Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Aldís stendur tæpt

$
0
0

Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður fíkniefnalögreglunnar, stendur tæpt eftir að tveir undirmenn hennar hafa verið teknir til rannsóknar vegna spillingarmála. Báðum hefur verið vikið frá tímabundið þar til niðurstaða fæst.
Karl Steinar Valsson, fyrrverandi yfirmaður fíkniefnalögreglunnar, skilaði yfirmönnum í lögreglunni greinargerð í fyrra þar sem kemur fram að engin ástæða sé til að vantreysta lögreglufulltrúanum sem tekinn var til formlegrar rannsóknar hjá héraðssaksóknara í gær.
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir stöðu fíkniefnalögreglunnar grafalvarlega. Hann segist hafa átt fund með Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra um hvernig tekið verði á málinu. „Ég ætla ekki að tjá mig um einstaka starfsmenn en reikna með að Sigríður Björk geri það,“ sagði hann í samtali við Fréttatímann.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, vildi ekki tjá sig um málið.

Líklegt þykir að Aldís verði færð til í starfi en samkvæmt heimildum Fréttatímans voru lögreglufulltrúinn og Aldís nánir samstarfsmenn. Ekki er þó einhugur innan yfirstjórnar lögreglunnar um málið. Sigríður Björk og Alda Hrönn Jóhannsdóttur eru sagðar vilja færa deildarstjórann til en Jón H. B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri og Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn ekki.

Karl Steinar hvítþvoði lögreglufulltrúann

Átta núverandi og fyrrverandi lögreglumenn úr fíkniefnadeild fengu fund með Ásgeiri Karlssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá ríkislögreglustjóra, í fyrravor og lýstu áhyggjum sínum af starfsháttum lögreglufulltrúans, sem er rúmlega fertugur og hefur starfað hjá embættinu áratugum saman. Það varð til þess að málið var sent til ríkissaksóknara.
Þá hafði óánægjan fengið að dafna lengi innan embættisins án þess að tekið væri á henni með fullnægjandi hætti. Fíkniefnalögreglunni var skipt upp fyrir nokkrum árum, í upplýsinga- og rannsóknardeild. Viðkomandi lögreglufulltrúi starfaði á báðum stöðum og var því í lykilstöðu þegar kom að því að ákveða hvaða mál væru tekin til rannsóknar.
Ríkislögreglustjóri sagði á fimmtudag að yfirmönnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu væri skylt að greina fjölmiðlum frá því hvað þeir gerðu í kjölfar þess að Karl Steinar Valsson, fyrrverandi yfirmaður fíkniefnadeildarinnar, skilaði til þeirra greinargerð árið 2011 vegna ásakana á hendur lögreglufulltrúanum. „Í þessari greinargerð kemst Karl Steinar meðal annars að þeirri niðurstöðu að það sé ekkert sem renni stoðum undir sögusagnir um að lögreglufulltrúi sem um ræðir fari ekki að reglum og fyrirmælum og það sé alls engin ástæða til þess að vantreysta honum í því starfi sem hann gegndi þá og til skamms tíma,“ segir Jón H. B. Snorrason. Hann sagði auk þess við Fréttatímann að ástandið innan lögreglunnar sé vissulega alvarlegt og það sé og verði vonandi einsdæmi að tveir lögreglumenn úr sömu deildinni séu til rannsóknar vegna spillingar.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir
tka@frettatiminn.is

 

The post Aldís stendur tæpt appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652