Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Fann horfinn föður í Fez

$
0
0

Fjölskyldusumarfrí Alexanders Stefánssonar til Tenerife tók óvænta stefnu þegar hann fékk þá hugdettu að fljúga til Afríku og leita að föður sínum. 

„Þetta var erfiðasta ferð lífs míns, að keyra 50 mínútna spotta frá flugvellinum á suður Tenerife að flugvellinum á norðurhluta eyjunnar. Þegar ég kvaddi konuna mína og son minn sem tóku vélina heim til Íslands, stóð ég eftir með eitt heimilisfang frá mömmu í vasanum. Sjálfur keyrði ég yfir eyjuna, mjög óttasleginn. Ég grét og ég var mörgum sinnum hættur við allt saman en þrjóskan fékk mig til þess að halda      áfram. Þegar ég kom á flugvöllinn var sex tíma seinkun sem var ekki til þess að bæta líðan mína en þegar ég loksins var sestur upp í vél hvarf þetta eins og dögg fyrir sólu. Líklega af því að ég var lagður af stað og það var ekki aftur snúið. Klukkan þrjú um nótt lenti flugvélin í Fez, sem er milljóna borg inn í miðri Marokkó. Fez spilaði stóra rullu í viðskiptum á miðöldum við löndin sunnan Sahara. Saltið frá miðjarðarhafinu var sótt í skiptum fyrir gull með úlfaldalestum yfir eyðimörkina frá Timbuktu í Mali til Fez.“

Fyrsta upplifun af Afríku

„Bílstjórinn frá hótelinu vildi endilega finna heimilisfangið sem ég var með í vasanum þegar ég sagði honum erindi mitt í Fez. Hann keyrði marga hringi áður en hann gafst upp og tók af mér loforð um að segja ekki hótelhaldaranum frá bíltúrnum. Þannig kvöddumst við fyrir framan borgarhliðið. Ásamt tveimur unglingsstrákum frá hótelinu gekk ég í gegnum elstu og best varðveittu borg arabaheimsins, stærsta bíllausa borgarsvæði í heimi sem er Medinan í Fez.“

Sami jarðbrúni liturinn leggst yfir allan þennan borgarhluta, framhlið húsanna, sund og stræti, og ómögulegt er fyrir utanaðkomandi að rata. Liturinn hefur orðið til á mörg hundruð árum við ýktar aðstæður, hita og kulda þegar brennheit sólin tekst á við nístandi kuldann frá Atlasfjöllunum, en svo nefnist fjallgarðinn sem hlykkjast eftir endilöngu landinu frá austri til vesturs fyrir sunnan Fez. Enda er Marokkó nefnt kalda landið með heitu sólina. Fez er stútfull af minnum um fjörugt borgarlíf í blóma löngu áður en nokkur lifandi maður átti eftir að stiga fæti sínum á íslenska jörð.

24450_Upprunasaga_Alexanders-6

„En þarna um morguninn, þegar ég gekk í gegnum Medinuna, heyrðist í hana gala og keppa við bænaútkallið í moskunni á nýjum degi. Við blöstu karlar klæddir Djelleba sem föðmuðust úti á götu. Kona í inniskóm sem rölti með handklæði í plastfötu að „Hammam“ baðhúsi. Asni með drekkhlaðnar körfur af appelsínum. Karl að blanda morgundrykkinn „nus nus“ sem er mjólk og kaffi til helminga. Í loftinu var angan af sútuðu leðri í bland við myntu, döðlur, möndlur, ólívur og rósavatn. Svona blasti Afríka við mér þegar ég kom þangað í nóvember í fyrsta sinn.“

Kom ólétt frá Brussel

Þegar móðir Alexanders var ung fékk hún að loknu námi sínu við Húsmæðraskólann í Reykjavík vinnu sem húshjálp við íslenska sendiráðið í Brussel. Hún flaug út á vit ævintýranna þar sem hún bar á borð veislur í sendiherrabústaðnum og synti húsverkum. En Brussel hafði upp á meira að bjóða en að ganga á milli gesta með bakka og fyrir utan vinnuna eignaðist hún ástvin í ungum námspilti frá Marokkó sem var að læra ragmagnsverkfræði. Samband þeirra varð endasleppt og slitnaði upp úr því þegar hún sneri aftur til Íslands, ólétt, gengin einn mánuð. Alexander fæddist í Reykjavík átta mánuðum síðar, árið 1974.

Rétt eftir áramótin var fjölskylda Alexanders samankomin heima í stofunni í Seljahverfinu. Elín, eiginkona Alexanders, gæti þess vegna verið frá Marokkó með sitt svarta hár, en hún hlær og segist hafa litað það, hún sé alls ekki svarthærð. Henni leist ekkert á blikuna þegar hún talaði við Alexander í síma áður en hann flug út í óvissuna frá Tenerife. „Ég hélt að hann væri að fara yfir um og ég fékk gríðarlegt samviskubit að hafa att honum einum út í þetta.“ Elín og Alexander höfðu tekið sér síðbúið sumarfrí og ákveðið að skreppa til Tenerife í nóvember með Kristófer, yngsta soninn, 9 ára. Hin börnin, Aron 18 ára og Helena 15 ára, gáfu sér ekki tíma til þess að fara vegna námsins. Elín, sem er kennari á leikskóla í Breiðholti, fór heim eftir viku með Kristófer en Alexander ætlaði sér vikufrí til viðbótar og hvíla sig eftir sumarvertíðina. „Þá kom þessi hugmynd upp, sem var reyndar mín,“ segir Elín, „Af hverju skreppur þú ekki til Fez og finnur pabba þinn? Eyjan Tenerife er rétt fyrir utan Marokkó!“

 

24450_Upprunasaga_Alexanders-2

Feðgarnir á sínum fyrsta fundi í Fez. Stundin var tilfinningaþrungin fyrir þá báða.

Umræða um Squalli, föður Alexanders, hafði oft borið á góma í fjölskyldunni. Helena, dóttir Alexanders, sem á marokkóska vinkonu, hafði í ítrekað þrýst á Alexander að skrifa pabba sínum. Helena er mjög ákveðin stúlka og atkvæðamikil. Hún sýndi mömmu vinkonu sinnar ættarnafnið, sem hringdi bjöllum enda stór ætt í Fez.

Örlagaríkt ball á Egilsstöðum

Þau Alexander og Elín kynntust á balli á Egilsstöðum árið 1998. Þá hafði Elín eignast Aron sem var orðinn hálfs árs. Á ballinu sá hún Alexander, sneri sér að honum og þau byrjuðu að tala saman. Þau komumst að því að hann hefði búið í Neskaupstað, hún á Egilsstöðum í mörg ár og fram að þessu höfðu þau ekki haft hugmynd um tilvist hvors annars, sem þeim fannst afar fjarstæðukennt. Þegar þau segja frá þessu ljóma þau bæði eins og fólk sem trúir því einlæglega að líf þeirra saman hafi alltaf verið í kortunum. Flissandi rifja þau upp hvað Alexander hafi þótt erfitt að keyra Aron í barnavagninum á Egilsstöðum og þegar einhver sá til þá ýtti hann vagninum yfir til Elínar. „Ég hafði aldrei þurft að taka ábyrgð á neinu fram að þessu,“ áréttar Alexander.

Reykjavík var enginn draumastaður fyrir unga einstæða móður með óskilgetið barn eftir vetursetu í útlöndum. Ungu foreldrarnir áttu að vísu í einhverjum bréfaskriftum yfir hafið fyrst um sinn og faðirinn fékk ljósmynd og hárlokk í pósti af tveggja ára syni sínum. Með tímanum datt allt samband niður og unga móðirin stofnaði nýja fjölskyldu á Íslandi. Alexander segir æskuárin hafi einkennst af svolitlu rótleysi. „Við fluttum á milli bæjarfélaga og oft var ég nýi strákurinn sem fékk ekki inngöngu í samfélagið í bænum. Stundum var ég lagður í einelti.“ Elín rifjar upp að Alexander hafi sagt sér að hann hafi oft verið dapur sem barn og þegar hann var kominn í háttinn á kvöldin hafi hann oft óskað þess að pabbi sinn í útlöndum kæmi að sækja sig.

24450 Alex 03368

Lét sig hverfa ofan í vatn

Alexander hefur fengist við ýmislegt. Hann keyrði vörubíl í mörg ár og eftir vinnu fór hann í kafarabúning og fann vatn sem hann lét sig hverfa ofan í. Eitt sinn fann hann bát á hafsbotninum með heilum togspilum. Hann gat ekki hugsað sér að þau færu til spillis og svo hann hóaði í fleiri kafara sem saman hirtu spilin og seldu. Upp úr því fór hann að vinna fyrir sér sem kafari og eignast síðar, ásamt öðrum, Köfunarþjónustuna. Stöndugt fyrirtæki sem þurrkaðist út í hruninu. Eftir að hafa verið tekjulaus í einhverja mánuði, rakst hann á auglýsingu í Mogganum um uppbygginu á snjóflóðavarnagirðingum í Neskaupstað. Hann kallaði á félaga sína og saman gerðu þeir tilboð í verkið og fengu það. Alexander segist ekkert hafa vitað um snjóflóðavarnir en hann hafði sem fjórtán ára unglingur starfað með björgunarsveitinni í Neskaupstað og þekkti fjallið vel frá þeim tíma. Það var á þeirri lífsreynslu sem hann sótti kjark sinn til þess að takast á við verkið. Það gekk á ýmsu í þessu verkefni, segir hann og hlær, en því lauk sem betur fer á endanum farsællega og núna er fyrirtækið hans að byggja snjóflóðavarnagirðingar á Siglufirði.

Alexander hefur eytt lunga ævi sinnar í köfunarbúningi undir sjávarborðinu að gera við báta og bryggjur. Hann er ástríðukafari og unun er að hlusta á lýsingar hans á Jökulsárlóninu, þar sem skiptist á með sjó og ferskvatni í mörgum lögum og er hann fullviss um að í lóninu hafi orðið til nýjar lífverur. Eitt sinn keyrði hann út á ísilagt lónið, boraði gat í gegnum ísbreiðuna þar sem hann lét myndavél síga niður og náði myndum af iðandi lónsbotninum.

Loksins kominn heim

Alexander hafði lengi ætlað sér að setja sig í samband við föður sinn. Þegar hann lenti í Fez í nóvember síðastliðnum hafði hann í tvö ár hunsað reglulega áminningu í símanum sínum um að „skrifa pabba“. Af einhverjum ástæðum varð aldrei úr bréfaskriftunum og núna var hann án nokkurs fyrirvara lentur í Fez með heimilisfangið í vasanum án þess að hafa kynnt sér nokkuð um landið Marokkó né Afríku. Það kom honum því á óvart hversu kunnugleg borgin var og honum leið á einhvern undarlegan hátt eins og hann væri loksins komin heim. Hann var ekki fyrr kominn út úr flugstöðvarbyggingunni þegar fólkið ávarpaði hann af fyrra bragði á arabísku.Hann gisti á Rihadi, eins og hótelin í Medinunni eru kölluð, og næsta dag kom leiðsögumaður til þess að fylgja honum um svæðið. Alexander sýndi honum heimilisfangið og sagði frá erindi sínu; að hann væri leita uppi mann sem hann teldi vera föður sinn en hefði aldrei augum litið.

Leiðsögumaðurinn rýndi í heimilisfangið, sem var orðið 39 ára gamalt, og sagðist hafa búið í sömu götu sem barn. Hann kannaðist við ættarnafnið Squalli og hélt hann hefði jafnvel leikið sér við þennan pilt, Mohammed Squalli Houssaini. Saman fundu þeir húsið og bönkuðu upp á. Lítill drengur kom til dyra og hleypti þeim inn. „Þarna bjuggu tvær fjölskyldur sem tóku mér svo vel. Ég var drifinn inn í húsið þegar leiðsögumaðurinn sagði þeim að ég væri frá Íslandi í leit að marokkóskum föður mínum. Fólkið var svo almennilegt, það leiddi mig um húsið og svo var sest niður og mér boðið að borða. En þau þekktu ekki Squalli þennan sem hafði líklega búið í húsinu fyrir löngu síðan.“

„Ég tók myndir út um gluggann af útsýninu á húsinu sem pabbi hafði búið í. Þetta var svo magnað, ég vissi auðvitað ekki á þessum tímapunkti hvort ég myndi nokkurntíma hitta hann. Ég hafði þá allavega séð húsið sem hann hafði búið í, útsýnið sem hann hafði horft á og á þessari stundu nægði það mér. Þegar ég kvaddi leiðsögumanninn, eftir þennan eftirminnilega dag, sagðist hann ætla að reyna að hafa upp á símanúmerinu hjá pabba mínum. Hann gæti ekki lofað neinu en hann vissi um það bil hvar hann hefði unnið. Daginn eftir fékk ég símtal frá leiðsögumanninum sem sagðist hafa fundið manninn og borið upp erindið. Squalli kannaðist við hluta sögunnar en samt ekki allt. En hann vildi hitta mig. Leiðsögumaðurinn spurði hvar ég vildi hafa fundinn. Ég man að það kom upp í huga mér að mér fannst þetta allt í einu þetta ekki standast. Það hlyti að vera eitthvert plott í gangi og að það væru litlar líkur að á því að ég væri búinn að finna hann í þessari milljóna manna borg. Það gat ekki verið svona auðvelt. Niðurstaðan varð að þeir kæmu á hótelið til mín.“

 

24450_Upprunasaga_Alexanders-3
Ljósmyndin af Alexander sem faðir hafði geymt alla tíð.

 

„Þegar hann birtist fannst mér ég þekkja manninn. Ég hafði einu sinni átt passamynd af honum sem mamma gaf mér en glatað henni. Myndin af honum sat alltaf í mér. Ég var rosalega stressaður og hann líka. Við settumst niður. Hann talaði ekki góða ensku og ég tala enga frönsku þannig að leiðsögumaðurinn túlkaði samtalið. Fyrst vildi hann vita hvar ég hafði fengið upplýsingar um hann. Þegar ég sagði leiðsögumanninum að foreldrar mínir hefðu kynnst í Brussel misskildi hann mig og heimfærði ástarfundi þeirra á Brasilíu. Þetta kannaðist pabbi ekkert við en játti því að eiga strákling á Íslandi. Hann var því mjög varkár og alls ekki viss um að ég væri íslenski strákurinn hans. Báðir vorum við vantrúaðir og óöruggir og hann lét mig strax segja sér frá mínu lífi. Hann vildi að ég skrifaði nafnið á móður minni og þegar ég gerði það bar hann nafnið fram eins og hann væri Íslendingur. Það er ekki auðvelt fyrir útlendinga að segja það. Ég spurði hann hvenær hann væri fæddur, en dagurinn sem hann nefndi stemmdi ekki við það sem ég hélt. Ég fékk ónotatilfinningu, eins og verið væri að leika á mig. Hann bar við að hann væri mjög stressaður og leiðrétti dagsetninguna. Þá áttaði ég mig á því að þetta væri réttur maður og við stóðum upp og féllumst í faðma, grétum og héldum áfram að spjalla með hjálp leiðsögumannsins. Þannig var okkar fyrsti fundur. Mjög draumkenndur.“

Þökk sé Allah

„Leiðsögumaðurinn vildi meina að þetta væri verk Allah. Og ég sem er kallaður Alli. Alli er kominn þökk sé Allah. Í miðju samtali pabba og leiðsögumannsins skelltu þeir sér á hnén og lögðust á bæn.“ Elín fylgdist með atburðarásinni í gegnum netið. Hún beið átekta í stofunni í Breiðholti og fékk svo óvænt senda mynd af þeim Alexander og pabbanum. „Þá grétum við bara hérna við borðið,“ segir hún. „Við vorum ótrúlega hátt uppi og ég get rétt ímyndað mér hvernig honum leið.“

Alexander segist hafa verið andvaka af vellíðan nóttina eftir fundinn við föður sinn. „Við höfðum ákveðið að hittast aftur daginn eftir. Hann sótti mig og við fórum út að borða. Ég fann að hann var forvitinn um hversvegna ég væri kominn til að finna hann. Af hverju á þessum tímapunkti? Hvort ég væri að sækjast eftir einhverju, biðja um eitthvað? Ég sagði honum strax að ég hefði alls ekki gert mér neinar væntingar um að hitta hann. Það sem ég hefði fengið að upplifa væri meira en ég hefði nokkurn tíma þorað að vona. Ég gerði mér alveg grein fyrir því að þetta væri óvænt, að ég birtist svona án fyrirvara. Ég gaf honum færi á því að melta þetta. Ég vissi auðvitað ekki hvort hann hefði sagt fólkinu sínu að ég væri til, og ég ætlaðist ekki til að hann gerði það. Þó mig hafi sannarlega langað að hitta fjölskylduna.“

24450 Alex 03372
Feðgarnir úti að borða.

Þeir Alexander og faðir hans sátu að spjalli í nokkrar klukkustundir. „Hann spurði um mömmu og fjölskylduna mína og við reyndum að tala saman á mjög takmarkaðri ensku. Því næst skutlaði hann mér á hótelið og sagðist þurfa að fara í ferðalag, eitthvað tengt vinnunni. Það var síðasti dagurinn minn í borginni og svo við kvöddumst eins og við myndum aldrei hittast aftur. Ég sneri aftur á hótelið og fann að ég var drullu svekktur. Hann hafði sagt mér að ég ætti fimm systkini, þrjá bræður og eina systur og eina ættleidda systur og mig langaði einlæglega að hitta þau öll.“

Döðlur og mjólkurglas

Næsta dag fór ég með leiðsögumanninum í ferð í kringum borgina og þegar ég kom aftur á hótelið lágu skilaboð frá hr. Squalli að hann væri væntanlegur klukkan 18 að sækja mig. Hann kom og tilkynnti mér að hann ætlaði að koma mér á óvart. Við fórum upp í bíl og keyrðum um borgina þar til við enduðum á að keyra í hverfi í nýja borgarhlutanum og inn um hlið. Þá sagði hann loksins, „Jæja núna erum við komnir heim og fjölskyldan er inni að bíða eftir þér.“ Á móti mér kom eiginkona hans, hún faðmaði mig og bauð mig velkominn á heimili sitt.“
Alexander segir atburðarásina hafa verið óraunverulega og spennandi.
„Já, og það var dálítið sérkennilegt að við settumst niður og þau buðu mér upp á döðlur og mjólk. Það þykir mjög fínt að bjóða upp á döðlur og mjólk í Marokkó. Þegar ég kom inn á heimilið þá blasti við mér mynd af sjálfum mér. Myndin sem mamma hafði sent honum þegar ég var tveggja ára hékk þarna upp á vegg. Það var augljóst að þau höfðu öll vitað af mér. Eftir stuttan tíma leið mér eins og ég hefði alltaf þekkt þau. Ég fann ekki fyrir því að ég væri eitthvað feiminn, ég settist við hlið bróður míns og það var eins og við hefðum alltaf verið bræður.“

Konurnar í Sqalli fjölskyldunni

„Elín hafði sjálf ímyndað sér að konurnar væru faldar bak við slæður og að þær væru undirgefnar körlunum. Ég bjóst við að þær væru allar í búrku og óttaðist ef ég ætti eftir að koma inn á heimilið þeirra þá væri ætlast til þess að ég væri svona eða hinsegin.“
Fjölskyldan kom Alexander því verulega á óvart. Hann upplifði mikið kvennaríki á heimili föður síns og sagði fjölskylduna tala mikið og hátt. Oft hélt hann að þau vera að rífast þegar skipst var á skoðunum. Alexander á sjö ára gamla systur sem eiginkona föður hans ættleiddi, sem var þvert á vilja fjölskyldunnar í byrjun. Og ef fjölskyldan þurfti að taka sameiginlega ákvörðun þá var það reyndar alltaf móðirin á heimilinu sem átti síðasta orðið. Elínu leist vel á fyrirkomulagið og létti þegar hún sá á myndum að systirin er með svipaðan fatasmekk og hún sjálf.
„Það er auðvitað menningarmunur og margt ólíkt með okkur. Ég fletti í gegnum fjölskyldualbúm þeirra og sá meðal annars ljósmyndir úr skírnarveislu bróðursonar míns. Á myndunum úr veislunni staldra ég við mynd af kind sem hafði verið skorin á háls. Bara dauð kind þarna mitt í öllu saman. Það er þá siður þeirra að fórna kind í tilefni af skírnarveislu. Pabbi og konan hans biðja fimm sinnum á dag en ég sá aldrei systkini mín biðja. Þau halda ekki upp á jól og páska, en í staðinn halda þau Ramadan.“

 

24450_Upprunasaga_Alexanders-4
Fjölskyldan saman komin. Frá vinstri: Nadine, eiginkona Houssaini, Houssaini, faðir Alexanders, Alexander og Soukaina, systir Alexanders. Á gólfinu sitja Hicham og Omar, bræður Alexanders og lítill bróðursonur.

Svona verð ég eftir 20 ár

„Við pabbi eru rosalega líkir en ég er ekki viss um að ég líkist systkinum mínum. Ég settist hjá pabba við matarborðið og skyndilega sprungu þau öll úr hlátri. Ég skildi ekkert hvað væri í gangi en þá tóku þau öll eftir því að við borðum við alveg eins. Við hökkuðum í okkur vínber sem er uppáhalds ávöxturinn okkar beggja. Í raun er ég líkastur honum af systkinum mínum, við erum í raun ótrúlega líkir. Þeim þótti það líka merkilegt. Bæði pabbi og bræður minnir lærðu rafmagnsverkfræði en ég byrjaði í rafmagninu og ætlaði mér að leggja það fyrir mig án þess að af því yrði. Konan hans bað mig um að lýsa sjálfum mér og henni fannst sem ég væri að lýsa pabba. Við erum báðir þrjóskir og ákveðnir, sanngjarnir og eitthvað svona. Mér fannst fyndið að horfa á pabba minn og ímynda mér hvernig ég ætti eftir að líta út eftir tuttugu ár. Elsti bróðir minn, sem býr í Brussel, var með okkur á þessum fjölskyldufundi á Skype.“

Óvænt viðkoma í Brussel

„Eftir heimsóknina var ákveðið að ég framlengdi dvöl mína um fimm daga og ég flutti af Rihadinu og heim til pabba. Ekki nóg með það heldur fékk ég flugmiðanum mínum breytt og flaug í gegnum Brussel til að hitta bróður minn. Hann býr með konu frá Marakesh. Þau starfa bæði sem forritarar og gera út frá Brussel en stefna á að flytja aftur til Marokkó.
Bróðir minn tók á móti mér á flugvellinum en þá var ég orðin svo kvalinn í maganum og hélt kannski að það væri eftir allar átveislurnar, en það var alltaf tilefni til þess að setjast niður og borða. Ég hringdi í Elínu og lýsti verkjunum fyrir henni. Hún kveikti strax á því að þetta væri botnlanginn og bróðir minn tók mig á spítala í Brussel þar sem ég var keyrður rakleitt inn á skurðarborð. Botnlanginn var tekinn sem lengdi dvöl mína um nokkra daga aftur. Ég fékk tækifæri til þess að kynnast bróður mínum og konunni hans við svona skrýtnar aðstæður þar sem ég var veikur og upp á þau kominn, það var bónus á sinn hátt.“

Fjórðungur Brusselbúa er múslimar

Einn fjórði hluti íbúa Brussel er múslimar og 210 þúsund þeirra koma frá Marokkó. Miklir fólksflutningar hafa verið til Belgíu frá löndunum í kringum Miðjarðarhafið síðan 1960 þegar Evrópa sóttist eftir vinnuafli og aðlagaði vinnulöggjöfina að betra aðstreymi verkafólks. Námsfólk frá frönskumælandi löndum og fyrrum nýlendum Belga og Frakka hafa alla tíð sótt menntun sína til Frakklands og Belgíu. Sumt af þessu fólki, námsmenn og farandverkamenn, búa enn í Brussel og afkomendur þeirra í annan eða þriðja lið eru orðnir Belgar, hvernig sem það er túlkað. Gagnrýni hefur verið í kjölfar árásanna í París í nóvember, að hið franska og belgíska samfélag sé reyndar bara blandað að orðinu til og þegnar af arabískum uppruna eigi ekki auðveldan aðgang að samfélaginu og búi meira og minna í afmörkuðum hverfum borgarinnar.

Eftir stutt kynni kvaddi Alexander bróður sinn á flugvellinum í Brussel. „Við vorum báðir að fljúga í ólíkar áttir, hann til Sádi Arabíu að forrita og ég heim til fjölskyldu minnar á Íslandi, með Djellaba og marokkóskt sælgæti í koffortinu. Sælgætið var ekkert sérstaklega vinsælt hjá fjölskyldunni í Seljahverfinu en Djellaba-kuflinn vakti hinsvegar mikla lukku. Næsta ferð til Marokkó verður farin í páskafríinu en þá hyggst öll fjölskyldan skella sér saman. Og þessa dagana er mikið rabbað á Skype milli Seljahverfis og Fez.

24450 Alex 03377

Alda Lóa Leifsdóttir

Myndir/Alda Lóa Leifsdóttir og úr einkasafni Alexanders

 

The post Fann horfinn föður í Fez appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652