Bókin Sjáðu mig sumar! fjallar um íslenska sumarið þar sem sólin skín allan sólarhringinn, farfuglarnir koma til landsins og stundum rignir svo vikum skiptir. Bergrún Íris Sævarsdóttir er höfundur bókarinnar en hún sendi í fyrra frá sér hina vinsælu bók Vinur minn, vindurinn sem var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
„Mig langaði mikið að gera bók sem fagnar íslenska sumrinu – farfuglunum, flugunum og sólinni sem skín alla nóttina,“ segir Bergrún Íris Sævarsdóttir sem var að senda frá sér bókina „Sjáðu mig sumar!“ Hún segist ekki hafa séð mikið af bókum sem fjalla um hið einstaka sumar okkar Íslendinga . „Við fáum jafnvel marga kalda daga og rigningu heilu vikurnar og þurfum að láta okkur lynda við það, en síðan er líka fjöldinn allur af einstökum kostum við sumarið á Íslandi,“ segir hún.
Sjáðu mig sumar! er sjálfstætt framhald af fyrstu bók Bergrúnar – Vinur minn, vindurinn – sem kom út í fyrra og hlaut tilnefningu bæði til Fjöruverðlaunanna og Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
„Ég skal viðurkenna að ég var svolítið stressuð þegar ég settist niður og byrjaði að skrifa þessa því hinni bókinni var svo vel tekið, en ég held að mér hafi líka tekist ágætlega upp í þetta skiptið,“ segir Bergrún sem bæði skrifar textann og teiknar þær líflegu myndir sem einkenna bækurnar. Hugmyndin að fyrri bókinni kom þegar eldri sonur Bergrúnar, sem nú er 5 ára, var heldur ósáttur við vindinn sem alltaf var úti og var hann sérlegur ráðgjafi þegar kom að seinni bókinni sem er þegar í miklu uppáhaldi á heimilinu, bæði hjá eldri syninum og þeim yngri sem er aðeins fimm mánaða gamall.

Aftast í bókinni er að finna eins konar kort þar sem hin ýmsu náttúrufyrirbrigði sumarsins eru talin upp, svo sem sólarglenna, hitaskúr og morgundögg.
Bergrúnu er ýmislegt til lista lagt, hún teiknar barnabækurnar um Freyju og Fróða sem Forlagið gefur út og tók þátt í forkeppni Eurovision í fyrra þegar hún samdi texta við lagið „Eftir eitt lag“ sem Ásta Björg Björgvinsdóttir samdi og Gréta Mjöll Samúelsdóttir flutti. Þegar útgáfuteiti bókarinnar Sjáðu mig sumar var haldið í Pennanum/Eymundsson á dögunum flutti Ásta Björg nýsamið sumarlag eftir hana og Arnór Sigurðsson sem var innblásið af bókinni og textinn í laginu að stórum hluta úr bókinni.
Hún bendir á að það sé ekki algengt að gefa út bók um mitt sumar og það eigi eftir að koma í ljós hvernig það gengur. „Ég er mikil talskona þess að bækur eigi ekki að fara í sumarfrí. Mér finnst þetta einmitt svo góður tími til að lesa sér til skemmtunar þegar krakkar eru í fríi frá skólanum,“ segir hún en „Vinur minn vindurinn“ var reyndar lesin nokkuð í neðstu bekkjum grunnskóla í vetur þar sem hún opnar á ýmsar skemmtilegar samræður um veðrið og eykur á orðaforða barnanna. „Veðrið er ekki bara gott eða vont. Það er svo miklu meira.“

Bergrún Íris byrjaði upphaflega að skrifa um veðrið til að höfða til eldri sonar síns sem nú er 5 ára.
The post Fagnar íslenska sumrinu appeared first on FRÉTTATÍMINN.