Harpa, 0 ára: Á fullu í mömmuleikfimi og ungbarnasundi

Hvers konar hreyfingu stundið þið?
„Harpa er ekki farin að velta sér en hún er farin að halda haus alveg sjálf og gerir tilraunir til þess að grípa í tærnar sínar. Við nýtum síðan daginn vel í að hlæja og brosa. Viðhorf til heilsuræktar hefur breyst mikið á undanförnum árum og hlakka ég til að ala Hörpu upp í heilbrigðu umhverfi þar sem fyrirmyndir okkar eru sterkar og sjálfsöruggar konur sem borða hollan og góðan mat og rífa upp 200 kíló í réttstöðulyftu.“
Hvernig er hefðbundinn morgunmatur hjá ykkur?
„Það er mjólkursopinn fyrir Hörpu í öll mál ásamt D-vítamín dropum einu sinni á dag. Sjálf byrja ég alla daga á hafragraut, vítamínum og grænu tei en Harpa mun fá að kynnast þessari lífsnauðsynlegu þrennu bráðlega.“
Hvað gerið þið til að slaka á?
„Á seinni hluta meðgöngunnar fórum við í meðgöngujóga en sjálf hef ég stundað jóga í mörg ár. Ég er enn meðvitaðri um að halda mér í góðu jafnvægi núna því að streita og stress smitar út frá sér yfir í litlu krílin. Harpa er einstaklega rólegt barn og trúi ég því innilega að ef ég er róleg og held mér í góðu jafnvægi þá verður Harpa það líka. Jóga og hugleiðsla getur hjálpað manni mikið og finnst mér að allir ættu að gefa sér 5 mínútur á dag til þess leiða hugann inn á við og slaka á. Að fara í sund á kvöldin og þá helst í rigningu er mín hugleiðsla og býst ég við að Harpa verði einnig mikil sundkona.“
Lumar þú á einu heilsuráði sem hefur gagnast þér vel í gegnum tíðina?
„Ég held að það sé aldrei hægt að segja það nógu oft, en vatnið og svefninn eru alltaf heilsuráð númer eitt, tvö og þrjú. Harpa á ennþá eftir að tileinka sér vatnið en hún sefur í 12 tíma á nóttu, leggur sig yfir daginn og brosir og hlær þess á milli. Ég hugsa að það sé eflaust besta heilsuráð sem hægt er að taka til sín. Það er magnað að sjá þróunina hjá svona litlu kríli á einungis þremur mánuðum. Það er gríðarlega mikið að gerast inni í þessum litla líkama og ég sé mun á henni nánast daglega.“
Einhver markmið varðandi heilsuna á nýju ári?
„Við Harpa höfum ekki sett okkur nein stór markmið fyrir komandi ár. Við ætlum að halda áfram að lifa heilbrigðum lífsstíl, taka einn dag í einu og setja andlega líðan í fyrsta sæti því þaðan fáum við orkuna til þess að brosa, hlæja og njóta lífsins.“
Flóki, 5 ára: Skemmtilegt að gefa öndunum brauð

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir?
„Fara í smellukubba, eða að gefa öndunum brauð.“
Hvers konar hreyfingu stundar þú?
„Ég hleyp inni og í útiveru.“
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
„Pítsa.“
Hvernig er hefðbundinn morgunmatur hjá þér?
„Í jólafríinu fékk ég Lucky Charms, hjá ömmu og afa fæ ég góðan hafragraut.“
Hvað gerir þú til að slaka á?
„Þá sef ég.“
Lilja, 10 ára: Æfir bæði fótbolta og borðtennis

„Ég er í fótbolta í fimmta flokki Gróttu. Það er mjög gaman. Svo æfi ég borðtennis í KR. Það er líka mjög skemmtilegt.“
Hve oft æfirðu í viku?
„Ég fer á þrjár borðtennisæfingar og fjórar fótboltaæfingar.“
Hefurðu þá tíma til að gera annað?
„Já, því borðtennisæfingarnar eru alltaf á kvöldin,“ segir Lilja sem fer með strætó á þær æfingar.
Hvað gerirðu annað þér til skemmtunar?
„Ég les oft bækur eða fer út í fótbolta.“
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
„Lasagna. Sem mamma gerir.“
Pælirðu eitthvað í mataræðinu þínu?
„Já, ég hugsa pínu um það. Ég reyni að borða hollt.“
Hvað borðarðu í morgunmat?
„Ég fæ mér seríós með ab mjólk yfir áður en ég fer í skólann.“
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa?
„Ég les oftast bók fyrir svefninn.“
Ljósmynd/Hari
Orri, 15 ára: Æfir handbolta sex sinnum í viku

Passarðu vel upp á mataræðið?
Já, ég fæ mér auðvitað bara það sem er í matinn heima en síðan fæ ég mér skyr og eitthvað svona á milli æfinga. Það er alltaf hollur matur heima hjá mér.“
Hvað borðarðu í morgunmat?
„Jógúrt með múslí. Fæ mér alltaf það sama.“
Hvað gerirðu til að slaka á?
„Ég spila bara tölvuleiki eða les.“
Hefurðu sett þér einhver markmið fyrir nýja árið?
„Já, að samræma betur íþróttaiðkun og námið.“
Ljósmynd/Hari
Edda, 20 ára: Er eins og jójó þegar kemur að hreyfingu

Hversu miklum tíma verðu í heilsurækt?
„Ég er svolítið eins og jójó með hreyfingu þar sem ég tek oft tímabil þar sem ég hreyfi mig mjög mikið og svo rosalega lítið. Upp á síðkastið hef ég verið í dálítilli lægð með heilsurækt en annars reyni ég að æfa um það bil 4 til 5 sinnum í viku.“
Hvers konar hreyfingu stundar þú?
„Mismunandi, ég reyni að mæta bæði í hóptíma í ræktinni og lyfti sjálf.“
Borðarðu hvað sem er eða hugsarðu um það sem þú lætur ofan í þig?
„Ég reyni nú að hugsa um það sem ég læt ofan í mig en ekkert alltaf.“
Hvernig er hefðbundinn morgunmatur hjá þér?
„Annað hvort hafragrautur eða ab mjólk.“
Hvað gerir þú til að slaka á?
„Til að slaka á horfi ég oftast á Friends eða hlusta á tónlist. Svo finnst mér rosa þægilegt að kíkja í bók, ég var mikill lestrarhestur þegar ég var yngri.“
Lumar þú á einu heilsuráði sem hefur gagnast þér vel í gegnum tíðina?
„Að njóta, það skiptir mestu máli.“
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa?
„Ætli það sé ekki að taka einn netrúnt og skoða Snapchat.“
Færðu næga hreyfingu úr daglegum störfum þínum eða þarftu að ætla þér tíma til að sinna hreyfiþörfinni?
„Ég þarf alveg að gefa mér tíma í hreyfingu utan daglegra starfa þar sem ég er í fullu námi og eyði þar af leiðandi stórum hluta dagsins fyrir framan bækur.“
Hefurðu sett þér einhver markmið varðandi heilsuna á nýju ári?
„Já, en þau voru ekkert mjög markviss; einfaldlega að koma bæði líkamlegri og andlegri heilsu í betra jafnvægi.“
Ljósmynd/Rut
Kjartan, 25 ára: Lifði á rauðrófum í viku

Kjartan borðar mikið af fiski, grænmeti og ávöxtum. „Og rauðrófum. Það var einu sinni tilboð á rauðrófum í Krónunni og ég lifði á þeim í viku.“
Hvernig er hefðbundinn morgunmatur hjá þér?
„Ætli það sé ekki oftast skyr.“
Kjartan stundar ekki neina markvissa líkamsrækt en hann gengur hins vegar til og frá vinnu. Í frítíma sínum finnst honum gaman að vera með vinum og dunda sér við tæki og tækni.
Hvað gerir þú til að slaka á?
„Ég hlusta á tónlist. Eða breyti öllu nálægt mér. Ég umturna íbúðinni minni einu sinni eða tvisvar í viku. Það eru ekki ýkjur. Ég hef alltaf verið svona. Ef ég er órólegur þá fer ég og breyti öllu. Það er alltaf betri möguleiki sem maður verður að finna.“
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa?
„Það er örugglega Facebook-rúnturinn. Sem er mjög slæmt. Ég var einmitt að ræða það um daginn hvað maður þyrfti að fara að hætta þessu.“
Ljósmynd/Hari
Ragnheiður, 30 ára: Mestu skiptir að vera ánægður með sjálfan sig

Borðarðu hvað sem er eða hugsarðu um það sem þú lætur ofan í þig?
„Ég hef aldrei þurft að hugsa mikið um hvað ég læt ofan í mig en ég reyni að halda skyndibitanum í lágmarki.“
Hvernig er hefðbundinn morgunmatur hjá þér?
„Ab-mjólk með múslí eða hafragrautur.“
Hvað gerir þú til að slaka á?
„Set góða tónlist í eyrun, þannig næ ég fullkominni slökun.“
Lumar þú á einu heilsuráði sem hefur gagnast þér vel í gegnum tíðina?
„Ég hef tamið mér það hugarfar að hugsa vel um sjálfa mig, bæði andlega og líkamlega. Öll hreyfing er góð. En það sem skiptir mestu máli er að vera ánægður með sjálfan sig, því þú skapar þína eigin hamingju.“
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa?
„Bursta tennurnar.“
Hefur heilsurækt þín breyst með árunum? Ef svo er, hvernig?
„Já, ég er duglegri að hreyfa mig en ég var.“
Hefurðu sett þér einhver markmið varðandi heilsuna á nýju ári?
„Ég ætla að halda áfram að fara í ræktina í fasta tíma tvisvar í viku til þess að fá smá hreyfingu. En fyrst og fremst rækta sjálfa mig og njóta lífsins.“
Ljósmynd/Hari
Ragnar, 35 ára: Æfi meira eftir að ég hætti á sjónum

Ragnar var lengi háseti og netamaður á frystitogurum en starfar nú í hjólabúð. Sem starfsmaður í hjólabúð hefur hann ekki farið varhluta af hjólaæðinu sem gengið hefur yfir landsmenn. Eða hluta þeirra að minnsta kosti. „Ég hjóla á sumrin. Maður fylgir flæðinu,“ segir hann.
Borðarðu hvað sem er eða hugsarðu um það sem þú lætur ofan í þig?
„Maður reynir nú að hafa þetta kjúkling, fisk, sætar kartöflur og skyr en maður leyfir sér alveg ef mann langar í eitthvað.“
Hvernig er hefðbundinn morgunmatur hjá þér?
„Ég borða skyr eða hafragraut.“
Hvað gerir þú til að slaka á?
„Eins og þetta hefur verið gefst nú ekki mikill tími til þess. Ég er í fjarnámi í Stýrimannaskólanum og sest oftast niður fyrir framan skólabækurnar. En svo reynir maður líka að hitta vinina.“
Lumar þú á einu heilsuráði sem hefur gagnast þér vel í gegnum tíðina?
„Það er að ætla sér ekki of mikið. Margir ætla sér allt í einu en svo gerist ekkert. Þetta snýst ekki alltaf bara um janúar.
Hefur heilsurækt þín breyst með árunum?
„Já, fyrir 10-15 árum gerði ég voða lítið. Þá var ég bara á sjónum og þetta kom af sjálfu sér. Maður finnur alveg fyrir því núna að þurfa að halda líkamanum liðugum. Ég spilaði körfubolta og fótbolta þegar ég var yngri, alveg þangað til ég fór á sjóinn 17 ára.“
Hefurðu sett þér einhver markmið varðandi heilsuna á nýju ári?
„Bara það sama og verið hefur. Halda áfram að hreyfa sig, passa mataræðið og njóta þess að vera til.“
Ljósmynd/Rut
Rakel, 40 ára: Fagnaði fertugsafmælinu á Kilimanjaro

Hvers konar hreyfingu stundar þú?
„Varðandi almenna líkamsrækt þá er ég meira týpan sem fer að lyfta og í klifur heldur en að sprikla í eróbikki. Annars elska ég fjallgöngur og var mjög dugleg við þær á sínum tíma. Ég byrjaði að dusta rykið af gönguskónum í sumar og hélt síðan upp á fertugsafmælið mitt á Kilimanjaro í Afríku í september.
Afmælisdagurinn var einn sá eftirminnilegasti, í regnskógi á Kilimanjaro. Þessir sjö dagar á fjalli voru mögnuð lífsreynsla – þvílíkt líkamlegt átak, þvílík andleg áreynsla, þvílík gleði og þvílík upplifun. Fékk að upplifa allt það sem háfjallaveikin hefur upp á að bjóða; bullandi blóðnasir, gubberí og einn versta hausverk sem ég hef fengið síðustu þrjá dagana. Því miður komst ég ekki alla leið á toppinn (5895m) þar sem ég þurfti að snúa til baka í 5350 metra hæð (vantaði bara 3,5 klukkustundir upp á) sökum hjartavesens, súrefnismettunar við hættumörk, púls í hættumörkum líka og helbláar varir. Fararstjórinn var með mæligræjur og fylgdist vel með og það var ekkert vit í að fara lengra miðað við aðstæður og ástand. Lífið er mikilvægara en að toppa Kili undir þessum kringumstæðum. Ég er samt ótrúlega stolt af sjálfri mér, ánægð með ferðina og sjúklega stolt af Kristrúnu og Guðnýju, sem fóru með mér, fyrir að tækla toppinn. Maður veit aldrei nema maður prófi og maður öðlast aldrei þekkingu og reynslu nema setja sig í aðstæðurnar.“
Hefurðu sett þér einhver markmið varðandi heilsuna á nýju ári?
„Ég og konan mín settum okkur markmið á nýársdag. Við ætlum að fara á sjö fjöll á Íslandi á þessu ári. Til að gera það þarf maður að vera í einhverju formi þannig að ræktin fær meiri tíma hjá mér þetta árið en undanfarin ár. Það er líka frábært fjölskyldusport að fara í klifur og ég mun klárlega byrja að príla aftur á árinu.
Borðarðu hvað sem er eða hugsarðu um það sem þú lætur ofan í þig?
„Ég ét nú bara allt og fer eftir því að allt er gott í hófi. Til dæmis borða ég oftast svið á nýársdag, það er góð hefð sem ég missti því miður af í ár. Ég tek auðvitað mín öfgatímabil eins og margir. Sérstaklega þegar ég er dugleg í ræktinni en það stafar nú mest af því að með aukinni hreyfingu fer líkaminn að kalla meira eftir heilbrigðara mataræði.“
Hvernig er hefðbundinn morgunmatur hjá þér?
„Núna er það LGG og Rude Health hafragratur. Þessi grautur er það besta í heimi og hann er í uppáhaldi hjá fjölskyldunni.“
Hvað gerir þú til að slaka á?
„Ég er ekki týpa sem á auðvelt með að slaka á, mín slökun er meira að fá líkamlega útrás heldur en kyrrstaða.“
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa?
„Vinnan fer oft með manni inn í nóttina en það er slæmur vani. Ég er hins vegar nýfarin að hlusta á hljóðbækur og það er algjör snilld. Það væri afar ljúft ef þeim fylgdi skynjari sem myndi slökkva þegar maður sofnar svo maður þurfi ekki alltaf að finna hvert maður var kominn.“
Hefur heilsurækt þín breyst með árunum? Ef svo er, hvernig?
„Hún hefur breyst þannig að ég hef minna sinnt henni sökum tímaskorts. Það er það versta sem maður gerir því með aukinni heilsurækt er maður með betri athygli, nýtir tímann betur og þarf minni svefn. Markmiðið er að laga þetta. Það hefur því miður tekið of langan tíma fyrir mig að kveikja á perunni með þetta – ekki vænlegt til vinnings að kaffæra sig í vinnu og sleppa heilsuræktinni.“
Pétur, 45 ára: Keppti átta sinnum í þríþraut í fyrra

Pétur byrjaði í þríþraut haustið 2014, þá nánast ósyndur, mætti á allar æfingar og keppti svo átta sinnum í þríþraut í fyrra. Hann var fyrstur af 25 Íslendingum í mark í IronMan Barcelona 2015 á tímanum 10:28:08, og varð í 3. sæti í flokki 40 ára og eldri í hálfum Herbalife Járnmanni í Hafnarfirði.
Hversu miklum tíma verðu í heilsurækt?
„Árið 2015 sem er árið sem ég tók minn fyrsta Iron Man, þá varði ég um 11 klukkutímum á viku í æfingar að jafnaði. Ég reikna með því að í ár verði þetta á bilinu 8-10 klukkustundir á viku.“
Hvers konar hreyfingu stundar þú?
„Ég syndi, hjóla og hleyp. Stunda sem sagt þríþraut. Auk þess tek ég styrktaræfingar inn á milli.“
Borðarðu hvað sem er eða hugsarðu um það sem þú lætur ofan í þig?
„Ég hugsa yfirleitt vel um það sem ég læt ofan í mig og myndi segja að ég fylgi hinni sívinsælu súpermódel uppskrift, þ.e. borða 80% hollt og 20% rusl.“
Hvernig er hefðbundinn morgunmatur hjá þér?
„Nánast allt árið 2015 var það Chiagrautur með banana, bláberjum og jarðarberjum en upp á síðkastið hefur það verði AB mjólk með grófu músli og bláberjum.“
Hvað gerir þú til að slaka á?
„Skil ekki spurninguna…“
Lumar þú á einu heilsuráði sem hefur gagnast þér vel í gegnum tíðina?
„Já, það er léttast að segja það á ensku „Consistency is key“ eða á íslensku, „mættu á æfingar, alltaf“.“
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa?
„Geri klárt fyrir æfingar næsta dag og hangi svo of lengi í símanum.“
Hefur heilsurækt þín breyst með árunum?
„Ef svo er, hvernig? Já, ég var lengi vel í lyftingum, svo BootCamp en er alveg farinn yfir í þríþraut og hjólreiðar.“
Færðu næga hreyfingu úr daglegum störfum þínum eða þarftu að ætla þér tíma til að sinna hreyfiþörfinni?
„Ég þarf að taka frá tíma fyrir hreyfinguna, sit við skrifborð stóran hluta dagsins.“
Hefurðu sett þér einhver markmið varðandi heilsuna á nýju ári?
„Ekki varðandi heilsuna beint en myndi vilja hafa heilsu til þess að klára keppnina Escape From Alcatraz á undir þremur klukkutímum og Berlínar maraþon á undir 3:25 klukkustundum.“
Ljósmynd/Arnold Björnsson
Erla, 50 ára: Hlaupaæfingarnar eru heilagur tími

Erla er fimmtug og kveðst reyna að hreyfa sig eitthvað á hverjum degi. Hún hjólar eða gengur yfirleitt til og frá vinnu og mætir á hlaupaæfingar hjá Laugaskokki þrisvar í viku. „Það er heilagur tími,“ segir hún.
Borðar þú hvað sem er eða hugsar þú um það sem þú lætur ofan í þig?
„Ég á rosalega erfitt með að neita mér um góðan mat og er mikill sælkeri. Ég trúi því að meðalhófið sé best, en reyni auðvitað að velja eitthvað hollt og gott.“
Hvernig er hefðbundinn morgunmatur hjá þér?
„Það er ýmist chia-hafragrautur með ávöxtum eða gamla góða Cheeriosið. Ef ég er í stuði er einnig skálað í grænum djús og dagurinn er fullkominn.“
Hvað gerir þú til að slaka á?
„Sumarbústaður tengdaforeldra minna í Skorradal býr yfir töframætti og næst hvergi betri slökun en þar. Þess á milli er það freyðibað og góð bók.“
Lumar þú á einu heilsuráði sem hefur gagnast þér vel í gegnum tíðina?
„Einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu er að nýta tímann til og frá vinnu. Í kaupbæti mætir maður vel vakandi og glaður í vinnu og nær að veðra burt krefjandi vinnudag áður en maður kemur heim.“
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa?
„Renni yfir það helsta á netinu og les góða bók.“
Hefur þú sett þér einhver markmið varðandi heilsuna á nýju ári?
„Já markmið eru nauðsynleg til að ná einhverjum árangri. Síðasta ár var undirlagt af maraþonundirbúningi, sem var óendanlega skemmtilegur tími en einnig mjög krefjandi. Lítill tími gafst til að sinna öðrum hugðarefnum, eða fjölskyldu og vinum. Því verður árið 2016 tileinkað aukinni samveru með þeim sem standa mér næst og auðga líf mitt á hverjum degi. Undirmarkmið er svo að sjálfsögðu að koma þeim öllum með mér út að hlaupa og hef ég góðar vonir um að það takist fyrir árslok.“
Illugi, 55 ára: Gef sjálfum mér hreyfiskipanir

Illugi er 55 ára og segir það mismunandi eftir heilsufari sínu hversu miklum tíma hann ver í heilsurækt. „Ég stríði svolítið við hjartveiki sem dregur stundum úr þreki og þá verður lítið úr hreyfingu. En sé þrekið skikkanlegt þá hef ég – þegar best lætur – reynt að hreyfa mig sirka 5-6 sinnum í viku, kannski klukkutíma í senn.“
Hvers konar hreyfingu stundar þú?
„Sund, hlaup eða göngur fyrst og fremst.“
Borðarðu hvað sem er eða hugsarðu um það sem þú lætur ofan í þig?
„Já, ég borða hvað sem er. Og já, ég hugsa líka um það sem ég læt ofan í mig.“
Hvernig er hefðbundinn morgunmatur hjá þér?
„Jógúrtdós og banani, svona yfirleitt. Og kaffi.“
Hvað gerir þú til að slaka á?
„Slaka á? Hvað er það?“
Lumar þú á einu heilsuráði sem hefur gagnast þér vel í gegnum tíðina?
„Nei. Ekki nema að reyna að halda sér við leistann sinn, þótt leiðindin ætli mann alveg lifandi að drepa í langhlaupum eða langsundi.“
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa?
„Les.“
Færðu næga hreyfingu úr daglegum störfum þínum eða þarftu að ætla þér tíma til að sinna hreyfiþörfinni?
„Ég vinn við skrifborð og fæ því litla útrás fyrir hreyfiþörf. Sú hreyfiþörf er reyndar ekki alltaf mikil, heldur gef ég sjálfum mér hreyfiskipanir.“
Hefurðu sett þér einhver markmið varðandi heilsuna á nýju ári?
„Já. Missa tugi kílóa og koma hjartanu í lag.“
Ljósmynd/Rut
Diddú, 60 ára: Stundar uppbyggjandi og mannbætandi líkamsrækt

Diddú stendur á sextugu og stundar líkamsrækt um það bil fimm klukkustundir á viku. „Ég hef sótt tíma undanfarin 18 ár í heilsuræktinni Hjá Báru JSB. Þetta er uppbyggjandi og mannbætandi líkamsrækt fyrir konur á öllum aldri,“ segir Diddú sem kveðst hafa stundað líkamsrækt með hangandi hendi þar til hún byrjaði hjá JSB. Þá fyrst fann hún sig. „Á árum áður æfði ég sund og frjálsar íþróttir, en steinhætti öllu slíku um 16 ára aldurinn,“ segir hún.
Hefurðu sett þér einhver markmið varðandi heilsuna á nýju ári?
„Þegar árunum fjölgar hjá manni, gerir maður sér grein fyrir hvað góð heilsa skiptir gríðarlega miklu máli, ætli maður að njóta efri áranna. Því er mikilvægt að hlúa skynsamlega að henni.“
Lumar þú á einu heilsuráði sem hefur gagnast þér vel í gegnum tíðina?
„Það hollasta er að forðast óþarfa áreiti, sem hefur truflandi áhrif á mann. Álag og streita eru mannskemmandi.“
Diddú segir að til að halda geðheilsunni í jafnvægi sé mikilvægt að hitta skemmtilegt fólk. Nærvera þess sé nærandi.
„Svo eru bækur miklir vinir mínir. Ég get gjörsamlega „dottið í það“ með stafla af spennandi og góðum bókum.
Borðarðu hvað sem er eða hugsarðu um það sem þú lætur ofan í þig?
„Ég er meðvituð um það sem ég læt ofan í mig, og „tek reglulega til“ í mataræði, án öfga.“
Hvernig er hefðbundinn morgunmatur hjá þér?
„Ég byrja á góðum kaffibolla. Svo hreinan ávaxtasafa, hrökkbrauð eða ristað gróft brauð með osti og gúrku eða tómötum.“
Hvað gerir þú til að slaka á?
„Það er bóklestur, algjör nautn! Elda góðan mat fyrir vini og fjölskyldu, dúlla mér í eldhúsinu.“
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa?
„Ég bið bænirnar.“
Ljósmynd/Hari
Níels Árni, 65 ára: Borða venjulegan íslenskan mat – með miklu af smjöri og rjóma

Níels, sem á árum áður sat á þingi og hefur starfað sem ráðuneytisstjóri, er um þessar mundir að jafna sig eftir axlaraðgerð. „Þetta er eitthvað sem annar hver maður fer í. Það þarf að víkka göngin fyrir taugarnar niður í öxlina. Þeir fara bara með Black & Decker þarna inn og bora þetta.“
Borðarðu hvað sem er eða hugsarðu um það sem þú lætur ofan í þig?
„Ég er alinn upp á venjulegum íslenskum mat og ét hann enn hiklaust. Með miklu af smjöri og rjóma. Ég borða eiginlega allt sem vellur út úr ísskápnum, hvort sem það er á daginn eða á nóttunni. En ég er ekkert í gosinu. Þetta eru sömu siðirnir hjá mér og hafa alltaf verið en eftir því sem maður eldist þá borðar maður minna.“
Hvað gerir þú til að slaka á?
„Ég hef til dæmis óskaplega gaman af því að vinna í garðinum mínum. Við vinnum mikið saman, við hjónin. Við spilum líka bridds, það er nóg að gera. Ég skrifa líka mikið í frítíma mínum, enda er ég kominn niður í hálft starf. Ég var að ljúka við þriggja binda verk um Melrakkasléttu, þúsund síður með 1.500 myndum. Ég er búinn að vinna við þetta síðustu sex ár. Þetta verður einstakt rit um landsvæði sem er farið í eyði. Svo á ég þrjú börn og sjö barnabörn og það er yndislegt að fá þau í heimsókn. Maður getur ekki nógsamlega þakkað guði fyrir hvað lífið er dásamlegt.“
Ljósmynd/Rut
Þórunn, 70 ára: Heilög morgunstund yfir hafragraut eiginmannsins

Borðarðu hvað sem er eða hugsarðu um það sem þú lætur ofan í þig?
„Ég borða gríðarlega hollan mat og hugsa um hollustuna. Ég borða gróf brauð, mikið af grænmeti og ávöxtum. Þetta er það sama og ég hef alltaf borðað en hef þó aðeins bætt í, sérstaklega með grænmetið. Mataræðið er fjölbreyttara en það var.“
Hvernig er hefðbundinn morgunmatur hjá þér?
„Hafragrautur, eiginmaðurinn lagar hafragraut með allskonar ljúfmeti út í. Hann notar epli og allskonar korn. Við setjum stundum bláber í hann. Þau tínum við á haustin til að eiga á veturna. Það er nóg til af berjum á Íslandi. Þetta er heilög morgunstund hjá okkur.“
Hvað gerir þú til að slaka á?
„Ég les mikið. Ég er eiginlega alltaf með góða bók á náttborðinu. Síðan þykir mér rosa gott að hafa góða tónlist. Ég hef nú orðið svo fræg að nefna það að við eldri borgarar vildum gjarnan fá okkar tónlistarhátíð, einskonar Airwaves Gold. Það er slökun að hlusta á góða tónlist.“
Lumar þú á einu heilsuráði sem hefur gagnast þér vel í gegnum tíðina?
„Jákvæðni, hún flytur fjöll. Og að taka sjálfan sig ekki of alvarlega.“
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa?
„Að lesa. Ég er núna í kasti með sakamálasögur en annars er ég alæta á bækur.“
Hefurðu sett þér einhver markmið varðandi heilsuna á nýju ári?
„Fyrst og fremst að reyna að stunda útiveru af bestu getu. Svo stendur félagið hér fyrir aukinni hreyfingu – við höfum verið að predika það. Aukin hreyfing mun hjálpa eldra fólki til bættar heilsu og betra lífs.“
Ljósmynd/Rut
Snær, 75 ára: Syndir 200 metra á hverjum morgni

Snær lék fótbolta á sínum yngri árum með Völsungi á Húsavík. Hann vann hjá Starfsgreinasambandi Íslands og forverum þess í 18 ár.
Hvernig er hefðbundinn morgunmatur hjá þér?
„Ég fæ mér nú bara lýsi á morgnana og ávaxtasafa áður en ég fer og syndi. Svo fæ ég mér te þegar ég kem heim um níuleytið.“
Borðarðu hvað sem er eða hugsarðu um það sem þú lætur ofan í þig?
„Ég borða nú bara algengan mat, fisk og kjöt líkt og það hefur alltaf verið.“
Hvað gerir þú til að slaka á?
„Ég fer í göngur eða fæ mér bók að lesa. Ég er alltaf með bók á náttborðinu og stundum fleiri en eina.“
Ljósmynd/Hari
Anna, 90 ára: Hef aldrei kunnað að drekka kaffi

„Ég fer tvo daga í viku á Múlabæ, á þriðjudögum og fimmtudögum. Þar spilum við til dæmis og förum í stólaleikfimi. Þá erum við bara að gera æfingar, eins og gert er með okkur gamla fólkið. Það eru voða góðar stelpur sem eru með okkur. Það koma oft til okkar skemmtikraftar eftir hádegið.
Mér finnst ofsalega gott að koma í Múlabæ. Ég er búin að fara svo lengi – í ellefu ár – að ég tími ekki að hætta því. Ég gæti ekki hugsað mér það.“
Ertu mikið á ferðinni?
„Já, ég geng alltaf. Ég fer alltaf út. Ef það er hált þá set ég á mig brodda. Ég hef alltaf hreyft mig mikið, ég verð að gera það. Kannski er það ofvirkni. Það var nú bara sagt þegar ég var lítil að ég væri óþekk, þá þekktist ekki þetta orð.“
Anna kveðst lesa mikið. „Ég les blöðin, ég les heilmikið. Nú er ég að lesa hann Árna Bergmann og finnst hann stórskemmtilegur. Þetta er yndisleg bók sem mér finnst að allir ættu að lesa.“
Hvað gerir þú til að slaka á?
„Ég geri það ekki. Ég kann ekki að slaka á. En ég ligg stundum og les.“
Borðarðu hvað sem er eða hugsarðu um það sem þú lætur ofan í þig?
„Ég borða bara hvað sem er. Við fáum mat uppi á Múló. Það er ekki alltaf gott en við látum okkur hafa það. Það er allt í lagi. En ég drekk aldrei kaffi. Ég hef aldrei kunnað það.“
Hvað með áfengi og tóbak?
„Ég reykti þegar ég var ung, eins og allir. Það eru nú orðin 24 eða 25 ár síðan ég drap í. Um leið og ég gerði það þoldi ég ekki aðra sem reyktu. Hvað áfengið varðar þá skálar maður kannski í sérrí við og við en ég hef aldrei getað drukkið bjór.“
Hvernig er hefðbundinn morgunmatur hjá þér?
„Ég fæ mér stundum jógúrt og svo fæ mér alltaf hafragaraut hjá stelpunum. Mér finnst hann svo góður.“
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa?
„Ég les bækur. Svo er ég með blöðin. Ég er nú ekki mikill sjónvarpsglápari. Ég horfi alltaf á fréttir en annað þarf að vera eitthvað alveg sérstakt.“
Hefurðu sett þér einhver markmið varðandi heilsuna á nýju ári?
„Nei, ég þarf ekki að gera það. Ég verð bara eins og ég hef alltaf verið. Ég vona bara að ég geti haldið áfram að hreyfa mig.“
Ljósmynd/Rut
The post Heilsuvenjur Íslendinga: Frá 0 til 90 ára appeared first on Fréttatíminn.