Herkastalinn verður lúxushótel í miðbænum. Hann hefur verið seldur hæstbjóðanda fyrir 690 milljónir og Hjálpræðisherinn flytur þaðan með haustinu. Þar með lýkur hundrað ára sögu kastalans í núverandi hlutverki sínu, húss sem hefur verið einn litríkasti þáttur í miðbæjarlífi Reykjavíkur, en starf hans á þessum bletti er enn eldra, eða frá því á 19. öld.
Glatt hjarta veitir góða heilsubót, en dapurt geð skrælir beinin. Þessi vísdómsorð úr orðskviðunum eru letruð í samkomusal Hjálpræðishersins, þar sem meðal annars er núna rekið súpueldhús í hádeginu fyrir utangarðsfólk og einstæðinga. Ég og Rut ljósmyndari lítum við í hádeginu á mánudag og fengum heita súpu, brauð og kaffi hjá Rúnu og Jóa kokki ásamt fastagestum staðarins. Eigendur Kastalans ehf, sem hefur fest kaup á húsinu, hafa lýst því yfir að þeir vilji halda einhverju af yfirbragði herkastalans í innréttingum hótelsins en ekkert liggur fyrir um það.

„Ég held að útigangsmenn og heimilislausir séu ekkert að fara að labba í sjónum í tvo tíma til að borða súpu uppi í Mjódd,“ segir Steinar Stefánsson sem er mættur í súpuna. Honum lýst bölvanlega á það að Hjálpræðisherinn sé að flytja úr kastalanum. „Það hefur verið gott að geta komið hingað en ég á ekkert strætókort til að fara upp í Breiðholt,“ segir Steinar. Hann segir erfitt og kalt að vera heimilislaus, sem betur fer hafi hann herbergi núna. Hann hafi um tíma leigt sér fjögurra fermetra gluggalausa geymslu til að sleppa við gistiskýlið. Þar er ömurlegt að vera. Það er öllu stolið. Þeir tóku meira að segja nærbuxurnar mínar.“

„Ég bý nú bara á götunni núna,“ segir Tindur Gabríel Kristinsson. „Ég hef verið meira og minna á götunni frá því ég var sjö ára en þá dó mamma mín úr krabbameini. Ég fór til ömmu minnar en hún var of gömul og veik til að hugsa almennilega um mig. Ég flakkaði bara um og ól mig upp sjálfur með rónum og útigangsmönnum.“ En hvernig er að ganga úti í frostinu? „Það er hrikalegt helvíti, hryllingur alveg hreint,“ segir Tindur. „Það er bara gistiskýlið og það er ekkert líf að vera þar. Þar er öllum blandað saman, þeim sem drekka, eru í eiturlyfjum og þeim sem eru kolbrjálaðir. Og svo á fólk bara að ganga úti í frostinu allan liðlangan daginn, þangað til öllum er loksins hleypt inn að sofa.“

„Ég mun sakna herkastalans mikið,“ segir Grímur Hjartarson. „Ég bý á Skúlagötunni en kem hingað yfirleitt til að heyra bæn á daginn og fæ að hlýja mér yfir hörðustu vetrarmánuðina. Ég ber mikla virðingu fyrir hermönnum Hjálræðishersins og samherjunum. Mér finnst mjög vont að herinn sé að fara úr kastalanum. En allt er breytingum undirorpið, því miður.“

Hjálpræðisherinn hefur veitt margvíslegt hjálpræði fyrir þá sem minnst mega sín í borginni gegnum alla sína sögu. Saga utangarðsfólks, ofdrykkjumanna og smælingja er samofin sögu kastalans. Þar hafa gengið um sali Jón Kristófer sem varð kadett í hernum, eins og Steinn Steinarr orti, og Pétur Hoffmann, glímukappi, safnari, varðmaður gullstrandarinnar, Gussi dvergur, Vestmannaeyja-Anna og Arnþór Jakobsson sem var ötull mótmælandi og þekktur fyrir að standa uppi á kassa og halda þrumandi ræður í miðbænum, jafnvel þótt engir áheyrendur væru til staðar.
Syndarar velkomnir
Saga herkastalans hófst fyrir aldamótin 1900 þegar Hjálpræðisherinn festi kaup á Hótel Reykjavík, sem þá var helsti skemmtistaður Reykvíkinga. „Þá var sagt að herinn hefði náð að hertaka eitt helsta vígi djöfulsins, enda var hótelið þekkt fyrir gleðskap og fyllirí,“ segir Hákon Óskarsson sem ólst upp í herkastalanum, enda fæddur inn í helstu hjálpræðisherfjölskyldu landsins, sonur Óskars Jónssonar og Ingibjargar Einarsdóttur.

Hermenn Drottins úthýstu syndinni með öllu en buðu syndarana velkomna sem fæstir áttu í önnur hús að venda. Frá upphafi var rekið gistiheimili í kastalanum og fyrirrennara hans. „Þarna var alla tíð mikið af sjómönnum,“ segir Hákon Óskarsson. „Þá kom hingað mikið af hermönnum á stríðsárunum sem tengdust hjálpræðishernum í heimalöndum sínum, þarna voru auðvitað meðlimir Hjálpræðishersins á Íslandi og félagar frá Noregi og Færeyjum. Þá sóttu þangað drykkjumenn og heimilisleysingjar og konur sem voru að flýja ofbeldisfulla eiginmenn, með börnin, enda var ekkert Kvennaathvarf komið til sögunnar,“ segir Hákon, Þá var um hríð rekin vöggustofa í kastalanum, þar dvöldu börn sem mæðurnar gátu ekki alið önn fyrir, mörg þeirra áttu bandaríska eða breska hermenn að feðrum en herinn sá um að koma þessum börnum í varanlegt fóstur eða gefa þau til ættleiðingar.

Samvistum við hermenn guðs, smælingja og róna
„Það var auðvitað skrítið fyrir börn að alast upp innan um allt þetta fólk, hermenn, drykkjumenn, sinnisveika, konur sem voru að flýja ofbeldisfulla eiginmenn, munaðarleysingja og að ógleymdum færeysku sjómönnunum. Ég lærði færeysku með móðurmjólkinni,“ segir Hákon hlæjandi og bætir við að hann líti á þetta sem mikilvæg forréttindi. „Margir héldu að þetta væri stöðugt áreiti og vont fyrir börn að vera samvistum við smælingja og róna en það var alls ekki þannig. Þeir voru yfirleitt mjög góðir við okkur börnin.“
Hákon segir að það hafi þó stundum verið ansi líflegt í kringum gistiheimilið. „Eina nóttina vaknaði ég upp við gríðarlegan hávaða og fór fram til að vita hverju sætti. Þá var pabbi þar í slagsmálum við dauðadrukkinn sjómann sem var með læti. Þetta kom nú stundum fyrir og pabbi nefbrotnaði tvisvar eða þrisvar. Um tíma var nefið alveg úti á kinn en svo náði það sér á strik aftur.“

Á samkomur hersins mætti stór og fjölbreytilegur hópur fólks en þær þóttu líflegar og mikið sungið og spilað. „Eftir samkomur var öllum boðið í kaffi til pabba og mömmu í litlu foringjaíbúðina en þar var oft þröngt setið,“ segir Rannveig Óskarsdóttir en hún fæddist í herkastalanum árið 1944 og bjó þar í tvö ár, áður en fjölskyldan fluttist til Ísafjarðar og bjó þar á Hjálpræðishernum. „Mér finnst eins og ég muni eftir því að hafa vaknað í íbúðinni, heyrt sönginn niðri og farið niður stigana á hvíta náttkjólnum, með ljóst hárið eins og geislabaug um höfuðið. Kannski hefur mér bara verið sagt það, en það vakti allavega mikla athygli þegar tveggja ára barn kom labbandi inn á samkomuna.“
Í fullum skrúða á foreldrafundi
Rannveig átti síðar eftir að búa önnur tvö tímabil í kastalanum sem barn og unglingur. Hún segir að þetta hafi óneitanlega verið dálítið öðruvísi líf og bæði einangrunin og flökkulífið sem fylgdi hermennsku foreldranna gerði það að verkum að þau eignuðust ekki marga vini. „Ég kveið alltaf fyrir foreldrafundum í Miðbæjarskólanum, þá mættu pabbi og mamma í hermannabúningi. Mér var yfirleitt strítt svolítið á eftir. Það var öðruvísi þegar við vorum í fullum skrúða að syngja úti á götu. Þá var maður hluti af hópnum. Mér fannst ég berskjaldaðri í skólanum. En það var gaman að alast upp í kastalanum og ansi líflegt. Hingað komu lúðrasveitir frá Færeyjum og ungir hermenn frá Noregi.“
,,Æ, góða Rannveig, þú varst bara skotin í þeim,“ segir bróðir hennar glottandi og hún stjakar við honum í sófanum.
„Stór hluti starfsins í Hjálpræðishernum fólst í boðun á samkomum og á götum úti. Annar mikilvægur hluti var að fara í húsvitjanir til þeirra sem minna máttu sín og heimsækja þá sem lágu á spítala og áttu engan að. Við kynntumst því snemma annarri hlið á Reykjavík en venjulegir borgarbúar þekktu, fólki sem var útskúfað, sem venjulegir borgarbúar vildu hvorki heyra né sjá,“ segir Rannveig.
Jólahaldið í kastalanum
Flestir hafa heyrt eða lesið um jólahaldið í herkastalanum. Á aðfangadag hefur öllum sem vilja verið boðið í jólamat og hátíðardagskrá. Þar hafa fátækir, heimilislausir, einstæðingar, erlendir sjómenn og hermenn haldið saman jól frá upphafi vega. Eftir það taka við jólasamkomur hersins sem standa nær óslitið fram á þrettándann, þar má nefna jólaball Færeyinga, jólaball öldunga og jólaskemmtun Heimilissambandsins sem er kvenfélag hersins. Rannveig segir að þau hafi alltaf tekið þátt í sameiginlegu jólahaldi hersins, á aðfangadagskvöld hafi fjölskyldan þó átt saman stund eftir klukkan tíu í foringjaíbúðinni, þegar aðrir gestir voru farnir.

Bæði systkinin lærðu að leika á lúður en Rannveig spilar auk þess á gítar. Rannveig hefur verið búsett fyrir norðan áratugum saman og alla tíð haldið tryggð við Hjálpræðisherinn eins og öll hin systkinin, meðal annars Miriam Óskarsson sem er landsmönnum að góðu kunn fyrir tónlist. Hákon var vígður til hermanns þegar hann var fimmtán ára, en hann sagði hinsvegar skilið við herinn og hefur varla komið í herkastalann í 50 ár. Hann segist ekki hafa haft áhuga á frekara starfi. „Þegar ég var sautján ára fluttu foreldrar mínir úr kastalanum. Þau fóru til Bergen í Noregi en ég fór hinsvegar að leigja herbergi úti í bæ. Þá slitnaði upp úr tengslum hans við herinn, hann lauk menntaskólanámi og lagði fyrir sig líffræði í háskólanum. Rannveig var hinsvegar í fyrsta hópnum sem útskrifaðist sem sjúkraliði.
Gistihús á dýrasta stað í Reykjavík
Það var norski hjálpræðisherinn sem hafði frumkvæði að því að láta selja herkastalann. Ljóst var, að mati Norðmanna, að gistihús á dýrasta stað í Reykjavík væri ekki brýnasta viðfangsefni hersins, auk þess sem við blöstu viðgerðir á húsinu fyrir um 300 milljónir króna. Norðmenn hafa látið mikið af hendi rakna til hjálparstarfs á Íslandi í gegnum tíðina, til að mynda var dagsetrið fyrir utangarðsmenn á Granda rekið fyrir peninga frá Noregi, þar til borgin tók að sér að greiða gjald fyrir reksturinn, skömmu áður en herinn missti húsnæði sitt og dagsetrinu var lokað.

Þau segja að það sé sjónarsviptir að herkastalanum úr miðbænum að mörgu leyti. „Það er svolítið sárt, að þessu hluti sögunnar sé að fara,“ segir Rannveig. Hákon segir að frá sjónarmiði Hjálpræðishersins sé þetta þó hárrétt ákvörðun. „Herinn þarf að vera miðsvæðis í borginni eins og hún lítur úr núna, þar sem flestir geta komist án mikillar fyrirhafnar og fengið bílastæði, „Svona gríðarlega miklir peningar nýtast betur í annað starf, en hús sem er bæði gamalt og óhentugt og á dýrasta stað í borginni, ef maður horfir til inntaks Hjálpræðishersins. En auðvitað er eftirsjá að herkastalanum með þessa miklu sögu.“
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir
tka@frettatiminn.is
myndir/Rut. Svarthvítar myndir úr safni Hjálpræðishersins.
The post Kastalinn verður lúxushótel – síðasta vígi smælingjanna fallið appeared first on Fréttatíminn.