Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Þetta bara mistókst

$
0
0

Hafnarfjarðarbær ætlar að draga sig að stórum hluta úr ferðaþjónustu fatlaðra sem Strætó bs hefur með höndum. Kostnaður bæjarins jókst um rúmar 100 milljónir milli áranna 2014 og 2016, eftir að Strætó tók við akstrinum. Í Kópavogi sem er talsvert stærra bæjarfélag kostaði þessi þjónusta um 73 milljónir árið 2015 en Kópavogsbær er talsvert stærri en Hafnarfjörður.

Samstarfið stóðst ekki væntingar

„Strætó bs er að selja sína þjónustu mjög dýru verði og Hafnarfjörður er að kikna undan því. Það er bara spurning hversu lengi þeir halda út,“ segir Bergur Þorri Benjamínsson, varaformaður Sjálfsbjargar.
Og bærinn er þegar búinn að ákveða að draga sig út að hluta til. „Það er alveg ljóst að við hefðum aldrei farið út í þetta ef við hefðum séð þetta fyrir,“ segir Haraldur Líndal, bæjarstjóri í Hafnarfirði, en unnið hefur verið að því í samstarfi við SSH, samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, að endurskoða reksturinn og ná niður kostnaði, þó án þess að skerða þjónustuna.
Árið 2014 var kostnaður við akstur með fatlaða í bænum um 83 milljónir en árið 2015 var hann 183 milljónir. Því hefur verið ákveðið að taka um fjörutíu prósent þjónustunnar til baka og semja við leigubílstjóra hjá bænum um að sinna henni. Þjónustan, sem bærinn hyggst sinna, á þó ekki við fólk í hjólastólum eða þá sem hafa miklar sérþarfir.
Akstursþjónusta við fatlað fólk hefur batnað talsvert því hún sætti mikilli gagnrýni áður en samstarfið hófst: „Ég held að það sé óumdeilt að þetta stóðst ekki væntingar,“ segir Haraldur. „Það var lagt upp með lægri kostnað og betri þjónustu. Verðið hefur hækkað um meira en 100 prósent en þjónustan hefur ekki batnað sem því nemur.“

Hagkvæmnin fór í vaskinn

Bergur Þorri bendir á að sá sem keyrir fyrir Kópavog sé á gömlum bílum og ekki með sambærilegan öryggisbúnað og Strætó. Þjónustan sé líka ósveigjanleg og það þurfi lengri en tveggja tíma fyrirvara til að bóka ferðir. „En markmiðið var að auka hagkvæmni þjónustunnar og það er ekki hægt að horfa framhjá því að það hefur farið algerlega í vaskinn. Menn ætluðu að gera út færri bíla fyrir jafn marga en þeir eru að gera út allt að helmingi fleiri bíla. Sannleikurinn er sár en sveitarfélögin undirbjuggu þetta ekki. Það er fyrst núna sem Strætó er farinn að ná utan um þjónustuna en á öðrum dögum eru bílstjórar allt upp í klukkutíma of seinir.“
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir

Mynd: Rut Sigurðardóttir

The post Þetta bara mistókst appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652