„Fyrir mér eru jólin eins og þakkargjörðarhátíð því ég er ekki trúuð og tengi jólin ekki við slíkar hefðir,“ segir Sigrún Þorsteinsdóttir sem rekur vinsæla vefinn Café Sigrún sem heilmargir heimsækja til að fá uppskriftir að hollum og góðum mat og fræðast um heilsu. „Ég hugsa um allt sem ég er þakklát fyrir og ekki síst um matinn sem er á borðunum. Allsnægtir eru ekki sjálfsagðar.“
Aðspurð segist Sigrún ekki alltaf bera það sama á borð á jólunum. „Oftast er það humarsúpa eða aspassúpa í forrétt, hnetusteik í aðalŕétt með einhverju matarmiklu salati ásamt hnetusósu og sætkartöflumús og svo ef er pláss, heimatilbúið konfekt eða vanilluís. Auk þess er óáfenga jólaglöggin ómissandi.“
Sigrún bjó lengi erlendis og var þess vegna oft að ferðast fram og til baka um hátíðirnar og því voru hefðirnar ekki alltaf í föstum skorðum. „En mér þykir nauðsynlegt að skreyta með fallegum ljósaseríum, hafa mandarínur á borðinu, hlusta á falleg jólalög og finna piparkökuilm í húsinu. Aðalatriðið í mínum huga er að vera ekki í of miklu stressi og vera þakklátur fyrir það sem maður hefur,“ segir Sigrún. Hún er ekki lengi að hugsa sig um þegar hún er spurð hvað henni þykir best við jólin. „Gleði og sakleysi barnanna, það er óskaplega gefandi að upplifa þessa sönnu og tæru gleði upp á nýtt í börnunum, eftirvæntinguna og trúna á það að allt sé hægt, til dæmis að jólasveinn skili af sér jólapökkum til allra barna. Einnig er samveran með fjölskyldunni og góður matur eitthvað sem erfitt er að toppa.“

Sörur
U.þ.b 25 stykki
Þessar sörur innihalda ekki smjör og henta þeim sem hafa mjólkuróþol. Cashewkremið gefur þykka og góða fyllingu í staðinn. Gott er að kaupa cashewhnetumauk í krukkum til að flýta fyrir.
Innihald
Botn:
100 g möndlumjöl
100 g rapadura hrásykur
2 stórar eggjahvítur
Smá klípa salt (Himalaya- eða sjávarsalt)
Krem:
100 g cashewhnetur/cashewhnetumauk
1 banani
30 g kakó
4 msk hlynsíróp
Smá klípa salt (Himalaya- eða sjávarsalt)
2 msk kókosolía
Súkkulaðitoppur:
100 g dökkt súkkulaði með hrásykri
Aðferð
Botn:
Malið rapadura hrásykurinn í hreinum kryddmalara þangað til hann er fínmalaður.
Stífþeytið eggjahvíturnar. Mikilvægt er að skálin sé tandurhrein og án allrar fitu. Einnig er mikilvægt að ekkert af rauðunni fari með ofan í skálina. Notið handþeytara eða hrærivélina til að þeyta eggjahvíturnar. Þær ættu að verða glansandi, hvítar og stífar þannig að toppar fara að myndast. Passið að þeyta ekki of mikið. Sigtið rapadura sykurinn yfir og veltið eggjahvítublöndunni mjög varlega til með sleikju. Gerið það sama með möndlumjölið þangað til allt hefur blandast vel saman en er samt loftkennt þannig að blandan leki ekki til.
Setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Setjið kúffulla teskeið af blöndunni í einu á bökunarplötuna með 2 sm bili á milli. Bakið við 160°C í um 15-20 mínútur eða þangað til kökurnar eru orðnar gullnar og aðeins harðar á brúnunum. Leyfið kökunum að kólna alveg í ofninum, þær ættu að verða alveg harðar inn að miðju.
Krem og súkkulaðitoppur:
Setjið cashewhneturnar í matvinnsluvél og maukið þær í um 1 mínútu eða þangað til þær eru orðnar maukaðar (eða mjög fínt malaðar). Sigtið kakó út í cashewhnetumaukið og bætið salti, hlynsírópi og banana út í. Maukið í nokkrar sekúndur þangað til allt er orðið vel blandað saman. Skafið matvinnsluvélina að innan og bætið kókosolíunni út í. Blandið í um 30 sekúndur eða þangað til kremið er silkimjúkt. Látið kremið í plastbox og leyfið því að stífna í a.m.k. 2-3 klukkustundir.
Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði: Hitið vatn í potti (bara botnfylli) á vægum hita. Setjið skál ofan í sem situr á brúnum pottsins og brjótið súkkulaðið ofan í. Fylgist með því og hrærið öðru hvoru þangað til það er nánast bráðnað, takið það þá af hitanum. Gætið þess að súkkulaðið ofhitni ekki og að ekki fari vatnsdropi ofan í súkkulaðiskálina.
Samsetning:
Takið hverja Söru fyrir sig og smyrjið flatari hliðina með þykku lagi af kremi. Leggið á disk þannig að kremhliðin snúi upp.
Dýfið hverri Söru á hvolf (þannig að kremið snúi niður) ofan í brædda súkkulaðið. Setjið á disk og látið kólna í ísskápnum.

Karríhnetusteik
Fyrir 6
Algjörlega frábær hnetusteik sem ég geri yfirleitt með góðum fyrirvara og frysti. Fyrir þá sem ekki þola glúten má gera hnetusteikina glútenlausa með því að nota hýðishrísgrjón í staðinn fyrir brauðið.
Innihald
2 laukar, afhýddir og saxaðir smátt
1 grænn chili pipar, fræhreinsaður og saxaður smátt
6 hvítlauksrif, söxuð smátt eða marin
5 sm biti ferskt engifer, afhýtt og rifið á rifjárni
1 lítil kartafla, skræld og rifin á rifjárni
2 gulrætur, skrældar og rifnar á rifjárni
300 g blómkál (þyngd fyrir snyrtingu)
1 msk kókosolía
2 tsk karrí
2 tsk tómatmauk (puree)
0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
140 g blandaðar hnetur (cashew-, hesli- og Brasilíuhnetur) malaðar í matvinnsluvél
25 g kóríanderlauf, söxuð gróft. Notið nokkur lauf í að skreyta hnetusteikina
100 g speltbrauðrasp (einnig má nota hrökkbrauð)
1 egg, hrært lauslega
Aðferð
Afhýðið lauk, hvítlauk og engifer. Saxið smátt. Brjótið blómkálið í sprota og rífið á rifjárni eða setjið í matvinnsluvél í nokkrar sekúndur. Skrælið kartöflu og gulrætur og rífið á rifjárni. Skerið chili piparinn langsum, fræhreinsið og saxið smátt.
Hitið kókosolíu á stórri pönnu. Bætið við vatni ef þarf meiri vökva á pönnuna. Steikið laukinn þangað til hann fer að mýkjast. Bætið chili pipar, hvítlauk, karrí, tómatmauki, salti og engifer út í og hitið í nokkrar mínútur. Bætið rifnu kartöflunni, gulrótunum og blómkálinu saman við og hitið í nokkrar mínútur. Setjið allt í stóra skál.
Til að gera brauðrasp er best að rista brauðsneiðar í brauðrist og mylja þær svo eða mala í matvinnsluvél.
Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu. Til að þurrrista á pönnu er best að hita hana á fullum hita og rista hneturnar í 2-3 mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið hýðið af. Setjið heslihnetur, cashewhnetur og Brasilíuhnetur í matvinnsluvél og látið vélina ganga í nokkrar sekúndur eða þangað til nokkuð fínlega malað án þess þó að verði að mauki.
Saxið kóríanderlaufin. Blandið hnetunum, brauðraspinu, egginu og söxuðu kóríanderlaufunum út í skálina og hrærið vel. Klæðið brauðform (sem tekur 1 kg) að innan með bökunarpappír. Setjið innihaldið í formið og þrýstið vel í kantana svo hvergi sé hola. Klæðið lauslega með álpappír. Bakið við 190°C í um eina klukkustund. Takið álpappírinn af og bakið áfram í um 15 mínútur.

Salat með blóðappelsínum
og heslihnetum
Þetta salat hentar vel sem forréttur eða meðlæti. Uppskriftina má einnig finna í bókinni minni „CafeSigrun – Hollustan hefst heima“ ásamt 200 öðrum nýjum uppskriftum.
Fyrir 2-3 sem meðlæti
Innihald
30 g heslihnetur
1 blóðappelsína
10 vínber, steinlaus
1 lítil gulrót
200 g blandað salat, frekar bragðsterkt,
t.d. klettasalat, spírur, vatnakarsi
10 ólífur
parmesanostur (má sleppa)
Aðferð
Þurrristið heslihnetur á heitri pönnu í nokkrar mínútur eða þar til hýðið fer að dökkna og losna af. Látið hneturnar kólna og nuddið svo hýðið af með fingrunum. Saxið gróft.
Skrælið appelsínuna, fjarlægið steinana og skerið í bita. Passið að skera appelsínuna á diski með brúnum því þið þurfið að nota safann. Skerið vínberin í helminga. Flysjið gulrótina og rífið hana
gróft á rifjárni.
Raðið salatblöðunum á grunnan, víðan disk. Raðið ólífum, blóðappelsínubitum, vínberjum, rifinni gulrót og heslihnetum á diskinn. Blandið varlega saman. Hellið safanum úr appelsínunni yfir salatið. Sneiðið eða rífið parmesanost þunnt yfir.
Mikilvægt er að vínber í matargerð séu steinlaus því steinarnir gefa beiskt bragð.
The post Hugsa um allt sem ég er þakklát fyrir appeared first on Fréttatíminn.