Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Þrautalending á Þorláksmessu

$
0
0

Nú er jólamánuðurinn hafinn og þá er betra að hafa eyrun opin. Mín ágæta eiginkona segir stundum við mig, þegar hún flettir blöðum á þessum árstíma og sér auglýsingar, að þetta eða hitt gæti verið gaman að eiga. Þegar undirtektir eiginmannsins eru takmarkaðar eða hann annars hugar, eins og stundum gerist, þá bætir hún gjarna við: „Þú getur bara gefið mér þetta í jólagjöf.“ Það finnst mér tilvalið þegar ég heyri ábendinguna, enda á ég oft í vandræðum með val á slíkri gjöf þegar nær dregur jólum, en gallinn er sá að mér hættir til að gleyma því, þegar á hólminn er komið, hver tillagan var.

Ég kann ekki við að spyrja konuna að því á Þorláksmessu hvað hún hafi verið að tala um í upphafi aðventunnar og reyni því að bjarga mér eftir öðrum leiðum. Best hefur mér reynst, eftir að dætur okkar komust á fullorðinsár, að ráðfæra mig við þær. Þar taka betur eftir leyndum og ljósum ábendingum móður sinnar en eiginmannsnefnan, en vandinn er sá að þær hafa báðar stofnað sín heimili og eru því sjaldnast viðstaddar þegar ábendingin er sett fram. Því verð ég að treysta á mat dætranna á því hvað móður þeirra langar helst í – og hvað hún hafi hugsanlega bent mér á að kaupa.

Í fyrra var ég þó ekki í neinum vafa, vissi nákvæmlega hvað ég átti að kaupa. Mín góða kona átti nefnilega forláta vasa, dökkgráan með gylltu skrauti. Þennan vasa keypti hún af leirlistakonu á Akureyri á sínum tíma og hafði á honum dálæti, enda stillti hún honum upp á besta stað í stofunni okkar, á litlu borði við hliðina á rauða sparistólnum sem við splæstum einu sinni í fyrir tvenn mánaðarlaun.

Ég er að jafnaði dagfarsprúður og heldur umhverfisvænn þannig að konan taldi vasann óhultan á þessum stað, að minnsta kosti fyrir mér. Það var frekar að hún óttaðist að barnabörnin hlypu hann niður í þeim ærslum sem eðlilega fylgja börnum, einkum ef þau koma mörg saman. Hún var því á varðbergi með fíniríið og kom vasanum stundum í skjól þegar mest gekk á hjá skaranum. Hún taldi hins vegar enga hættu á ferð þegar ég settist í fína stólinn síðla á aðventunni í fyrra og teygði vel úr mér. Stóllinn er þeirrar náttúru að snúa má honum í hringi og því vissara að fylgjast með ef barnabörnin freistast til að taka of marga og snögga snúninga í hægindinu. Þau voru hins vegar víðs fjarri þegar áköf snúningsþrá sótti á mig í stólnum góða og ég lét undan þeirri löngun með þeim afleiðingum að ég slengdi hægri handleggnum í fína vasann. Í svokallaðri slómósjón sá ég vasann fara í boga af borðinu í gólfið – með óhjákvæmilegum afleiðingum fyrir listunninn leirvasa.

Ég horfði á brotin á gólfinu annars vegar og konuna hins vegar. Hún sagði ekki margt, það þurfti ekki. Strax næsta dag gúglaði ég listakonuna á Akureyri, hringdi og sagði mínar farir ekki sléttar. Hún hafði skilning á stöðu minni en vandinn var sá að mörg ár voru liðin frá því að hún skóp vasa konu minnar úr leir, dökkgráan og gylltan. Nú eru allir mínir vasar, sagði hún, með hvítum glerungi. Þarna vandaðist málið en ég átti samt engan annan leik í stöðunni en að biðja listakonuna að senda mér þegar í stað með flugi sinn fallegasta vasa, þótt hvítur væri.

Vasann sótti ég á flugvöllinn á Þorláksmessu og hann fékk eiginkona mín í jólagjöf en ég áttaði mig fljótt á því að hann skipaði ekki sama sess og sá brotni. Hvíti vasinn fór ekki í það öndvegi sem sá grái hafði prýtt. Hann hefur, satt best að segja, aldrei komist úr eldhúsinu þar sem hann fékk náðarsamlegast pláss við hliðina á ólífuolíunni og piparstauknum. Hann er óæðri, það dylst mér ekki.

Sá dökkgrái er hins vegar kominn aftur á sinn stað eftir viðgerð. Brotin var hægt að líma saman af listfengi, sem betur fer. Allir eru því sáttir. Barnabörnin tipla á tánum framhjá vasanum og ég gæti að skönkunum þegar ég sest í fína stólinn. Það er því ólíklegt að ég þurfi að hringja neyðarhringingu í listakonuna á Akureyri fyrir þessi jól. Þess utan er ég með eyrun sperrtari nú en endranær ef frúin gefur mér ábendingu um hugsanlega jólagjöf. Strax í september brá ég við skjótt er ég varð var við dálæti hennar á rauðum skrautfugli með langan gogg sem hún sá í hönnunarbúð. Ég keypti flygildið, lét pakka því inn í skartpappír og gaf konunni það sama kvöld með ósk um gleðileg jól. Hún tók framtakinu með jafnaðargeði, þótt aðeins væri kominn níundi mánuður ársins.
Í nýliðnum nóvember nefndi hún tvær listaverkabækur við mig. Ég lét ekki segja mér það tvisvar, brá mér í bókabúð og keypti báðar og afhenti nýjum eiganda.

Þetta breytir samt engu. Þótt konan sé sátt við þessar gjafir verður því ekki neitað að þær eru löngu komnar í hennar hendur og því ekki eiginlegar jólagjafir. Þær gefur maður hvorki í september né nóvember. Því verð ég að leggja við hlustir það sem eftir lifir desember ef hún bendir á eitthvað fallegt, með beinum eða óbeinum hætti, í þeirri von að fyrir þessi jól reki ég hvorki griparm né ganglim í annan og minni vasa sem hún á – dökkbláan frá löngu dánum afabróður í Ameríku – og þykir enn vænna um en þann gráa.

Sá vasi verður ekki bættur með öðrum, hvorki hvítum né gráum.

The post Þrautalending á Þorláksmessu appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652