„Þetta verk er eftir Svíann Jonas Hassen Khemiri og er um samtímasamfélagið og kapítalismann og hvernig við sem einstaklingar skilgreinum okkur og staðsetjum okkur innan kerfisins,“ segir Una Þorleifsdóttir leikstjóri. „Þetta fjallar um hvernig kerfið hefur áhrif á drauma okkar, ástarsambönd og vináttu. Hugmyndin um hvað við fáum í staðinn. Hvers virði upplifanir eru og hvar við stöndum,“ segir hún.
Í þessu nýja verki kynnumst við fjölskrúðugum hópi fólks þar sem hver og einn glímir við markaðslögmálin með sínum hætti.
Margrét lætur sig dreyma um að sleppa út úr hagkerfinu, Máni vill rústa því. Andrej vill fá vinnu, Freyja vill hefnd. Þau fjárfesta í frímerkjum og furuhnetum, draumórum og ilmvötnum, barnavögnum og hugsjónum. Hvernig hefur hagkerfið sem við lifum í áhrif á okkur, á það hvernig við horfum á hlutina, hvernig við notum tungumálið, hvernig við beitum líkama okkar?
Verkið var frumsýnt á Dramaten í Stokkhólmi á liðnu hausti og hefur notið gífurlegra vinsælda í Svíþjóð. „Ég las fyrst handritið og fór svo út til að sjá verkið og talaði við höfundinn,“ segir Una. „Þetta er mjög alþjóðlegt verk sem fangar hið vestræna samfélag. Þetta er enn í sýningu í Stokkhólmi og hefur vakið mikla athygli,“ segir Una.
Með hlutverk í sýningunni fara þau Þröstur Leó Gunnarsson, Guðrún Snæfríður Gísladóttir, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Oddur Júlíusson, Snorri Engilbertsson, Stefán Hallur Stefánsson og Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir. Frumsýning er þann 29. desember og allar upplýsingar má finna á vef Þjóðleikhússins www.leikhusid.is
The post Bráðfyndið og harkalegt appeared first on Fréttatíminn.