Ég er staddur Panama í Mið-Ameríku, bý í gamla bænum, Casco Viejo, og vinn við hliðina á Panamaskurðinum í Clayton. Ég er að vinna fyrir Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og vinn á svæðisskrifstofu sem þjónar Rómönsku-Ameríku og Karíbahafi sem er í Panama. Á skrifstofunni sé ég um að reka þjónustumiðstöð. Hluti af því er fjáröflun meðal einstaklinga, fjáröflun meðal fyrirtækja, hvatning um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og annað slíkt.
Veit ekki hvert stefnan verður tekin héðan né hvað ég mun endast en er búinn að vera hér í eitt og hálft ár og gæti verið í þrjú og hálft í viðbót ef ég verð allan tímann sem ég get. Næsta stopp verður vonandi New York eða Genf.
Ég sakna nánast bara fólksins míns. Fjölskyldu og vina – sakna fólksins sem mér þykir vænt um. Sakna þess sérstaklega að vera langt frá hugleiðsluhópnum mínum. En fyrir utan það sakna ég lítils. Ef ég á að segja eitthvað þá sakna ég kannski grófs brauðs. Það er erfitt að finna gott fjögurra korna brauð hér.
Ég er feginn að vera laus við íslenska samfélagsumræðu. Upplifi einhvernveginn alla reiða og bitra á einhvern undraverðan hátt. Það er eitthvað vægðarleysi bæði í umræðunni og í stjórnmálunum. Það er eins og það megi segja allt og gera allt. Feginn að vera laus við það.
Ef ég hefði einhver áhrif og gæti breytt einhverju á Íslandi þá mundi ég vilja að það væri meira úrval af uppvöskunar-svömpum og að fólk væri almennt opnara fyrir því að brugga sér íste, jafnvel þó það sé kalt.
Mér finnst mjög gaman að búa í fjölbreyttu samfélagi með fólki af mismunandi uppruna. Bæði á það við um landið sem ég bý í en ekki síður vinnustaðinn. Og ég held að það sé eitthvað sem við gætum haft í huga að við verðum áfram Íslendingar, þótt við blöndumst öðrum. Ég finn að minn menningarlegi bakgrunnur er mjög sterkur og mér þykir mjög vænt um hann en mikið óskaplega finnst mér gaman að kynnast nýjum siðum og nýrri sýn.
Það hefur verið aðeins erfitt að rækta tengslin heim út af tímamuninum vestur. Þannig að þegar ég kem heim á kvöldin eru allri farnir að sofa á Íslandi. Hef verið duglegur að fara heim.
Það væri frábært ef maður gæti tekið flugið beint heim. Er ekki kominn tími til að íslensk flugfélög byrji að fljúga beint til Suður-Ameríku?
Þegar maður er svona langt í burtu þá teygist á ýmsum tengslum og sum bönd slitna. Kunningjar og fólk sem er ekki alveg í innsta vinahring en mér þykir samt vænt um. Fólkið í hverfinu, í vinnunni, úr HÍ, úr MH og Hlíðaskóla.
Það sem hinsvegar kemur mér á óvart er að ég er orðinn meiri Valsari en áður. Finn fyrir mikilli löngun til þess að kaupa mér búning og merkta bolta og hef reynt að gera það án árangurs. Svona hefur suður-ameríski hitinn skrýtin áhrif á mann!
The post Póstkort frá Panama: Teygist á tengslum og sum slitna appeared first on Fréttatíminn.