Á kjörtímabilinu verður tryggingagjald lækkað. Svo sagði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vorið 2013. Það hefur þó aðeins gerst í mýflugumynd hvað þetta gjald varðar sem launagreiðendum ber að greiða af heildarlaunum launamanna og er ætlað að mæta greiðslum til atvinnulausra. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, bendir á það í leiðara á síðu samtakanna að engin áform séu um að lækka tryggingagjaldið árið 2016 þrátt fyrir að atvinnuleysi sé hverfandi og fari minnkandi. Árlegt gjald sem fyrirtækin greiða sé því 20-25 milljörðum króna hærra en það ætti að vera miðað við stöðuna á vinnumarkaði. Skattlagning á launagreiðslur hefur því hækkað verulega. Framkvæmdastjórinn minnir á það í pistli sínum að samstaða hafi verið meðal stjórnmálaflokkanna fyrir síðustu þingkosningar að lækka tryggingagjaldið og þessi þverpólitíska samstaða hafi verið ítrekuð á fundi um fjárlögin í nýliðnum nóvember. Samt eru engin merki þess, segir framkvæmdastjórinn, að staðið verði við þessi orð.
Hann minnir á að tryggingagjaldið komi harðast niður á litlum og meðalstórum fyrirtækjum þar sem flest ný störf verða til. Hátt tryggingagjald minnkar því getu fyrirtækja til að ráða fleiri í vinnu eða hækka laun.
Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, talaði á svipuðum nótum í september síðastliðnum, þegar fyrir lá að ekki var gert ráð fyrir lækkun tryggingagjalds í fjárlagafrumvarpinu umfram smávægilega lækkun sem lögfest var fyrir tveimur árum. Hagfræðingurinn sagði tryggingagjald þungan skatt sem legðist á öll laun en væri þó í raun falinn. Skatturinn er greiddur af fyrirtækjum en ólíkt tekjuskattinum sést hann ekki á launaseðli. Fyrir launamenn í landinu, bætti hagfræðingurinn við, er það jafn mikið hagsmunamál að tryggingagjald lækki eins og aðrir skattar. Það hefur bein áhrif á kjör landsmanna og getu fyrirtækja til að greiða laun og ráða fólk í vinnu. Tryggingagjaldið kemur því sérstaklega illa við lítil fyrirtæki þar sem sérhver ráðning í starf vegur þungt. Ennfremur finna mannauðsfrek fyrirtæki óþyrmilega fyrir gjaldinu þar sem launahlutfall er hátt og veldur því að fyrirtækin vaxa hægar en ella og verðmætasköpun verður minni.
Lækki tryggingagjaldið ekki á næsta ári segir Þorsteinn Víglundsson að kjarasamningar fyrir tímabilið 2016-2018 séu í uppnámi, en þeir koma til endurskoðunar í febrúar. Samningarnir voru atvinnulífinu dýrir, en var ætlað að skapa frið á vinnumarkaði til ársloka 2018. Gerðardómur í málum BHM og hjúkrunarfræðinga bjó hins vegar til nýja launastefnu með þeim afleiðingum að forsendur samninga á almennum markaði brustu. Rammasamkomulaginu frá því í okóberlok er ætlað að taka á þeirri stöðu. Til að koma til móts við fyrirsjáanlegan kostnaðarauka kallar Þorsteinn meðal annars eftir því að ríkið komi til móts við atvinnulífið með lækkun tryggingagjaldsins.
Nauðsyn þessarar lækkunar er ítrekuð í máli hagfræðings Samtaka iðnaðarins, enda standi fyrirtækin frammi fyrir meiri kjarasamningsbundnum launahækkunum en efnahagslífið standi undir sér sé horft til lítils framleiðnivaxtar. Kjarasamningarnir einir hækki gjaldstofn tryggingagjaldsins um næstum 10% og þar með skatttekjur ríkisins um 5-6 milljarða króna, bara vegna samninganna. Það er því sanngjörn krafa, segir hann, að gjaldið lækki á móti um að minnsta kosti 1 prósentustig. Slíkt sé allra hagur.
Gjaldið stendur undir greiðslu atvinnuleysisbóta en atvinnuleysi nú er lítið, sem betur fer. Gjaldið var hækkað í kjölfar hrunsins, þegar atvinnuleysi fór í hæstu hæðir, og var eðlileg ákvörðun eins og á stóð þá, eins og Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, benti á nýverið. Staðan er hins vegar önnur nú, eins og fram kom hjá henni. Tryggingagjaldið var um 5,5% þegar atvinnuleysi var á svipuðum slóðum og það er í dag, en hefur ekki lækkað í samræmi við það. Tryggingagjaldið er nú 7,49%.
Fyrirtækin eru því að greiða í meira mæli til ríkissjóðs til annarra útgjalda en greiðslu atvinnuleysisbóta.
The post Hærri skattlagning á launatekjur appeared first on Fréttatíminn.