara settist niður og byrjaði að skrifa. Og þegar ég byrjaði þá opnaðist fyrir eitthvert flæði og ég hætti ekki fyrr en ég var orðin sátt með söguna. Ég hef fengið svakalega hvatningu frá fjölskyldu og vinum sem virðast hafa ótrúlega trú á mér. Margir segjast hafa verið að bíða eftir sögu frá mér því flestir vita að ég hef alla tíð verið að skrifa.“
Var hrædd um sjálfa sig
Guðrún segist vera breytt manneskja í dag og að skrifin hafi hiklaust hjálpað sér að vinna sig út úr líferni sem nú sé að baki. „Öll neikvæð reynsla er hluti af þeim verkefnum sem lífið lætur manni í té hverju sinni, til að læra af og þroskast. Ég er ótrúlega þakklát fyrir þetta allt saman. Í dag er himinn og haf á milli þess hver ég er og hver ég var. Mig langar aldrei í áfengi og þessi ákvörðun að hætta að drekka er sú flottasta sem ég hef tekið í lífinu. Þegar ég hugsa til baka þá er ég svo þakklát fyrir að það hafi ekki komið eitthvað slæmt fyrir mig í þessu ástandi sem ég var oft í. Þessu lífi fylgir svo mikið ábyrgðarleysi, maður hendir bara öllu frá sér og verður alveg sama. Ég var orðin virkilega hrædd um sjálfa mig þegar ég loksins ákvað að hætta þessu.“
Samfélagið gagnrýnir konur harðar en karla
Í dag starfar Guðrún í franska sendiráðinu auk þess að kenna Pole fitness. Hún stendur í ströngu þessa dagana við að kynna bókina sína sem hún gefur sjálf út eftir hópfjármögnun á Karolina fund. Hún segir kvíðann og óöryggið að baki en það sé þó skrýtið að standa skyndilega í sviðsljósinu. „Mér fannst óþægileg tilhugsun að setja sjálfa mig í forgrunn þegar ég byrjaði að kynna bókina. En svo fékk ég að heyra það að það væri algengt að konur hugsuðu þannig, vildu ekki vera að trana sér fram. Mér fannst það áhugavert og ég held að það sé að einhverju leyti rétt. Einhverra hluta vegna eigum við konur það til að vanmeta eigin getu. Kannski því við erum hræddar við gagnrýni, vegna þess að samfélagið gagnrýnir okkur harðar en karlana. Þetta er mjög persónuleg og bersögul saga, ég skef ekkert af tilfinningum né ofbeldis-eða kynlífslýsingum svo ég var dálítið stressuð yfir því og viðbrögðum annara. En svo er þetta bara of gott efni til að láta þannig pælingar stoppa sig. Fólki má bara finnast það sem því sýnist.“
The post Kvíðinn ágerðist eftir því sem ég drakk meira appeared first on Fréttatíminn.