Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all 7652 articles
Browse latest View live

Hvar er Irenusz?

$
0
0

Sautjánda ágúst 2012 braust lögreglan inn í íbúð í Grafarholti, til að kanna af hverju 46 ára Pólverji sem þar bjó hafði ekki svarað í síma undanfarna daga. Svarið mætti þeim í gættinni. Hann var hafði látist í íbúðinni en þar með lauk átakanlegri sögu Irenuszar Gluchowski sem var fréttaefni á Íslandi í kjölfar þess að hann missti báða fæturna.

Árið 2005 voru fleiri erlendir verkamenn við störf í landinu en nokkru sinni áður. Mikil bjartsýni var ríkjandi í þjóðfélaginu og fáa óraði fyrir því að efnahagskerfi þjóðarinnar myndi hrynja til grunna þremur árum síðar. Í apríl sama ár kom hingað til lands pólski verkamaðurinn Irenusz Gluchowski, til að vinna. Hann var myndarlegur, hraustur, tæplega fertugur og var að flýja atvinnuástandið heima fyrir. Hér var blússandi góðæri, atvinnuleysi lítið og fjöldi erlendra verkamanna í landinu hafði slegið öll met. Árið 2012 var hann fluttur í líkkistu aftur til Póllands, eftir að hafa gengið í gegnum hörmungar, sem enginn einn maður ætti að þurfa að þola.

Þegar lífið snerist við

Irenusz var vanur erfiðisvinnu, búinn að vinna um alla Evrópu sem farandverkamaður. Hann fékk vinnu við línulagnir hjá fyrirtækinu Jarðvélum og var við störf í Borgarfirði í júní 2005 þegar hann veiktist og lífið snerist við. Hann lýsti deginum örlagaríka ári síðar í samtali við Friðrik Þór Guðmundsson, blaðamann á Eflingarblaðinu: „Í lok júní komu notaðir gámar sem átti að nýta undir vinnubúðir. Gámarnir voru fullir af drasli, til dæmis flöskum, blöðum, spýtum og fleira. Ég og tveir aðrir starfsmenn vorum settir í að þrífa gámana og gera þá íbúðarhæfa. Við byrjuðum að koma matsalnum í stand, þar sem ég þreif meðal annars ísskáp sem innihélt gamlar matarleifar, Ég þreif líka aðra skápa og bakarofn.“
Meðan á þessu stóð hruflaði hann sig á höndum við störf, en ekki alvarlega og vafði límbandi um sárin til að stöðva blæðinguna.

Svartir útlimir

Þann 29. júní veiktist hann hastarlega í vinnunni og treysti sér ekki til að vinna meira. Verkstjórinn sagði honum að leggja sig í skólahúsinu þar sem vinnuhópurinn hélt til. Síðar um daginn var hann vakinn og sagt að verkstjórinn segði að hann ætti að fara heim til sín í Reykjavík. Samstarfsmenn hans komu honum heim, þar sem hann lagði sig.
„Ég vaknaði um sexleytið og varð skelfingu lostinn þegar ég sá að hendur mínar og fætur voru svartir, Þá gerði ég mér grein fyrir því að ég væri ekki bara með flensu,“ sagði Irenusz í viðtalinu.

Hafði enga fætur

Hann neytti síðustu kraftanna til að kalla til hjálp og var fluttur á spítala. Hann vaknaði ekki fyrr en tveimur mánuðum síðar. „Þegar ég komst aftur til meðvitundar sá ég að ég hafði enga fætur.“
En það var ekki það eina. Hann var heyrnarlaus á vinstra eyra, með hálfa heyrn á því hægra. Annað nýra hans var líka óvirkt.

Nágranninn sem hafði aðstoðað hann við að komast á sjúkrahúsið hafði fljótlega horfið á braut og starfsfólkið gat því ekki vitað nein deili á honum. Sjálfur var hann of máttlítill til að veita neinar upplýsingar. Haft var samband við ríkislögreglustjóra og ræðismann Póllands og smám saman tókst að bera kennsl á manninn, þó ekki fyrr en það hafði verið leitað í íbúð hans í Barmahlíð þar sem vegabréf hans fannst.

Réttindalaus allstaðar

Hinn pólski Irenusz reyndist ekki vera með nein félagsleg réttindi á Íslandi. Hann var að vísu kominn með kennitölu en ekki atvinnuleyfi. Stéttarfélagið Efling gekk í hans mál og krafði vinnuveitandann svara þar sem Irenusz hefði ekki verið með atvinnuleyfi. Þá gagnrýndi félagið að málið hefði ekki verið tilkynnt til lögreglu. Fyrirtækið viðurkenndi mistök en sagðist hafa talið að það væri nægilegt að hafa kennitölu.
Allar eftirlitsstofnanir brugðust í máli hans og það var í raun heilbrigðisstarfsfólki og íslenskum almenningi að þakka að hann var ekki sendur út á guð og gaddinn. Síðar kom í ljós að sjúkleiki hans stafaði af meningókokkasýkingu, sem veldur oft heilahimnubólgu en getur líka valdið losti sem lýsir sér með bólgu í útlimum. Veikindin þurfa því ekki og hafa mjög ósennilega haft með aðstæður á vinnustað að gera. Það varð þó ekki ljóst fyrr en löngu seinna, þar sem málið var ekki rannsakað frá byrjun eins og lög gera ráð fyrir.

Almenningur brást ekki

Torfi Geir Jónsson var í hópi aðstoðarfólks nunnureglu Móður Theresu, Kærleiksboðberanna, sem bauðst til að aðstoða Irenuzs eins og hægt væri. Þótt hann dytti milli þilja í kerfinu og væri í raun jafn réttlaus hér og í Póllandi, segir Torfi Geir að íslenskt samfélag hafi ekki brugðist honum heldur reynt að rétta út hjálparhönd. Þótt hann hafi ekki haft nein réttindi hér á landi vildi Landspítalinn ekki senda hann út í óvissuna í Póllandi og taldi það ekki læknisfræðilega verjandi. Stoðtækjafyrirtækið Össur færði honum gervifætur, Félag nýrnasjúkra safnaði fyrir nýjum tönnum fyrir hann og nunnureglan Kærleiksboðberar aðstoðaði hann eftir föngum. Irenusz hafði verið giftur um hríð í Póllandi, hjónabandið hafði endað með skilnaði en hann átti einn son. Starfsfólk Landspítalans efndi til samskota til að hægt væri að kaupa geislaspilara og föt fyrir hann og lagði líka drjúgt af mörkum til að fá son hans og fyrrverandi eiginkonu hans í heimsókn hingað til lands en þar lagði Rauði krossinn líka til fé.

Bitur og einmana

Sonur Irenuszar bjó hjá honum um hríð og studdi föður sinn með ráðum og dáð en feðgunum kom ekki alltaf nógu vel saman, og á endanum sneri sonurinn aftur til Póllands. Torfi Geir bendir á að Irenusz hafi verið mjög sterkur og einþykkur einstaklingur. Kannski þurfti hann á hörkunni að halda á flakki sínu um Evrópu í margskonar erfiðisvinnu. Harkan varð honum hinsvegar fjötur um fót sem örkumla einstæðingi, í félagsmálaíbúð í Grafarvogi. Hann varð bitur og erfiður í öllu samstarfi. Og það olli því að fólk gafst upp á að hjálpa honum.

„Honum gekk illa að vinna úr þessu áfalli og það var svo sem ekki erfitt að skilja það,“ segir Torfi Geir í viðtali við Fréttatímann. „Hann gat ekki talað um neitt annað en sjúkdóminn, fötlunina og stríð, raunverulegt og ímyndað við læknana og hélst illa á allri meðferð því hann fór ekki eftir leiðbeiningum. Þá vildi hann lítið nota gervifæturna og hafði því ekki gagn af þeim sem skyldi.”

Örkumla og afskiptur

„Irenusz A. Gluchowski er örkumla útlendingur á Íslandi; fótalaus fyrir neðan hné, með ónýt nýru, verulega heyrnarskertur, búinn að missa nánast allar tennur, býr aleinn og er aðstandendalaus á landinu, er aleinn og afskiptur. Hann fær örorkulífeyri og einhvern styrk en fé þetta fer að stórum hluta í leigu,“ segir Friðrik Þór Guðmundsson blaðamaður um hagi Irenenuzsar í bréfi sem hann skrifaði árið 2009 og sendi nokkrum völdum aðilum sem höfðu komið að máli hans eftir veikindin. Þar segist hann hafa knýjandi áhyggjur af líkamlegu og andlegu heilsufari „Pólverjans fótalausa“, en hann hafi fengið meðferð og þjónustu af mannúðarástæðum þótt ósannað sé að veikindi og örkuml hans hafi stafað af atvinnutengdum ástæðum og fyrirtækið sem hann vann hjá og veiktist hjá löngu gjaldþrota. Sjálfur sé hann búinn að gefast upp.
„Í heimsókn minni til hans í Blóðskilun LSH í síðustu viku varð mér mjög brugðið. Fyrir utan að vera með ofboðslega fráhrindandi svöðusár á læri annars fót-stubbsins þá sýnir hann augljós merki vaxandi andlegrar truflunar. Enginn sérfræðingur er ég, en mér sýnist augljóst að paranoja fari vaxandi og hann kvartaði mjög undan miklum verkjum í höfði og að hann gæti ekki einbeitt sér og ætti erfitt með rökhugsun og að tala yfirleitt. Mér sýnist satt að segja að hann sé á barmi sturlunar.“

Erfitt líf á bótum

Það fækkaði því í stuðningshópi Irenuszar, þeir menn sem helst höfðu reynt að aðstoða hann í sjálfboðavinnu gáfust báðir upp, sonur hans flutti til Póllands og fyrir mann með ekkert félagslegt net á Íslandi annað en það sem hið opinbera lét honum í té, var þetta fremur snautlegt líf. „Ég veit að það var líka oft þröngt í búi hjá honum,“ segir Torfi Geir en Irenusz dró fram lífið í félagsmálaíbúð á bótum. „Hann svalt svo sem ekki, en hann hafði ekki ráð á neinu nema því allra ódýrasta til að mynda í mat og drykk. það var aldrei neitt afgangs.“

Lögreglan braust inn

Einn dag í ágúst 2012 mætti hann ekki í blóðskilun á Landspítalanum eins og hann þurfti að gera þrisvar í viku. Hann svaraði heldur ekki í síma þegar reynt var að hringja til hans. Lögreglan var að lokum fengin til að brjótast inn í íbúðina. Þegar þangað var komið var hann dáinn í rúmi sínu.

Runólfur Pálsson, yfirlæknir nýrnalækninga, segir í samtali við Fréttatímann að það geti verið lífshættulegt fyrir sjúkling að mæta ítrekað ekki í blóðskilun. Hann staðfesti jafnframt að þetta hefði ekki verið í fyrsta sinn sem Irenusz lét hjá liða að mæta. „Það fannst engin ákveðin skýring á dauðsfallinu. Þetta var svokallaður skyndidauði,“ segir Runólfur. „Það átti enginn von á því að hann myndi deyja en það kom heldur ekki á óvart. Hann var farinn að veslast upp.“
Runólfur segir ennfremur að málið hafi vissulega verið hræðilegt, en margir hafi þó viljað hjálpa. Áfallið hafi þó verið meira en hann gat ráðið við. Að lifa við afleiðingarnar, einn og örkumlaður, í ókunnugu land án þess að geta gert sig skiljanlegan á tungumálinu, hafi einfaldlega reynst of erfitt.

Dýrasta verðið

Jóhannes Gunnarsson, fyrrverandi lækningaforstjóri Landspítalans, sagði í viðtali við Friðrik Þór Guðmundsson blaðamann árið 2006, þegar sá síðarnefndi vann að mastersverkefni um Irenusz og örlög hans á Íslandi, að hann hafi fengið eina dýrustu meðferð sem íslenska heilbrigðiskerfið hefur þurft að veita. Almenningur greiddi þó þann reikning, líkt og þann sem efnahagshrunið skildi eftir enda of mikil uppsveifla, of mikill hraði, of mikil gróðavon, til að menn gætu fylgt reglum og haft allar undirstöður í lagi.
Dýrasta verðið greiddi þó Irenusz sjálfur.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir
tka@frettatiminn.is

 

Hér má sjá heimildarmynd sem Friðriks Þórs Guðmundssonar gerði“ 2006 sem verklega hlutann af meistarprófi sínu í blaðamennsku við Háskóla Íslands. Myndin er 28 mínútna löng.

The post Hvar er Irenusz? appeared first on Fréttatíminn.


Kaktusinn sem dregur úr ofáti

$
0
0

Helga Lind Björgvinsdóttir er lærður pilates kennari og einkaþjálfari og rekur líkamsræktarfyrirtækið Balance sem er starfrækt í Sporthúsinu í Kópavogi þar sem hún kennir meðal annars Power Pilates og aðhaldsnámskeiðið Betra form. „Ég hef lifað og hrærst í íþróttum alla ævi og vissi alltaf að líkamsrækt væri mín hilla.“

Hjálpar fólki að breyta um lífsstíl

Helga Lind hefur rekið Balance í sex ár og hefur þar að auki kennt líkamsrækt til fjölda ára. Sem menntaður pilates kennari og einkaþjálfari leggur hún áherslu á að fólk breyti hægt og rólega um lífsstíl svo breytingarnar séu varanlegar. „Það er best að taka hlutina skref fyrir skref til að ná varanlegum árangri, í stað þess að leita að skyndilausnum,“ að mati Helgu Lindar.

Alltaf að kljást við sykurpúkann

„Þrátt fyrir að borða nóg af næringarríkum mat þá hef ég alltaf verið að kljást við naslþörf og áður en ég veit af er ég komin hálf inn í skáp að leita að einhverju að snarla án þess að vera svöng eða þurfa mat. Ég hef verið að kljást við sykurpúkann í mörg ár,“ segir Helga Lind.

24589 - _MG_7534_ Caralluma

Náð fullkominni stjórn á matarvenjum

Helga Lind ákvað að prófa Caralluma því það er náttúruleg lausn. „Ég var svo uppveðruð af árangrinum að ég fékk vinkonur mínar allar til að prófa líka. Naslþörfin hvarf algjörlega og ég náði betri stjórn á matarskömmtunum þar sem ég varð saddari fyrr og lengur,“ segir Helga Lind sem þakkar Caralluma fyrir að nú eigi hún afslappaðra samband við mat. „Þetta er kjörin leið til að ná stjórn á öllum matarvenjum og kveða niður sykurpúkann.“

CARCIANA CAMBOGIA er vinsælasta fæðubótarefnið við þyngdarstjórnun

Náttúrulegt þyngdartap með CARCIANA CAMBOGIA: Fæðubótarefnið er unnið úr ávextinum CARCIANA CAMBOGA sem vex í Suðaustur-Asíu, þar sem hann hefur verið notaður í mörg hundruð ár sem almenn fæða og sem lækningalyf. CARCIANA CAMBOGIA inniheldur virka efnið HCA eða hýdróxýsýru sem rannsóknir hafa leitt í ljós að dregur úr matarlyst, stöðvar fitumyndun, vekur upp seddutilfnningu og jafnar blóðsykur. CARCIANA CAMBOGIA eykur jafnframt serótónín en aukin serótónínvirkni í heilanum dregur úr matarlyst, bætir andlega líðan, og vinnur gegn streitu.

Unnið í samstarfi við Balsam.

The post Kaktusinn sem dregur úr ofáti appeared first on Fréttatíminn.

Allt frá snuði upp í staf!

$
0
0

Ferðaáætlun Ferðafélags Íslands 2016 er komin út, stútfull af ferðum af öllu tagi og fátt annað að gera en að draga fram gönguskóna, reima þá á sig vel og vandlega og halda út í yndislega íslenska náttúru og góða, fjölbreytta íslenska veðrið.

Í ferðaáætluninni má finna yfir 200 ferðir, allt frá malbikuðum göngustígum í þéttbýli yfir í grösugar sveitir og á hæstu tinda tignarlegustu fjalla landsins. Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi; ungbörn með snuð í barnavagnaviku Ferðafélags barnanna og eldri og heldri borgarar með staf í viðeigandi rútuferðum. Algengustu ferðir félagsins eru gönguferðir um óbyggðir þar sem þátttakendur drekka í sig náttúruupplifun, sögulegan fróðleik, örnefnaþulur, flóru landsins og fjölbreyttan félagsskap.

Fjölbreytt fjallaverkefni má finna í áætluninni sem endranær. Þar er hægt að velja um vikulegar og mánaðarlegar fjallaferðir og Alla leið á hæstu tinda sem er undirbúningsverkefni fyrir jökulklædda tinda sem sigraðir verða í apríl og maí.

Fólk af öllum mögulegum stærðum og gerðum getur fundið eitthvað við sitt hæfi og þar má til dæmis nefna verkefnin Biggest winner þar sem fólk í yfirvigt fær góða leiðsögn og Bakskóla FÍ sem er sniðinn að þörfum þeirra sem eiga við bakvandamál að stríða. Ferðafélag Íslands áætlar að tugþúsundir landsmanna taki þátt í ferðum félagsins á hverju ári.

24636 - Sumar 2015 59

Fastir liðir, eins og Laugavegurinn, Hornstrandir og Lónsöræfi, eru meðal ferðastaða en nýrra grasa gætir inn á milli. Þar má til dæmis nefna annan áfangann í raðgöngu umhverfis Langjökul og ferð á níu toppa Tindfjalla. Einnig verður farið í Íslendingasagnaferð um slóðir Hrafnkels Freysgoða og fleiri kappa austur á landi. Skurðlæknirinn Tómas Guðbjartsson fer síðan fyrir spennandi leiðangri í Kverkfjöll, Öskju og Holuhraun.

Af öðru áhugaverðu má nefna að snemmsumars er raðganga þar sem farið verður á nokkrum sunnudögum frá Strandarkirkju í Selvogi milli kirkjustaða í Ölfusi, Flóa, á Skeiðum og áfram í Skálholt. Einnig verður farið í sex daga pílagrímagöngu frá Bæ í Bæjarsveit í Borgarfirði. Báðar þessar ferðir enda á Skálholtshátíð, 24. júlí.

Nýlega er farið af stað verkefnið Fyrsta skrefið, heilsurækt á fjöllum sem Reynir Traustason og Ólafur Sveinsson, með fulltingi Auðar Elvu Kartansdóttir, hafa umsjón með. Verður þá gengið á fjöll í nágrenni borgarinnar og víðar frá í janúar og fram á sumar – að viðbættum reglulegum göngum á Úlfarsfell. Enn er hægt að bætast í þann hóp.

Einnig eru á dagskránni verkefni með göngu á eitt til tvö fjöll á mánuði og eru þau ætluð fólki sem er í þokkalegu gönguformi en vill gjarnan halda sér við undir markvissri leiðsögn. Þá er farið af stað verkefnið Landvættir hvar fólk æfir og keppir í öllum greinum fjórþrautar; það er skíðagöngu, sundi, hjólreiðum og langhlaupi. Umsjón með þessu verkefni hafa hjónin Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.

24636  Sumar 2015 199

Ónefndar eru þá hjólreiðaferðir, stuttar göngur í nágrenni borgarinnar og svo mætti lengi áfram tíunda leiðangra, lengri sem skemmri, þar sem landið allt er undir.

Sigrún Valbergsdóttir er formaður ferðanefndar og varaforseti Ferðafélags Íslands. „Rauði þráðurinn í okkar starfsemi er skipulagðar og fjölbreyttar ferðir, útgáfa og rekstur fjallaskála, allt í þeim tilgangi að kynna fólki landið og greiða leið þess. Á síðustu árum höfum við þó styrkt þann þátt að koma á ólíkan hátt til móts við fólk í mismunandi aðstæðum svo það geti stundað útiveru og hreyfingu sem gefur öllum svo mikið,“ segir hún. Það eru allir velkomnir í ferðir hjá FÍ en félagið hefur þó ekki lagt áherslu á dæmigerðar túristaferðir. „Okkar ferðir eru ekki hugsaðar fyrir erlenda ferðamenn. Við beinum þeim heldur á ferðaskrifstofurnar sem bjóða upp á ferðir sem eru sérhannaðar fyrir þá. Við erum áhugamannafélag og bjóðum upp á ferðir fyrir okkar félagsmenn. Það er undantekning ef erlendir ferðamenn sem ekki kunna íslensku eru í ferðum, hins vegar hefur það ekki valdið neinum vandamálum þótt tveir til þrír slíkir hafi slegist í hópinn en þeim er ekki lofuð fararstjórn á þeirra tungumáli,“ segir Sigrún. Hún leggur áherslu á að langflestir sem taka þátt í starfi FÍ séu félagar enda gefi það hagstæðari kjör og hina glæsilegu Árbók FÍ sem er ómissandi fyrir alla þá sem hyggjast leggja landið okkar undir fót.

Sigrún Valbergsdóttir.
Sigrún Valbergsdóttir.

Sigrún er sérlega ánægð með þá miklu aukningu og áhuga á því að börn séu höfð með í gönguferðum. „Innan FÍ er starfrækt Ferðafélag barnanna og eru það eðalhjónin Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall sem eru forsprakkar þess. Þar hafa orðið mikil snjóboltaáhrif og verkefnið hlaðið utan á sig. Verði er haldið í lágmarki og ferðirnar hafa mælst mjög vel fyrir. Við erum að reyna að tæla börnin ung til okkar svo þau upplifi þessa hollu aðferð við að hreyfa sig og ekki síður til þess að skilja og skynja landið okkar,“ segir Sigrún og bætir við að þessar ferðir séu sniðnar að þörfum og getu barnanna. Hún vekur athygli á nýstofnuðu félagi; Ferðafélagi unga fólksins sem er fyrir fólk á aldrinum 18-25 ára. Þar sé lögð áhersla á að ungmennin læri að fóta sig í fjalla- og gönguferðum án tilsagnar foreldra eða forráðamanna.

Verkefni FÍ eru gríðarlega yfirgripsmikil og fjölbreytt og Sigrún segir félagið eiga að vera fyrir allar kynslóðir og alls konar fólk. „Þá er sama hvort við erum að tala um börnin sem eru að stíga sín fyrstu skref í íslenskri náttúru eða þá sem vilja láta hæstu tindana ögra sér,“ segir Sigrún að lokum og hvetur alla til þess að kíkja á fi.is og finna eitthvað við sitt hæfi.

Unnið í samstarfi við Ferðafélag Íslands.

The post Allt frá snuði upp í staf! appeared first on Fréttatíminn.

Borea –Ævintýralegar fjallaskíðaferðir fyrir vestan

$
0
0
Borea Adventures er ferðaþjónustufyrirtæki á Ísafirði. Nú yfir vetrartímann býður það upp á sérhæfðar fjallaskíðaferðir sem hljóma hreint ævintýralega.

„Við höfum orðið vör við að fjallaskíðamennska hefur tekið rosalega kipp síðustu árin. Við höfum verið að halda fjallaskíðanámskeið og þangað koma aðallega Íslendingar,“ segir Rúnar Karlsson, einn eigenda Borea.

Þá bjóða þau einnig upp á dagsferðir svo og lengri ferðir í 6 daga. „Í dagsferðunum förum við frá Ísafirði og í firðina í kring. Í lengri ferðunum þá förum við norður í Jökulfirði á Hornströndum,“ segir Rúnar. Eins og flestir vita, eru Hornstrandir ekki í vegasambandi og því siglt að eyðibýlinu Kvíum sem hefur staðið autt síðan 1948. „Við höfum verið að gera húsið upp og nú er húsið að breytast í glæsilegan fjallaskála með uppábúnum rúmum, sánabaði og fleiri þægindum. Á morgnana er farið af stað á báti sem skutlar fólki inn í nærliggjandi firði og þar er skíðað yfir daginn. Síðan er haldið aftur heim á bæ og borðaður góður matur og slakað á í sána fyrir næsta dag,“ segir Rúnar.

Rúnar segir að þessi árstími sé í raun ótrúlegur, en þessar ferðir eru farnar síðvetrar, yfirleitt frá mars og fram í lok maí. „Þarna er nánast enginn á ferli því aðgengið er erfitt. Þá er hægt að skíða alveg frá toppi fjallanna og niður í fjöru. Það eru mjög fáir staðir í heiminum þar sem það er hægt. Fólk er að koma frá bestu skíðastöðum heims til að upplifa eitthvað alveg einstakt,“ segir Rúnar.

Borea býður einnig upp á fjallaskíðaleigu með öllu sem til þarf fyrir fólk sem langar að prófa þetta skemmtilega sport.

Meiri upplýsingar er hægt að nálgast á www.borea.is og í síma 456 3322.

Unnið í samstarfi við Borea Adventures.

The post Borea – Ævintýralegar fjallaskíðaferðir fyrir vestan appeared first on Fréttatíminn.

Teiknar undir áhrifum frá afa

$
0
0

Elín Edda vinnur að annarri teiknimyndasögubók sinni en hún rekur myndasöguútgáfu ásamt systur sinni. Sagan hennar um Gombra hefur verið í smíðum í tvö ár.

Elín Edda hefur teiknað frá því hún var pínulítil. „Eftir að ég fór í Myndlistarskólann, þrettán ára, ákvað ég að þetta væri það sem ég þyrfti að einbeita mér að. Þar lærði ég að teikna betur og fékk hvatningu til að leggja þetta fyrir mig.“

Nú stundar hún nám í grafískri hönnun við Listaháskólann og vinnur hörðum höndum að því að koma annarri myndasögubók sinni út. Fyrirhugað er að sagan, Gombri, komi út í vor, 1. apríl, samhliða sýningu hennar í gallerí Ekkisens.

„Gombri býr í Garði og er einmana og leiður. Ættingjar hans eru dánir svo hann ákveður að yfirgefa heimili sitt og ráðast í ferðalag. Á leiðinni hittir hann Nönnu sem er líka á flótta undan einhverju en hún man ekki alveg hvað það var. Saman ferðast þau til borgarinnar og sagan fjallar um það sem fólki finnst vera satt og mikilvægt að trúa á.“

Teikningar hafa heillað Elínu Eddu frá því hún var barn. „Ég fór mikið á listasöfn með foreldrum mínum og flestir í kringum mig voru að teikna. Afi var sérstök fyrirmynd mín í teikningu. Hann var áhugalistamaður og alltaf að teikna og smíða einhver flott listaverk.“

 

24520 Elín Edda Gombri
Elín Edda notar vatnsliti og blek við gerð myndasögunnar um Gombra.

 

Elín Edda segir Elísabetu Rún, systur sína, hafa kynnt sig fyrir myndasögum. „Ég hafði bara lesið Andrés önd sem krakki og líklega höfðu teiknimyndirnar í barnatímanum mikil áhrif á mig. Nú er ég að kynnast stærri myndasöguverkum og hef áhuga á að gera fleiri sögur sjálf.“
Systurnar unnu saman myndasöguna Plantan á ganginum sem kom út árið 2012. Þær lögðu mikla vinnu í bókina og Elín Edda varði öllum tíma með menntaskóla í að koma henni heim og saman. Sagan fjallar um Geirþrúði sem kýs blóm og plöntur fram yfir fólk. Hún hefur einangrað sig frá umheiminum en líf hennar breytist þegar hún setur sérstaka plöntu á ganginn í húsinu sínu. Fyrst kom sagan út á vefnum en síðar stofnuðu systurnar útgáfuna Nóvember sem gaf söguna út í bókarformi.

 

Elín Edda leitar að fjármagni til að geta komið bókinni um Gombra út.

Sjá nánar á facebooksíðu sögunnar facebook.com/gombraelinedda

12239880_1228690150491185_5639496138183483895_n

 

The post Teiknar undir áhrifum frá afa appeared first on Fréttatíminn.

Vantar 639 flóttamenn á ári til að jafna Norðurlöndin

$
0
0

Samkvæmt nýrri skýrslu norrænu tölfræðinefndarinnar um velferðarmál standa Íslendingar öðrum Norðurlöndum langt að baki varðandi móttöku hælisleitenda.

Íslensk stjórnvöld veita mun færri landvist af þeim sem sækja hér um hæli en stjórnvöld hinna landanna. Á árinu 2014 sótti um 169 manns um hæli á Íslandi en aðeins 32 fengu dvalarleyfi eða tæp 19 prósent. Til samanburðar var þetta hlutfall rúm 41 prósent í Danmörku, 43 prósent í Svíþjóð, rúm 57 prósent í Finnlandi og tæp 66 prósent í Noregi.

Ef íslensk stjórnvöld hefðu staðið sig eins vel og meðaltal norskra, danskra og sænskra stjórnvalda hefðu Íslendingar veitt næstum þrefalt fleiri dvalarleyfi eða 88 manns í stað 32. Það má því segja að 56 hælisleitendum hafi verið meinuð landvist vegna hörku íslenskra stjórnvalda umfram það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum.

Þegar skoðað er hversu margir fá dvalarleyfi í samanburði við mannfjölda ríkjanna sker Ísland sig líka afgerandi frá hinum löndunum. Í Finnlandi er þetta hlutfall 0,38 á móti hverjum þúsund íbúum, í Danmörku er hlutfallið 1,08, það er 1,47 í Noregi og 3,60 í Svíþjóð. Á Íslandi eru veitt dvalarleyfi hins vegar aðeins 0,10 á móti hverjum 1000 íbúum.

Samkvæmt þessu veita Finnar fjórum sinnum fleiri hælisleitendum dvalarleyfi en Íslendingar, Danir ellefu sinnum fleiri, Norðmenn fimmtán sinnum fleiri og Svíar þrjátíu og sjö sinnum fleiri.

Ef tekið er meðaltal Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar (samanburðurinn sem liggur til grundvallar undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar um aukin framlög til heilbrigðismála) þá hefðu Íslendingar þurft að veita 639 fleiri hælisleitendum dvalarleyfi á árinu 2014 en þau gerðu. Það er því ekki lítill munur á stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum hælisleitenda og stefnu hinna Norðurlandanna heldur er reginmunur þar á.

Líklega yrði sá stjórnmálamaður á hinum Norðurlöndunum sem leggði til að tekin yrði upp íslensk stefna í málefnum flóttamanna sakaður um einangrunarstefnu og kynþáttaandúð. Það er jafnvel hæpið að honum yrði vært í ört vaxandi flokkum þjóðernispopúlista.

Gunnar Smári

The post Vantar 639 flóttamenn á ári til að jafna Norðurlöndin appeared first on Fréttatíminn.

Póstkort frá Panama: Teygist á tengslum og sum slitna

$
0
0

Ég er staddur Panama í Mið-Ameríku, bý í gamla bænum, Casco Viejo, og vinn við hliðina á Panamaskurðinum í Clayton. Ég er að vinna fyrir Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og vinn á svæðisskrifstofu sem þjónar Rómönsku-Ameríku og Karíbahafi sem er í Panama. Á skrifstofunni sé ég um að reka þjónustumiðstöð. Hluti af því er fjáröflun meðal einstaklinga, fjáröflun meðal fyrirtækja, hvatning um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og annað slíkt.

Veit ekki hvert stefnan verður tekin héðan né hvað ég mun endast en er búinn að vera hér í eitt og hálft ár og gæti verið í þrjú og hálft í viðbót ef ég verð allan tímann sem ég get. Næsta stopp verður vonandi New York eða Genf.

Ég sakna nánast bara fólksins míns. Fjölskyldu og vina – sakna fólksins sem mér þykir vænt um. Sakna þess sérstaklega að vera langt frá hugleiðsluhópnum mínum. En fyrir utan það sakna ég lítils. Ef ég á að segja eitthvað þá sakna ég kannski grófs brauðs. Það er erfitt að finna gott fjögurra korna brauð hér.

Ég er feginn að vera laus við íslenska samfélagsumræðu. Upplifi einhvernveginn alla reiða og bitra á einhvern undraverðan hátt. Það er eitthvað vægðarleysi bæði í umræðunni og í stjórnmálunum. Það er eins og það megi segja allt og gera allt. Feginn að vera laus við það.

Ef ég hefði einhver áhrif og gæti breytt einhverju á Íslandi þá mundi ég vilja að það væri meira úrval af uppvöskunar-svömpum og að fólk væri almennt opnara fyrir því að brugga sér íste, jafnvel þó það sé kalt.

Mér finnst mjög gaman að búa í fjölbreyttu samfélagi með fólki af mismunandi uppruna. Bæði á það við um landið sem ég bý í en ekki síður vinnustaðinn. Og ég held að það sé eitthvað sem við gætum haft í huga að við verðum áfram Íslendingar, þótt við blöndumst öðrum. Ég finn að minn menningarlegi bakgrunnur er mjög sterkur og mér þykir mjög vænt um hann en mikið óskaplega finnst mér gaman að kynnast nýjum siðum og nýrri sýn.

Það hefur verið aðeins erfitt að rækta tengslin heim út af tímamuninum vestur. Þannig að þegar ég kem heim á kvöldin eru allri farnir að sofa á Íslandi. Hef verið duglegur að fara heim.

Það væri frábært ef maður gæti tekið flugið beint heim. Er ekki kominn tími til að íslensk flugfélög byrji að fljúga beint til Suður-Ameríku?

Þegar maður er svona langt í burtu þá teygist á ýmsum tengslum og sum bönd slitna. Kunningjar og fólk sem er ekki alveg í innsta vinahring en mér þykir samt vænt um. Fólkið í hverfinu, í vinnunni, úr HÍ, úr MH og Hlíðaskóla.

Það sem hinsvegar kemur mér á óvart er að ég er orðinn meiri Valsari en áður. Finn fyrir mikilli löngun til þess að kaupa mér búning og merkta bolta og hef reynt að gera það án árangurs. Svona hefur suður-ameríski hitinn skrýtin áhrif á mann!

The post Póstkort frá Panama: Teygist á tengslum og sum slitna appeared first on Fréttatíminn.

Magga Pála: Skapstórt barn og ofsaköst

$
0
0

Kæra Magga Pála.

Við eigum stelpu sem er fædd í júní 2012. Svo dugleg og orkumikil stelpa, umhyggjusöm og uppátækjasöm. Hún er svo líka mikil tilfinningarvera og stjórnsöm. Hún vill ráða og stjórna öllu og ef hún er illa upp lögð þá missir hún gjörsamlega stjórn á sér þegar hún fær það ekki. Við höfum notað 1, 2, 3-aðferðina á hana sem virkar oft ágætlega en ekki ef hún verður of reið. Þá á hún það til að sparka lemja og klóra, öskra og láta öllum illum látum. Ef við hunsum hana reynir hún að skemma eitthvað eða meiða.

Hún varð svo reið um daginn að hún skellti hurð og náði að brjóta hana. Hún hefur líka sagt að hún vilji ekki eiga svona foreldra. Ég velti fyrir mér á þessum tímapunkti hvort hún væri strax orðinn unglingur. Við höfum reynt að tala rólega, hunsa, setja hana í einvist og taka af henni hluti eins og teiknimyndir. En það koma dagar sem bara ekkert virkar og hún er meira og minna í brjálæðiskasti allan daginn. Ég fékk til að mynda að labba með hana á háa c-inu í gegnum Smáralind um helgina því hún fékk ekki að vera lengur í tívolíinu.

Hvernig mælirðu með að tækla svona tilfinningaríkt og ráðríkt barn?
Ráðþrota foreldrar

Heilir og sælir, kæru foreldrar og til hamingju með hugmyndaríku og skapstóru stúlkuna ykkar. Ég fullvissa ykkur strax um að hún sýnir ekki sem við köllum frekju eða yfirgang viljandi – þvert á móti. Hún ræður einfaldlega ekki við að stöðva sig sjálf þegar skapofsinn tekur yfirhöndina.

Skapofsaköst og heilaþroski

Börn hafa ekki þann heilaþroska sem þarf til að stöðva sig þegar þau missa stjórn á skapi sínu í kjölfar sterkra, erfiðra tilfinninga og átaka sem hafa náðst að spinnast upp. Þau verða stjórnlaus og allir hlutaðeigandi ráðþrota þegar þangað er komið. En ekkert barn vill vera í þessum vanmætti stjórnleysis sem það hvorki skilur né ræður við. Þau vilja að sér takist vel til og fái hrós og jákvæða athygli frá fólkinu sem þau elska mest; foreldrunum.

R-reglurnar; röð, regla og rútína

Það fyrsta sem ég myndi ráðleggja ykkur er að halda heimilislífinu nógu einföldu. Hafið reglurnar fáar og skýrar, passið upp á röð, reglu og rútínu yfir daginn alla vikuna, gætið þess að hún nærist rétt og vel án sælgætis og sykraðra drykkja og fylgist með að hún sofi nóg. Sjáið líka til þess að hún fái góða hreyfingu úti og að sjónvarp og tölvur séu frekar umbun í stuttan tíma heldur en stöðugt í gangi. Smellið henni í bað eða sturtu ef hún er mjög pirruð en vatn hjálpar oft börnum til að róa sig. Sýnið festu og ákveðni í þessum smáatriðum sem stórminnka líkurnar á að erfið líðan og átök komi upp.

Byrgjum brunninn áður en barnið dettur

Forðið ykkur endilega frá erfiðum aðstæðum. Grípið inn um leið og þið sjáið hvert stefnir og bregðist við með hlýlegum útskýringum og samningum, bjóðið henni aðra valkosti eða leiðið hugann að einhverju öðru. Þannig getur hún æft jákvæðar lausnir í stað þess að renna sér í skapofsann. Farið ekki í aðstæður með erfiðum taugaáreitum eins og hávaða, troðningi og streitu. Slíkt fylgir búðarferðum, tívolíi eða 17. júní skemmtunum og endar oft með vonbrigðum og örþreyttu barni sem glatar gleðinni og skapstjórninni. Gerið ykkur fremur dagamun með athöfnum sem róa og veita útrás eins og gönguferð, út að leika á róló eða sundferð.

Hrós og umbun

Ég hvet ykkur sem sagt til að fyrirbyggja vandann eftir föngum og muna svo eftir að hrósa henni og hvetja þegar vel gengur. Aðferðir eins og að veita henni ekki athygli eða láta hana vera eina, skilar litlu. Svipting eins og að taka af henni teiknimyndir virkar illa miðað við að umbuna henni frekar fyrir góðan árangur með verðlaunum eða hrósi – og til þess þarf ekkert kerfi, heldur bara þá hjartagreind sem foreldrar eiga.

Þegar slysin verða

Að lokum veit ég að við getum aldrei komið í veg að slysin verði og barn spinni sig upp í óstjórnina. Þá duga ekki skammir og hótanir, heldur ást og hlýja. Best er að taka barnið í fangið, róa það og hugga rétt eins og barnið hafi meitt sig. Höldum því í fanginu en ef barnið kýs að jafna sig eitt þá verið samt nálægt því og til taks. Á eftir má ræða um líðan og tilfinningar barnsins út frá því að óhapp hafi orðið sem sé allt í lagi – foreldrarnir elska það jafnmikið og áður og pottþétt muni ganga betur næst.

Hlýjar kveðjur og gangi ykkur vel,

Magga Pála

Fleiri pistlar frá Möggu Pálu:

Ósammála í uppeldinu
Martröð á morgnanna
Ekki svöng á matmálstímum

 

The post Magga Pála: Skapstórt barn og ofsaköst appeared first on Fréttatíminn.


Milljarður í leikmynd en stjörnurnar sitja heima

$
0
0

Engin af stjörnunum í kvikmyndinni Fast 8 er væntanleg hingað til lands þegar tökur fara fram á næstunni. Aðdáendur Vins Diesel og félaga verða því að bíða til næsta árs eftir frumsýningunni til að sjá þá klippta inn í atriðin sem tekin verða hér.

Tökurnar hér á landi verða engu að síður afar umfangsmiklar og sumir halda því fram að þær verði þær stærstu sem hér hafa farið fram. Samkvæmt heimildum Fréttatímans er kostnaður við leikmyndina eina og sér um eða yfir einn milljarður króna. Starfsfólk Universal kom til landsins í vikubyrjun og því er undirbúningurinn farinn á fullt. Reiknað er með að tökurnar hefjist í febrúar og teygi sig fram í apríl.

Við tökurnar verður meðal annars notast við 3-4 togara og mun ætlunin vera að sprengja einn þeirra í loft upp. Þá er verið að breyta bílum í svokallaða „rússneska“ bíla með byssum á. Áður hefur komið fram að 80 bílar verða fluttir hingað til lands fyrir tökurnar. Ekki er þó svo að um 80 mismunandi bíla sé að ræða heldur eru mörg eintök af hverjum og einum – enda þarf að vera hægt að taka upp úr framsætinu, aftursætinu, bílstjórasætinu og svo fram eftir götunum.

Vin Diesel og félagar koma ekki til landsins þegar atriði í Fast 8 verða tekin hér en verða örugglega ekki langt undan þegar myndin hefur verið kláruð í Hollywood. Samsett mynd/Hari
Vin Diesel og félagar koma ekki til landsins þegar atriði í Fast 8 verða tekin hér en verða örugglega ekki langt undan þegar myndin hefur verið kláruð í Hollywood. Samsett mynd/Hari

Tökurnar fara fram á Mývatni og í nágrenni, í Reykjavík og á Akranesi. Fyrir norðan er nú leitað að heppilegum tökustöðum til að kvikmynda bíla á frosnu vatni. „Ég veit ekki hvar þessar tökur verða nákvæmlega en þær verða einhvers staðar hér í sveitinni. Þetta er auðvitað mjög jákvætt fyrir þá sem eru að selja gistingu og þjónustu,“ segir Jón Óskar Pétursson, sveitarstjóri í Skútustaðahreppi.

Mikil umsvif og hagsmunir tengjast kvikmyndaverkefni sem þessu. Truenorth sér um framkvæmdina hér á landi og hefur opnað sérstaka skrifstofu fyrir Fast 8 og fleiri kvikmyndaverkefni sem búist er við á næstu mánuðum. Flutningafyrirtækið TVG-Zimsen hefur sömuleiðis hag af komu Fast 8 því það kostar sitt að flytja 80 bíla hingað. Svo heppilega vill til að TVG-Zimsen á hlut í Truenorth. Enginn sem rætt var við hjá fyrirtækjunum tveimur vildi tjá sig um Fast 8.

The post Milljarður í leikmynd en stjörnurnar sitja heima appeared first on Fréttatíminn.

Er Sjálfstæðisflokkurinn íhald eða afturhald?

$
0
0

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist undir tuttugu prósentum. Stefna hans sögð óboðleg fyrir yngra fólk. Sigurjón Egilsson skrifar:

Viðmælendur, sem eiga það sameiginlegt að hafa fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum, og hafa starfað innan flokksins og haft hugsjónir sem hafa átt samleið með honum, virðast vera frá að hverfa. Þeir segja flokkinn frekar vera afturhaldsflokk en íhaldsflokk.

Þegar svo stórt er sagt, er spurt hvort það fólk sem þannig talar berjist gegn afturhaldsfólkinu eða hafi einfaldlega gefist upp. Svörin eru á báða bóga. Að frjálslyndara fólk hafi gefist upp og, eins að landsfundur flokksins í október hafi sýnt, að fólk sé enn tilbúið að berjast fyrir hugsjónum sínum. Þó á móti blási, allavega um stund.

Tíu prósenta flokkur

Mikið hefur verið fjallað um að fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist undir tuttugu prósentum í nýjustu skoðanakönnun MMR. Hafa verður í huga að fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist að jafnaði meira í Þjóðarpúlsi Gallup, en hjá MMR.

Það er fréttnæmt og það er sögulegt þegar Sjálfstæðisflokkurinn mælist undir tuttugu prósentum.

„Sjálfstæðisflokknum hefur tekist með einhverjum hætti að færa sig frá fólki undir fertugu, jafnvel undir fimmtugu. Rétt um tíu prósent yngri kjósenda segjast ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Það segir mér að verulega mikið er að,“ sagði einn viðmælandinn.

Fleiri tóku í sama streng. Segja afturhaldsstefnunni stýrt af eldri flokksmönnum, fyrrum ráðamönnum flokksins, og þeirra stefna sé óboðleg fyrir yngra fólk. Og því sjáist staður í fylgiskönnunum.

Flokkur eða valdastofnun

Viðhorf eru uppi um að Sjálfstæðisflokkurinn virki, á marga, sem gamaldags valdastofnun, frekar en sem nýmóðins stjórnmálaflokkur. „Því fækkar þeim sem telja sig eiga samleið með honum.“

Hversu djúpt er flokkurinn sokkinn, að mati yngra fólks?

„Hann á ekki séns hjá ungu fólki. Mér finnst leitt að segja þetta, en þannig sé ég stöðu flokksins hjá minni kynslóð,“ sagði maður sem á að baki nokkuð langa sögu í flokknum.

„Mínir félagar eru ýmist gengnir úr flokknum, hættir að starfa innan hans eða hættir að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.“

Það sem hér er skrifað endurómar raddir annarra viðmælenda.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur mátt þola mikið mótlæti og fylgi hans meðal yngri kjósenda er lítið. Hann virkar á flokksfólk sem valdastofnun.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur mátt þola mikið mótlæti og fylgi hans meðal yngri kjósenda er lítið. Hann virkar á flokksfólk sem valdastofnun.

Eru málefnin að gera flokknum erfitt fyrir?

Það er eitthvað að. En hvað? Allir sem talað var við segja Bjarna Benediktsson fínan formann og afnám tolla og vörugjalda, til að mynda, sýni að hann sé trúr grunnstefnu flokksins. „Ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru frjálslynt fólk,“ sagði einn, en bætti við að annað trufli starf ríkisstjórnarinnar. Afturhaldið.

Er Sjálfstæðisflokkurinn útvörður sérhagsmuna, þar sem hann er sagður líkari valdastofnun en stjórnmálaflokki?

„Já,“ segja sumir.

Er það útgerðin sem ræður miklu, með Morgunblaðinu og styrkjum til flokks og þingmanna?

Sú kenning var sögð hafa átt rétt á sér þar fyrir skömmu. Aðgerðirnar gegn Rússum og samstaða ríkisstjórnarinnar eru sagðar hafa verið happafeng fyrir Bjarna Benediktsson, formann flokksins. Þar stóð hann upp í hárinu á útgerðinni og Davíð Oddssyni. Vék hvergi frá samþykkt ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir bæði leyndan og ljósan þrýsting.

Bjarni Benediktsson nýtur trausts sem formaður. Samt er óvíst hvernig honum tekst að stýra flokknum í gegnum mótlætið.
Bjarni Benediktsson nýtur trausts sem formaður. Samt er óvíst hvernig honum tekst að stýra flokknum í gegnum mótlætið.

Var landsfundurinn góður eða vondur?

Já, var landsfundurinn góður eða var hann vondur? Við munum helst framgöngu unga fólksins. Óvænt fékk Guðlaugur Þór Þórðarson mótframboð til ritara flokksins.

„Ég held að tilkoma mín inn í þetta starf breikki ásýnd forystunnar. Ég er í háskóla og á vinnumarkaði á sumrin svo kannski er ég meira að upplifa það sem aðrir kjósendur eru að upplifa.“

Þannig mæltist Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur eftir að hún var kjörin ritari Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum. Framboð hennar féll í grýttan jarðveg, allavega misgrýttan. „Hún hafði uppi sömu aðferð og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hafði á landsfundi Samfylkingarinnar. Guðlaugur Þór kaus að fara ekki í kosningu og dró framboð sitt til baka. Áslaug Arna var því sjálfkjörin ritari.

Sjálfstæðisfólk taldi, að því er haldið var, að með velheppnuðum landsfundi og ungum ritara hefði fundist vörn, jafnvel sókn, gegn stanslausri fylgisaukningu Pírata. „Það er bara Moggaskýring. Að flokkurinn eigi að eltast við Pírata, en ekki yngra fólkið í eigin flokki, eru merkileg viðhorf. Sú hugsun kemur úr hinu vonda afturhaldi.“

Vandi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Illuga Gunnarssonar hefur ekki létt undir með flokknum.
Vandi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Illuga Gunnarssonar hefur ekki létt undir með flokknum.

Borgunarmálið og önnur vandamál

Sama hvað hver segir og hvað hverjum þykir er ljóst að Borgunarmálið mun reynast Sjálfstæðisflokki erfitt. Einn viðmælendanna sagðist viss um að Bjarni Benediktsson hafi ekki komið að því hvernig Borgun var seld eða hverjir keyptu. Allir viðmælendurnir töluðu á sama veg.

Málið er og verður Bjarna erfitt. Svona mál eru erfið. „Umræðan í samfélaginu er þannig að litlu virðist skipta hvað er rétt og hvað er rangt. Það er erfitt að leiðrétta umræðuna. Þá breytir litlu hver sannleikurinn er,“ sagði einn af þeim sem rætt var við.

Eins var talað um vandamál Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Illuga Gunnarssonar. „Það er ljóst að þau hjálpa ekki.“

Er flokkurinn þá og verður í langvarandi vanda? Sumir segja svo vera á meðan aðrir telja hann vera fallandi, jafnvel ónýtan. „Það tekur tíma að hreinsa afturhaldið af flokknum,“ sagði einn viðmælendanna.

 Málefnin og fólkið

Viðmælendurnir voru að mörgu leyti sáttir við Bjarna Benediktsson sem formann og ýmislegt sem hann hefur gert. Einn nefndi að Bjarni hefði þurft að þola margt innan flokksins vegna afstöðu sinnar í Icesave. Nú hafi komið skýrt í ljós að hann hafði rétt fyrir sér. „Það er búið að lemja og berja á honum vegna málsins. Nú stendur hann uppi sem sigurvegari,“ sagði einn af þeim sem rætt var við.

Á móti kemur að flokkurinn virðist hafa sérstöðu í nokkrum veigamiklum og fyrirferðarmiklum málum. Málum sem geta ekki fært flokknum almennar vinsældir.

Þar má nefna breytingar á stjórnarskránni, rannsókn á sölu bankanna á sínum tíma, breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, húsnæðisfrumvörp Eyglóar Harðardóttur og verðtrygginguna, svo eitthvað sé nefnt. Hér að framan var sagt: Viðhorf eru uppi um að Sjálfstæðisflokkurinn virki, á marga, sem gamaldags valdastofnun, frekar en sem nýmóðins stjórnmálaflokkur. „Því fækkar þeim sem telja sig eiga samleið með honum.“

Svo er það fólkið sem kemur til með að berjast um forystusætin við næstu þingkosningar vorið 2017, en prófkjörin verða í haust.

Af orðum viðmælenda má ætla að öll þau sem skipi efstu sæti framboðslistanna verði með í baráttunni. En of snemmt er að segja til um það.

Svo mikið er víst, staða Sjálfstæðisflokksins er snúin – og spennandi.

Sigurjón Magnús Egilsson
sme@sme.is

 

 

 

The post Er Sjálfstæðisflokkurinn íhald eða afturhald? appeared first on Fréttatíminn.

Það voru víst aldrei hópferðir úr Garðabæ

$
0
0

Ungverski stærðfræðingurinn Abraham Wald fékk það verkefni í heimstyrjöldinni síðari að reikna út fyrir breska herinn hvar þyrfti að styrkja skrokka flugvéla til þess að ekki væri hægt að skjóta þær niður. Hann byrjaði á því að skoða vélarnar sem snúið höfðu úr orustum og myndir af þeim. Stundum höfðu vélbyssur Þjóðverja skilið eftir sig göt á vængjum, stundum stéli eða víða um skrokk vélanna og það var talið að ef það væri hægt að styrkja vélarnar þar sem að flest götin voru yrði það til þess að bjarga málum. En Wald, eða Abraham eins og ég kalla hann, kom með óvænta lausn. Hann lagði til að styrkja skrokka flugvélanna á þeim stöðum sem engin göt voru á. Og rökin á bak við þessa tillögu voru einfaldlega þau að allar þær vélar sem þeir skoðuðu höfðu snúið til baka. Hinar, sem höfðu trúlega fengið göt á sig á öðrum stöðum, höfðu hrapað. Málið var leyst og Abraham, vinur minn, skrifaði nafn sitt í sögu tölfræðinnar.

Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sat við tölvuna um daginn og skoðaði myndir frá mótmælunum við Landsbankann í vikunni. Ég hafði reyndar lofað að mæta þangað sjálfur en ég lét annað ganga fyrir og gekk þannig á bak orða minna (réttara sagt á bak like-inu sem ég setti við viðburðinn á Facebook). Það er ekkert nýtt fyrir mér að svíkja málstaðinn með þessum hætti en samviskan heldur mér samt sem áður aðeins við efnið þannig að ég mæti öðru hvoru til þess að mótmæla ranglæti og spillingu, svona ef það truflar mig ekki of mikið í einkalífinu.

Ég sýndi til dæmis töluverðan dugnað hérna í potta-og-pönnu-uppreisninni um árið þó að ég mætti nú sjálfur sjaldnast með pott eða pönnu. Mín aðferð var að stilla mér upp og kalla hvatningaróp eða klappa með vettlingaklæddum höndum. Og ég er ánægður með að hafa gert það, að hafa verið á staðnum þegar allt hrundi. En síðan þetta var, hefur reyndar lítið breyst. Nánast ekki neitt. Sömu mennirnir og áður settu okkur á hausinn eru komnir aftur af stað, safna peningum, skjóta undan peningum og makka sín á milli eins og ekkert sé sjálfstæðara. Hvernig má það vera? Við sem klöppuðum og púuðum og slógum í potta og pönnur og klöppuðum saman vettlingum … ætluðum við ekki að byggja réttlátara þjóðfélag án spillingar? Hvað fór úrskeiðis?

Jú, hann Abraham, vinur minn, hefði getað fundið út úr því. Hann hefði trúlega ekki gefið mikið fyrir myndirnar af mótmælum, fagurgala stjórnmálamannanna eða reiðilestur hinna réttlátu á samfélagsmiðlunum. Hann hefði bent okkur á hina. Hina sem aldrei mættu á mótmæli. Sem aldrei sögðu orð. Sem sýndu því aldrei neinn áhuga að breyta einu eða neinu. Fólkið sem ennþá trúir því að allt verði betra ef það er einkavætt og vinavætt og vinkonuvætt. Fólkið sem aldrei missti trúna á kerfið sem hrundi og vinnur nú að því hörðum höndum að byggja það upp aftur, óbreytt. Skýringanna er ekki að leita hjá okkur sem fengum vélbyssuskot á skrokkinn, vænginn eða stélið. Skýringanna er að leita hjá hinum. Og þeirra tími er kominn. Aftur.

The post Það voru víst aldrei hópferðir úr Garðabæ appeared first on Fréttatíminn.

Spítaladvöl eina úrræði sveitarfélagsins

$
0
0

Fólk með taugahrörnunarsjúkdóminn MND, sem þarfnast öndunarvélar, býðst ekki umönnun heima hjá sér og þarf því að velja milli þess að lifa á spítala eða gefa upp öndina. 

Þegar líður á taugahrörnunarsjúkdóminn MND þá gefur þindin sig svo líkaminn fær ekki nægt súrefni sem leiðir til dauða. Fólk, langt leitt af sjúkdómnum, þarf því aðstoð öndunarvélar til þess að geta lifað. Eina úrræðið sem því býðst er að lifa inni á spítala bundið öndunarvél. Ríki og sveitarfélögin veita ekki þá sólarhringsaðstoð sem MND sjúklingar, háðir öndunarvélum, þurfa til að lifa utan spítalans. Fordæmi er fyrir öðru á Norðurlöndunum, samkvæmt upplýsingum frá formanni MND félagsins.

24756 Guðjón Sigurðsson
Guðjón Sigurðsson er formaður MND félagsins á Íslandi.

Í Danmörku fá MND sjúklingar liðveislu heima við allan sólarhringinn og frelsi til þess að ferðast milli staða. Guðjón Sigurðsson, formaður MND félagsins, segir gat í þjónustutíma heilbrigðiskerfisins. „Heimahjúkrun og félagsþjónustan býður ekki upp á viðveruna sem þarf, heldur eingöngu innlit í stutta stund. Að veita ekki fullnægjandi aðstoð er sama og engin aðstoð, en það þarf að vakta öndunarvélina allan sólarhringinn. Ég get ekki lagt það á fjölskyldu mína og vini að hugsa um mig á næturnar, en á ég þá að deyja? Þetta er valið sem ég og margir aðrir standa frammi fyrir.“

„Sveitarfélagið býður ekki upp á þann kost að ég geti búið heima nema ég setji maka og börn í umönnunarhlutverk.“

Á næstu mánuðum þarf Jónína Stefánsdóttir að gera upp við sig hvort hún kjósi líf í öndunarvél. „Lömunin er komin undir háls og ég á ekki mikið eftir, með öndunarvél fæ ég nokkur ár í viðbót.“ Hún segist ekki þurfa hjúkrunarfræðing til þess að vakta öndunarvélina, heldur er hægt að þjálfa starfsfólk í liðveislu í það. „Í raun þarf ég sömu umönnun og ég hef verið að fá nema allan sólarhringinn. Þá get ég athafnað mig með fjölskyldu og fylgst með barnabörnunum vaxa úr grasi. Sveitarfélagið býður ekki upp á þann kost að ég geti búið heima nema ég setji maka og börn í umönnunarhlutverk og ég er ekki tilbúin til þess að taka þá ákvörðun. Þá eru heldur engin hvíldarheimili sem taka við mér til að gefa fjölskyldunni frí inn á milli.“

24756 Jónína Stefánsdóttir MND
Jónína Stefánsdóttir vill ekki setja fjölskylduna í umönnunarhlutverk.

The post Spítaladvöl eina úrræði sveitarfélagsins appeared first on Fréttatíminn.

Blindrafélagið stefnir Kópavogsbæ

$
0
0

Blindrafélagið hefur ítrekað sent lögfræðing á bæinn. Upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar segir engin áform uppi um að breyta þjónustu við blinda og sjónskerta.

Blindrafélagið ætlar að stefna Kópavogsbæ vegna ófullnægjandi þjónustu bæjarins við blinda og sjónskerta einstaklinga.
Eins og staðan er nú verða blindir og sjónskertir að nýta sér ferðaþjónustu fatlaðra í stað sérsniðinnar leigubílaþjónustu sem Garðabær og Reykjavík veita. Kristinn Halldór Einarsson, framkvæmdastjóri Blindrafélagsins, segir félagið ítrekað hafa sent kröfu í gegnum lögfræðing sinn um að þörfum tveggja skjólstæðinga félagsins verði mætt, en Kópavogsbær hafi ekki orðið við því. Í stað þess hafi bærinn bent á skólaakstur bæjarins og ferðaþjónustu fatlaðra.

Iva Marín Adrichem er ein þeirra einstaklinga sem telur á sér brotið. „Garðabær býður upp á ferðaþjónustu sem er sniðin að mínum ferðum. Ég nýti mér þá leigubílaþjónustu sem Blindrafélagið samdi um við Hreyfil og borga fyrir þjónustuna upphæð sem nemur almennu fargjaldi í strætó. Sveitarfélagið niðurgreiðir svo restina.“ Þegar fjölskylda hennar flutti í Kópavog komst hún svo að því að Kópavogur býður einfaldlega ekki upp á þessa þjónustu, því sveitarfélagið skrifaði á sínum tíma ekki undir samning við Blindrafélagið um leigubílaþjónustu fyrir blinda.

Nú verður Iva Marín því að nýta sér ferðaþjónustu fatlaðra, sem panta verður með sólarhrings fyrirvara. Þjónustan virkar þannig að oft er fólk í bílnum fyrir sem líka á að skutla á marga mismunandi staði. „Það er því ekki í boði fyrir mig að fara ferða minna fyrirvaralaust, sem skerðir lífsgæði mín verulega.“

Iva Marín þekkir fólk sem bjó í Kópavogi en missti sjónina og neyddist til að flytja, einfaldlega vegna þess að Kópavogur býður upp á litla þjónustu við blinda. Hún segir lausnina þó ekki endilega felast í því að sveitarfélögunum sé í lögum sett að bjóða öll upp á sömu þjónustu. „Málið er að sveitarfélögin ráða ekki öll jafn vel við kostnaðinn af þessu. Þess vegna held ég að það hafi verið mistök að færa kostnaðinn af ríkinu yfir á sveitarfélögin.“

Kristinn tekur undir orð Ivu og segir sveitarfélögin nota þjónustu sína við íbúa þeirra sem tæki til að stýra þjónustuþungum einstaklingum í önnur sveitarfélög. Samkvæmt lögum eigi ferðaþjónustan að uppfylla þarfir einstaklinga en ekki veita þjónustu sem miðuð er við meðaltal þarfa allra einstaklinga.

Sigríður Björg Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar, segir engin áform uppi um að breyta þjónustu við blinda og sjónskerta, en Kópavogsbæ sé kunnugt um að ferðaþjónusta fatlaðra sé ekki með sama hætti í bænum og í nágrannasveitarfélögunum. Samningurinn sem gerður var við verktaka um þessa þjónustu gildi til 2017. Því séu þessi mál ekki á dagskrá bæjarins á næstunni svo hún viti til. Þjónustan sem Kópavogur veiti sé þó í samræmi við reglur um þjónustu við fatlaða og sveitarfélögunum sé í sjálfsvald sett með hvaða hætti reglunum skuli fylgt. Hún segist jafnframt aðeins vita til tveggja tilfella þar sem einstaklingar hafi lagt fram kvörtun. Annað málið var vegna synjunar á akstri með leigubíl og var málinu vísað frá í héraðsdómi árið 2012, en hitt varðaði akstursþjónustu til blindra og fór það fyrir úrskurðarnefnd velferðamála. Í því máli var fallist á sjónarmið Kópavogsbæjar.
Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir
salka@frettatiminn.is

The post Blindrafélagið stefnir Kópavogsbæ appeared first on Fréttatíminn.

Verjum 100 milljörðum minna til barna, fjölskyldna og eldri borgara

$
0
0

 Íslendingar verja hlutfallslega minna til barna en aðrar Norðurlandaþjóðir, minna til fjölskyldna og minna til eldri borgara sem nemur gríðarlegum upphæðum. Á sama tíma og það vantar um 45 milljarða króna í heilbrigðiskerfið, svo það verði eins og almennt gerist á Norðurlöndum, vantar um tvöfalda þá upphæð til að jafna félagslega hluta velferðarkerfisins við það sem íbúar Norðurlandanna búa að.

Þegar borið er saman það hlutfall landsframleiðslunnar sem varið er til félagsmála á Norðurlöndunum sést að Ísland stendur hinum löndunum langt að baki. Miðað við meðaltal Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar, sem er samanburðurinn sem Kári Stefánsson notar í kröfum sínum um hærra framlög til heilbrigðismála, þyrfti að auka framlög til félagsmála úr 25,2 prósentum af landsframleiðslu í 30 prósent, eða um rétt tæplega 100 milljarða króna, miðað við landsframleiðslu síðasta árs.

Velferð

Þessir 100 milljarðar króna jafngilda rúmlega 290 þúsund krónum á hvert mannsbarn á Íslandi eða tæplega 1,2 milljónum króna á fjögurra manna fjölskyldu. En það er sama hvernig þessi upphæð er brotin niður. Hún sýnir hversu miklum mun meira börn, fjölskyldur, eldri borgarar, öryrkjar og aðrir fá frá velferðarkerfinu á Norðurlöndunum en sömu hópar fá í sinn hlut á Íslandi.

Þetta er meðal þess sem lesa má úr nýrri samanburðarskýrslu norrænu hagtölunefndarinnar um félagsleg málefni, Nososko, sem nýlega kom út. Skýrslan dregur fram hversu ólíkt íslenska velferðarkerfið er því kerfi sem náð hefur rótfestu á hinum Norðurlöndunum. Í mörgum tilfellum er munurinn svo mikill að segja má að íslenska kerfið sé allt annað og veikara.

Íslendingar gera vel við húseigendur

Það er bara á einu sviði sem Íslendingar gera betur en hinar Norðurlandaþjóðirnar. Það er í húsnæðismálum. Ísland er eina landið sem styrkir húseigendur úr ríkissjóði og því eru það hlutfallslega miklu fleiri sem fá húsnæðisbætur á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum. Þar tíðkast ekki að veita öðrum en leigjendum húsnæðisbætur.

Meðaltal húsnæðisstuðnings, sem hlutfall af landsframleiðslu, er um 0,4 prósent að meðaltali í Noregi, Danmörku og Svíþjóð en 1,2 prósent á Íslandi. Mismunurinn jafngildir rúmlega 15 milljörðum króna árlega. Að lang mestu leyti skýrist það af vaxtabótum, sem húseigendur fá greiddar á Íslandi en ekki á hinum Norðurlöndunum.

Ástæða þessarar sérstöðu er sú að vaxtabyrði af íbúðakaupum er óheyrileg á Íslandi og miklum mun hærri en á hinum Norðurlöndunum. Og þótt íslenskir húsnæðiskaupendur njóti styrkja umfram húsnæðiskaupendur á Norðurlöndunum er staða þeirra ekki betri á eftir. Vaxtabæturnar ná ekki að vinna á skaðanum af mikilli vaxtabyrði. Íslenskir húsnæðiskaupendur væru betur settir með lánakjör almennings á Norðurlöndum og engar vaxtabætur.

Í ljósi þessa má draga í efa að vaxtabæturnar séu í raun félagslegur stuðningur við almenning. Hugsanlega væri réttara að kalla þær stuðning við íslensku krónuna og íslenskt fjármálalíf. Vaxtabætur miðast við að draga úr eituráhrifum þessara þátta á líf almennings.

Íslendingar gera ekki vel við foreldra

Samkvæmt skýrslu norrænu tölfræðinefndarinnar verja Noregur, Danmörk og Svíþjóð um 3,4 prósentum af landsframleiðslu til barna og fjölskyldna. Þetta hlutfall er 2,7 prósent á Íslandi og mismunurinn jafngildir um 14 milljörðum króna. Sú upphæð jafngildir því sem íslensk börn og íslenskar fjölskyldur myndu fá út úr velferðarkerfinu ef þær byggju við sömu kjör og fjölskyldur á Norðurlöndunum.

Munurinn liggur fyrst og fremst í tvennu. Annars vegar hafa réttindi til fæðingarorlofs á Íslandi dregist aftur úr hinum Norðurlöndunum og hins vegar eru barnabætur á Íslandi miklum mun lægri og veigaminni en á hinum Norðurlöndunum.

Hámarksréttindi til fæðingarorlofs eru 58 vikur að meðaltali í Noregi, Danmörku og Svíþjóð en 39 vikur á Íslandi. Foreldrar á Íslandi njóta því aðeins tveggja þriðju af réttindum norrænna foreldra til fæðingarorlofs. Orlofsbæturnar eru einnig lægri á Íslandi. Hámarksbætur hér eru um 16 prósent lægri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum, að teknu tilliti til verðlags. Hámarksbætur voru um 400 þúsund krónur á mánuði í fyrra en hefðu þurft að vera 65 þúsund krónum hærri til að jafna meðaltal Norðurlandanna.

Ef við leggjum saman lægri upphæð og skemmri orlofstíma þá er hámarksorlofið á Íslandi um 78 prósent til að jafna meðaltal Norðurlandanna. Miðað við íslenskt verðlag fá foreldrar á Íslandi mest um 3,6 milljónir króna í fæðingarorlof en myndu fá um 6,4 milljónir króna ef þeir nytu sambærilegra réttinda og foreldrar á Norðurlöndunum.

Íslendingar gera ekki vel við börn

Það er eðlismunur á barnabótum á Íslandi og á Norðurlöndunum og hann felst í því að svo til aðeins börn einstæðra foreldra og hinna allra tekjulægstu njóta barnabóta. Þetta veldur því að barnabætur á hvert barn á Íslandi eru aðeins um tveir þriðju á við það sem tíðkast að meðaltali í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.
Þessu til viðbótar verja Íslendingar líka minna til ýmis konar þjónustu sem tengist börnum; þar með talin dagvist og gæsla í skólum. Brotið niður á hvert barn verja Íslendingar aðeins um 58 prósentum af því sem hinar Norðurlandaþjóðirnar verja til þjónustu við börn.
Til að vega upp þennan mismun þyrftu Íslendingar að auka framlög til fæðingarorlofs, barnabóta og annarra greiðslna um 54 prósent á ári eða úr 22,5 milljörðum króna, eins og staðan var 2013, í um 34,6 milljarða króna. Mismunurinn er rúmlega 12 milljarðar króna.

Til að jafna meðaltal Norðurlandanna varðandi ýmissa þjónustu við börn þyrftu Íslendingar að hækka 28,3 milljarða króna framlag 2013 í 49 milljarða króna eða um 20,7 milljarða króna.

Þessi samanburður verður enn verri fyrir íslenskar barnafjölskyldur þegar haft er í huga að á hinum Norðurlöndunum; Noregi, Danmörku og Svíþjóð; koma að meðaltali um 86,4 prósent þessara framlaga úr sameiginlegum sjóðum en 13,6 prósent í gegnum gjaldtöku af þeim sem þiggja þjónustuna. Á Íslandi eru þessi hlutföll 78,2 prósent úr sameiginlegum sjóðum og 21,8 prósent í gegnum gjaldtöku.

Lágar barnabætur á Íslandi

Norræna tölfræðinefndin stillir upp barnabótum fjölskyldna á Norðurlöndunum og vegur þær út frá verðlagi hvers lands svo samanburðurinn sé sem marktækastur. Samkvæmt þessum samanburði munar ekki svo ýkja miklu á barnabótum sem börn einstæðra foreldra fá. Íslensku barnabæturnar eru um 9 prósentum lægri með einu barni, 5 prósentum lægri með tveimur börnum og 3 prósentum lægri með þremur börnum. Mismunurinn er um tvö þúsund til tvö þúsund og fimm hundruð krónur á mánuði.

Munurinn er hins vegar mikill á barnabótum með börnum fólks í sambúð. Þar eru íslensku bæturnar aðeins brot af því sem almennt tíðkast á Norðurlöndunum. Á meðan ekkert er greitt með einu barni foreldra sem eru í sambúð á Íslandi fær slíkt barn um rúmlega 17 þúsund krónur að meðaltali á Norðurlöndunum, sé miðað við íslenskt verðlag. Barnabætur með tveimur börnum fólks í sambúð eru um 5.800 krónur á Íslandi en ættu að vera um 35.100 krónur ef íslensk börn sætu við sama borð og börn á Norðurlöndunum. Barnabætur með þremur börnum fólks í sambúð eru um 12.500 krónur á Íslandi en ættu að vera um 55 þúsund krónur.

Ef við margföldum þennan mismun með 17 ára bernsku þá má segja að mismunurinn á Íslandi og hinum Norðurlöndunum sé frá 3,5 milljónum króna á hvert barn foreldra í sambúð og upp í 3,7 milljónir króna.

Íslendingar gera ekki vel við eldri borgara

Framlög Íslendinga til eldri borgara eru aðeins 5,9 prósent af landsframleiðslu á meðan þau eru 11,5 prósent af meðaltali í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Mismunurinn jafngildir hvorki meira né minna en 114 milljörðum króna.

Hluta af þessum mismun má rekja til aldurssamsetningar þjóðanna. Hlutfallslega færri Íslendingar eru komnir á ellilífeyrisaldur en íbúar hinna Norðurlandanna. Á Íslandi eru 12 prósent þjóðarinnar á ellilífeyri en hlutfallið er að meðaltali tæplega 19 prósent í hinum löndunum. Að teknu tilliti til þessa er munurinn ekki 114 milljarðar króna heldur tæplega 72,7 milljarðar króna.

Þar sem atvinnuþátttaka er meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum má jafnvel lækka þessa upphæð enn meira. Það er þó ekki víst að það gefi raunsanna mynd þar sem minni atvinnuþátttaka á Norðurlöndunum ræðst oft af því að eldra fólk er betur sett fjárhagslega og getur dregið úr vinnu þegar þrek og styrkur minnkar, auk þess sem algengara er þar að fólk færist yfir á örorkubætur áður en það fer á ellilífeyrisaldur. Mikil atvinnuþátttaka eldra fólks getur því allt eins verið merki um slæleg kjör og veika réttindastöðu.

Samkvæmt samanburði norrænu tölfræðinefndarinnar munar um 15 prósentum hvað lífeyrir er lægri á Íslandi en að meðaltali í löndunum þremur þegar tekið hefur verið tillit til mismunandi verðlags. Þar sem fólk fer seinna á lífeyri á Íslandi en í hinum löndunum gefur sú mynd ef til vill ekki rétta mynd af stuðningi Íslendinga við eldri borgara. Ef lífeyririnn er brotinn niður á íbúa að teknu tilliti til ólíkrar aldurssamsetningar er lífeyririnn á Íslandi um 30 prósent lægri.
Og þegar þjónusta við eldri borgara er borin saman kemur í ljós að Íslendingar verja um 43 prósent minna til hennar á íbúa, að teknu tilliti til aldursamsetningar, en hinar þjóðirnar.

Samanlagt má því segja að framlög Íslendinga til eldri borgara þyrftu að hækka úr 109 milljörðum króna árið 2013 í 169 milljarða króna til að jafna meðaltal Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar. Mismunurinn er hvorki meiri né minni en 60 milljarðar króna.
Ef við brjótum þessa upphæð niður á fjölda Íslendinga sem eru 67 ára eða eldri þá nemur hún um 130 þúsund krónum á mann í hverjum mánuði eða tæplega 1,6 milljónum króna á ári.

Það sem einkennir íslenska kerfið er síðan hversu mikið fólk leggur með sér úr lífeyrissjóðunum og sínum eigin sparnaði. Á meðan um 45 prósent af því sem varið er til málefna eldri borgara koma úr ríkissjóði og sveitarfélögunum á Norðurlöndunum er það hlutfall aðeins 23 prósent á Íslandi.

Ofvaxnir lífeyrissjóðir

Það eru einmitt lífeyrissjóðirnir sem helst einkenna íslenska velferðarkerfið. Gríðarlega háar upphæðir eru eyrnamerktar sparnaði til efri áranna og geymdar í sjóðum til seinna tíma nota. Samanlagt eru skattgreiðslur og lífeyrissjóðsiðgjöld á Íslandi síst lægri en skattgreiðslur á Norðurlöndunum. Skatturinn á Norðurlöndunum stendur undir mun hærri barnabótum, meiri stuðningi við fjölskyldur, veigameiri réttindum og greiðslum til eldri borgara og margs annars sem ekki hefur verið tilgreint hér.

Kári Stefánsson hefur bent á að til að jafna íslenska heilbrigðiskerfið við það sem íbúar Norðurlandanna búa við vanti árlega um 45 milljarða króna í framlög ríkissjóðs til þess málaflokks. Hér hefur verið sýnt fram á að til að jafna félagslegan stuðning á Íslandi við það sem almennt gerist á Norðurlöndunum vanti hátt í 100 milljarða króna árlega.

Gátan sem Íslendingar standa frammi er sú hvað þeir fái í staðinn fyrir velferðar- og heilbrigðiskerfið sem Norðurlandabúa eiga. Þjóðartekjur Íslendinga eru viðlíka og hinna landanna og skattgreiðslur að viðbættum lífeyrissjóðsiðgjöldum ámóta hjá flestu fólki. Og við þurfum ekki að reka her. Í hvað fara þá peningarnir okkar sem aðrar þjóðir nota til að byggja upp sitt velferðarkerfi og skapa borgurunum öryggi, réttindi og viðunandi lífskjör?

The post Verjum 100 milljörðum minna til barna, fjölskyldna og eldri borgara appeared first on Fréttatíminn.

Þetta bara mistókst

$
0
0

Hafnarfjarðarbær ætlar að draga sig að stórum hluta úr ferðaþjónustu fatlaðra sem Strætó bs hefur með höndum. Kostnaður bæjarins jókst um rúmar 100 milljónir milli áranna 2014 og 2016, eftir að Strætó tók við akstrinum. Í Kópavogi sem er talsvert stærra bæjarfélag kostaði þessi þjónusta um 73 milljónir árið 2015 en Kópavogsbær er talsvert stærri en Hafnarfjörður.

Samstarfið stóðst ekki væntingar

„Strætó bs er að selja sína þjónustu mjög dýru verði og Hafnarfjörður er að kikna undan því. Það er bara spurning hversu lengi þeir halda út,“ segir Bergur Þorri Benjamínsson, varaformaður Sjálfsbjargar.
Og bærinn er þegar búinn að ákveða að draga sig út að hluta til. „Það er alveg ljóst að við hefðum aldrei farið út í þetta ef við hefðum séð þetta fyrir,“ segir Haraldur Líndal, bæjarstjóri í Hafnarfirði, en unnið hefur verið að því í samstarfi við SSH, samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, að endurskoða reksturinn og ná niður kostnaði, þó án þess að skerða þjónustuna.
Árið 2014 var kostnaður við akstur með fatlaða í bænum um 83 milljónir en árið 2015 var hann 183 milljónir. Því hefur verið ákveðið að taka um fjörutíu prósent þjónustunnar til baka og semja við leigubílstjóra hjá bænum um að sinna henni. Þjónustan, sem bærinn hyggst sinna, á þó ekki við fólk í hjólastólum eða þá sem hafa miklar sérþarfir.
Akstursþjónusta við fatlað fólk hefur batnað talsvert því hún sætti mikilli gagnrýni áður en samstarfið hófst: „Ég held að það sé óumdeilt að þetta stóðst ekki væntingar,“ segir Haraldur. „Það var lagt upp með lægri kostnað og betri þjónustu. Verðið hefur hækkað um meira en 100 prósent en þjónustan hefur ekki batnað sem því nemur.“

Hagkvæmnin fór í vaskinn

Bergur Þorri bendir á að sá sem keyrir fyrir Kópavog sé á gömlum bílum og ekki með sambærilegan öryggisbúnað og Strætó. Þjónustan sé líka ósveigjanleg og það þurfi lengri en tveggja tíma fyrirvara til að bóka ferðir. „En markmiðið var að auka hagkvæmni þjónustunnar og það er ekki hægt að horfa framhjá því að það hefur farið algerlega í vaskinn. Menn ætluðu að gera út færri bíla fyrir jafn marga en þeir eru að gera út allt að helmingi fleiri bíla. Sannleikurinn er sár en sveitarfélögin undirbjuggu þetta ekki. Það er fyrst núna sem Strætó er farinn að ná utan um þjónustuna en á öðrum dögum eru bílstjórar allt upp í klukkutíma of seinir.“
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir

Mynd: Rut Sigurðardóttir

The post Þetta bara mistókst appeared first on Fréttatíminn.


Telur að þeir yrðu sakfelldir í hæstarétti

$
0
0

„Framhaldið liggur hjá ríkissaksóknara sem tekur endanlega ákvörðun um áfrýjun en við teljum að málið eigi að fara fyrir hæstarétt og höfum bent á fjölmörg atriði því til staðfestingar,“ segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari um sýknudóminn yfir fyrrverandi stjórnendum Kaupþings. Hann segist telja að þeir verði sakfelldir í hæstarétti, fari málið þangað. „Við skulum spyrja að leikslokum, málið hefur ekki lokið sinni vegferð í dómskerfinu.“

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, voru sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stórfelld umboðssvik.

Kaupþingsmennirnir voru ákærðir fyrir að misnota aðstöðu sína síðustu vikurnar fyrir hrun með hátt í 70 milljarða króna lánveitingum til aflandsfélaga í eigu Ólafs Ólafssonar, Kevins Stanfords og fleiri vildarviðskiptavina Kaupþings. Hluti neyðarláns Kaupþings fór til þessara lánveitinga. Ólafur Þór segir að þetta sé alls ekki stærsta hrunmálið en það hefur þó vakið upp miklar tilfinningar ekki síst vegna neyðarláns Kaupþings en margar sögur gengu um afdrif þess eftir hrunið. „Þetta er mál sem er stórt á alla kanta, gríðarlegar fjárhæðir voru í spilinu og mikið tjón,“ segir hann. Það sé þó samfélagsins en ekki héraðssaksóknara að meta hvaða mál vegi þyngst í umræðunni. Hann segir málið gríðarlega umfangsmikið og mikil vinna á bak við það, en þau hjá embættinu séu alltaf undir það búin að dómar geti fallið á báða vegu.
þká

The post Telur að þeir yrðu sakfelldir í hæstarétti appeared first on Fréttatíminn.

Frá Palestínu í Hússtjórnarskólann

$
0
0

Magnús Magnússon fór óhefðbundnar leiðir eftir útskrift úr menntaskóla. Hann ferðaðist sem sjálfboðaliði til Palestínu og varð áttundi strákurinn til þess að útskrifast úr Hússtjórnarskólanum.

Magnús Magnússon útskrifaðist úr Hússtjórnarskóla Reykjavíkur í fyrra. Eftir menntaskóla hefur hann fengist við ólík hlutverk en hann ferðaðist til Palestínu sem sjálfboðaliði, lét til sín taka í stjórn félagsins Ísland-Palestína og saumaði á sig kjól í Hússtjórnarskólanum. Kórdrengurinn úr Hamrahlíðarkórnum hefur þó ekki náð að sinna saumaskapnum í vetur en hann hóf nám við rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskólann í haust.

„Viku áður en ég fór til Palestínu hitti ég vinkonu mína í Hússtjórnarskólanum og hún seldi mér hugmyndina um að sækja um námið þar. Ég kunni lítið að elda og var ekki handlaginn. Ég lærði að elda, þvo þvott, hreinsa silfur og pússa skó. Í lok annar var okkur falið að halda heljarinnar veislu þar sem ég gróf laxinn sjálfur og bakaði kransaköku. Samhliða eldamennskunni prjónaði ég á mig lopapeysu og lokaverkefnið var að sníða og sauma á okkur kjól.“ Magnús segir skólann góða tilbreytingu eftir fjórtán ár af bóklegu námi, að læra eitthvað hagnýtt laust við alla teoríu. „Að byrja á einhverju og sjá afraksturinn er frábært. Ég lærði margt sem mig óraði ekki fyrir að ég væri fær um.“

Magnús saumaði á sig kjól í Hússtjórnarskólanum. Mynd/Rut
Magnús saumaði á sig kjól í Hússtjórnarskólanum. Mynd/Rut

Magnús situr í stjórn félagsins Ísland-Palestína sem berst gegn afnámi hernáms Ísraelsmanna í Palestínu. Hann segir vinnuna felast í því að fræða almenning um þá kúgun sem Ísraelsmenn beita Palestínumenn og þrýsta á stjórnvöld að láta til sín taka. Sigrar hafa áunnist en Ísland var fyrsta vestræna ríkið til þess að viðurkenna sjálfstæði Palestínu árið 2011. Eitt prósent þjóðarinnar mætti á mótmæli þegar árásirnar á Gaza stóðu sem hæst og segir Magnús Íslendinga vel upplýsta. „Það kom tillaga frá borgarstjórn um að sniðganga vörur frá Ísrael og mín upplifun er sú að almenningur hafi samúð með Palestínumönnum.“

Magnús fór sem sjálfboðaliði til Palestínu árið 2013 og dvaldi þar í tvo og hálfan mánuð. „Sem sjálfboðaliði ertu ekki að fara til þess að bjarga Palestínumönnum eða segja þeim hvernig á að fást við ástandið. Þeir hafa streist á móti hernámi síðan 1948 og þekkja það best sjálfir. Einn sjálfboðaliði getur ekki bjargað heiminum heldur ertu fyrst og fremst þarna til að sýna samstöðu og láta fólkið vita að heimurinn er ekki búinn að gleyma því.“

24703_Magnus_Magnusson_husstjornarskolinn
Mynd/Rut

Magnús segir félagið leggja mikla áherslu á að sjálfboðaliðastörf séu á forsendum Palestínumanna og gengið sé í það hlutverk sem þeir vita að nýtist best. Nærvera fólks úr vestrænum heimi er hluti af því. „Í Palestínu er ég í mikilli forréttindastöðu, kemst inn og út úr landinu og það er fréttnæmt ef eitthvað kemur fyrir mig. Fyrsta mánuðinn tók ég þátt í ólífuuppskeru Palestínumanna í borginni Nablus við Vesturbakkann. Þangað komu hermenn og landræningjar með byssur en það sem Ísraelsmenn óttast helst er að alheimurinn sjái framkomu þeirra, kúgunina og hryðjuverkin. Nærvera fólks frá vestrænum heimi með myndavélar og rödd til að segja frá, veitir því Palestínumönnum vernd.“ Aðspurður hvort hann hafi verið smeykur á einhverjum tímapunkti segir hann það margsinnis hafa komið fyrir. „Ég var oft hræddur enda ekki vanur að vera í kringum byssur. Ofbeldið þarna er mikið. Það sem kom mér á óvart var hvernig fólk finnur leið til að halda sínu lífi áfram þrátt fyrir að hernámið snerti alla fleti samfélagsins.“

Eftir ævintýri síðustu ára er Magnús snúinn aftur til akademíunnar í rafmagns- og tölvunarverkfræði. Hann segir áskorun að finna tíma fyrir handavinnuna en mikilvægt að halda sér við. „Hússtjórnarskólinn kenndi mér að bera virðingu fyrir hlutum og handverki. Reynslan sjálf var bæði dýrmæt og mannbætandi.“

The post Frá Palestínu í Hússtjórnarskólann appeared first on Fréttatíminn.

Finnst hann of gamall til að búa heima

$
0
0
24430, ragnar bjarni stefansson, unglingur, byr heima, foreldrahus, eilifdarunglingur
Ragnar Bjarni býr með móður sinni í Hlíðunum. Myndir|Rut Sigurðardóttir

Með hækkandi leiguverði og minnkandi framboði á húsnæði sem hentar ungu fólki í startholum lífsins fjölgar þeim sem dvelja í hreiðrinu fram eftir aldri. Talið er að nærri helmingur ungs fólks á aldrinum 18-30 ára í Evrópu búi enn í foreldrahúsum. Ísland er þar ekki undanskilið. Eru þetta ósjálfstæðir eilífðarunglingar eða er þetta bara það sem koma skal ef leigumarkaðurinn breytist ekki?

Ragnar Bjarni Stefánsson er 23 ára gamall og vinnur sem tæknimaður í banka. Hann býr í Hlíðunum með móður sinni og segir það henta þeim báðum vel, enda borgi hann leigu og þau hjálpist að með útgjöld heimilisins.
„Mig langar að safna mér fyrir útborgun í íbúð og ég gæti það ekki ef ég væri á leigumarkaðinum einn. Sérstaklega þar sem ég er miðbæjarrotta og langar að búa niðrí bæ.“ Hann segir þó að sér sé farið að finnast hann of gamall til að búa heima. „Ég er kominn á það stig að skammast mín smá þegar ég segist búa með mömmu, en veit samt að ég er bara einn af mörgum.“ Hann segir svo ungu kynslóðina í dag einfaldlega vera í allt annarri stöðu en kynslóð foreldranna. „Foreldrar okkar fluttu út eða var hreinlega hent út þegar þeir voru 17 ára, en eins og staðan er á leigumarkaðnum núna er það varla séns fyrir okkur.“

Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir
salka@frettatiminn.is

 

24430, ragnar bjarni stefansson, unglingur, byr heima, foreldrahus, eilifdarunglingur

Ragnar Bjarni er sá þriðji í seríu heimsókna til fullorðinna sem búa í foreldrahúsum. Áður hafa þau Kristín Helga og Hrútur verið heimsótt.

 

The post Finnst hann of gamall til að búa heima appeared first on Fréttatíminn.

Fyrirmyndir eru líka óöruggar

$
0
0

Impostor Syndrome, eða loddaraheilkenni, er heiti yfir þá tilhneigingu fólks, sem nær miklum árangri, að taka ekki mark á eigin árangri og lifa í stöðugum ótta við að vera afhjúpað sem loddararnir sem því finnst það vera. Öll merki um eigin verðleika stimplar það sem ávöxt heppni eða þess að þú hafir gabbað aðra til að trúa því að það sé velgengninnar vert. Hljómar kunnuglega?

Oft eru þeir sem finna fyrir loddaraheilkenni einmitt fólkið sem nær sem mestum árangri. Meðal þekktra einstaklinga sem þjáðst hafa af þessari rökvillu eru metsöluhöfundurinn Neil Gaiman og leikkonan Emma Watson. Ætli þeir sem við lítum upp til hér á landi kannist við þetta líka?

María Rut Kristinsdóttir er talskona Druslugöngunnar og fékk nýlega stöðu innan innanríkisráðuneytisins til að endurskoða verkferla þegar kemur að kynferðisbrotum.
Hún hafði ekki heyrt um hugtakið áður en segir það eiga vel við sig. „Unnusta mín hefur oft hlegið að mér þegar ég býsnast yfir því af hverju það sé verið að fá MIG í hitt og þetta, en ég held þetta sé líka ákveðið verkfæri til að halda sér á tánum og ofmetnast ekki. Ég þarf samt að venja mig á að gefa mér ekki alltaf afslátt og halda að það sé tilviljun þegar vel gengur, en ég held að þetta sé ekki af hinu slæma ef maður áttar sig á að tilfinningin er ekki raunveruleg.“

Unnsteinn Manuel Stefánsson, tónlistarmaður og þáttagerðarmaður, tengir strax við loddaraeinkennið:
„Já, ég hef þjáðst af þessu. Þegar ég byrjaði að gera sjónvarpsþættina Hæpið gat ég varla sofið á næturnar, þetta var alveg hræðilegt. Ég var að vinna 10-12 tíma á dag en var samt aldrei sáttur við það sem kom út úr því. Svo komu þættirnir út og fólk hrósaði manni fyrir þá og þá fattaði ég að þetta hefðu verið aðeins of miklar áhyggjur. Ég held að flestir sem gera eitthvað skapandi takist á við þetta. Lykillinn er að hugsa ekki um hvað öðrum finnst þegar maður semur, heldur semja til að hafa gaman sjálfur. Af því ef þú miðar það sem þú gerir út frá öðrum ertu orðinn alvöru loddari, eins og þú óttaðist.“

Þorsteinn B. Friðriksson er forstjóri fyrirtækisins Plain Vanilla:
„Auðvitað fer maður í gegnum tímabil þar sem fyrirtæki sem ég var með gengu ekki vel og þá fyllist maður hugsunum um hvort maður sé bara að gera einhverja vitleysu. Ég held samt að sú tilhneiging manna til að þakka allan árangur sjálfum sér en kenna utanaðkomandi aðstæðum um þegar illa gengur, sé jafnvel verri. Árangur er alltaf sambland af vinnu, heppni, fólkinu sem vinnur með manni og svo framvegis. Svo það væru mistök ef ég eignaði mér sjálfum minn árangur. Í samfélaginu sem við búum í er fólk oft tilbúið að stimpla það sem heppni þegar einhverjum gengur vel, það er kannski þaðan sem þetta óöryggi kemur.“

Margrét Erla Maack dagskrárgerðarkona: „Algjörlega, maður hefur tilhneigingu til að lesa ótrúlega mikið í gagnrýni en humma hrósið svo af sér. Svo er maður líka bara loddari í alvörunni á sumum sviðum og það getur oft bara hjálpað manni. Að skítamixa sig aðeins í gegnum hluti af og til hjálpar manni oft, ég hef alveg DJ-að þó ég kunni ekki öll trixin og farið í viðtöl á tungumáli sem ég kann ekki fullkomlega, en það er bara allt í lagi. Enginn er fullkominn í því sem hann gerir, þó maður eigi alltaf að gera 100% eftir sinni eigin getu.
Það er svo mikilvægt að fatta að allir eru óöruggir að einhverju leyti. Besta leiðin til að ráða við það er að líta til baka á stöður sem maður fékk og fannst maður ekki eiga skilið. Þegar tíminn líður frá sé ég þær í réttu ljósi: Auðvitað réðu þau mig í þetta, af hverju fannst mér það eitthvað skrýtið?“

Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir
salka@frettatiminn.is

The post Fyrirmyndir eru líka óöruggar appeared first on Fréttatíminn.

Lífsreynslan: Varð blindur á einni viku

$
0
0

„Í sumar verða tímamót í mínu lífi því þá hef ég verið jafn lengi blindur og sjáandi,“ segir Bergvin Oddsson sem hefur verið blindur frá því að hann var fimmtán ára gamall. Bergvin fékk herpes vírus í vinstra augað þegar hann var þrettán ára og missti þá sjón á öðru auganu. Tveimur árum síðar fékk hann vírusinn í hægra augað.

„Ég var sendur með flugi til London þar sem ég var lagður inn á spítala sem sérhæfir sig í augnlækningum og fékk lyf beint í æð sem átti að drepa sýkinguna en það virkaði ekki. Á leiðinni til London gekk ég um fríhöfnina og skoðað mig um eins og vanalega en á heimleiðinni gekk ég blindur þar í gegn og hef ekkert séð síðan. Ég bjóst aldrei við því að ég væri að sjá Ísland í síðasta sinn.“

„Ég var 15 ára fótboltastrákur í Vestmannaeyjum sem ætlaði að spila fótbolta og fara á sjóinn en það var ekki lengur mögulegt. Ég gerði mér ekki fyllilega grein fyrir því hvað var að gerast og bjóst hálfpartinn við því að fá sjónina aftur. Heima var öll áhersla lögð á að hjálpa mér í gegnum 10. bekk en þessi vetur tók mikið á fjölskylduna. Erfiðast af öllu var að missa vinina. Þeir hættu að koma og ég held að það hafi verið vegna hræðslu og óöryggis, frekar en að þeim hafi fundist glatað að eiga blindan vin. Að takast á við félagslega einangrun var miklu erfiðara en að takast á við skólann og íþróttirnar.“

„Ég var reiður í fyrstu en þegar reiðin rann af mér varð ég ákveðinn í að láta blinduna ekki stjórna lífi mínu. Mamma vildi hjálpa mér við allt en ég vildi læra að gera allt upp á nýtt. Allt í einu snerist allt um að finna nýjar leiðir. Ég flutti að heiman sextán ára og er óendanlega þakklátur foreldrum mínum fyrir að hafa treyst mér til þess að hugsa um mig sjálfur. Ég fór í MH og fékk herbergi hjá Blindrafélaginu. Kynntist svo konunni minni á balli, við fluttumst til Akureyrar og síðar lærði ég stjórnmálafræði.“

„Þó maður sé blindur þá getur maður alveg ferðast og upplifað hluti, ég upplifi þá bara á annan hátt. Við hjónin ferðumst mikið og París er uppáhaldsborgin okkar. En það er tvennt sem mig langar til að sjá. Ég væri mikið til í að fá að fljúga yfir höfuðborgarsvæðið og sjá hvernig það hefur breyst á fimmtán árum. Svo myndi ég gefa afskaplega mikið fyrir að fá að sjá börnin mín, þó ekki væri nema í tvær mínútur.“

Bergvin OddsonLífsreynslan: að verða blindur

The post Lífsreynslan: Varð blindur á einni viku appeared first on Fréttatíminn.

Viewing all 7652 articles
Browse latest View live