Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Martröð á morgnanna

$
0
0

Kæra Magga Pála, það hefur gengið illa hjá okkur að komast í rútínu aftur eftir jólafríið. Ég er ein með níu ára gutta og fjögurra ára stelpu og hver einasti morgunn eftir hátíðar er búinn að vera martröð, sérstaklega með stelpuna en eftir frí hefur hún ekki viljað fara í leikskólann, grátið og látið illa alveg frá því að við vöknum. Ég reyni að hugga hana en það gengur ekkert og loks fer frá henni grátandi og hef komið alltof seint í vinnuna alla vikuna. Fóstrurnar segja mér að hún sé ánægð í leikskólanum um leið og ég er farin en þetta hefur aldrei verið svona áður og það er svo erfitt að fara frá henni grátandi. Áttu einhver ráð eða svör fyrir mig? Með kveðju, Ásta.

Heil og sæl, kæra Ásta og hjartans þakkir fyrir bréfið þitt. Þú ert ekki ein um þann vanda að skapa aftur rútínu eftir löng frí, það er einfaldlega verkefni sem bíður Fjölskyldunnar ehf. reglubundið á ári hverju.

Hafa svefninn í lagi

Svefninn má leiðrétta á skömmum tíma með að koma sér strax á fætur að morgni á réttum fótaferðartíma fjölskyldunnar og harka af sér daginn þannig að enginn taki sér aukablund umfram það sem venjulega er gert. Síðan þarf að koma öllum tímanlega í háttinn og samþykkja engar leifar af hátíðaóreglunni eins og sjónvarpsáhorf frameftir kvöldi. Þetta er erfitt fyrstu þrjá til fjóra daga og því er mikilvægt að ríghalda í svefnregluna þegar helgin heldur innreið sína, jafnvel meira en venjulega til að halda viðsnúningnum.

Undirbúningur kvöldið áður

Þú skalt líka létta þér og börnunum þínum lífið með að undirbúa hvern morgun kvöldinu áður. Það er gríðarlegur léttir fyrir börnin að fötin þeirra og skólatöskur séu tilbúin og útifötin klár við útganginn. Svo má setja morgunverðardiska og morgunkorn á borðið og gera kaffigerðaráhaldið klárt þannig að aðeins þurfi að ýta á einn takka í svefnrofunum. Allt þetta sparar tíma og getur meira að segja verið tilhlökkunarefni að hefja daginn með spennandi morgunverði.

Rjúfa morgunóregluna

Dóttir þín þarf síðan hjálp til að brjótast út úr morgunóánægjunni því hegðunin sem þú lýsir, getur auðveldlega orðið að vítahring sem er henni sjálfri verst en er líka afar truflandi fyrir stóra drenginn þinn sem þarf líka tíma og athygli frá þér í upphafi dagsins. Byrjunin er að koma dóttur þinni á fætur án þess að hún komist af stað í mótmælum og gráti og þú skalt ræða við hana fyrirfram að þú viljir hjálpa henni til að eiga góðan morgun. Hún hefur aldur og þroska til að koma að umræðu og ákvörðun um að prófa tilteknar leiðir eins og að ef henni takist að komast út úr dyrunum með gleði, fái hún smáverðlaun síðdegis eins og að spila uppáhaldsspilið við mömmu, velja kvöldmatinn, horfa aðeins á sjónvarpið eða hvað annað sem er eftirsóknarvert. Slík jákvæð styrking er mjög áhrifamikil og þegar árangri er náð, fýkur þörfin fyrir hana út í buskann. Þú getur líka aðstoðað hana með að bjóða henni að velja morgunmatinn eða að hún horfi á barnaefni á meðan þú hreinlega tínir á hana leppana og ef hárgreiðslan er átakaefni, skaltu bara sleppa henni meðan þið byggið upp góða rútínu.

Stutt kveðjustund í leikskólanum

Síðan er að koma kveðjustundinni ykkar í leikskólanum aftur í gott horf. Það er einfalt fyrst að hún hefur alltaf verið ánægð þar og gráturinn því aðeins hluti af því að halda í mömmu – eins og allir vilja gera. Talaðu hiklaust við starfsfólkið sem mun vinna með þér og gefa þér ráð en ég minni þig á að að mótmæli og grátur í forstofunni lengir bara erfiða kveðjustund fyrir alla aðila og getur ýkt upp vanlíðan sem var í upphafi bara morgunþreyta og smástjórnun á mömmunni. Oftast dugar að biðja leikskólakennarann að taka barnið í fangið og kveðja svo fljótt og fara út án þess að líta til baka en gefa svo barninu góðan tíma þegar þú kemur að sækja.

Gangi þér virkilega vel og hlýjar kveðjur,

Magga Pála

The post Martröð á morgnanna appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652