Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Kannski sjáumst við einhvern tíma

$
0
0

Um páskana hittir Hrólfur móður sína. Tilhlökkun og kvíði hafa togast á í honum allan veturinn. Skyldi hún hafa fréttir að færa? Ætli stjúpi hans sé búinn að verða sér úti um býli svo að þau geti aftur verið saman?
Þegar vel liggur á honum er hann sannfærður um að nú muni þetta loksins ganga. Hann flytji til mömmu í vor og verði hjá henni eftir það. Hann ætlar að vera duglegur og líka góður við litla bróður sinn.
Honum hefur liðið prýðilega í Tjarnargerði og hann vildi feginn vera þar áfram ef mamma getur ekki tekið hann til sín. En ekkert getur jafnast á við það að fá að vera hjá henni. Allt í lagi þó að hann fái minna að borða, hann er svo vanur að vera svangur.
Þau ganga saman út fyrir kirkjugarðinn þegar messunni lýkur.
– Hvað er að frétta? spyr Hrólfur fullur eftirvæntingar.
Móðir hans er dauf í dálkinn.
– Við verðum enn í húsmennsku. Það er ekkert býli að hafa þetta árið, segir hún.
Hrólfur finnur sáran sting í brjóstinu, hann vill ekki trúa þessu.
– Ef húsbóndinn vill taka hreppsómaga þá getur hann tekið mig. Hann fær borgað fyrir að hafa mig og ég skal vera duglegur að vinna, segir hann.
– Við flytjum víst í næstu sókn og ég þekki ekki húsbóndann á þeim bæ, segir mamma og röddin er skrítin, eins og hún sé með slæmsku í hálsinum.
– Veist þú hvað verður um þig? segir hún svo.
– Ég vona að ég verði áfram í Tjarnargerði fyrst ég fæ ekki að vera hjá þér.
Hún faðmar hann lengi, vefur hann að sér, fast eins og hún vilji aldrei sleppa honum framar. Hann lokar augunum og nýtur þess að vera hjá henni, finna ilminn og ylinn.
– Kannski sjáumst við aftur seinna, hvíslar hann þegar þau skilja.
– Ég verð hjá þér í huganum, mundu það, svarar hún og bítur fast á neðri vörina.
Hann ráfar á bak við stóran legstein og sest. Hann grætur og grætur, brjóstið er svo fullt af einhverju sem hann þarf að losa sig við. Þegar öll tárin eru búin nuddar hann augun og reynir að þurrka bleytuna af vöngunum áður en hann fer til hins fólksins. Hann er dálítið hissa á sjálfum sér, hélt að hann væri svo stór að hann væri hættur að gráta. En lífið er víst alltaf að koma manni á óvart.
Hann veit að fardagar koma nokkrum vikum eftir páska svo að það styttist í að hann fái að vita hvar hann verður vistaður næsta ár. Hann langar að spyrja en þorir ekki. Kannski mislíkar húsbændunum ef hann er með einhverja forvitni.
Þegar dagurinn rennur upp hnoðar Anna leppunum hans saman í pinkil.
– Nú átt þú víst að fara, Hrólfur minn, segir hún.
Hann finnur þyngslin í brjóstinu, eins og verið sé að klípa hann.
– Veistu hvert ég fer? hvíslar hann.
– Fram að Háhamri, svarar hún.
Hjartað tekur viðbragð. Ingveldur systir hans var á Háhamri í vetur. Kannski verður hún áfram þar.
Hann kveður hjónin og hvíslar: – Það var gott að vera hjá ykkur.
– Það var líka gott að hafa þig, segir Anna. – Við vildum gjarnan hafa þig áfram en hjónin á Háhamri buðu minna fyrir þig svo að þú ferð.
Hrólfur þrammar af stað með vinnupiltinum sem sækir hann.
Þegar hann kemur í hlaðið á Háhamri, rennblautur eftir förina yfir Þverá mætir hann systur sinni með pokaskjatta um öxl. Hún er tággrönn og hefur tognað töluvert úr henni. Það er ekki laust við að þau séu feimin hvort við annað eftir allan þennan tíma. Þau heilsast með handabandi og hún segir honum að hún sé að fara austur á land. Hreppsnefndin hafi ákveðið að senda hana á sína fæðingarsveit.
– Hvaða sveit er það? spyr Hrólfur.
– Hún er austur á Fljótsdalshéraði. Við bjuggum þar áður en við fluttum í Vopnafjörð.
– Ætli þar sé gott að vera?
Ingveldur yppir öxlum.
– Varla verra en annars staðar. Þetta fer allt eftir því hvað maður er heppinn.
– Hvernig er fólkið hérna á bænum?
– Það er allt í lagi. En stundum er lítið skammtað.
– Ég fékk nóg að borða í vetur, ég var í Tjarnargerði.
– Hittirðu móður okkar?
– Já, tvisvar, í kirkjunni.
– Ég sé hana víst ekki framar fyrst ég er að fara austur. Hvernig leið henni?
– Hún sagðist sakna okkar.
– Við áttum aldrei að fara úr Vopnafirði, svarar Ingveldur.
Röddin er beisk.
– Ég sagði það líka en hún sagði að þetta hefði verið örreitiskot og ekki hægt að lifa þar.
– Við gátum búið þar meðan pabbi lifði. Ef Friðbjörn hefði nennt að vinna eins og maður værum við þar enn, hreytir Ingveldur út úr sér.
Hrólfur starir á hana stórum augum. Hann hefur aldrei látið sér detta í hug að Friðbjörn hafi átt einhverja sök á því hvernig komið er.
– Er Friðbjörn ekki eins duglegur og pabbi var? spyr hann.
– Hann er á eilífu flakki og kann ekki réttri hendi í rass að taka.
– Skrýtið að mamma skyldi giftast honum fyrst hann er svona latur.
– Þetta er svo sem nógu snoppufrítt, tautar Ingveldur.
Þau takast í hendur að skilnaði.
– Kannski sjáumst við einhvern tímann, segir Hrólfur.
– Það er ekki ómögulegt, svarar Ingveldur.

 

The post Kannski sjáumst við einhvern tíma appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652