Sautjánda ágúst 2012 braust lögreglan inn í íbúð í Grafarholti, til að kanna af hverju 46 ára Pólverji sem þar bjó hafði ekki svarað í síma undanfarna daga. Svarið mætti þeim í gættinni. Hann var hafði látist í íbúðinni en þar með lauk átakanlegri sögu Irenuszar Gluchowski sem var fréttaefni á Íslandi í kjölfar þess að hann missti báða fæturna.
Árið 2005 voru fleiri erlendir verkamenn við störf í landinu en nokkru sinni áður. Mikil bjartsýni var ríkjandi í þjóðfélaginu og fáa óraði fyrir því að efnahagskerfi þjóðarinnar myndi hrynja til grunna þremur árum síðar. Í apríl sama ár kom hingað til lands pólski verkamaðurinn Irenusz Gluchowski, til að vinna. Hann var myndarlegur, hraustur, tæplega fertugur og var að flýja atvinnuástandið heima fyrir. Hér var blússandi góðæri, atvinnuleysi lítið og fjöldi erlendra verkamanna í landinu hafði slegið öll met. Árið 2012 var hann fluttur í líkkistu aftur til Póllands, eftir að hafa gengið í gegnum hörmungar, sem enginn einn maður ætti að þurfa að þola.
Þegar lífið snerist við
Irenusz var vanur erfiðisvinnu, búinn að vinna um alla Evrópu sem farandverkamaður. Hann fékk vinnu við línulagnir hjá fyrirtækinu Jarðvélum og var við störf í Borgarfirði í júní 2005 þegar hann veiktist og lífið snerist við. Hann lýsti deginum örlagaríka ári síðar í samtali við Friðrik Þór Guðmundsson, blaðamann á Eflingarblaðinu: „Í lok júní komu notaðir gámar sem átti að nýta undir vinnubúðir. Gámarnir voru fullir af drasli, til dæmis flöskum, blöðum, spýtum og fleira. Ég og tveir aðrir starfsmenn vorum settir í að þrífa gámana og gera þá íbúðarhæfa. Við byrjuðum að koma matsalnum í stand, þar sem ég þreif meðal annars ísskáp sem innihélt gamlar matarleifar, Ég þreif líka aðra skápa og bakarofn.“
Meðan á þessu stóð hruflaði hann sig á höndum við störf, en ekki alvarlega og vafði límbandi um sárin til að stöðva blæðinguna.
Svartir útlimir
Þann 29. júní veiktist hann hastarlega í vinnunni og treysti sér ekki til að vinna meira. Verkstjórinn sagði honum að leggja sig í skólahúsinu þar sem vinnuhópurinn hélt til. Síðar um daginn var hann vakinn og sagt að verkstjórinn segði að hann ætti að fara heim til sín í Reykjavík. Samstarfsmenn hans komu honum heim, þar sem hann lagði sig.
„Ég vaknaði um sexleytið og varð skelfingu lostinn þegar ég sá að hendur mínar og fætur voru svartir, Þá gerði ég mér grein fyrir því að ég væri ekki bara með flensu,“ sagði Irenusz í viðtalinu.
Hafði enga fætur
Hann neytti síðustu kraftanna til að kalla til hjálp og var fluttur á spítala. Hann vaknaði ekki fyrr en tveimur mánuðum síðar. „Þegar ég komst aftur til meðvitundar sá ég að ég hafði enga fætur.“
En það var ekki það eina. Hann var heyrnarlaus á vinstra eyra, með hálfa heyrn á því hægra. Annað nýra hans var líka óvirkt.
Nágranninn sem hafði aðstoðað hann við að komast á sjúkrahúsið hafði fljótlega horfið á braut og starfsfólkið gat því ekki vitað nein deili á honum. Sjálfur var hann of máttlítill til að veita neinar upplýsingar. Haft var samband við ríkislögreglustjóra og ræðismann Póllands og smám saman tókst að bera kennsl á manninn, þó ekki fyrr en það hafði verið leitað í íbúð hans í Barmahlíð þar sem vegabréf hans fannst.
Réttindalaus allstaðar
Hinn pólski Irenusz reyndist ekki vera með nein félagsleg réttindi á Íslandi. Hann var að vísu kominn með kennitölu en ekki atvinnuleyfi. Stéttarfélagið Efling gekk í hans mál og krafði vinnuveitandann svara þar sem Irenusz hefði ekki verið með atvinnuleyfi. Þá gagnrýndi félagið að málið hefði ekki verið tilkynnt til lögreglu. Fyrirtækið viðurkenndi mistök en sagðist hafa talið að það væri nægilegt að hafa kennitölu.
Allar eftirlitsstofnanir brugðust í máli hans og það var í raun heilbrigðisstarfsfólki og íslenskum almenningi að þakka að hann var ekki sendur út á guð og gaddinn. Síðar kom í ljós að sjúkleiki hans stafaði af meningókokkasýkingu, sem veldur oft heilahimnubólgu en getur líka valdið losti sem lýsir sér með bólgu í útlimum. Veikindin þurfa því ekki og hafa mjög ósennilega haft með aðstæður á vinnustað að gera. Það varð þó ekki ljóst fyrr en löngu seinna, þar sem málið var ekki rannsakað frá byrjun eins og lög gera ráð fyrir.
Almenningur brást ekki
Torfi Geir Jónsson var í hópi aðstoðarfólks nunnureglu Móður Theresu, Kærleiksboðberanna, sem bauðst til að aðstoða Irenuzs eins og hægt væri. Þótt hann dytti milli þilja í kerfinu og væri í raun jafn réttlaus hér og í Póllandi, segir Torfi Geir að íslenskt samfélag hafi ekki brugðist honum heldur reynt að rétta út hjálparhönd. Þótt hann hafi ekki haft nein réttindi hér á landi vildi Landspítalinn ekki senda hann út í óvissuna í Póllandi og taldi það ekki læknisfræðilega verjandi. Stoðtækjafyrirtækið Össur færði honum gervifætur, Félag nýrnasjúkra safnaði fyrir nýjum tönnum fyrir hann og nunnureglan Kærleiksboðberar aðstoðaði hann eftir föngum. Irenusz hafði verið giftur um hríð í Póllandi, hjónabandið hafði endað með skilnaði en hann átti einn son. Starfsfólk Landspítalans efndi til samskota til að hægt væri að kaupa geislaspilara og föt fyrir hann og lagði líka drjúgt af mörkum til að fá son hans og fyrrverandi eiginkonu hans í heimsókn hingað til lands en þar lagði Rauði krossinn líka til fé.
Bitur og einmana
Sonur Irenuszar bjó hjá honum um hríð og studdi föður sinn með ráðum og dáð en feðgunum kom ekki alltaf nógu vel saman, og á endanum sneri sonurinn aftur til Póllands. Torfi Geir bendir á að Irenusz hafi verið mjög sterkur og einþykkur einstaklingur. Kannski þurfti hann á hörkunni að halda á flakki sínu um Evrópu í margskonar erfiðisvinnu. Harkan varð honum hinsvegar fjötur um fót sem örkumla einstæðingi, í félagsmálaíbúð í Grafarvogi. Hann varð bitur og erfiður í öllu samstarfi. Og það olli því að fólk gafst upp á að hjálpa honum.
„Honum gekk illa að vinna úr þessu áfalli og það var svo sem ekki erfitt að skilja það,“ segir Torfi Geir í viðtali við Fréttatímann. „Hann gat ekki talað um neitt annað en sjúkdóminn, fötlunina og stríð, raunverulegt og ímyndað við læknana og hélst illa á allri meðferð því hann fór ekki eftir leiðbeiningum. Þá vildi hann lítið nota gervifæturna og hafði því ekki gagn af þeim sem skyldi.”
Örkumla og afskiptur
„Irenusz A. Gluchowski er örkumla útlendingur á Íslandi; fótalaus fyrir neðan hné, með ónýt nýru, verulega heyrnarskertur, búinn að missa nánast allar tennur, býr aleinn og er aðstandendalaus á landinu, er aleinn og afskiptur. Hann fær örorkulífeyri og einhvern styrk en fé þetta fer að stórum hluta í leigu,“ segir Friðrik Þór Guðmundsson blaðamaður um hagi Irenenuzsar í bréfi sem hann skrifaði árið 2009 og sendi nokkrum völdum aðilum sem höfðu komið að máli hans eftir veikindin. Þar segist hann hafa knýjandi áhyggjur af líkamlegu og andlegu heilsufari „Pólverjans fótalausa“, en hann hafi fengið meðferð og þjónustu af mannúðarástæðum þótt ósannað sé að veikindi og örkuml hans hafi stafað af atvinnutengdum ástæðum og fyrirtækið sem hann vann hjá og veiktist hjá löngu gjaldþrota. Sjálfur sé hann búinn að gefast upp.
„Í heimsókn minni til hans í Blóðskilun LSH í síðustu viku varð mér mjög brugðið. Fyrir utan að vera með ofboðslega fráhrindandi svöðusár á læri annars fót-stubbsins þá sýnir hann augljós merki vaxandi andlegrar truflunar. Enginn sérfræðingur er ég, en mér sýnist augljóst að paranoja fari vaxandi og hann kvartaði mjög undan miklum verkjum í höfði og að hann gæti ekki einbeitt sér og ætti erfitt með rökhugsun og að tala yfirleitt. Mér sýnist satt að segja að hann sé á barmi sturlunar.“
Erfitt líf á bótum
Það fækkaði því í stuðningshópi Irenuszar, þeir menn sem helst höfðu reynt að aðstoða hann í sjálfboðavinnu gáfust báðir upp, sonur hans flutti til Póllands og fyrir mann með ekkert félagslegt net á Íslandi annað en það sem hið opinbera lét honum í té, var þetta fremur snautlegt líf. „Ég veit að það var líka oft þröngt í búi hjá honum,“ segir Torfi Geir en Irenusz dró fram lífið í félagsmálaíbúð á bótum. „Hann svalt svo sem ekki, en hann hafði ekki ráð á neinu nema því allra ódýrasta til að mynda í mat og drykk. það var aldrei neitt afgangs.“
Lögreglan braust inn
Einn dag í ágúst 2012 mætti hann ekki í blóðskilun á Landspítalanum eins og hann þurfti að gera þrisvar í viku. Hann svaraði heldur ekki í síma þegar reynt var að hringja til hans. Lögreglan var að lokum fengin til að brjótast inn í íbúðina. Þegar þangað var komið var hann dáinn í rúmi sínu.
Runólfur Pálsson, yfirlæknir nýrnalækninga, segir í samtali við Fréttatímann að það geti verið lífshættulegt fyrir sjúkling að mæta ítrekað ekki í blóðskilun. Hann staðfesti jafnframt að þetta hefði ekki verið í fyrsta sinn sem Irenusz lét hjá liða að mæta. „Það fannst engin ákveðin skýring á dauðsfallinu. Þetta var svokallaður skyndidauði,“ segir Runólfur. „Það átti enginn von á því að hann myndi deyja en það kom heldur ekki á óvart. Hann var farinn að veslast upp.“
Runólfur segir ennfremur að málið hafi vissulega verið hræðilegt, en margir hafi þó viljað hjálpa. Áfallið hafi þó verið meira en hann gat ráðið við. Að lifa við afleiðingarnar, einn og örkumlaður, í ókunnugu land án þess að geta gert sig skiljanlegan á tungumálinu, hafi einfaldlega reynst of erfitt.
Dýrasta verðið
Jóhannes Gunnarsson, fyrrverandi lækningaforstjóri Landspítalans, sagði í viðtali við Friðrik Þór Guðmundsson blaðamann árið 2006, þegar sá síðarnefndi vann að mastersverkefni um Irenusz og örlög hans á Íslandi, að hann hafi fengið eina dýrustu meðferð sem íslenska heilbrigðiskerfið hefur þurft að veita. Almenningur greiddi þó þann reikning, líkt og þann sem efnahagshrunið skildi eftir enda of mikil uppsveifla, of mikill hraði, of mikil gróðavon, til að menn gætu fylgt reglum og haft allar undirstöður í lagi.
Dýrasta verðið greiddi þó Irenusz sjálfur.
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir
tka@frettatiminn.is
Hér má sjá heimildarmynd sem Friðriks Þórs Guðmundssonar gerði“ 2006 sem verklega hlutann af meistarprófi sínu í blaðamennsku við Háskóla Íslands. Myndin er 28 mínútna löng.
The post Hvar er Irenusz? appeared first on Fréttatíminn.