Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Fann uppskriftina frá sænskri messósópran söngkonu

$
0
0

„Mér fannst við hæfi að slá í einn sætabrauðsdreng til að hafa eitthvað að narta í, í hléinu,“ segir Bergþór Pálsson söngvari sem er í óðaönn við að undirbúa jólatónleika Sætabrauðsdrengjanna sem verða í Selfosskirkju 14. desember og Laugarneskirkju 17. desember.

„Við borðum alltaf voða mikið þegar við æfum, aðallega sætabrauð og þess vegna kom þetta nafn,“ segir Bergþór. Þeir sem hafa fylgst með Sætabrauðsdrengjunum á Facebook ,sem eru auk Bergþórs, Gissur Páll Gissurarson, Hlöðver Sigurðsson og Viðar Gunnarsson og Halldór Smárason, útsetjari og píanóleikari, vita að grínið er aldrei langt undan. „Já við grínumst mikið og erum stundum að setja fíflaleg myndbönd á Facebook. Jólatónleikarnir okkar verða kryddaðir gríni, þó hátíðleikinn sé að sjálfsögðu með,“ segir Bergþór.

Til að búa til sætabrauðsdreng hrærði hann saman í piparkökudeig eftir uppskrift frá messósópran söngkonunni Anne Sofie Van Otter. „Það er hægt að stytta sér leið með því að kaupa tilbúið deig en mér finnst voða stemning að gera þetta frá grunni. Sérstaklega þegar maður er með lítið fólk að hjálpa sér og fá það til að hjálpa til við að skreyta.“

Að mati Bergþórs er aðventan smákökutíminn. „Á aðventunni finnst mér gott að gera smákökudeig og eiga það í kæli og baka jafnóðum. Mér finnst yfirleitt ekkert varið í smákökur þegar búið er að geyma þær.“ Tónlistin er að sjálfsögðu aldrei langt undan. „Yfir hátíðarnar finnst mér voða gaman að hlusta á stóru gömlu verkin, eins og jólaoratoríuna eftir Bach, auk þess sem ég er svolítið hrifinn af þessum gömlu jólalögum í flutningi Ellu Fitzgerald og Bing Crosby. Þetta kemur í mér í jólaskap, og svo auðvitað gömlu íslensku lögin.“

JólBergþór Pálsson

Sætabrauðsdrengir

Þessi uppskrift er frá sænsku messósópran söngkonunni Anne Sofie von Otter. Ég man ekki hvernig ég komst yfir hana, býst við að þær hafi verið á netinu. Það er gaman að taka frá kvöldstund til að skreyta með litlu manneskjunum, kveikja á kertum og skreyta. Samveran er svo holl!

120 g smjör
1 bolli sykur
1/3 bolli síróp
1/2 tsk engifer
1/2 tsk kardimommur
1/2 tsk kanill
1/2 tsk negull

1/2 bolli rjómi

1/3 tsk lyftiduft
3 bollar hveiti

Gerir um 60-70 sætabrauðsdrengi.

Þeytið smjör, sykur, síróp og krydd. Bætið við léttþeyttum rjóma. Sigtið saman hveiti og lyftidufti í skál og hrærið saman við smjörblönduna og hnoðið síðan á borði sem stráð hefur verið hveiti á. Setjið deigið í plast og í ísskáp yfir nótt.

Hitið ofninn í 200°C. Fletjið út á bökunarpappír með lófunum og notið síðan kökukefli með hveiti á. Skerið með sætabrauðsdrengjamótum eða öðrum piparkökumótum.

Bakið eina prufuköku á plötu í 5 mínútur og aukið við tímann ef þörf er á. Þetta er það eina sem er nokkuð vandasamt, því að kökurnar mega alls ekki dökkna of mikið. Vægt brunabragð eyðileggur þær. Baksturstíminn getur líka verið mismunandi ef kökurnar eru ekki jafnþykkar. Ofnar eru svo mismunandi að best er að líta oft í ofninn, enda falla kökurnar ekki.

Setjið á grind til að kæla.

Glassúr: 2 b flórsykur, 1 egg og 1 tsk edik.
Egg virðast alltaf vera að stækka, svo að líklega þarf að bæta flórsykri við þar til rétt þykkt myndast. Hana má prófa með því að láta leka af tannstöngli á disk. Ef dropinn rennur ekki út, ætti þykktin að vera rétt. Sprautið með mjög mjórri sprautu. Sumir stinga gat á plastpoka, en ég hef ekki lag á því.

The post Fann uppskriftina frá sænskri messósópran söngkonu appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652