Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Snorri Helga syngur Dylan og Patsy Cline

$
0
0
Tónlistar- og matarhátíðin KEX Köntrí er árviss viðburður á Kex Hostel í kringum þjóðhátíðardag Bandaríkjanna. Hátíðin stendur nú sem hæst og á laugardagskvöld er komið að hápunkti hennar en þá treður Kex Köntrí All Stars upp. Snorri Helgason er einn þeirra sem syngja með sveitinni og hann býst við góðri stemningu. Snorri vinnur nú að næstu sólóplötu sinni, nýrri tónlist upp úr þjóðsögunum og tónlist fyrir börn.

Hin árlega tónlistar- og matarhátíð KEX Köntrí stendur nú sem hæst á Kex Hostel. Hátíðin er haldin í kringum þjóðhátíðardag Bandaríkjanna og venju samkvæmt er boðið upp á tónlist sem er undir sterkum áhrifum frá bandarískri þjóðlagatónlist og mat að bandarískum sið. Síðustu ár hefur bandarískt tónlistarfólk heimsótt okkur af þessu tilefni – til að mynda Lambchop og Morgan Kane – en í ár eru tónlistaratriðin eingöngu íslensk.

Í gær, fimmtudag, tróðu upp Mr. Silla og KK og í kvöld, föstudagskvöld, er komið að Lights on the Highway. Þetta eru fyrstu tónleikar sveitarinnar í nokkur ár og hefjast þeir klukkan 21. Á morgun klukkan 20.30 er svo komið að hápunktinum þegar KEX Köntrí All Stars mætir til leiks.

Þetta verður örugglega mjög næs, það hefur alltaf verið mjög góð stemning á þessari hátíð

KEX Köntrí All Stars er húshljómsveit Kex og er skipuð þeim Ingibjörgu Elsu Turchi, Óskari Kjartanssyni, Tómasi Jónssyni og Erni Eldjárn ásamt flottum söngvurum, þeim Arnari Inga Ólafssyni, Elínu Ey, Lilju Björk Runólfsdóttur og Snorra Helgasyni.

„Þetta verður örugglega mjög næs, það hefur alltaf verið mjög góð stemning á þessari hátíð,“ segir Snorri Helgason í samtali við Fréttatímann.

Snorri hefur lengi hrifist af kántrítónlist og kann vel að meta menninguna í kringum hana. „Það er ekkert flókið mál, þetta er skemmtilegt stöff.“

Hvað verður svo á boðstólum þarna?
„Ég ætla nú bara að syngja nokkur kántrílög, tvö lög með Dylan og eitt með Patsy Cline, She’s Got You. Svo verður þarna gott samansafn af fólki að syngja með bandinu. Þar á meðal einn sem syngur Johnny Cash. Þetta ætti að verða helvíti gott.“

Hvað er annars að gerast hjá þér, ertu að vinna í nýju efni?
„Já. Ég er byrjaður að taka upp fyrir næstu plötu, tók nokkurra daga törn um daginn þar sem við tókum upp grunna. Svo er ég að fara í næst viku vestur í Galtarvita og ætla að vera fram í ágúst við að semja og klára önnur verkefni sem ég er með í pokahorninu.“

Er eitthvað fleira spennandi í bígerð?
„Já, ég er eiginlega þrjú verkefni í gangi. Auk plötunnar er ég að semja ný íslensk lög upp úr þjóðsögunum, vinna nýja tónlist upp úr þeim. Það er búið að vera í gangi í sirka tvö ár en nú ætla ég að setja púður í þetta og reyna að klára. Það er tímafrekt að lesa svona mikið og ég ætla að nýta tímann í vitanum. Við erum að fara stór hópur þangað, Saga kærastan mín, Hugleikur Dagsson og Örn Eldjárn til að mynda, og ætlum að reyna að gera einhvers konar barnatónlist í leiðinni. Það kemur svo bara í ljós hvernig það gengur allt saman.“

The post Snorri Helga syngur Dylan og Patsy Cline appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652