Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Innblásin af hversdagsleikanum

$
0
0

Teiknarinn Linda Ólafsdóttir hefur haft nóg að gera frá því hún flutti heim frá San Francisco þar sem hún stundaði mastersnám. Hún er ekki bara með þúsund hugmyndir í kollinum sem eiga eftir að líta dagsins ljós, heldur er hún líka með hjóladellu á háu stigi sem sést hvað best í bílskúrnum hennar sem er fullur af  hjólum og í nýútgefnu dagatali sem hún myndskreytir með hinum ýmsu hjólum. Linda tók þátt í að myndskreyta fimm bækur fyrir þessi jól. 

„Ég hef alltaf haft rosalega mikla þörf fyrir að teikna og hef verið síteiknandi alveg frá því að ég gat haldið á blýanti,“ segir Linda Ólafsdóttir teiknari sem myndskreytir fimm bækur í jólabókaflóði þessa árs.
„Það kom aldrei neitt annað til greina hjá mér annað en að verða teiknari og þegar ég var búin með grunnskólann fór ég beint á myndlistarbraut í FB og svo í Listaháskólann. Eftir útskrift þaðan ákvað ég svo að sérhæfa mig í teikningu og fann mastersnám í Illustration í San Francisco sem hentaði mér fullkomlega.“

Þótti klikkuð að eiga barn í námi

Linda flutti til San Francisco með eiginmanni sínum og syni þeirra árið 2005 þar sem þau bjuggu í fimm ár. „Skólinn var algjörlega frábær og ég lærði mjög mikið þar en ekki síður af því að búa í þessari borg. Ég var í aðeins öðrum fíling en skólafélagarnir þarna sem voru í fyrsta lagi mjög hissa á mér að byrja í námi með barn, og svo þótti þeim ennþá klikkaðra að eignast annað barn á meðan ég var í náminu,“ segir Linda og hlær. „En þetta gekk allt saman mjög vel og ekki síður partur af upplifuninni af nýrri borg að vera með fjölskyldu. Okkar bestu vinir þarna í dag er fólk sem við kynntumst í gegnum skóla sonar okkar.“

jolagledi

Með þúsund hugmyndir í kollinum

Fyrsta myndskreytiverkefni sitt fékk Linda svo stuttu eftir útskrift og hefur hún haft nóg fyrir stafni síðan. „Ég fékk mér vinnustofu um leið og við vorum komin aftur heim og það hefur gengið mjög vel. Ef það koma dauðir tímar inn á milli þá teikna ég eina af þeim þúsund hugmyndum sem ég er með í kollinum svo maður er aldrei aðgerðalaus. Það er samt erfitt að lifa eingöngu af teikningu á Íslandi því markaðurinn er svo lítill. Ég kenni líka einstaka sinnum í Myndlistarskólanum í Reykjavík sem mér finnst svakalega skemmtilegt og gefandi líka,“ segir Linda sem er samt hægt og rólega að koma sér inn á erlendan markað þar sem verkefnin eru fleiri.
„Ég ákvað á meðan ég var í náminu að ég myndi setja fókus á að fá verkefni úti því draumurinn er að vinna eingöngu við að myndskreyta. Ég hef aðeins unnið fyrir erlend forlög og fyrir ári fékk ég svo umboðsmann í Bandaríkjunum. Það voru stór tímamót fyrir mig því það er ekkert hlaupið að því að fá góðan umboðsmann úti. Við erum að vinna saman í nokkrum spennandi verkefnum sem vonandi líta dagsins ljós á komandi ári.“

Linda Ólafsdóttir, teiknari
Linda Ólafsdóttir, teiknari

 

Hjóladellan byrjaði í Kaliforníu

Innblástur segist Linda aðallega fá úr hversdagsleikanum, frá fjölskyldunni og úr sínu nánasta umhverfi. Hún hefur tekið þátt í að myndskreyta fimm bækur á þessu ári auk þess að vinna að sínum persónulegu verkefnum, myndskreyttum sögum sem hún vonast til að gefa bráðlega út í samstarfi við nýjan umboðsmann, og árlegu dagatali. Í fyrra gaf hún út dagatal sem var skreytt fuglum en í ár er hver mánuður prýddur mynd með einhverskonar hjóli.
„Hjólaþemað er vegna þess að hjól eru mikið áhugamál fjölskyldunnar,“ segir Linda. „Við hjólum mjög mikið og eigum fullt af allskyns hjólum í bílskúrnum sem við eigum aldrei eftir að tíma að losa okkur við. Þetta er svona eins með hjólin og skóna, það þarf eina týpu fyrir hvert tilefni. Maðurinn minn hefur verið lengur í þessu en ég, en dellan hjá mér byrjaði með því að við hjónin keyptum okkur hjól í stíl í Kaliforníu sem kallast „Beach Cruiser“. Það er merkilegt hvað Beach Cruiserinn virkar vel við íslenskar aðstæður. Mér finnst hjól bara svo endalaust falleg þannig að á dagatalinu í ár eru myndir af allskyns hjólum, fólki og dýrum.“

24128 hjoladagatal

Hjóladagatölin er hægt að kaupa af Lindu í gegnum Facebook síðu hennar og í Reiðhjólaversluninni Berlín við gömlu höfnina. Linda er einnig með heimasíðu

Bækur sem Linda hefur tekið þátt í að myndskreyta fyrir þessi jól:
Eitthvað illt á leiðinni er – ýmsir höfundar
Trunt Trunt sögur af tröllum Álfum og fólki – Steinar Berg
Ugla og Fóa og maðurinn sem fór í hundana – Ólafur Haukur Símonarson
Mói hrekkjusvín og landsmót hrekkjusvína – Kristín H. Gunnarsdóttir
Dúkka – Gerður Kristný

Dukka 24128

 

The post Innblásin af hversdagsleikanum appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652