Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Fljúgandi veðurfræðingur með takmarkaða sönghæfileika

$
0
0

Birta Líf er sú yngri tveggja dætra Kristins Steinars Karlssonar og Kristíönu Baldursdóttur, eldri systir hennar Perla Dís er 16 mánuðum eldri. Birta Líf ólst upp í Mosfellssveit fyrstu fimm árin, flutti þaðan á Suðurgötuna í Reykjavík í tvö ár en mest af æskunni bjó hún í Bústaðahverfinu. Hún var glaðlynt og uppátækjasamt barn og það þurfti yfirleitt að banna henni hlutina oftar en einu sinni, hún reyndi alltaf aftur þótt henni væri bent á að það sem hún var að gera gæti verið hættulegt. Hún var snemma mjög ákveðin, til dæmis hafði hún ákveðnar skoðanir á því í hvaða röð hún vildi vera klædd í fötin sín áður en hún var farin að tala. Hún var ævintýragjörn, fróðleikshús og forvitin um heiminn og átján ára gömul hélt hún til Gvatemala þar sem hún dvaldi í þrjá mánuði. Ekki lét hún þar við sitja heldur hélt tvítug í reisu um Afríku, Ástralíu og Asíu ásamt vinkonu sinni og þar flökkuðu þær um í fjóra mánuði.
Eftir stúdentspróf hóf hún flugmannsnám í Flugskóla Íslands enda hafði hún haft brennandi áhuga á flugi frá unglingsaldri. Lauk atvinnuflugmannsprófi 2006 og hefur flogið Boeing 757-þotu hjá Icelandair. Áhuginn á veðurfræðinni kviknaði í flugnáminu, enda skiptir veður miklu máli í fluginu og flugmenn þurfa að setja sig inn í veðurhorfur og veðuraðstæður. Þetta tvennt, flugið og veðurfræðin, hefur fléttast mjög vel saman hjá henni, hún kennir veðurfræði í Flugskólanum og skoðar flugveðrið á Veðurstofunni. „Veðurfræðin er ekki bara vinnan hennar heldur aðaláhugamálið. Hún heldur úti Facebook-síðu sem heitir Veðurlíf þar sem hún setur ýmsan fróðleik um veður og sú síða hefur mælst mjög vel fyrir. Það er aldrei neitt hálfkák hjá henni, hún tekur hlutina alla leið,“ segir einn viðmælenda Fréttatímans. „Hún framkvæmir allt sem henni dettur í hug, hvort sem það er að læra tungumál eða smíða húsgögn, og gerir það með stakri prýði. Henni finnst svakalega gaman að sinni vinnu enda er veðrið hennar stærsta áhugamál. Þegar hún er ekki að sinna því þá finnst henni óskaplega gott að taka því rólega í góðra vina- og fjölskyldufaðmi eða bara hafa það kósí með bók, hekl eða veðurkortin sér við hönd.“

 

Auk líflegrar framkomunnar hefur Birta Líf vakið athygli fyrir sérlega smekklegan klæðaburð í veðurfréttum RÚV, en hún á þó til að hugsa lítið um klæðaburðinn. „Hún leynir á sér, er nú alls ekki alltaf jafn elegant og hún er í sjónvarpinu og getur verið hinn mesti slugsi og hrakfallabálkur. Ég held að öllum sem þekkja hana þyki sérstaklega vænt um þessa hlið hennar,“ segir náin vinkona. „Henni finnst gott að sofa og það tekur hana alltaf dálitla stund að komast í gang á morgnana. Hún er eiginlega alveg furðulega óskipulögð miðað við hvað hún hefur afrekað og hvað hún hefur alltaf mikið fyrir stafni.“
Önnur vinkona segir Birtu Líf vera mikla prinsippkonu og sjálfskipaðan talsmann tóbaksvarna. „Hún er ekki nautnaseggur eins og vinkonur hennar og getur lifað á poppkexi með avókadó svo vikum skiptir eða látið sér nægja bakaðan lauk í kvöldmat.“ Ekki er þó þar með sagt að Birta Líf sé ekki hress og skemmtileg og hrókur alls fagnaðar þegar þannig liggur á henni, hún sér til dæmis ekkert að því að bresta í söng við ólíklegustu tækifæri. „Sönghæfileikarnir eru reyndar ekki upp á marga fiska en hún lætur það ekki stöðva sig í að taka lagið í tíma og ótíma, sama hve margir eru viðstaddir,“ segir ein af hennar bestu vinkonum. „Hún er ótrúlega opin með margt og finnst gaman að segja hrakfallasögur af sjálfri sér en á sama tíma lokuð með ýmislegt.“
Annað sem margir nefna er áhugi Birtu Lífar á íslensku og hvað hún leggur mikið upp úr því að tala gott mál. „Hún er mikil áhugamanneskja um íslensku, talar gott mál og finnst einstaklega gaman að málsháttum og orðatiltækjum. Einu sinni þegar hún var 16 ára sagðist hún hafa „riðað til falls“ og félagarnir skildu ekki hvað hún var að segja.“
Öllum sem rætt er við ber saman um að Birta Líf sé gull af manneskju, hjartahlý, trygglynd og mikil barnagæla. „Hún er mikil barnagæla og börn laðast mjög að henni. Hún er líka mjög góð við gamalt fólk, sérstaklega Karl afa sinn,“ segir einn viðmælenda. „Hún er afskaplega sjarmerandi og getur brætt hvaða hjarta sem er með geislandi brosi.“

 

 

Birta Líf Kristinsdóttir
Fædd 10.02.1984

Foreldrar:
Kristíana Baldursdóttir og Kristinn Steinar Karlsson (látinn 2006)

Sambýlismaður: Heiðar Lind Hansson

Systir: Perla Dís Kristinsdóttir

Námsferill:
Melaskóli, Breiðagerðisskóli, Réttarholtsskóli, Menntaskólinn við Sund, Háskóli Íslands, Flugskóli Íslands.

Helstu störf:
Flugmaður hjá Icelandair
Vaktaveðurfræðingur á Veðurstofu Íslands
Kennari í veðurfræði í Flugskóla Íslands

The post Fljúgandi veðurfræðingur með takmarkaða sönghæfileika appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652