Á síðustu mánuðum liðins árs beindist athygli samfélagsins snögglega að hlutskipti þess fólks sem hingað komst í leit að skjóli, margt af því á flótta undan ófriði, hrakið frá heimilum sínum vegna ótryggs stjórnmálaástands heima fyrir, sumt í lífshættu í þjóðlendum sínum, annað í leit að mannsæmandi lífskjörum fyrir sig og börn sín. Um margra ára skeið hefur ástand í aðstæðum flóttamanna á Íslandi verið smánarblettur á íslensku samfélagi. Stjórnvöld hafa verið treg til að tryggja stofnunum nauðsynlegt rekstrarfé sem annast skyldu afgreiðslu dvalar- og atvinnuleyfa einstaklinga svo langir biðlistar hafa myndast á sama tíma og starfs- og dvalarleyfi atvinnufyrirtækja og umboðsskrifstofa fyrir vinnuafl á undirtöxtum voru afgreidd snögglega.
Rasisminn
Nýlega fullyrti fyrrum formaður Tollvarðafélags Íslands á einni útvarpsstöðinni að allt til 1980 hafi ríkt þegjandi samkomulag milli tollyfirvalda og lögreglunnar að vísa þegar burt öllu aðkomufólki sem virtist líklegt til að leita hér dvalarleyfa svo halda mætti „landinu hvítu“. Kynþáttahyggja setti alla síðustu öld sterkan svip á afstöðu íslenskra stjórnvalda til útlendinga sem hingað leituðu. Skipti þá litlu frá hvaða aðstæðum þeir flúðu, hvernig stöðu þeirra og hag var háttað, heldur var fyrst og síðast spurt um þjóðerni. Landlægur ótti var ríkjandi um tiltekna kynstofna og gegnsýrði alla fjölmiðla þar sem gyðingar og sígaunar voru settir í flokk hinna óæskilegu þjóða. Upplausnar Evrópu, í kjölfar fyrra stríðs með landhreinsunum minnihlutahópa, varð lítið vart hér á landi þó dæmi þekkist bæði um Armena sem hér fóru um sveitir og sígauna sem hingað komu á millistríðsárunum.
Þegar lögin um eftirlit með útlendingum voru til umræðu, veturinn 1936, vísaði Hermann Jónasson til reynslu sinnar frá tíma sínum sem lögreglustjóra í Reykjavík. Lagasetningin var fyrsta tilraun stjórnvalda til að stemma stigu við hingaðkomu flóttamanna sem þá þegar töldu annan tuginn, flestir þýskir menn sem hingað komu á flótta undan ofsóknum heima fyrir, sósíalistar, kratar og gyðingar.

Landflótta Rússar
Í október 1936 var tveimur mönnum hent í land í Reykjavík: „Tveir rússneskir menn, sem enska kolaskipið Kyloe skildi hér eftir í fyrradag eru nú í umsjá lögreglunnar. Eru þeir algerlega vega- og peningalausir, eiga hvergi ríkisborgararétt og yfirgáfu ættland sitt 1918,“ segir í frétt Nýja Dagblaðsins. Rússarnir gáfu sig fram við lögreglu og sögðust vera hér nauðugir, algerlega vega- og peningalausir. Þeir voru Ivan Dubrovsky, 30 ára frá Odessa og Orloff Peter, 26 ára, frá Orjol sem er suður af Moskva. Báðir kváðust þeir hafa flúið Rússland 1918 og vildu ekki snúa heim. Höfðu dvalið síðast í Finnlandi en þar áður í Stettin. Kom í ljós að þeir voru laumufarþegar á kolaskipinu frá Finnlandi, freistuðu landgöngu í Hull en var meinað þar um landvist. Í Reykjavík rak skipstjórinn þá allslausa í land.
Nú var öllum málsmetandi mönnum í Reykjavík ljós flóttamannastraumurinn frá Sovétríkjunum eftir byltingu og borgarastríðið þar eystra. Lá öllum illt orð til stjórnvalda þar nema kommúnistum. Mennirnir voru landflótta af pólitískum ástæðum. Þrátt fyrir það var þeim neitað um dvalarleyfi í Reykjavík, annar komst í skipsrúm en hinn dvaldi hér fram á vor 1938 en þá kom kolaskipið aftur til Reykjavíkur og var skipstjórinn neyddur til að taka Rússann aftur um borð. Samkvæmt skilareglu varð skipstjórinn að koma honum af sér í finnskri höfn, þeir að skila honum til Þýskalands og þaðan koll af kolli uns eitthvert stjórnvald Evrópu kom honum til sovéskra yfirvalda og auðvelt að gera sér í hugarlund hvað hefur beðið mannsins þar.*1

Ekki einsdæmi
Saga Rússanna var ekki einsdæmi, þó hin dæmin væru nokkur um hið gagnstæða. Samkvæmt landvistarskrá stjórnvalda sem tekin var saman í apríl 1940 um þýska þegna á Íslandi voru 99 Þjóðverjar í landinu, sumir þeirra ríkisfangslausir af pólitískum ástæðum, þ.e. sviptir vegabréfi vegna stjórnmálaskoðana, eða ættgreindir gyðingar, aðrir voru með landvist tímabundið og atvinnuleyfi og sátu í skjóli atvinnurekanda sinna.*2
Lagasetningin 1936 sem stjórn hinna vinnandi stétta, Framsóknar- og Alþýðuflokks, hafði beitt sér fyrir var til samræmis við lög og reglur annarra Norðurlandaþjóða. Í öllum löndunum voru menn um langt árabil, allar götur frá 1933 þegar nasistar náðu völdum í kosningunum í Þýskalandi, búnir að kljást við flóttamannavanda. Þá strax hófust ofsóknir gegn yfirlýstum andstæðingum stjórnvalda í Þýskalandi, framámönnum í verkalýðshreyfingunni og stjórnmálaflokkum frá miðju til vinstri, krötum og sósíalistum af hvaða flokksbrotum sem var.*3 Þegar skipulagðar árásir hófust í landinu gegn gyðingum tóku þeir að flýja land. Í skránni frá apríl 1940 var á annan tug gyðinga tilgreindur.
Sjá einnig: Örlög Rottberger-fjölskyldunnar.
Utanbæjarmenn
Grundvöllur fyrir landvist samkvæmt lögunum 1936 var atvinnuleyfi. Það fékk enginn nema hann hefði löggilt vegabréf, eða í tilviki íbúa Norðurlandaþjóðanna ferðaleyfi (rejsekort), væri fæddur á Íslandi í tilviki þegna Bandaríkjanna og Kanada, eða bæri danskt vegabréf því samkvæmt sambandslögunum frá 1918 var þegnum Danmerkur frjálst atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi og íslenskum mönnum á sama hátt heimilt að hafa heimilisfestu og atvinnuleyfi í Danmörku.
Bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti 1933 hvatningu til atvinnurekenda „hjer í bæ, að taka ekki utanbæjarmenn í vinnu, meðan nógur vinnukraftur er hjer fyrir. Í sambandi við þetta aðvarar borgarstjóri utanbæjarmenn að þeir skuli ekki koma hingað í atvinnuleit, því að hjer sje ekki, sem stendur, um meiri atvinnu að ræða en bæjarbúar komast sjálfir yfir.“ *4
Í bænum var viðvarandi atvinnuleysi hjá tugum og oftast hundruðum manna sem þá leituðu á framfæri hins opinbera. Bæjaryfirvöldum gekk því það eitt til að huga að hag bæjarsjóðs. Var talsverð pressa frá stéttarfélögum og atvinnurekendum að yfirvöld gættu að því að heimamenn gengju fyrir atvinnu og aðkomumönnum væri torvelduð atvinnuþátttaka. Leiddi hver tilraun aðkomumanna til atvinnurekstrar til athugasemda frá samtökum launamanna og atvinnurekenda, iðnráði og stéttarfélögum.
Útlendingar
Á þessu tímabili var áberandi andstaða gegn landvist og atvinnuleyfi til erlendra manna. Í mars 1938 segir í Morgunblaðinu: „Á síðustu árum hefir safnast hingað allmargt af útlendingum, er setjast hjer að sem verkafólk í iðnaði eða verslun, og jafnvel tekur að reka slíka starfsemi upp á eigin spýtur. Virðist mjög lítið og ófullnægjandi eftirlit vera haft með þessu af hendi yfirvaldanna, þrátt fyrir skýr lagafyrirmæli um, að svo skuli gert. Hjer á landi er, eins og nú háttar, tilfinnanlegur skortur á verkefnum fyrir landsins eigin börn. Borgararnir eiga því skilyrðislausa rjettlætiskröfu á því, að þeir atvinnumöguleikar, sem til eru, sjeu verndaðir fyrir þá, og ekki farið þar skemra en landslög leyfa. Ef lögin bjóða þeim ekki nægjanlega vernd í þessu tilliti, þarf að breyta þeim í þá átt.“
Greinarhöfundur atyrðir félagsskap í bænum, Friðarvinafélagið, sem hefur verið flóttafólki til aðstoðar og hæðist að tilgangi þess:„Er það út af fyrir sig næsta auðvirðileg stofnun, sem á sennilega rætur sínar að rekja til þess að einstakar persónur, sem gjarnan vilja láta á sjer bera í opinberu lífi, fá þarna tækifæri til að leika „rullu“ við sitt hæfi, þ.e.a.s. fjasa um og fást við hluti, sem einungis eru markleysa og vitleysa. Fjelagsskapur Íslendinga, ef annars má nefna þetta fólk sem lifir og hrærist eingöngu í „nationölum“ grillum, því nafni, hefir eðlilega ekki og getur ekki haft nein áhrif á friðar eða ófriðarmál heimsins. Slíkt er aðeins ómerkileg tilraun til að sýnast. … Borgarar með ábyrgðartilfinningu geta ekki horft aðgerðalausir á þennan skrípaleik í sambandi við þessa svonefndu erlendu „flóttamenn“. Og ef stjórnarvöld – og yfirvöld lands og bæja gera ekki skyldu sína gagnvart þjóðinni og landinu í þessu efni, verða borgararnir að taka höndum saman og verja rjett sinn, þann rjett, sem þeim einum ber.“ *5
Lítill fengur
Borgarapressan í Reykjavík var á einu máli í andúð sinni á útlendingum og skammt var í að dula væri dreginn af styrkasta þætti útlendingaóttans, gyðingahatrinu. Í leiðara Vísis segir þann 31. maí 1938: „Í hverju einasta landi eru nú hafðar strangar gætur á því, að útlendingar taki sér ekki bólfestu í atvinnuskyni, nema með sérstöku leyfi yfirvaldanna. Víðast fá útlendir menn ekki dvalarleyfi ef grunur leikur á að þeir ætli að leita sér atvinnu, enda hefir lögreglan nákvæmar gætur í þeim sökum. Hér á landi hefir mjög á því borið síðustu þrjú árin, að útlendingar hafi komið hingað í atvinnuleit eða til að ná hér bólfestu. Talsverður hluti þess fólks er Gyðingar, sem af einhverjum ástæðum hafa yfirgefið sinn fyrri dvalarstað. Mun flestum virðast svo, að þjóðinni sé lítill fengur í komu þessa fólks hingað enda er hugsunarháttur þess að öllu gerólíkur hugsun og skapi Íslendinga. Margir líta svo á, að fólk þetta hafi flúið land sitt vegna pólitískra ofsókna og þess vegna sé mannúðarskylda að veita því landvist. Íslendingar geta yfirleitt ekki sætt sig við að menn séu ofsóttir vegna trúar sinnar eða þjóðernis. En menn mega ekki láta þetta villa sér sýn. Í fyrsta lagi er engin ástæða til að ætla að þeir sem hingað koma eigi einskis úrkosta þótt þeim sé neitað hér um dvalarleyfi. Í öðru lagi er þjóðin ekki aflögufær um atvinnu handa aðkomumönnum, í þriðja lagi er þjóðinni enginn fengur í þessum „landnemum“. … Niðurjöfnunarskráin fyrir Reykjavík, sem er nýkomin út sýnir glögt, að ýmsir útlendingar eru þegar búnir að taka sér bólfestu hér, menn sem stunda hér atvinnu og greiða útsvar. Maður verður forviða að sjá öll hin útlendu nöfn sem koma fyrir í skránni. Hér skal aðeins gefið lítið sýnishorn af þessum nöfnum: Jozorski, Hoiriis, Halblaub, Fahning, Dehnow, Dettloff, Blumenstein, Bloik, Hirst, Aminorr, Schlither. Þetta eru aðeins nokkur nöfn tekin á víð og dreif í skránni. Erlendu nöfnin eru miklu fleiri. Allir greiða þessir menn lítið útsvar en ekki verður sagt hvort það er nokkur mælikvarði á eignir þeirra eða afkomu.“ *6
Með hendur í vösum
Leiðarahöfundur Vísis er fljótur að gera aðkomumönnum upp annarlegan tilgang og svik: „Þess eru ekki fá dæmi hér að þessir útlendingar hafa trygt sér landsvist hér með því að gerast eiginmenn innlendra kvenna. Ganga sumir þeirra hér alt árið með hendur í vösum og lifa á vinnu konu sinnar. Við þeim hefir ekki verið hróflað þótt vafasamt sé hvort slíkt eigi að tryggja þessum mönnum ævilangt dvalarleyfi. Gætu útlendar landeyður með því móti sest hér að í stórhópum. Eftirlit hér með útlendingum virðist ekki vera nærri nógu strangt. Þess verður eindregið að krefjast af yfirvöldum landsins, að dreggjum útlends landshornalýðs sé ekki veitt hér landsvist. Atvinnan í landinu verður að vera fyrir landsmenn sjálfa.“ *7
Þannig var alið á ótta landsmanna: hingað voru komnir óheiðarlegir karlmenn sem settust upp á landsmenn, blekktu konur og rændu heimamenn lífsviðurværi sínu. Í heimóttarlegum hugarheimi beindist óvildin að stökum hópi aðkomufólksins: gyðingum, en um langan aldur var óvild gegn þeim kynstofni búin að grafa um sig í hugmyndaheimi landsmanna. Víða um lönd voru arfbótasinnar háværir og hugmyndir þeirra féllu víða í frjóa jörð: í Læknablaðinu var síðla árs 1933 birt frétt um lofsverðar arfbætur í Þýskalandi þar sem ræktað væri germanskt kyn til að „losa sig við gyðinga og aðra kynflokka, sem þeir telja lakari.“ *8
Andúð á gyðingum kom víða fram í opinberri umræðu og var ekki einskorðuð við fylgismenn Flokks þjóðernissinna eins og sjá má í leiðara Morgunblaðsins í október 1934: „En hafa þá Gyðingarnir í Þýskalandi ekkert unnið til saka? Er það bara „kvalaþorsti nazistanna“, sem kemur þeim til að svala sjer á alsaklausum mönnum? Það mætti mikið vera, ef heil þjóð fyltist slíku hatri algerlega tilefnislaust. Sannleikurinn er sá, að Gyðingarnir í Þýskalandi hjeldu saman og mynduðu öfluga hagsmunaklíku, ríki í ríkinu. Þótt þeir væri aðeins örlítið brot af þýsku þjóðinni, höfðu þeir komið ár sinni svo fyrir borð, að þeirra menn voru í æðstu stöðum. Þjóðverjar litu á Gyðingana eins og aðskotadýr, nokkurskonar „setulið“, sem hafði lag á að ota sínum tota altaf og alstaðar þar sem feitt var á stykkinu.“ *9
Sérstakar aðstæður
Þegar reglugerð var loks sett við lögin um útlendingaeftirlit vorið 1937 komst lag á skipulagðar aðgerðir embættismanna varðandi landvistarleyfi og þá fór að fjölga neitunum við umsóknum um landvist sem þá fór fjölgandi. Aðstæður gyðinga voru þá orðnar alvarlegar og þeir teknir að flýja land í tugum þúsunda til Frakklands, Bretlands, Bandaríkjanna, landa Suður-Ameríku og til Palestínu.
Fréttir af ástandinu birtust í reykvískum blöðum: „Gyðingaofsóknum í Þýskalandi er haldið áfram af enn meiri harðneskju en áður,“ segir í Vísi þann 16. júní 1938: „Gyðingar voru handteknir í gær í hundraðatali í ýmsum hlutum Berlínarborgar. Hafa borist fregnir um það, að stjórnin hafi fyrirskipað að herða sóknina gegn Gyðingum á ýmsa lund. Hefir þetta vakið talsverðar æsingar í sumum hlutum Berlínarborgar, einkum í norðurhluta borgarinnar, í hverfum þeim, þar sem fátækir Gyðingar búa. Sjónarvottar skýra frá því, að árásir hafi verið gerðar á fjölda Gyðinga í gærkveldi. Þeir hafi verið dregnir út úr húsum sínum og búðum og sárt leiknir. Í sumum tilfellum var Gyðingum hent út um glugga. Á sölubúðir þeirra voru málaðar aðvaranir til manna um að skifta ekki við Gyðinga. … Í miðhluta Berlínar sáust í gær í fyrsta sinni bekkir, sem á var málað: Aðeins fyrir Gyðinga.“ *10

Samhuga aðgerðir
Þegar umsóknir taka berast íslenskum ráðamönnum og á ræðismannsskrifstofur Dana víða um Evrópu frá gyðingum og öðrum sem telja sig búa við ógn, þá var mönnum einfaldast að fylgja settum reglum og hafna þeim sem flestum: „… aðalreglan á að vera sú, að útlendingar fái alls ekki leyfi til að setjast hér að, nema alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi,“ segir dómsmálaráðherra til lögreglustjórans í Reykjavík 8. ágúst 1938.
Á síðari tímum er gjarna gripið til þess ráðs að kenna þessar aðgerðir dómsmálaráðherranum Hermanni Jónassyni. Andi laganna frá 1937 var ekki að kenna þingmönnum sem samþykktu þau, flokkarnir sem stóðu að stjórninni báru enga ábyrgð, né heldur var samhljóða afstöðu allra pólitískra fylkinga í landinu um að kenna. Ríkjandi andi í samfélaginu gat af sér hina opinberu afstöðu íslenskra stjórnvalda og almennings. Nei, allt var þetta einum manni að kenna.
Stefna stjórnarinnar byggði á samstöðu. Í skjóli almenningsálits gekk hún fram: árið 1938 var með vissu hafnað umsóknum 67 einstaklinga um dvalarleyfi á Íslandi, flestir þeirra voru gyðingar, karlar og konur á ýmsum aldri og börn. Úr landi var á því ári vísað úr landi minnst fimm einstaklingum, landflótta gyðingum. Þar af voru tvö ung börn.
Þá sök bar ekki einn maður heldur allt valdakerfið. Og að baki þeim aðgerðum var landlægur útlendingaótti, rasísk þjóðremba og gyðingahatur.
Evian-ráðstefnan
Sumarið 1938 var kölluð saman alþjóðleg ráðstefna í Evian að frumkvæði Roosevelt, forseta Bandaríkjanna. Til hennar komu fulltrúar 31 ríkis.
Árangur af starfi hennar var lítill. Nokkrar þjóðir buðust til að taka á móti flóttafólki frá Evrópu. Uppi voru hugmyndir um að flytja þúsundir manna til fjarlægra staða, nýlendur Breta í Afríku, landnámssvæði Suður-Ameríku voru nefnd, en niðurstaðan var dapurleg. Bretar höfðu til þessa tekið á móti miklum skara flóttamanna og buðust til að bæta við. Bandaríkjastjórn lýsti sig fúsa til að taka á móti 200 þúsund innflytjendum en þeim fjölda varð að dreifa til lengri tíma. Þar voru þegar langir biðlistar og sumt af því flóttafólki sem komið var til Íslands var á þeim og fékk landvistarleyfi tímabundið á Íslandi til að flytjast síðar vestur um haf. Þegar kom fram á árið 1943 kom í ljós að innanríkisráðuneytið bandaríska hafði með skipulegum hætti unnið gegn því að veita landflótta gyðingum landvist. Minna varð því úr fyrirheitum.
Afstaða ríkisstjórna Norðurlanda var söm sem fyrr þó í öllum löndunum væru að starfi félög og einstaklingar sem unnu skipulega að því að koma flóttamönnum í skjól, oft í bága við útlendingaeftirlit og lögreglu.
Spurning Rosenbergs, hugmyndasmiðs nasista og formanns Norrænafélagsins í Þýskalandi, sem Morgunblaðið birti um mitt sumar 1938 var fullgild: „Innrás Gyðinga í Evrópu er nú að verða lokið og dagar þeirra þegar taldir. Þýskaland mun halda áfram á sömu braut og það hefir gengið nú síðari ár í Gyðingamálunum. Sama þróunin hlýtur að verða í Póllandi, Ungverjalandi og öðrum löndum Evrópu, þar sem Gyðingar eru búsettir. Hver vill taka að sjer að vernda 8 miljónir Gyðinga?“ *11
Í lok árs
Í desember, skömmu fyrir jól, gat að líta svohljóðandi skrif í leiðara Vísis: „Þótt eðlilegt sé að íslenskir borgarar hafi samúð með Gyðingunum í Þýskalandi í þeim hörmungum sem að þeim steðja, þá er þó hver sjálfum sér næstur og íslenska þjóðin verður fyrst að sjá farborða sínum eigin börnum, áður en hún tekur á sig framfærslu erlendra flóttamanna. Og þjóðin hefir ennfremur þá helgu skyldu, að vernda hinn íslenska kynstofn, hið norræna og keltneska blóð, svo að ekki blandist honum sterkur erlendur stofn sem þurkað getur út hin norrænu ættarmerki eftir fáa mannsaldra. Það hlýtur að verða ófrávíkjanleg krafa hvers einasta Íslendings, að ríkisstjórnin sjái svo um að settar verði rammar skorður við innflutningi útlendinga, sem nú leita dvalar um gervalla Evrópu. Þjóðin er einhuga um slíka ákvörðun.“ *12
Hin helga skylda
Árið 1938 jókst straumur ferðamanna til Íslands. Komu 7768 útlendingar til landsins, flestir með skemmtiferðaskipum sem hingað lögðu leið sína, 1592 með öðrum skipum. Var 105 þeirra veitt dvalarleyfi til skamms tíma. *13
Hjálparsamtök gyðinga í Þýskalandi – Hilfsverein der Juden – sendu frá sér dreifibréf í febrúar 1939 þar sem fjallað var um aðstæður á Íslandi fyrir flóttamenn af gyðingaættum. Samtökin aðstoðuðu landflótta gyðinga með styrkjum víðsvegar um álfuna á leið þeirra til nýrra heimkynna, bæði vegna gistingar, uppihalds og farmiða með skipum og járnbrautum. Á þessum tíma var farið að þrengja verulega að starfsemi þeirra í Þýskalandi og er leið á árið voru þau lögð niður.
Heimildarmaður þeirra á Íslandi var Hans Mann eða Chanoch ben Selig eins og hann hét. Hans kom til Íslands með móður sína, Helena Mann, í október 1936 í kjölfar systur sinnar og mágs, Rottberger-hjónanna, sem vísað var úr landi með tvö ung börn 1938. Af heilsufarsástæðum Helenu fengu þau að vera um kyrrt á Íslandi.
Helena var frá borginni Njtra í Ungverjalandi en hafði búið í Berlín frá 1913. Þau höfðu bæði verið svipt ríkisfangi, jafnvel þó hún teldi sig aldrei hafa haft þar ríkisborgararétt, sagði hún í viðtölum við útlendingaeftirlitið.
Í skýrslu sinni til Hjálparsamtaka gyðinga í ársbyrjun 1939 lýsir Hans nokkuð aðstæðum þeirra í Reykjavík. Fyrst greinir hann frá afdrifum mágs síns og systur en skrifar síðan: „Við viljum helst komast burt frá þessu óvinsamlega og hlaðkalda heimskautalandi ef við mögulega getum. Embættismenn finna upp á öllum hugsanlegum vandkvæðum til að koma í veg fyrir búsetu útlendinga. Útlendingur fær því aðeins landvistarleysi hafi hann vottorð frá atvinnurekanda sem staðfestir að viðkomandi sé sérhæfður starfskraftur sem ekki hirði vinnu frá landsmönnum. Atvinnuleysi og armóður neyða stjórnvöld til þess.“ *14
Stjórnvöld á Íslandi voru þess vitandi hvaða aðstæður voru búnar flóttafólki álfunnar. Málgagn Framsóknarmanna birti í mars fréttir eftir danska íhaldsblaðinu Berlingske Tidende: „100 þús. Gyðingar hafa flutt búferlum frá Þýzkalandi á tímabilinu 11. nóv. til 28. febr. í vetur. Svarar það til þess að 900 Gyðingar hafi farið daglega úr landinu. Samkvæmt sömu heimildum höfðu 240 þús. Gyðingar flutt burt úr Þýzkalandi, Austurríki og Sudetahéruðunum frá því í febrúar 1933 og þangað til í nóvember 1938. Alls hafa því 340 þús. Gyðingar flutt frá Stór-Þýzkalandi síðan nazistar komust til valda.“ *15
Þjóðstjórn
Um þær mundir var að rofa til í stjórnmálalífi þjóðarinnar. Í nær ár höfðu forystumenn svokallaðra lýðræðisflokka litið til þess möguleika að setja á þjóðstjórn án þátttöku Sósíalistaflokksins. Komst hún á legg skömmu fyrir páska þá um vorið og hóf feril sinn með myndarlegri gengisfellingu.
Ekki urðu neinar breytingar á stefnu stjórnvalda varðandi flóttafólk við ríkisstjórnarskipti: Ekki varð lát á frekari umsóknum flóttamanna til dómsmálaráðuneytisins: samkvæmt gögnum var umsóknum frá 75 einstaklingum hafnað til loka árs 1939, en telja má víst að þeir hafi verið fleiri. Fæst ekki um það vissa fyrr en skjalasöfn ræðismanna norrænu ríkisstjórnanna verða könnuð. Þrettán flóttamenn fengu dvalarleyfi.
Í maí var haldinn samstarfsfundur norrænna ríkisstjórna til að samræma reglur milli landanna um afgreiðslu og þær hertar frekar en hitt.
Þegar ófriðurinn hófst með stríðsyfirlýsingum Breta og Frakka á hendur Þjóðverjum í byrjun september dró snögglega úr umsóknum, þá var loku skotið fyrir flóttaleið hingað norður.
Afdrif þeirra sem hingað sóttu
Hvað varð um fólkið sem sótti um hæli á Íslandi á þessum tíma sem hér er greint frá?
Fátt af því komst af – flest hvarf úr skjölum sem nú eru aðgengileg þó mögulegt sé að tíma og vinnu þurfi til að kanna afdrif hvers og eins. Sumir féllu fyrir eigin hendi í þýskum borgum þegar hert var á brottflutningi gyðinga austur á bóginn 1942-143. Örlög margra eru kunn: Auschwitz, Treblinka, Minsk, dauðabúðir gleyptu þetta fólk þar sem það var myrt með skipulögðum hætti. Að baki hverri höfnun starfsmanna íslenska stjórnarráðsins býr harmsaga.
Lærðu íslenskir stjórnmálamenn og embættismenn eitthvað af reynslu þessara ára? Víst veittu þeir norsku flóttafólki hæli eftir innrás Þjóðverja á Noreg í apríl 1940. Hér var þegnum danska konungsríkisins vært allt til þess að lýðveldi var stofnað á Íslandi 1944, en þá var þeim sem hér höfðu lifað og starfað veittur sex mánaða umþóttunartími og eftir það var staða þeirra í landinu háð dvalarleyfum eins og allra hinna sem hingað komust frá meginlandi álfunnar.
Íslenska lýðveldið var sem fyrr land sem var lokað innflytjendum að mestu leyti. Þeir sem áttu hér hæli sóttu margir hverjir um ríkisborgararétt ár eftir ár og þegar hann var loks veittur var þeim gert að gefa upp skírnarheiti sitt – taka upp nýtt nafn að íslenskum nafnvenjum. Þjóðverjar sem hér áttu fjölskyldur, en voru handteknir við hernám landins, máttu um nokkurra ára skeið eftir stríðslok sæta nauðungardvöl í sínu gamla föðurlandi þó sumum auðnaðist um síðar að sameinast fjölskyldum sínum á Íslandi. Er af þeim málum löng saga og ljót.
Og síðan…
Útlendingaeftirlit stjórnvalda hélt áfram störfum sínum samkvæmt fyrri siðum. Opinber gögn um umsóknir og dvalarleyfi frá stríðslokum eru enn ókönnuð í skjalasöfnum íslenskra stjórnvalda en hætt er við að þar liggi enn frekari vitnisburðir um einangrunarstefnu íslenskra stjórnvalda og stjórnmálaflokka. Eftir að þjóðin taldi sig sjálfstæða jókst enn sá sjálfsskilningur landsmanna að þjóðin væri einstakt safn einstaklinga, aðstæður í samfélagi okkar væru sérstakar og yrðu ekki bættar með innflutningi fólks af öðrum þjóðernum. Í opinskáum yfirlýsingum má allt til okkar daga lesa fjálglegar og kjánalegar hugmyndir um þjóðareinkenni hins norræna stofns, mikilleik þessa kotríkis hvað varðar andlegt og líkamlegt atgervi. Þrátt fyrir að þjóðin hafi um áratugaskeið lagst í ferðalög í fjarlægar lendur, sótt menntun til fjölmennari þjóða og stæri sig hátt og í hljóði af menntun og gáfum er henni fyrirmunað að knýja fram á sviði stjórnsýslu sinnar þá breytingu sem nauðsynleg er til að opna landið þeim sem námu hér sveitir og strendur í upphafi landnáms: flóttafólki sem við erum öll komin af.
Heimildir:
*1 Nýja dagblaðið 15.október 1936.
Vísir 26. apríl 1938.
*2 Þjóðskjalasafn Íslands: Dóms og kirkjumálaráðuneytið. Dagbók 15. Nr. 331.
*3 Einar Heimisson sagnfræðingur vann 1992 fyrstu skipulagða rannsókn á stöðu flóttamanna á Íslandi á fjórða áratugnum og byggði á henni greinar, útvarpsþætti. Sjá doktorsritgerð hans: Die Asylstuation in Island in den dreiẞiger Jahren in Vergleich mit anderen nordischen Länderen. Landsbókasafn: 323.651 og 949.105.
*4 Morgunblaðið: 8. 3. 1933.
*5 Morgunblaðið 17. 3. 1938.
*6 Vísir 21. 5. 1938.
*7 Vísir 21. 5. 1938.
*8 Læknablaðið 9-12. Tbl., 19. Árg. Bls. 167.
*9 Morgunblaðið 25. 10. 1934
*10 Vísir 16. 6. 1938.
*11 Morgunblaðið 9. 7. 1938.
*12 Vísir 11. 12. 1938.
*13 Morgunblaðið 12. 1. 1939
*14 Vilhjálmur Ö. Vilhjálmsson: Medaljens bagside. 2005. Bls. 9-10.
Einar Heimisson: 1992. Bls. 236-8.
*15 Tíminn 21. 3. 1939.
Sjá einnig: Örlög Rottberger-fjölskyldunnar.
The post Íslendingar sendu flóttamenn í opinn dauðann appeared first on Fréttatíminn.