Bernhöfts Bazaar er nýr og skemmtilegur fjölþema útimarkaður sem haldinn verður á laugardögum í sumar á Bernhöftstorfu, horni Bankastrætis og Lækjargötu. Bazaarinn er sértakur að því leyti að hann fær nýtt þema hverju sinni og myndar þannig fjölbreytta dagskrá sem býður ávallt uppá eitthvað nýtt til að skoða, versla og njóta. Fyrsti markaðurinn fór fram 20. júní og var hann með tónlistarþema. Síðastliðinn laugardag var plöntuþema þar sem áhugafólk um garðyrkju seldi plöntur, blóm, jurtir, krydd og garðyrkjuverkfæri og boðið var upp á ráðgjöf.
Á morgun, laugardag, verður reiðhjóla og hjólabrettaþema á Bernhöftstorfunni. Hjóla og hjólabretta fólk selur, kynnir og þjónustar gesti með allskyns varningi, list, fötum, derhúfum, brettum, aukahlutum, viðgerðum og ráðgjöf. Hægt verður að koma með hjólabrettið sitt og láta listamanninn Blaldur Björnsson myndskreyta brettaplötuna gegn góðu gjaldi. Einnig verður hægt að fá ráðleggingu og minniháttar viðgerð hjá Hjólaspretti.
DJ þeytir skífum og fatamerkið MYNKA setur upp ramp og stöng fyrir „fix gear“, BMX og bretti. Stelpur og strákar eru hvött til að koma og skate-a á taflinu. Veitingarstaðurinn Torfan selur svo frægu humarsúpuna sína, bakkelsi, bjór, hvítt og gos.
Veðurspáin fyrir helgina er góð og stefnir í hlýjasta dag sumarsins. Það er því um að gera að skella sér í miðbæinn og njóta. Bazararinn verður opinn milli klukkan 13 og 17.
Hér má nálgast nánari upplýsingar um Bernhöfts Bazaar.
The post Hjóla- og brettamarkaður á Bernhöftstorfu á morgun appeared first on FRÉTTATÍMINN.