Barátta kvenna fyrir réttindum sem nú eru víðast talin sjálfsögð kostaði blóð, svita og tár, niðurlægingu og útskúfun. Í bókinni Þær ruddu brautina – Kvenréttindakonur fyrri tíma er að finna æviágrip kvenna sem hófu baráttuna víða um heim og ruddu brautina fyrir kvenfrelsisbaráttu seinni ára. Kolbrún S. Ingólfsdóttir segir í bókinni sögu kvenna sem stóðu í baráttunni framan af, einkum á 19. öld og fram yfir heimsstyrjöldina síðari. Einnig fjallar hún í stuttu máli um sögu kvenréttindabaráttu í ríkjum Evrópu, Ameríku og víðar.
Hér gripið niður í kaflann um breskar kvenréttindakonur.
Emmeline Goulden Pankhurst (1858-1928) var fremst meðal jafningja þegar kom að kvenréttindakonum á Bretlandi og barðist alla ævi hatrammri baráttu fyrir hugsjónum sínum. Hún var leiðtogi innan kvenréttindahreyfingarinnar þar í landi og stofnaði stjórnmálasamband kvenna sem krafðist kosningaréttar fyrir konur. Hún fór í mótmælagöngur og lenti oft í fangelsi með dætrum sínum. Emmeline fæddist í Manchester og ólst þar upp en Robert faðir hennar var róttækur viðskiptajöfur og Sophia móðir hennar var mikill kvenréttindasinni sem tók Emmeline með á kvenréttindafundi, en foreldrarnir voru báðir fylgjandi kosningarétti kvenna. Emmeline var send í skóla í París 15 ára gömul og dvaldi þar næstu fjögur árin. Þá var að bíða giftingar enda töldu foreldrar hennar, þrátt fyrir skoðanir sínar á kosningarétti kvenna, að þær systur ættu ekki að stunda neina vinnu. Þegar hún var tvítug giftist hún lögfræðingnum Richard Marsden Pankhurst (1834-1898) sem þá var 44 ára gamall.
Öll fjölskyldan í baráttunni
Richard var ákafur kvenréttindasinni og róttæklingur. Hann kom því til leiðar að ógiftar konur í eigin húsnæði fengju kosningarétt til borgarstjórnar í Manchester árið 1869, og sat í nefnd sem samdi lög um séreignarrétt kvenna sem voru samþykkt í breska þinginu árið 1870. Þau hjónin eignuðust fimm börn og urðu dætur þeirra þrjár, Christabel (1880-1958), Sylvia (1882-1960) og Adela (1885-1961), allar þekktar kvenréttindakonur. Ári eftir að yngsta dóttirin fæddist fluttist fjölskyldan til Lundúna, en sneri sjö árum síðar aftur til Manchester. Emmeline rann til rifja hve slæmur allur aðbúnaður var meðal kvenna sem unnu í verksmiðjum þar í borg. Hún taldi að eini möguleikinn fyrir betri aðbúnaði á vinnustöðum kvenna væri að þær fengju kosningarétt og gætu þannig beitt áhrifum sínum.
Þau Richard voru bæði félagar í Independent Labour Party (Óháða verkamannaflokknum) sem var stofnaður árið 1893, en tilraunir Richards til að komast á þing báru ekki árangur. Árið 1889 stofnaði Emmeline Women’s Franchise League (Kvenréttindabandalagið) ásamt manni sínum. Eftir að hún varð ekkja stofnaði hún árið 1903 Women’s Social and Political Union eða WSPU (Félags- og stjórnmálasamband kvenna) og kröfðust konurnar í þessu nýja félagi sams konar kosningaréttar og karlar höfðu. Ætlunin var að fá verkakonur til að berjast fyrir kosningarétti en frá árinu 1894 máttu giftar konur kjósa til borgar- og bæjarstjórna á Englandi. Christabel var ritari hjá WSPU og Sylvia kom til liðs við flokkinn árið 1906. Krafan um kosningarétt þróaðist síðan frá því að vera stéttbundin og bundin við eignir, og tók að snúast um kosningarétt fyrir allar konur 21 árs og eldri.
Blöskraði barátta kvenna
Upp úr 1905-1906 misstu fjölmiðlar áhuga á að birta fréttir eða greinar af baráttu kvenréttindakvenna og stóð það áhugaleysi fram að fyrri heimsstyrjöldinni. Mörgum blöskraði einnig þessi valdabarátta kvenna, kröfugöngur og hungurverkföll auk óspekta þegar þær brutu glugga í verslunum og í bústað forsætisráðherrans með grjótkasti. Margar þeirra lentu í fangelsi um lengri eða skemmri tíma, meira að segja rosknar konur eins og Emmeline sem lenti þrisvar í fangelsi 1908-1909, þá orðin fimmtug, og var matur píndur ofan í hana. Þann 18. nóvember 1910 komu um 300 kvenréttindakonur á vegum WSPU saman við þinghúsið og vildu ná fundi með forsætisráðherra og mótmæla því að frumvarp um kosningarétt kvenna hefði verið tekið af dagskrá þingsins. Þar mættu þær harðri mótstöðu frá lögreglumönnum sem börðu þær, klipu og töluðu með niðurlægjandi hætti til þeirra. Um 200 konur voru í kjölfarið fangelsaðar. Dagurinn var eftir þetta kallaður Black Friday. Árið 1912 voru mæðgurnar dæmdar í þriggja ára fangelsi fyrir óspektir á almannafæri og í þingsölum. Á árunum 1912-1914 fór Emmeline inn og út úr fangelsum og hóf alltaf hungurverkfall og var þá sleppt en átti að koma aftur þegar henni batnaði. Hún stóð hins vegar ekki við það og var þá handtekin aftur. Þetta varð síðar þekkt sem „Cat and Mouse“-aðferðin og var óspart notuð.
Lifði það að sjá konur fá kosningarétt
Öll barátta fyrir kosningarétti lá niðri meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð enda taldi Emmeline að ekkert mætti standa í vegi fyrir sigri Breta. Emmeline fékk kvenréttindakonur lausar úr fangelsi, studdi stríðsyfirlýsingu Breta og vildi að félagskonur í WSPU legðu sitt af mörkum á styrjaldarárunum. Sama ár og heimsstyrjöldin hófst safnaði Emmeline saman 30.000 konum í göngu til að hvetja atvinnurekendur til að ráða konur í störf þeirra karla sem kallaðir höfðu verið í herinn. Þegar stríðinu lauk héldu Emmeline og Christabel áfram baráttunni á heimavígstöðvunum. Sylvia sneri hins vegar við blaðinu og sneri baki við WSPU árið 1914. Hún var andvíg þátttöku Breta í fyrri heimsstyrjöldinni og þar af leiðandi ósátt við stuðning WSPU við þá enda var hún afar vinstri sinnuð og hreifst af skoðunum kommúnista.
Emmeline ritaði ævisögu sína, My own Story (Mín eigin saga), sem kom út árið 1914. Árið 1915 var nafninu á fréttablaði WSPU breytt úr The Suffragette í Britannia og það varð þjóðernissinnaðra en áður. Árið 1917 stofnuðu Emmeline og Christabel stjórnmálaflokkinn Women’s Party sem stundaði kvennabaráttu en einnig var markmið flokksins að ljúka stríðinu við Þjóðverja með samningum og afvopna þá. Flokkskonur vildu sömu laun fyrir sömu vinnu og karlar, jafnrétti hjóna við giftingu og í skilnaðarmálum, sama umráðarétt yfir börnunum, sama rétt og tækifæri í opinberu starfi og koma á betri fæðingaraðstoð fyrir konur. Emmeline lifði þann merka áfanga að allar breskar konur, 21 árs og eldri, fengu kosningarétt árið 1928, en lést aðeins nokkrum vikum síðar.
The post Konurnar sem hófu baráttuna appeared first on Fréttatíminn.