Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Viljum hjálpa Íslendingum að hjálpa Sýrlendingum

$
0
0

Markmið hins nýstofnaða félags Sýrlendinga á Íslandi, The Iceland Syrian Friendship Association, er að styrkja tengslin á milli þjóðanna tveggja og aðstoða alla þá Sýrlendinga sem hingað koma, hvort sem það eru flóttmenn sem hingað koma á eigin vegum, líkt og stofnfélagarnir, eða kvótaflóttamenn.

„Við viljum hjálpa Íslendingum við að hjálpa Sýrlendingum,“ segir Yasar Ashari en hann er einn af sex stofnfélögum hins nýstofnaða félags Sýrlendinga á Íslandi. Yasar, systir hans Lina og vinur þeirra, Omar Kalachini, taka á móti blaðamanni í íbúð systkinanna. Þau reiða fram arabískt kaffi og íslenska hjónabandssælu á meðan þau segja frá nauðsyn þess að taka sem best á móti öllum Sýrlendingum sem hingað koma, hvort sem það eru kvótaflóttamenn eða flóttamenn sem hingað komi á eigin vegum, líkt og þau sjálf.

Dýrmætt að fá lögfróðan mann

„Við viljum borga Íslendingum til baka. Íslendingar hafa gert svo margt fyrir okkur,“ segir Omar sem hefur verið hérna lengst af stofnfélögunum og hefur íslenskan ríkisborgarrétt. „Ég er búinn að vera að bíða eftir svona manni eins og Yasar. Hann er ekki bara lögfræðingur, sem er dýrmætt fyrir samfélag Sýrlendinga á Íslandi, heldur líka góður maður, algjör himnasending. Við ætlum að gera góða hluti saman í þessu félagi. Það er svo margt sem við getum gert.“

Leita að húsnæði undir félagið

Yasar bendir á að ýmislegt sé hægt að gera til að auðvelda komu og aðlögun flóttamanna. „Við viljum hjálpa til við að gera aðlögun Sýrlendinga að íslensku samfélagi sem auðveldasta og vinna í því að styrkja böndin. Íslendingar hafa tekið okkur vel en við erum með ýmislegt í huga sem mætti betur fara og sem við gætum aðstoðað við. Okkur langar að vinna í samstarfi við Rauða krossinn og önnur samtök og einstaklinga sem hafa áhuga og okkur langar að byrja um leið og við finnum húsnæði undir félagið. Við viljum nota félagið til að kynna sýrlenska menningu, hvort sem það er matur, bækur, myndir eða hefðir. En svo erum við líka með framtíðarmarkmið því við viljum halda áfram að bæta samband þessara tveggja ríkja þegar stríðinu loks lýkur.“
The Iceland Syrian Friendship Association er á Facebook.

Lina Ashari kom til Íslands með aðstoð Sameinuðu þjóðanna fyrir rúmlega ári með syni sína þrjá en hún missti eiginmann sinn í stríðinu. Yasar Ashari bróðir hennar kom hingað í apríl á síðasta ári til að vera hjá systur sinni en ferðalag hans var erfiðara. Hann flúði frá Sýrlandi til Tyrklands, komst þaðan á fölsuðum pappírum til Grikklands og þaðan til Íslands. Við komuna til landsins var hann handtekinn og fangelsaður og sat í fangelsi í fimmtán daga þar sem hann var með fölsuð skilríki. Omar Kalachini kom fyrst til Íslands árið 1998.

 

The post Viljum hjálpa Íslendingum að hjálpa Sýrlendingum appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652