Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all 7652 articles
Browse latest View live

Kastalinn verður lúxushótel – síðasta vígi smælingjanna fallið

$
0
0

Herkastalinn verður lúxushótel í miðbænum. Hann hefur verið seldur hæstbjóðanda fyrir 690 milljónir og Hjálpræðisherinn flytur þaðan með haustinu. Þar með lýkur hundrað ára sögu kastalans í núverandi hlutverki sínu, húss sem hefur verið einn litríkasti þáttur í miðbæjarlífi Reykjavíkur, en starf hans á þessum bletti er enn eldra, eða frá því á 19. öld.

Glatt hjarta veitir góða heilsubót, en dapurt geð skrælir beinin. Þessi vísdómsorð úr orðskviðunum eru letruð í samkomusal Hjálpræðishersins, þar sem meðal annars er núna rekið súpueldhús í hádeginu fyrir utangarðsfólk og einstæðinga. Ég og Rut ljósmyndari lítum við í hádeginu á mánudag og fengum heita súpu, brauð og kaffi hjá Rúnu og Jóa kokki ásamt fastagestum staðarins. Eigendur Kastalans ehf, sem hefur fest kaup á húsinu, hafa lýst því yfir að þeir vilji halda einhverju af yfirbragði herkastalans í innréttingum hótelsins en ekkert liggur fyrir um það.

24822, herkastalinn, hjálpræðisherinn, hákon, rannveig, súpa, starfsmenn, herforingi, þóra kristín

„Ég held að útigangsmenn og heimilislausir séu ekkert að fara að labba í sjónum í tvo tíma til að borða súpu uppi í Mjódd,“ segir Steinar Stefánsson sem er mættur í súpuna. Honum lýst bölvanlega á það að Hjálpræðisherinn sé að flytja úr kastalanum. „Það hefur verið gott að geta komið hingað en ég á ekkert strætókort til að fara upp í Breiðholt,“ segir Steinar. Hann segir erfitt og kalt að vera heimilislaus, sem betur fer hafi hann herbergi núna. Hann hafi um tíma leigt sér fjögurra fermetra gluggalausa geymslu til að sleppa við gistiskýlið. Þar er ömurlegt að vera. Það er öllu stolið. Þeir tóku meira að segja nærbuxurnar mínar.“

24822, herkastalinn, hjálpræðisherinn, hákon, rannveig, súpa, starfsmenn, herforingi, þóra kristín
Steinar Stefánsson

 

„Ég bý nú bara á götunni núna,“ segir Tindur Gabríel Kristinsson. „Ég hef verið meira og minna á götunni frá því ég var sjö ára en þá dó mamma mín úr krabbameini. Ég fór til ömmu minnar en hún var of gömul og veik til að hugsa almennilega um mig. Ég flakkaði bara um og ól mig upp sjálfur með rónum og útigangsmönnum.“ En hvernig er að ganga úti í frostinu? „Það er hrikalegt helvíti, hryllingur alveg hreint,“ segir Tindur. „Það er bara gistiskýlið og það er ekkert líf að vera þar. Þar er öllum blandað saman, þeim sem drekka, eru í eiturlyfjum og þeim sem eru kolbrjálaðir. Og svo á fólk bara að ganga úti í frostinu allan liðlangan daginn, þangað til öllum er loksins hleypt inn að sofa.“

24822, herkastalinn, hjálpræðisherinn, hákon, rannveig, súpa, starfsmenn, herforingi, þóra kristín
Grímur Hjartarsson

„Ég mun sakna herkastalans mikið,“ segir Grímur Hjartarson. „Ég bý á Skúlagötunni en kem hingað yfirleitt til að heyra bæn á daginn og fæ að hlýja mér yfir hörðustu vetrarmánuðina. Ég ber mikla virðingu fyrir hermönnum Hjálræðishersins og samherjunum. Mér finnst mjög vont að herinn sé að fara úr kastalanum. En allt er breytingum undirorpið, því miður.“

24822, herkastalinn, hjálpræðisherinn, hákon, rannveig, súpa, starfsmenn, herforingi, þóra kristín
Tindur Gabríel Kristinsson

 

Hjálpræðisherinn hefur veitt margvíslegt hjálpræði fyrir þá sem minnst mega sín í borginni gegnum alla sína sögu. Saga utangarðsfólks, ofdrykkjumanna og smælingja er samofin sögu kastalans. Þar hafa gengið um sali Jón Kristófer sem varð kadett í hernum, eins og Steinn Steinarr orti, og Pétur Hoffmann, glímukappi, safnari, varðmaður gullstrandarinnar, Gussi dvergur, Vestmannaeyja-Anna og Arnþór Jakobsson sem var ötull mótmælandi og þekktur fyrir að standa uppi á kassa og halda þrumandi ræður í miðbænum, jafnvel þótt engir áheyrendur væru til staðar.

Syndarar velkomnir

Saga herkastalans hófst fyrir aldamótin 1900 þegar Hjálpræðisherinn festi kaup á Hótel Reykjavík, sem þá var helsti skemmtistaður Reykvíkinga. „Þá var sagt að herinn hefði náð að hertaka eitt helsta vígi djöfulsins, enda var hótelið þekkt fyrir gleðskap og fyllirí,“ segir Hákon Óskarsson sem ólst upp í herkastalanum, enda fæddur inn í helstu hjálpræðisherfjölskyldu landsins, sonur Óskars Jónssonar og Ingibjargar Einarsdóttur.

24822, herkastalinn, hjálpræðisherinn, hákon, rannveig, súpa, starfsmenn, herforingi, þóra kristín

Hermenn Drottins úthýstu syndinni með öllu en buðu syndarana velkomna sem fæstir áttu í önnur hús að venda. Frá upphafi var rekið gistiheimili í kastalanum og fyrirrennara hans. „Þarna var alla tíð mikið af sjómönnum,“ segir Hákon Óskarsson. „Þá kom hingað mikið af hermönnum á stríðsárunum sem tengdust hjálpræðishernum í heimalöndum sínum, þarna voru auðvitað meðlimir Hjálpræðishersins á Íslandi og félagar frá Noregi og Færeyjum. Þá sóttu þangað drykkjumenn og heimilisleysingjar og konur sem voru að flýja ofbeldisfulla eiginmenn, með börnin, enda var ekkert Kvennaathvarf komið til sögunnar,“ segir Hákon, Þá var um hríð rekin vöggustofa í kastalanum, þar dvöldu börn sem mæðurnar gátu ekki alið önn fyrir, mörg þeirra áttu bandaríska eða breska hermenn að feðrum en herinn sá um að koma þessum börnum í varanlegt fóstur eða gefa þau til ættleiðingar.

24822, herkastalinn, hjálpræðisherinn, hákon, rannveig, súpa, starfsmenn, herforingi, þóra kristín
Hákon Óskarsson

Samvistum við hermenn guðs, smælingja og róna

„Það var auðvitað skrítið fyrir börn að alast upp innan um allt þetta fólk, hermenn, drykkjumenn, sinnisveika, konur sem voru að flýja ofbeldisfulla eiginmenn, munaðarleysingja og að ógleymdum færeysku sjómönnunum. Ég lærði færeysku með móðurmjólkinni,“ segir Hákon hlæjandi og bætir við að hann líti á þetta sem mikilvæg forréttindi. „Margir héldu að þetta væri stöðugt áreiti og vont fyrir börn að vera samvistum við smælingja og róna en það var alls ekki þannig. Þeir voru yfirleitt mjög góðir við okkur börnin.“
Hákon segir að það hafi þó stundum verið ansi líflegt í kringum gistiheimilið. „Eina nóttina vaknaði ég upp við gríðarlegan hávaða og fór fram til að vita hverju sætti. Þá var pabbi þar í slagsmálum við dauðadrukkinn sjómann sem var með læti. Þetta kom nú stundum fyrir og pabbi nefbrotnaði tvisvar eða þrisvar. Um tíma var nefið alveg úti á kinn en svo náði það sér á strik aftur.“

24822, herkastalinn, hjálpræðisherinn, hákon, rannveig, súpa, starfsmenn, herforingi, þóra kristín
Rannveig Óskarsdóttir

Á samkomur hersins mætti stór og fjölbreytilegur hópur fólks en þær þóttu líflegar og mikið sungið og spilað. „Eftir samkomur var öllum boðið í kaffi til pabba og mömmu í litlu foringjaíbúðina en þar var oft þröngt setið,“ segir Rannveig Óskarsdóttir en hún fæddist í herkastalanum árið 1944 og bjó þar í tvö ár, áður en fjölskyldan fluttist til Ísafjarðar og bjó þar á Hjálpræðishernum. „Mér finnst eins og ég muni eftir því að hafa vaknað í íbúðinni, heyrt sönginn niðri og farið niður stigana á hvíta náttkjólnum, með ljóst hárið eins og geislabaug um höfuðið. Kannski hefur mér bara verið sagt það, en það vakti allavega mikla athygli þegar tveggja ára barn kom labbandi inn á samkomuna.“

Í fullum skrúða á foreldrafundi

Rannveig átti síðar eftir að búa önnur tvö tímabil í kastalanum sem barn og unglingur. Hún segir að þetta hafi óneitanlega verið dálítið öðruvísi líf og bæði einangrunin og flökkulífið sem fylgdi hermennsku foreldranna gerði það að verkum að þau eignuðust ekki marga vini. „Ég kveið alltaf fyrir foreldrafundum í Miðbæjarskólanum, þá mættu pabbi og mamma í hermannabúningi. Mér var yfirleitt strítt svolítið á eftir. Það var öðruvísi þegar við vorum í fullum skrúða að syngja úti á götu. Þá var maður hluti af hópnum. Mér fannst ég berskjaldaðri í skólanum. En það var gaman að alast upp í kastalanum og ansi líflegt. Hingað komu lúðrasveitir frá Færeyjum og ungir hermenn frá Noregi.“
,,Æ, góða Rannveig, þú varst bara skotin í þeim,“ segir bróðir hennar glottandi og hún stjakar við honum í sófanum.
„Stór hluti starfsins í Hjálpræðishernum fólst í boðun á samkomum og á götum úti. Annar mikilvægur hluti var að fara í húsvitjanir til þeirra sem minna máttu sín og heimsækja þá sem lágu á spítala og áttu engan að. Við kynntumst því snemma annarri hlið á Reykjavík en venjulegir borgarbúar þekktu, fólki sem var útskúfað, sem venjulegir borgarbúar vildu hvorki heyra né sjá,“ segir Rannveig.

Jólahaldið í kastalanum

Flestir hafa heyrt eða lesið um jólahaldið í herkastalanum. Á aðfangadag hefur öllum sem vilja verið boðið í jólamat og hátíðardagskrá. Þar hafa fátækir, heimilislausir, einstæðingar, erlendir sjómenn og hermenn haldið saman jól frá upphafi vega. Eftir það taka við jólasamkomur hersins sem standa nær óslitið fram á þrettándann, þar má nefna jólaball Færeyinga, jólaball öldunga og jólaskemmtun Heimilissambandsins sem er kvenfélag hersins. Rannveig segir að þau hafi alltaf tekið þátt í sameiginlegu jólahaldi hersins, á aðfangadagskvöld hafi fjölskyldan þó átt saman stund eftir klukkan tíu í foringjaíbúðinni, þegar aðrir gestir voru farnir.

24822, herkastalinn, hjálpræðisherinn, hákon, rannveig, súpa, starfsmenn, herforingi, þóra kristín

Bæði systkinin lærðu að leika á lúður en Rannveig spilar auk þess á gítar. Rannveig hefur verið búsett fyrir norðan áratugum saman og alla tíð haldið tryggð við Hjálpræðisherinn eins og öll hin systkinin, meðal annars Miriam Óskarsson sem er landsmönnum að góðu kunn fyrir tónlist. Hákon var vígður til hermanns þegar hann var fimmtán ára, en hann sagði hinsvegar skilið við herinn og hefur varla komið í herkastalann í 50 ár. Hann segist ekki hafa haft áhuga á frekara starfi. „Þegar ég var sautján ára fluttu foreldrar mínir úr kastalanum. Þau fóru til Bergen í Noregi en ég fór hinsvegar að leigja herbergi úti í bæ. Þá slitnaði upp úr tengslum hans við herinn, hann lauk menntaskólanámi og lagði fyrir sig líffræði í háskólanum. Rannveig var hinsvegar í fyrsta hópnum sem útskrifaðist sem sjúkraliði.

Gistihús á dýrasta stað í Reykjavík

Það var norski hjálpræðisherinn sem hafði frumkvæði að því að láta selja herkastalann. Ljóst var, að mati Norðmanna, að gistihús á dýrasta stað í Reykjavík væri ekki brýnasta viðfangsefni hersins, auk þess sem við blöstu viðgerðir á húsinu fyrir um 300 milljónir króna. Norðmenn hafa látið mikið af hendi rakna til hjálparstarfs á Íslandi í gegnum tíðina, til að mynda var dagsetrið fyrir utangarðsmenn á Granda rekið fyrir peninga frá Noregi, þar til borgin tók að sér að greiða gjald fyrir reksturinn, skömmu áður en herinn missti húsnæði sitt og dagsetrinu var lokað.

24822, herkastalinn, hjálpræðisherinn, hákon, rannveig, súpa, starfsmenn, herforingi, þóra kristín

Þau segja að það sé sjónarsviptir að herkastalanum úr miðbænum að mörgu leyti. „Það er svolítið sárt, að þessu hluti sögunnar sé að fara,“ segir Rannveig. Hákon segir að frá sjónarmiði Hjálpræðishersins sé þetta þó hárrétt ákvörðun. „Herinn þarf að vera miðsvæðis í borginni eins og hún lítur úr núna, þar sem flestir geta komist án mikillar fyrirhafnar og fengið bílastæði, „Svona gríðarlega miklir peningar nýtast betur í annað starf, en hús sem er bæði gamalt og óhentugt og á dýrasta stað í borginni, ef maður horfir til inntaks Hjálpræðishersins. En auðvitað er eftirsjá að herkastalanum með þessa miklu sögu.“

 

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir

tka@frettatiminn.is

myndir/Rut. Svarthvítar myndir úr safni Hjálpræðishersins.

The post Kastalinn verður lúxushótel – síðasta vígi smælingjanna fallið appeared first on Fréttatíminn.


Íslendingar fengu ígildi 669 milljarða í þróunaraðstoð

$
0
0

Íslendingar fengu hlutfallslega lang mest í sinn hlut af Marshall-aðstoð Bandaríkjamanna eftir stríð. Gríðarlegur fjárausturinn markaði djúp spor í viðskiptum og stjórnmálum. Eftir að aðstoðinni lauk tóku við lán og styrkir frá Alþjóðabankanum, sem skilgreindi Ísland sem þróunarland fram til 1974.

Ísland var það ríki sem fékk hæstu fjárhæðir á hvern íbúa í gegnum Marshall-aðstoð Bandaríkjamanna eftir seinna stríð. Samt var Ísland ekki stríðshrjáð land. Þvert á móti hafði landsframleiðsla á Íslandi tvöfaldast á stríðsárunum á sama tíma og hún hafði helmingast í sumum löndum Evrópu.

Þótt fjöldi íslenskra sjómanna hafi farist þegar skipum með fisk á leið á markað á Bretlandseyjum var sökkt voru innviðir Íslands ekki laskaðir í stríðslok. Stríðsárin voru þvert á móti mesti góðæristími Íslandssögunnar, fyrr og síðar. Vergar þjóðartekjur uxu um rúm 10 prósent að meðaltali hvert ár á stríðsárunum. Þær rétt tæplega tvöfölduðust á meðan stríðið lamaði meginland Evrópu. Til samanburðar var þjóðarframleiðsla helmingi lægri í Austurríki 1945 en hún hafði verið 1938, 46 prósent lægri í Frakklandi, 35 prósent lægri á Ítalíu, 12 prósent lægri í Þýskalandi og 4 prósent lægri í Sovétríkjunum.

Graf1_05
Hér má hver landsframleiðsla á Íslandi var sem hlutfall af landsframleiðslu þriggja Norðurlanda; Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur. Upphafsárið er 1870 þegar Ísland er illa leikið eftir margra alda stöðnun. Ísland vinnur á eftir vélbátavæðingu og upphaf sjávarútvegs en dregst svo aftur úr á uppgangsárum þriðja áratugarins og enn frekar í kreppunni miklu. Stríðið breytir síðan öllu. Þá ríkur landsframleiðsla á Íslandi upp á meðan hún verður fyrir áföllum í Noregi og Danmörku. Þrátt fyrir ríkulega Marshall-aðstoð tekst Íslendingum ekki að halda forskotinu. Landsframleiðsla á mann á Íslandi varð upp úr aldamótum viðlíka og meðaltal Norðurlandanna en fellur síðan aftur niður við Hrunið.

Fáir Íslendingar fórust

Þótt um 159 til 229 Íslendingar hafi farist í átökum vegna stríðsins og að sá mannskaði hafi verið þungt högg fyrir margar fjölskyldur og byggðarlög þá var það ekki mikið mannfall í samanburði við blóðbaðið í Evrópu. Mannfall Íslendinga var um 0,2 prósent af íbúafjöldanum í stríðsbyrjun sem er álíka hlutfall og mannfall Bandaríkjamanna og Dana.

Til samanburðar var mannfall Norðmanna um 0,35 prósent af íbúunum og mannfall Finna um 2,3 prósent, eða meira en ellefu sinnum meira en Íslendinga.

Mest mannfall varð hlutfallslega meðal Pólverja en talið er að 17 prósent af þjóðinni hafi farist í stríðinu. Í Litháen var hlutfallið 13,4 prósent, 11 prósent í Lettlandi og 5,9 prósent í Eistlandi.

Það er því ekki hægt að finna réttlætingu fyrir ríkulegri Marshall-aðstoð til Íslendinga í fórn þeirra vegna stríðsins.

Íslendingar fengu næstum því þrisvar sinnum meira í Marshall-aðstoð á íbúa á árunum 1948 til 1951 en næsta þjóð þrátt fyrir að Íslendingar hafi einir fárra þjóða hagnast en ekki tapað á stríðinu. Á mælikvarða núverandi stærðar hagkerfisins jafngilti aðstoðin því að næstum 600 milljörðum króna að núvirði væri dælt inn í hagkerfið á fárra ára tímabili. Á grafinu má sjá hvernig Marshall-aðstoðin skiptist milli landa, brotið niður á íbúa.
Íslendingar fengu næstum því þrisvar sinnum meira í Marshall-aðstoð á íbúa á árunum 1948 til 1951 en næsta þjóð þrátt fyrir að Íslendingar hafi einir fárra þjóða hagnast en ekki tapað á stríðinu. Á mælikvarða núverandi stærðar hagkerfisins jafngilti aðstoðin því að næstum 600 milljörðum króna að núvirði væri dælt inn í hagkerfið á fárra ára tímabili. Á grafinu má sjá hvernig Marshall-aðstoðin skiptist milli landa, brotið niður á íbúa.

Íslendingar fengu langmest

Þrátt fyrir að mannfall Íslendinga hafi ekki verið mikið í samanburði við aðrar þjóðir og alla þá efnalegu velsæld sem þjóðin naut á stríðstímanum fengu Íslendingar ekki aðeins mest allra af Marshall-aðstoðinni heldur langsamlega mest. Frá 1948 til 1951 fengu Íslendingar 43 milljónir dollara í aðstoð sem gera um 297 dollara á hvert mannsbarn miðað við íbúafjöldann 1951. Þetta er rétt tæplega þrisvar sinnum meira en næsta þjóð fékk. Bræður okkar og systur í Noregi sem fengu næst mest eða 113 dollara á íbúa; eilítið meira en Hollendingar sem fengu 112,5 dollara á mann.

Sjá má á grafi sem fylgir greininni hvernig Marshall-aðstoðin skiptist milli þeirra ríkja sem þáðu aðstoðina, brotið niður á íbúa. Eins og sjá má var Ísland ekki eina landið án stríðsátaka sem fékk aðstoð. Sama á við um Sviss, Svíþjóð, Írland og Portúgal.

Óheyrilega miklir peningar

Ísland fékk úr Marshall-aðstoðinni 8 milljónir dollara tímabilið 1948/49, 22 milljónir dollara tímabilið 1949/50 og 15 milljónir dollara tímabilið 1950/51; samtals 43 milljónir dollara á fjórum árum.

En hvað eru það miklir peningar?

Uppreiknað á gengi dagsins jafngilda þessar 43 milljónir dollara um 424 milljónum dollara á núvirði eða 55,1 milljarði íslenskra króna.

Þessi upphæð gefur þó ekki raunsanna mynd af því hvaða áhrif þessi aðstoð hafði á íslenskt samfélag. Fyrir það fyrsta voru Íslendingar 145 þúsund 1951 en eru nú orðnir 330 þúsund. Ef við tökum tillit til fjölgunar íbúa jafngildir Marshall-aðstoðin eftir stríð því að Íslendingar fengju í dag 125,4 milljarða króna að gjöf.

En það segir heldur ekki alla söguna. Landsframleiðsla á Íslandi hefur rúmlega tífaldast frá þeim árum sem Marshall-aðstoðin flæddi yfir fólkið, landið og miðin. Ef við framreiknum vægi aðstoðarinnar með tilliti til aukinnar landsframleiðslu þá var Marshall-hjálpin 1948 til 1951 jafngild því að Íslendingar hefðu á síðustu árum fengið 599 milljarða króna að gjöf.

Það er á við að hver fjögurra manna fjölskylda hefði fengið 7,3 milljónir króna. Það er ígildi 151 þúsund króna á mánuði í fjögur ár.

Þessi gríðarlega innspýting peninga í gegnum stjórnvöld festu í sessi hina íslensku spillingu sem kennd hefur verið við helmingaskipti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, þótt Alþýðuflokkurinn hafi einnig verið við völd fyrri hluta tímabilsins. Marshall-aðstoðin var að hluta til hugsuð sem leið Bandaríkjamanna til að festa í sessi í Evrópu stjórnmálaöfl sem voru vilhöll Bandaríkjamönnum. Aðstoðin var notuð til að sveigja íslenskt þjóðlíf að uppsprettunni, sem voru valdastofnanir viðkomandi flokka.

Rausnarlegasta þróunaraðstoðin

Marshall-aðstoðin til Íslands, sem veitt var ofan í stríðsgróðann, er að öllum líkindum rausnarlegasta þróunaraðstoð sögunnar. Þetta vill gleymast þeim er halda því fram að það hafi fyrst og fremst verið vegna fullveldis og sjálfstæðis ríkisins sem Íslendingum tókst að brjótast frá örbirgð til bjargálna síðastir Evrópuþjóða.

Með samanburði á landsframleiðslu á Íslandi og hinum Norðurlöndunum yfir langt tímabil má jafnvel halda hinu þveröfuga fram; að fullveldi og sjálfstæði hafi frekar haft neikvæð áhrif á efnahagslegan styrk Íslands. Það sem réð mestu um viðreisn Íslands var stríðsgróðinn.

Graf3_05

Þróunarland til 1974

Marshall-aðstoðin er ekki eina þróunaraðstoðin sem Íslendingar fengu því landið var skilgreint sem þróunarland hjá Alþjóðabankanum og naut stuðnings sem slíkt allt fram til ársins 1974.

Undirdeildir Alþjóðabankans, International Bank for Reconstruction and Development og International Development Association, veittu íslenskum stjórnvöldum lán og styrki fyrir samtals um 34,3 milljarða króna á núvirði frá 1951 til 1974.

Eins og áður sagði verður að hafa í huga að vægi peninga var annað á þessum árum svo einfaldur framreikningur á dollar dugar ekki til að gefa hugmynd um umfang aðstoðarinnar. Ef miðað er við magnbreytingar landsframleiðslunnar jafngildir þessi þróunarstuðningur til Íslendinga frá Alþjóðabankanum um 170 milljörðum króna í dag.

120 ár að borga til baka

Ef við leggjum þetta tvennt saman, Marshall-aðstoðina og stuðning Alþjóðabankans við þróunarríkið Ísland, jafngildir aðstoðin um 669 milljörðum íslenskra króna miðað við núverandi stærð hagkerfisins. Það eru um þriðjungur af landsframleiðslu eins árs.

Sameinuðu þjóðirnar mælast til þess að þróuð lönd verji um 0,7 prósentum af landsframleiðslu sinni til þróunarhjálpar. Ef Íslendingar stæðu við það tæki það þá um 48 ár að greiða til baka þá aðstoð sem þeir fengu á árunum 1948 til 1974.

Íslendingum hefur hins vegar ekki tekist að standa undir tilmælum Sameinuðu þjóðanna heldur hefur þróunaraðstoð þeirra lengst af verið um 0,25 til 0,3 prósent af landsframleiðslu. Með slíkum framlögum tæki það þjóðina ríflega 120 ár að endurgreiða þá aðstoð sem hún fékk á áratugunum eftir seinna stríð.

Töflur:

I. Marshall-aðstoðin
Skipt niður á framlög á íbúa eftir löndum. Heildarframlög innan sviga og aðstoð hvers lands sem hlutfall af þeirri aðstoð sem Íslendingar fengu.

  1. Ísland 297 dollarar á mann (43 m$)
  2. Noregur 113 dollarar á mann (372 m$) 38%
  3. Holland 112 dollarar á mann (1.128 m$) 38%
  4. Danmörk 89 dollarar á mann (385 m$) 30%
  5. Belgía & Lúxemborg 87 dollarar á mann (777 m$) 29%
  6. Bretland 75 dollarar á mann (3.297 m$) 25%
  7. Austurríki 67 dollarar á mann (468 m$) 21%
  8. Frakkland 54 dollarar á mann (2.296 m$) 18%
  9. Sviss 52 dollarar á mann (250 m$) 18%
  10. Grikkland 49 dollarar á mann (376 m$) 17%
  11. Svíþjóð 49 dollarar á mann (347 m$) 16%
  12. Írland 45 dollarar á mann (133 m$) 15%
  13. Vestur-Þýskaland 28 dollarar á mann (1.448 m$) 9%
  14. Ítalía 25 dollarar á mann (1.204 m$) 9%
  15. Portúgal 8 dollarar á mann (70 m$) 3%
  16. Tyrkland 6 dollarar á mann (137 m$) 2%

II. Þróunarhjálp Alþjóðabankans og undirstofnana hans til Íslands

  1. Sogsvirkjun og Laxárvirkjun 1951 2,5 m$ / 3.030 m.kr. á núvirði / ígildi 33,8 milljarða í dag
  1. Bætur húsakostur á sveitabæjum 1952 1,0 m$ / 1.144 m.kr. á núvirði / ígildi 12,9 milljarða í dag
  1. Áburðarverksmiðja ríkisins 1953 0,9 m$ / 1.021 m.kr. á núvirði / ígildi 10,0 milljarða í dag
  1. Fjarskiptaverkefni 0,3 m$ 1954 / 338 m.kr. á núvirði / ígildi 3,0 milljarða í dag
  1. Tíu ára átak til stækkun túna og framræslu mýra 1954 1,3 m$ / 1.463 m.kr. á núvirði / ígildi 13,1 milljarða í dag
  1. Hitaveita Reykjavíkur 1962 2 m$ / 2.020 m.kr. á núvirði / ígildi 13,1milljarða í dag
  1. Búrfell 1967 18 m$ / 16.579 m.kr. á núvirði / ígildi 76,9 milljarða í dag
  1. 34 km. tveggja akreina kafli á Suðurlandsveg og 14 km. tveggja akreina kafli á Vesturlandsveg 1971 4,1 m$ / 3.122 m.kr. á núvirði / ígildi 12,3 milljarða í dag
  1. Höfn í Vestmannaeyjum 1974 7 m$ / 4.591 m.kr. á núvirði / ígildi 15,1 milljarða í dag
  1. Sigalda 1974 10 m$ / 6.559 m.kr. á núvirði / ígildi 21,6 milljarða í dag

Alls: 42,4 m$ / 34.335 m.kr. á núvirði / ígildi 152,1 milljarða í dag

 

The post Íslendingar fengu ígildi 669 milljarða í þróunaraðstoð appeared first on Fréttatíminn.

Fylgdi ástinni í líknardauða

$
0
0

Í kjölfarið á yfirlýsingum Óttars Guðmundssonar geðlæknis um líknardauða, í fjölmiðlum í vikunni, fann Sylviane Pétursson sig knúna til þess að tjá sig um málefnið sem er henni mjög nærtækt en hún býr yfir þeirri einstöku lífsreynslu að hafa fylgt eiginmanni sínum, Steinari Péturssyni, í gegnum líknardauða. 

 

„Mín leið til þess að vinna bug á stressi og sorg að er ganga mig þreytta,“ segir Sylviane Pétursson Lecoultre iðjuþjálfi. Hún er hávaxin og glæsileg kona með silfurgrátt liðað hár, geislar af góðu líferni en hún gengur til og frá vinnu alla daga, samtals 9 km á dag, á milli Seltjarnarness og Borgartúns. Sylviane fæddist árið 1953 í borginni Lausanne við Genfarvatn.

„Tilviljanir einar réðu því að ég fór með vinkonum mínum til Torremolinos í lok júlí árið 1978. Sjálf var ég á leið til Finnlands þegar vinkona mín vildi frekar fara til Portúgals. Ég hafði samþykkt breytinguna á ferðaplani okkar þegar þriðja vinkonan bættist í hópinn en sú var þunglynd og ekki var hægt að skilja hana eftir eina heima. Á endanum keyptum við hræbillega ferð fyrir allar þrjár til Torremolinos.“
Það fyrsta sem blasti við þeim á hótelinu var hópur af Íslendingum sem var að klára sumardvalarferð sína. Sama kvöld dró vinkona Sylviane hávaxinn Íslending að borðinu þeirra. „Ég er sjálf frekar hávaxin þannig að ég leiddi manninn með mér á dansgólfið og eftir nokkra dansa bauð hann mér út að borða en sagði í framhaldinu: „Ég er svo blankur, getur þú pantað eitthvað ódýrt?““

Sylviane Pétursson, alda lóa
Sylviane Pétursson. Mynd: Alda Lóa

Ástfangin upp fyrir haus
„Mér fannst þetta lýsa góðum og heiðarlegum manni, hann var allavega ekkert að slá um sig eða þykjast vera einhver annar en hann var. Ég kolféll fyrir honum og fann strax eitthvað gerast innra með mér. Það var einu sinni kona sem sagði mér að þegar hún hitti manninn sinn í fyrsta sinn þá leið henni eins og hún væri komin heim. Þannig leið mér. Ég var svo örugg og ég hugsaði aftur um þetta þegar hann dó, þá fannst mér ég missa allt öryggi. Samt er ég mjög sjálfstæð kona. Þetta snýst ekki um að ég geti ekki bjargað mér, en þegar hann dó þá leið mér eins og öryggi mitt væri farið. Hroðalegt sjokk, maðurinn sem varði mig, hann var farinn þótt að ég þyrfti ekki neinn til þess að verja mig.“
Kvöldið í Torremolinos var síðasta kvöld íslenska hópsins á staðnum. Sylviane fór að hágráta því hún hafði ekki haft rænu á því að taka niður nafn hávaxna mannsins áður en hann yfirgaf svæðið. „Þá kom þrjóskan sér að góðum notum. Eftir krókaleiðum fann ég heimilisfang og nafn hans og skrifaði honum bréf. Hann svaraði með þeim orðum að hann hefði hugsað til mín, stúlkunnar sem hann skildi eftir á Torremolinos.

Nokkrum mánuðum síðar kom hann í viku heimsókn til Sviss. Í kjölfarið ákvað ég að koma við hjá honum á Íslandi á leið minni til New York, en þangað fór ég auðvitað aldrei. Við Steinar bjuggum fyrst hjá tengdamömmu og leigðum svo í nokkra mánuði áður en við fórum saman í hálfs árs ferðalag um Evrópu. Það var ágætis prófsteinn fyrir sambandið að vera saman allan sólarhringinn. Við rifumst og þurftum að takast á við allskyns óöryggi sem fylgir svona ferðalögum. Þegar við komum aftur heim til Íslands árið 1981 var ég ófrísk og fór að vinna á geðdeildinni við Hringbraut.“

Dreymdi um að vinna með geðfötluðum
„Það voru aðeins níu starfandi iðjuþjálfar á landinu á þeim tíma og fimm þeirra voru útlendir. Ég var mállaus á íslensku en þegar ég sótti um var mér sagt að koma undireins. Mig hafði dreymt um að vinna með geðfötluðum og það átti ég svo sannarlega eftir að gera árin á eftir. Ég hef starfað lengst á geðdeildinni og á Kleppi þar til fyrir nokkrum árum þegar ég færði mig yfir á Hlutverkasetrið. Þar ég vinn með og endurhæfi einstaklinga út í samfélagið.“

24872_Sylviane_Petursson-102
Sylviane og Steinar með börnum sínum árið 1988. Mynd úr einkasafni.

Sylviane og Steinar eignuðust þrjú börn og það var ákveðið að Steinar yrði heimavinnandi, hann eldaði og sá um börnin og fylgdi þeim í Suzuki tónlistarnámið. „Það var ekki algengt á þeim tíma að karlmenn væru heimavinnandi frekar en í dag og sýnir glögglega styrkinn í sambandinu og nánd hans við börnin sín sem kom berlega í ljós í veikindum hans.“

Steinar kennir sér meins
Í janúar 2012 var Steinar að hjálpa dóttur sinni að gera upp íbúð sem hún hafði nýverið keypt sér þegar hann kenndi sér meins í fótum. Hann var ekki beint með verki en hann átti erfitt með gang. Hann taldi þetta aðeins vera tengt bogrinu á fjórum fótum og fjölskyldan hélt að hann væri með klemmda taug. Heimilislæknir sagði við hann að hann hefði ofreynt sig og hann átti að taka því rólega.

„Hann gerði það en fann verkina ágerast og missti mátt í hægri kálfa. Honum fannst hann líka vera að missa mátt í handleggnum en var ekki viss. Þetta gerði hann verulega hræddan. Hann hélt að hann væri jafnvel kominn með MS. Hann fór aftur til heimilislæknisins sem sá ekkert athugavert og stakk upp á því að hann færi í myndatöku. En á Íslandi tekur þetta allt svo langan tíma. Bara að fá tíma hjá heimilislækni tók tvær vikur og að komast í myndatöku tók aðrar tvær vikur. Í febrúar var ástandið orðið mjög slæmt og hann búinn að missa mikinn mátt.“

Ráðaleysi í heilbrigðiskerfinu
Steinar fór í myndatöku og þar sást slit við hrygginn sem átti að geta útskýrt máttleysið. „En hann var ekki sannfærður og var farinn að kalla alla lækna fífl og vitleysinga. Þetta var í mars og við vorum að tapa okkur yfir ráðaleysinu. Ég hugsaði að kannski væri hann eitthvað andlega veikur. Hann var stanslaust að prófa að halda á einhverju eða grípa hluti til að athuga hvort að hann hefði einhvern mátt. Heimilislæknirinn sendi hann síðan til taugasérfræðings sem skrifaði upp á bólgueyðandi. Í byrjun apríl 2012 var hann hættur að vilja tala við lækna.“

24872_Sylviane_Petursson-100
Steinar Pétursson að kvöldi gamlársdags árið 2012, tveimur mánuðum áður en hann lést. Mynd úr einkasafni.

Sylviane spurði hann hvort einhver hefði boðið honum að fara í skanna? Steinar sagðist ekki vilja tala meira við lækna og var sannfærður um að hann væri kominn með heilaæxli eða MS.

Veist þú hvað það kostar að senda fólk í skanna?
„Þegar ég hringdi í heimilislækni og spurði hann af hverju hann væri ekki sendur í alvöru skanna þá spurði læknirinn minn hvort ég vissi hvað það kostaði að senda fólk í slíka myndatöku. Og hvort ég héldi að hægt væri að fá tíma í hvelli. Ég sagði honum að það þyrfti að gera eitthvað svo hann féllst á að taka niður beiðnina og við gætum átt von á tíma eftir mánuð. Þarna var komin miður apríl. Ég hringdi og ýtti á eftir beiðninni og á sumardaginn fyrsta fékk hann loks tíma. Við fórum um morguninn en hann var miklu lengur í myndatökunni en við bjuggumst við. Við fengum strax á tilfinninguna að eitthvað væri óeðlilegt en við áttum að bíða fram yfir helgi eftir niðurstöðunum.“

Risaæxli í höfði
„Ég fór í vinnuna og dóttir mín keyrði Steinar heim. Hann var svo máttlaus í fótum að hann gat ekki lengur keyrt. Eftir vinnu kom ég við í Domus Medica í þeirri von um að finna einhvern lækni sem gæti gefið mér svör en þá voru allir farnir í frí. Þegar ég kom heim þá sátu þau Steinar í stofunni. Dóttir mín sagði að það hefði verið hringt frá Borgarspítalanum: „Pabbi er með risaæxli í höfðinu og þú átt að hringja upp á spítala.“ Steinar sat þarna lamaður af sjokki og þau á Borgarspítalanum sögðu okkur að koma strax. Æxlið væri svo stórt að það þrýsti á taug sem stjórnaði allri hreyfigetu. En það var þarna sem Steinar spurði sig spurninga, hvað þetta þýddi, hvað væru margir mánuðir eftir, hvort hann væri alvarlega veikur og hvernig þetta myndi enda?“

Hvað á ég mikið eftir?
„Viku síðar voru 90 prósent af æxlinu skorin í burtu, en 10 prósent var ekki hægt að fjarlægja. Við biðum í viku eftir niðurstöðum úr sýninu og í byrjun maí fengum við að vita að það væri illkynja. Viðbrögð Steinars voru afdráttarlaus: „Förum til Sviss.“

sylviane pétursson, hlutverkasetur
Sylviane Pétursson starfar nú í Hlutverkasetrinu sem iðjuþjálfi. Mynd: Rut Sigurðardóttir

Við fjölskyldan höfðum rætt líknardauða eins og svo mörg önnur málefni. Ég er hálf frönsk og minn bakgrunnur gerir það að verkum að borðhaldið er mikilvægur staður fyrir fjölskylduna til þess að skiptast á skoðunum um allt milli himins og jarðar. Spurningin um líknardauða hafði komið upp við borðhaldið og ég þekkti afstöðu Steinars. Hann vildi panta flugmiða til Sviss strax en við fjölskyldan vorum ekki tilbúin.“

Steinar samþykkti að leika leikinn
„Þegar við vorum komin yfir mesta kvíðann þá samþykkti hann að leika leikinn, fara í geislameðferð og endurhæfingu með sjúkraþjálfara. Dóttir mín las sig til um matarræði og öll fjölskyldan lagðist á eitt að breyta um lífsstíl. Við höfðum svo sem alltaf borðað hollan mat en þarna tókum við út hveiti, sykur og allt sem gæti örvað frumurnar. Þetta var mjög fallegt sumar og allt gekk sæmilega vel. Steinar sem hafði alltaf verið framkvæmdamaður ákvað að klára ýmislegt smáræði í húsinu okkar á Kaplaskjólsvegi áður en hann myndi deyja. Hann gerðist verkstjórinn af því að hann gat ekki gert neitt sjálfur en það komu iðnaðarmenn og hann stjórnaði því að við höfðum öll nóg að gera. Hann vildi koma því þannig fyrir að ef hann væri að deyja þá yrði allavega auðveldara fyrir mig að selja húsið. Það var planið hans.“

„Elsti sonur okkar, sem býr í Sviss, kom heim með tengdadóttur mína og barnabarnið og í ágúst fórum við norður í sumarbústað saman. Áður en fjölskyldan færi aftur til Sviss vildi Steinar safna öllum saman og við áttum góða kvöldstund þangað til að hann fékk heiftarlegt flogakast sem varði í heila klukkustund. Á spítalanum var okkur sagt að flogaköst væru algengur fylgikvilli við meðferðinni en ég hefði viljað vita það áður en þetta gerðist. Um haustið tók við dapurlegur tími og við vissum að hann væri ekki á bataleið.“
Steinar varð ekkert hressari með haustinu. „Hann beið bara eftir því að sonur okkar og fjölskylda hans kæmu til landsins í desember eins og það væri það síðasta sem hann sem hann stefndi að og hann hélt áfram að gera æfingar og fara í myndatökur til að fylgjast með meininu.“

Takk fyrir samveruna
„Í ársbyrjun 2013 hélt Steinari áfram að hraka og við vissum að hann vildi ekki lifa lengur. Við biðum eftir hinni mánaðarlegu myndatöku og sú síðasta var 24. janúar. Þá kom í ljós að krabbinn hafði dreift sér og læknirinn gerði okkur ljóst að líknardeildin væri næsta úrræði. Hann taldi að Steinar ætti örfáa mánuði eftir en ég upplifði að þarna væri baráttan töpuð. Þetta væri bara búið. Við fórum heim og hringdum til þess að segja ættingjum hver staðan væri. Sama kvöld hafði ég samband við Dignitas í Sviss og hóf umsóknarferlið. Það kom mér á óvart hvað það tók langan tíma því við fórum ekki út fyrr en í lok febrúar.“

„Febrúar fór í undirbúning fyrir viðskilnaðinn. Í fyrsta lagi þurfti að klára umsóknina og senda til Dignitas. Steinar þurfti að útskýra af hverju hann valdi að deyja með þessum hætti. Hann þurfti að gera grein fyrir sér, senda inn æviágrip, læknisvottorð, allskyns gögn og fylla út bunka af eyðublöðum. Ferlinu fylgja mörg samtöl við lækna þar sem farið er í gegnum það með einstaklingnum að ákvörðunin um að taka eigið líf sé afdráttarlaus og úthugsuð, og tekin af frjálsum vilja.“

Undirbúningur fyrir kveðjustundina
„Steinar undirbjó brottför sína og samdi ótal kveðjubréf til vina og ættingja þar sem hann þakkaði þeim fyrir samveruna og góð verk. Hann dró fram það sem þau höfðu gefið lífi hans og rifjaði upp eitthvað sérstakt hjá hverjum og einum. Hann samdi boðskort fyrir partí sem yrði haldið að honum gengnum og í boðskortinu lét hann einhvern aulahúmor fylgja með. Hann valdi gaumgæfilega tónlistina sem yrði spiluð og myndir til sýnis á þessum viðburði sem var erfidrykkjan hans.“
„Það stórkostlega í þessu öllu saman var að við vorum sameinuð, fjölskyldan í þessu. Við, báðir strákarnir og dóttir okkar. Ég grét auðvitað viðstöðulaust, til dæmis þegar við völdum tónlistina, en við hlógum líka alveg rosalega mikið. Á sama tíma og mér leið bölvanlega að sjá Steinar fara svona frá mér, þá elskaði ég að hafa þann möguleika að geta verið með honum og stutt hann í gegnum það sem hann hafði valið sér. Ég held að börnin mín hafi upplifað það á svipaðan hátt. Mér fannst við vera að vinna saman að einhverju sem var hans markmið, og það skilaði okkur valdeflingu, við vorum ekki passíf að bíða eftir dauðanum.“

„Við gátum undirbúið dauðann fyrir mann sem vildi deyja. Og fólkið sem hann elskaði mest gat verið með honum. En það var erfitt hvað við vorum feimin að tala við aðra um þetta. Við vissum ekki hvernig við gætum útskýrt þetta. Við fórum hægt og rólega í að láta fólk vita um fyrirætlanir okkar og biðum spennt eftir viðbrögðum. Steinar óttaðist að einhver tæki fram fyrir hendurnar á honum. Hann var svo hræddur um inngrip og að allt yrði flautað af á grundvelli þess hann væri þunglyndur og ekki með fullu viti.“

24872_Sylviane_Petursson-101
Hjónin Sylviane og Steinar í Sviss sumarið 2009. Mynd úr einkasafni.

„Þegar tengdamóðir mín frétti þetta, spurði hún mig: „Hvernig getur þú gert þetta?“ Og ég sagði að það væri af því að ég elskaði hann. Mig langaði ekki til þess en ég gerði það af ást. Ég spurði mig að því hvort ég væri raunverulega að hjálpa manninum mínum að deyja en áttaði mig auðvitað á því að hann væri jú að deyja.“

Tíminn að renna út
„Á tímabili var ég orðin hrædd um að við værum að missa af lestinni. Ég hafði áhyggjur af því að þetta væri ekki hægt og spurningar vöknuðu um hvernig í ósköpunum við ættum að flytja hann til Sviss. Ekki gátum við leigt sjúkraflugvél, það væri alltof dýrt. Ég var farin að leiða hugann að því hvort einhver læknir á Íslandi væri fengist til þess að enda þetta. Ég fékk reyndar skilaboð um að það væri læknir sem gæti aðstoðað við líknardauða á Íslandi og mig grunar að það séu fleiri en ein manneskja sem tekur svona lagað að sér, þótt Óttar Guðmundsson segi læknastéttina almennt á móti því að aðstoða fólk til þess að enda líf sitt. Á tímabili var ég jafnvel farin að velta fyrir mér hvort að ég gæti sjálf kæft hann í staðinn fyrir að hann þyrfti að deyja við þær aðstæður sem hann hræddist svona mikið.“

Tölvupóstur frá Dignitas
25. febrúar gaf Dignitas grænt ljós sem þýddi að Steinar mátti koma þegar honum hentaði sjálfum. Hjá Dignitas er nefnd sem metur umsóknir og svarar í kjölfarið, já eða nei. Ef sjúklingurinn svarar ekki bréfinu þá verður engin frekari málalenging, stofnunin hefur ekki samband við viðkomandi og þarfnast ekki frekari svara. Sylviane bar bréfið undir Steinar og spurði hann hvort að hann treysti sér að fara. „Hann svaraði afdráttarlaust, auðvitað, förum á morgun. Sylviane pantaði hótel á meðan dóttir hennar keypti flugmiða og svo hringdu þær í ættingja og vini og sögðum þeim að koma ef þeir vildu kveðja Steinar.

„Á brúðkaupsdegi okkar, þann 26 febrúar, keyrðum við til Keflavíkur í blindbyl með Steinar í hjólastól. Við millilentum í Köben á leiðinni til Zürich og það var ótrúlegt að hann gat haldið þetta út. Hann var orðinn mjög veikur og við þurftum allan tímann að halda honum uppi. Það var bara viljastyrkurinn sem fleytti honum í gegnum þetta. Þegar við loksins komum til Zürich var Steinar auðvitað úrvinda. Á móti okkur tók bíll fyrir fatlaða sem keyrði okkur á hótelið nálægt Dignitas. Og það var greinilegt að fólkið á hótelinu var öllum hnútum kunnugt og vant svona gestum.“

Dagarnir fyrir viðskilnað
„Tveimur dögum síðar kom eldri sonur okkar og tengdadóttir með litla barnið þeirra og tengdaforeldrarnir komu líka. Steinar sendi mig út að kaupa besta rauðvínið og við skáluðum þarna í plastglösum á hótelherberginu á meðan litla barnabarnið skreið í kringum okkur, þægilega ómeðvitað um kringumstæðurnar. Tengdadóttir mín var búin að upplýsa okkur um að hún gengi með annað barn og sonur minn bað Steinar að finna nafnið fyrir ófætt barnið. Síðan fórum við að sofa, en ég svaf auðvitað ekki neitt, það var langt síðan ég hafði getað það.“

„Við áttum að mæta hálf tíu um morguninn og á móti okkur tóku yndisleg hjón hjá Dignitas. Þarna þurfti Steinar aftur að fylla út fjölmörg eyðublöð um sjálfræði og skýrslu fyrir lögregluna sem staðfesti að hann hefði framið sjálfsmorð. Hann var leiddur inn í stofu og upp í rúm og það var alveg ótrúlegt að sjá að hann var virkilega hamingjusamur að vera komin á þennan stað. Í síðasta sinn var hann spurður hvort þetta væri örugglega endanleg ákvörðun og Steinar svaraði játandi. Að því loknu var honum tilkynnt að hann fengi sólarhring til þess að drekka mixtúru til þess að undirbúa magann og 20 mínútum seinna átti hann að drekka kokteilinn sem myndi leiða til þess að hann félli í djúpan svefn og hjartað hætti að slá.“

Viltu flýta dauða hans?
„Við sátum í kringum rúmið hans en hann var dálítið að hverfa frá okkur. Ég fór að óttast að hann myndi bara gleyma sér. Hann var með krabbamein í hausnum, sem gæti orsakað meðvitundarleysi án nokkurs fyrirvara og ég hugsaði, Guð minn góður, ef hann missir meðvitund núna og hann getur ekki framkvæmt þetta sjálfur, þá verðum við að fara með hann aftur heim. Það mátti ekki gerast. En svo varð ég reið út í sjálfa mig fyrir þessar hugsanir, hvað er að þér kona viltu flýta dauða hans? Ég þurfti að fara fram til þess að skoða hug minn og bera þetta undir tengdadóttur mína, sem sagði mér að það væri ekkert rangt við svona hugsanir.“

sylvvef3

„Okkur var sagt að við ættum að tala við hann og að hann gæti jafnvel heyrt til okkar í dáinu. Ég heyrði börnin mín segja hvað þau væru stolt af honum og að við elskuðum hann. Þarna fauk heilt kíló af servéttum. Hann dó með bros á vör. Ef hann hefði dáið á líknardeild úrvinda og meðvitundarlaus eftir langan tíma þá hefði þetta aldrei orðið svona kveðjustund. Við hefðum aldrei getað sameinast á svona stund sem við gátum sjálf undirbúið.“

Líknardauði á ekkert skylt við útrýmingar nasista

„Ég hef fullan skilning á því ef fólk vill ekki deyja á þennan hátt. En okkur leið vel þegar þetta var afstaðið. Ég fékk sömu tilfinningu eins og þegar ég fékk nýfædd börnin mín í fangið, en þarna var ég að sleppa einhverju sem ég elskaði. Þetta hafði eitthvað með lífið að gera, lífið sem kemur og fer.“

„Óttar Guðmundsson notar sem rök gegn líknardauða að ættingjar geti þrýst á einstakling að taka líf sitt. Og að fólk sé litað af þeirri hugmynd um að veikt fólk trufli fyrirmyndarþjóðfélagið. En þvert á móti þá er algengt að fólk komi einsamalt til Dignitas af því að fjölskyldan vill ekki fylgja því. Þú fylgir einstaklingnum af því að þú elskar hann en ekki af því að þú vilt losna við hann. Reyndar koma ættingjar aldrei að ferlinu hjá Dignitas, einstaklingurinn þarf alltaf að vera með fulla meðvitund í gjörningnum. Þannig er ekkert hægt að losa sig við rúmliggjandi ættmenni. Með svona rökum er verið að ýja hugmyndafræði nasista um fyrirmyndarríkið og yfirfæra þau á hugmyndina um líknardauða. Það er svo fjarri því að þetta eigi nokkuð skylt við þá stefnu sem var að útrýma þeim óæskilegu í samfélaginu.“

Sylviane er ósátt við yfirlýsingar Óttars sem birtust í fjölmiðlum í vikunni þar sem hann dregur í efa hæfni ungmenna til þess að hafa skoðun á líknardauða. „En hann telur ungt fólk ekki hafa vit á málinu af því þau eru lengra frá dauðanum en gamalt fólk.“ Sylviane segir hann vanmeta ungt fólk og að dauðinn sé nálægt okkur öllum, ungum sem öldnum og að hennar eigin börn upplifðu dauðann með föður sínum og væru alveg fullfær um að hafa sína skoðun á málinu.

 

 

The post Fylgdi ástinni í líknardauða appeared first on Fréttatíminn.

Foreldrabíó er vinsæl nýjung

$
0
0

„Þetta er hugsað fyrir foreldra með ungbörn sem vilja eiga notalega stund í bíó,“ segir Ásta María Harðardóttir, aðstoðarrekstrarstjóri Sambíóanna en þau hafa tekið upp á þeirri nýjung að hafa sérstaka sýningu fyrir foreldra með ungbörn í hádeginu á föstudögum. „Við stillum hljóðið lægra en vanalega og höfum smá ljós í salnum til að hafa þetta sem þægilegast. Svo erum við með aðstöðu fyrir utan salinn þar sem hægt er að hita mjólk og skola pela. Þetta er hugsað fyrir foreldra í fæðingarorlofi og við ákváðum að hafa sýningar á þessum tíma, þegar aðrir eru í vinnunni og stóru börnin í skólanum,“ segir Ásta María. Hún segir sýningarnar hafa verið vel sóttar, sérstaklega af mæðrum þó einhverjir feður hafi líka mætt, og stefnt sé að því að sýna nýja mynd annan hvern föstudag. Í dag, föstudag, verður gamanmyndin Ride Along 2 sýnd. Sýningarnar eru alltaf klukkan 12 í Smárabíói og miðinn kostar 1100 krónur. Hægt er að fylgjast með upplýsingum um viðburðinn á Facebook-síðu Smárabíós.

The post Foreldrabíó er vinsæl nýjung appeared first on Fréttatíminn.

Hver er Lexi Picasso?

$
0
0

Lexi Picasso hefur svo sannarlega verið á milli tannanna hjá fólki. Hann hefur ögrað með rapptónlistinni sinni og myndböndum þar sem byssur, bílar, eiturlyf og þyrlur koma við sögu. Á Instagram birtir hann bunka af tíu þúsund króna seðlum, reykir gras, drekkur hina margrómuðu Actavis hóstasaft og hangir með frægum röppurum í Atlanta. Aðdáendur rapparans vilja vita hver er Lexi Picasso? Hvaðan koma peningarnir? Og hvernig endaði hann í Atlanta með 808 mafia?

Á veitingastaðnum Satt á Icelandair hótel mælum við Lexi Picasso og umboðsmaður hans, Selma, okkur mót. Öll okkar samskipti fram að þessu voru í gegnum umboðsmanninn og að ósk þeirra beggja fór viðtalið fram á ensku. Ég er smá hissa að sjá hann – bjóst allt eins við að hann myndi ekki mæta. En þarna er hann að drekka cappuccino, klæddur leðurbuxum og gullskóm, kurteis og auðmjúkur yfir að vera fenginn í viðtal.

24924 Lexi Picasso mynd Julia Runolfs
Myndir/Júlía Runólfsdóttir

Hver er Lexi Picasso?

„Ég er þúsundþjalasmiður, geðhvarfasjúkur og bý yfir mörgum persónum. Ég er listræn manneskja þó ég beri það ekki endilega með mér. Ég fór mikið á listasöfn þegar ég bjó í Frakklandi, þá sérstaklega Louvre. Ég er sjálfur málari og uppáhalds listamaðurinn minn er Picasso, þaðan kemur listamannsnafnið mitt. Ég er líka hvetjandi og veiti fólki innblástur.“

Lexi Picasso, eða Alex Þór Jónsson, ólst upp í miðbæ Reykjavíkur og gekk í Austurbæjarskóla þar til honum var vísað úr námi í sjöunda bekk. Þar með lauk hans skólagöngu þegar allir skólar höfuðborgarsvæðisins meinuðu honum aðgang að hans eigin sögn. „Ég á erfitt með að vera í margmenni og var lagður í einelti í barnaskóla. Ég brást illa við eineltinu og olli tjóni með þeim afleiðingum að ég var rekinn. Þá vildi enginn skóli neitt með mig hafa.“

Frá sextán til átján ára aldurs var Lexi einn á flakki um heiminn og þótti Ísland of lítið fyrir sína drauma. „Ég átti ekki heima í íslensku samfélagi, ég varð að slíta mig frá þessu landi. Ég var ákveðinn að gera eitthvað við líf mitt þó skólakerfið hefði brugðist mér.“

Lexi ætlar ekki að fara nánar út í ferðalag sitt en segir það hafa mótað sig sem listamann. „Ég var blankur og lenti í allskyns rugli sem ég ætla ekki að telja upp. Það góða var að ég kynntist öllum týpum af fólki. Fólki af ólíkum uppruna, á ólíkum stöðum í lífinu, á öllum aldri. Það er ekki til vottur af fordómum í mér eftir þessa lífsreynslu.“

Þegar Lexi sneri heim stofnaði hann hljómsveitina b2b ásamt félaga sínum Cody Shaw og gáfu þeir út umdeilt myndband þar sem ófáum fimmþúsundköllum var kastað í loftið með sportbílum í bakgrunni. Myndbandið rataði inn á vefsíðu World Star Hip Hop þar sem upprennandi tónlistarmenn eru gjarnan uppgötvaðir. Í kjölfarið segir Lexi að rapparinn og tónlistarframleiðandann Southside hafi hringt í sig og boðið sér takt undir lögin sín. „Hann sagðist fíla lagið okkar og spurði hvort við vildum kaupa af þeim takt fyrir fleiri lög. Ég millifærði á hann peninga en ákvað að taka þetta skrefinu lengra og kaupa mér miða til Atlanta í ágúst 2014. Ég held að Southside hafi dáðst að drifkraftinum í mér því hann var mættur til að taka á móti mér á flugvellinum. Hann bauð mér lítinn samning sem fól í sér aðstoð hans og meðlima 808 mafia. Ég fékk að búa hjá einum þeirra, TM 88, fyrstu þrjá mánuðina mína í Atlanta.“

94347732-82EC-4A61-82FD-F289CF6BEECC
808 mafia er þekkt hip-hop framleiðsluteymi sem stendur á bak við mörg vinsælustu rapplögin um þessar mundir. Það hefur unnið með tónlistarmönnum á borð við Future, Drake og Young Thug.

808 Mafia tók Lexa opnum örmum og kynntu hann fyrir drykknum lean, þar sem Sprite er blandað í hóstasaft. Götuverð hóstasaftar hefur snarhækkað eftir að Actavis tók vöruna sína af markaði vegna misnotkunar og segir Lexi þá hafa borgað 2500 dollara fyrir flöskuna. „Ég var staddur í höll rapparans Waka Flocka kvöldið sem ég prófaði lean í fyrsta skiptið. Þeir vöruðu mig við því að þetta væri sterkt. Ég er hins vegar með gott þol fyrir lyfjum því ég hef þurft að taka þau inn síðan ég var lítill vegna geðhvarfasýki, kæfisvefns og fleira. Ég endaði á að standa einn eftir þegar allir hinir voru rotaðir. Morguninn eftir stóðu þeir yfir mér, veifuðu tómri flöskunni, og voru gáttaðir á að ég væri enn á lífi eftir að hafa klárað hana alla.“

Dvölin í Atlanta tók sinn toll en Lexi segir sig hafa búið í einu hættulegasta hverfi Bandaríkjanna, svokölluðu Zone 6 í Austur-Atlanta. Þar eru skotárásir algengar og mikil klíkustarfsemi við lýði. „Ég var vitlaus fyrst þegar ég kom og hélt að ég, hvítur maður, gæti gengið einn um götur bæjarins. Vinir mínir spurði hvort ég væri klikkaður og sögðu mér að fara ekki út óvopnaður eða án fylgdar. Þar með hætti ég á að vera tekinn af lögreglunni, vera vísað úr landi og mega aldrei koma aftur inn fyrir landamærin. Það kom tímabil sem ég svaf varla í 90 daga. Við bjuggum nokkrir saman og það voru átta byssur í húsinu. Ég varð að flytja eftir að íbúðin okkar var skotin upp. Stressið við það að vera í þessu umhverfi gerði mig vitlausan. Ég er óþekkjanlegur á myndum af þessum tíma, þetta fór svo illa með mig.“

Atlanta er talin mekka rappsenunnar í dag. New York átti tíunda áratuginn en Atlanta er talin ala af sér það ferskasta í dag, líkt og Gucci Mane, Future, Young Thug, 2 Chainz og iLoveMakonnen.
Atlanta er talin mekka rappsenunnar í dag. New York átti tíunda áratuginn en Atlanta er talin ala af sér það ferskasta í dag, líkt og Gucci Mane, Future, Young Thug, 2 Chainz og iLoveMakonnen.

Aðspurður hvort hann geti deilt með lesendum myndum frá Atlanta segir umboðsmaður hans svo ekki vera, en tölvan hans hrundi fyrir nokkrum mánuðum. Sjá má nokkrar myndir og myndbönd á Instagram prófílnum hans.

Lexi kom aftur heim til Íslands eftir ágreining milli hans og meðlima 808 mafia. Hann kom sér í samband við framleiðandann Reazy Renegade sem aðstoðaði við nýjustu plötu hans. „Það er gaman að vera kominn aftur og finna fyrir áhuga á tónlistinni minni. Ég er að bóka mig á gigg og umboðsmaðurinn minn tekur á móti öllum beiðnum. Ég vil bara gefa til baka, gefa fólkinu eitthvað sem það hefur ekki séð áður. Ég hef haldið mig á hótelum úti á landi því ég þarf frið til þess að skapa. Mér er sama um frægðina og er vel stæður í dag.“

Hvaðan koma peningarnir?

„Ég er „ghostwriter“ skrifa texta fyrir erlenda rappara.“

Þegar Lexi rýnir í framtíðina sér hann sig giftan unnustu sinni með tvö börn. Þau eru búsett í Grikklandi, kannski á Ítalíu og Lexi lætur af störfum þrítugur til að njóta lífsins. Hann er búinn að hanna fatalínu fyrir bæði konur og karla og skilur eftir sig farsælt plötufyrirtæki. „Ég er kominn með gott teymi hérna heima og búinn að ráða til mín hæfileikaríkt fólk í plötufyrirtækið mitt, b2b. Hægt en örugglega vinn ég mig á toppinn enda 24 ára með 50 ár á bakinu.“

 

The post Hver er Lexi Picasso? appeared first on Fréttatíminn.

Settist að á Vestfjörðum til að stunda skíði og sörf

$
0
0

Camilla Edwards er forfallin ævintýra- og útivistarkona sem ákvað að setjast að á Ísafirði eftir að hafa flakkað um heiminn í mörg ár. Þar býr hún í gömlu húsi sem hún er að gera upp og breyta í gistiheimili, það er þegar hún er ekki að renna sér niður fjöll eða stíga ölduna á brimbretti í einhverjum vestfirsku fjarðanna.

„Hér er allt til staðar. Það eina sem þarf að gera er að kenna fólki að fara út að leika sér, njóta náttúrunnar og nýta hana á sjálfbæran hátt.“ 

„Þegar ég segi Reykvíkingum hvar ég bý þá halda flest allir að ég sé eitthvað skrítin,“ segir Camilla og skellihlær. Hún segir fólk oft eiga erfitt með að skilja það hvernig hún hafi getað sest að fyrir vestan en eftir að hafa rætt við hana í nokkrar mínútur er ekkert vafamál að Camilla hefur tekið ástfóstri við bæði samfélagið og staðinn þar sem hún getur stundað bæði fjallaskíði og brimbretti þar sem henni finnst vera einn fallegasti staður á jörðinni.

Mynd: Chris Dunn
Myndir: Chris Dunn

Camilla er fædd og uppalin í Bretlandi þar sem hún lærði snemma að njóta náttúrunnar, ferðast og kynnast nýju fólki. Hún hefur þó ekki búið í Bretlandi frá hún var fimmtán ára gömul en þá var send á heimavist í Sviss. „Ég var alltaf í heimavistarskólum og í öllum fríum var ég svo send á einhverskonar námskeið í fjallaklifri, siglingum eða skyndihjálp. Pabbi var í útivistarbransanum og mikill siglingamaður og ég held hann hafi viljað að ég væri strákur,“ segir Camilla og hlær. „Það má eiginlega segja að ég hafi alltaf unnið við að vera úti að leika mér.“

24814 surfing flateryi

Camilla hefur búið víðsvegar um Evrópu, í Ástralíu, á Nýja-Sjálandi, í Patagóníu og Mið-Ameríku, og aldrei skemur en ár á hverjum stað. Fyrir fimm árum ákvað hún svo að koma í stutta ferð til Íslands. „Ég fór í fimm daga ferð frá Ísafirði með Borea Travel og við bjuggum í gömlum bóndabæ þaðan sem við fórum í siglingar á hina og þessa staði. Það bara gerðist eitthvað og mig langaði ekkert til að fara til baka. Mér leið strax eins og ég ætti heima hér. Ég bauðst til að vinna við að dytta að á bóndabænum þar sem við bjuggum og fékk vinnuna,“ segir Camilla sem hefur varla farið af landinu síðan. „Mér finnst haustið fallegasti tíminn hérna því þá er birtan svo ótrúleg og það er líka besti tíminn fyrir sörfið. Svo er vorið besti tíminn fyrir fjallaskíðin.“

Þegar við Camilla spjöllum í símann er hún heima að slaka á í brjáluðum stormi, nýkomin frá Spáni þar sem móðir hennar býr. Henni finnst gott að vera komin heim þó stormurinn haldi henni inni og að ekki sé hræða á ferli. „Það eru allir inni í dag, reyndar eru allir alltaf inni á veturna,“ segir hún og skellihlær aftur sínum smitandi hlátri. „Það er dálítið fast í fólki hér að vera inni á veturna, þó það hafi reyndar breyst mikið frá því að ég kom hingað fyrst. Fólki fannst ég dálítið skrítin hérna í upphafi, farandi ein á fjallaskíði með strætó úr bænum. Svo stökk ég alltaf æst á alla aðkomumenn í útivistarfötum,“ segir Camilla og hlær enn meira. „Í dag eru miklu fleiri á fjallaskíðum og svo eru líka nokkrir sörfarar hérna núna,“ segir Camillia en framan af var hún eina manneskjan sem stundaði brimbretti á svæðinu. Hún segir áhugann á jaðarsporti og fjallamennsku hafa aukist gífurlega á þessum fimm árum sem hún hefur búið fyrir vestan. „Mér finnst mikið af ungu fólki vera áhugasamt um þennan lífsstíl. Ég finn að fólk langar til að búa á stað eins og Vestfjörðum, fólk vill vera hér en það eina sem vantar eru atvinnutækifæri. Það er samt mikill kraftur hérna og frumkvöðlahugsun í loftinu. Ég hef búið og starfað út um allan heim en aldrei rekist á jafn mikla sköpunargleði og kraft og hér.“

24814 surfing chris dunn

Stuttu eftir að Camilla tók ákvörðun um að setjast að á Ísafirði keypti hún sér gamalt hús til að gera upp. „Mér fannst Ísafjörður, og reyndar Flateyri líka, strax magnaðir staðir sem hafa upp á svo margt að bjóða, en það vantaði notalega gistiaðstöðu. Það er mjög auðvelt að kaupa nokkur Ikea-rúm og selja herbergi á uppsprengdu verði en það er allt annað að búa til gistingu sem hefur alvöru karakter. Og svo er allt annað að gista þar sem gestgjafinn býr á staðnum og sem þekkir fólkið og svæðið. Það er það sem ég er að vinna í núna, bæði á Ísafirði og á Flateyri þar sem ég hef líka fjárfest í litlu húsi. Flateyri hefur gengið í gegnum ótrúlega erfiðleika en það er án efa einn fallegasti staður á Íslandi með helling af möguleikum. Þrátt fyrir að hafa búið á Ísafirði þá enda ég alltaf á því að fara þangað, bæði til að renna mér og sörfa.“

Camilla surf 24814

„Mikið af þeim stöðum sem ég hef búið á eru þekkt útivistarsvæði og mín tilfinning er sú að hér sé allt að byrja að blómstra. Það er líka svo auðvelt að framkvæma hugmyndir á Íslandi, bæði vegna þess hversu innviðirnir eru smáir en líka vegna þessa jákvæða hugarfars. Ég búið á og ferðast til svo margra staða sem hafa verið eyðilagðir af túrisma með ljótum hótelum og lélegri þjónustu, sérstaklega í Suður-Ameríku og í Kanada. Heilu strendurnar og bæirnir eru keyptar upp af ríku fólki og breytt í Disneyland og fólkið sem bjó þar áður þarf að flytja í jaðarinn, það má ekki gerast hér. Hér er allt til staðar. Það eina sem þarf að gera er að kenna fólki að fara út að leika sér, njóta náttúrunnar og nýta hana á sjálfbæran hátt.“

24814 Camilla Edwards

Það eru ekki bara fjöllin og sjórinn sem hafa hjálpað Camillu að skjóta rótum á Vestfjörðum, heldur líka samfélagið. „Hér er ótrúlega sterkt og gott samfélag sem hefur mikinn áhuga á því að gera nýja hluti og mér hefur verið tekið opnum örmum. Ég hef búið út um allan heim og aldrei upplifað slíkan náungakærleika, fólk bókstaflega faðmaði mig þegar það vissi að ég hafði keypt mér hús hérna. Þetta algjör andstaða við til dæmis Sviss þar sem allir eru mjög tortryggnir í garð útlendinga. Ég er ekki bara að gera þessi hús upp heldur er ég að taka þátt í alskyns samfélagslegum verkefnum sem ég hef engan áhuga á að yfirgefa. Þessi tilfinning sem ég fékk fyrir fimm árum, um að ég væri komin heim, er ekki að fara neitt heldur verður bara sterkari.“

24814 cam nær

 

 

The post Settist að á Vestfjörðum til að stunda skíði og sörf appeared first on Fréttatíminn.

Andvaka fyrir fyrsta vinnudaginn

$
0
0

Langþráður draumur Geirs Gunnarssonar rættist á dögunum þegar hann fékk sína fyrstu vinnu eftir að hafa setið í fangelsi í 17 ár. Geir gat ekki sofið fyrir spenningi nóttina fyrir fyrsta vinnudaginn.

Það hefur verið draumur Geirs í áraraðir að losna úr fangelsi og verða betri maður. Hann þráði að lifa eðlilegu lífi og geta staðið á eigin fótum.

Á dögunum sótti hann um vinnu í íþróttavöruversluninni Sports Direct. „Ég fékk vinnuna þó ég hafi aldrei unnið í svona umhverfi áður. Konan sem réði mig þekkti söguna mína úr fréttunum svo það hjálpaði aðeins til að þurfa ekki fara yfir hana. Mér finnst mjög skemmtilegt að geta gert eitthvað sem er alveg nýtt fyrir mér. Nú hef ég bara unnið hér í tvo daga og mér líst mjög vel á.“

Geir vinnur í þjónustudeildinni og var á afgreiðslukassa fyrsta daginn. „Ég gerði mitt besta en það er margt nýtt að læra. Ég gleymdi til dæmis að taka þjófavörnina af allnokkrum vörum og þarf að læra að fylgjast betur með því.“

Átján ár eru síðan Geir var síðast í vinnu utan fangelsisins. Hann fann því fyrir mikilli tilhlökkun að byrja í nýju starfi og var andvaka aðfararnótt fyrsta vinnudagsins. „Ég vaknaði klukkan þrjú um nóttina, alltof spenntur.“ Til að ná niður stressinu fékk hann sér göngutúr um Elliðaárdalinn á fimmta tímanum og mætti svo hress til vinnu um morguninn.

Árið 1998 hlaut Geir 20 ára fangelsisdóm fyrir alvarlega líkamsárás og sat inni í 17 ár. Það er næstum tvöfalt lengur en morðingjar þurfa að sitja inni á Íslandi. Geir afplánaði dóminn í öryggisfangelsi í Bandaríkjunum við bágar aðstæður og varð fljótt staðráðinn í að bæta upp fyrir gjörðir sínar. Hann var látinn laus í september í fyrra og sneri þá aftur til Íslands. Síðan hefur hann unnið að því að byggja sig upp og aðlagast gjörbreyttu samfélagi.

The post Andvaka fyrir fyrsta vinnudaginn appeared first on Fréttatíminn.

Mikilvægt að hlúa að vináttunni

$
0
0
24959_saumaklubbur-1
Vinkonurnar Hrefna, Guðrún, Björg og Sissa hafa verið perluvinkonur í meira en 40 ár.

Fjórar perluvinkonur á níræðisaldri hittast fjórum sinnum á ári í saumaklúbb á Skaganum. Þær Hrefna, Guðrún, Björg og Sissa eru á aldrinum 82 til 86 ára og hafa verið vinkonur síðan þær byrjuðu að vinna saman sem sjúkraliðar upp úr árinu 1968. Enn búa þær á Akranesi, nema Sissa sem vílar þó ekki fyrir sér að keyra í saumaklúbbinn frá Reykjavík, þegar svo ber við.
„Við hittumst samt oft í viku, fyrir utan saumaklúbbinn, hringjumst á og svona. Maður kíkir kannski bara óvænt við í kaffi, ég held það sé ekki til siðs lengur. En við gerum það enn,“ segir Björg. Vinkonurnar eru klæddar í sitt fínasta púss og sitja að spjalli með rauðvín þegar blaðamaður mætir í klúbbinn. Það er greinilegt að þeim líður vel saman og klára setningar hver annarar af alúð, þegar það á við, og eru duglegar að mæra hvor aðra.
Björg segir frá því hve góð Guðrún hafi verið að sauma, hún hafi saumað árshátíðarkjól á sig á hverju ári og er vinkonunum minnisstæður kjóll úr bláu pallíettuefni. „Þú getur fengið hann lánaðan þegar þú giftir þig, Björg!“ segir Guðrún brosandi. „Iss, ég myndi ekki passa í hann,“ svarar Björg hlæjandi. En nú býður Hrefna upp á köku og kaffi, svo við færum okkur úr betri stofunni.

24959_saumaklubbur-3
„Hrefna málaði bollastellið sjálf, hún er svo mikil listakona,“ bendir Guðrún á þegar við setjumst við borðið.
Allar eru þær sammála um að nauðsynlegt sé að eiga góðar vinkonur í gegnum lífið. Lykillinn að vináttu þeirra sé að þær hafi hlúð að hver annarri með ást og stutt hver aðra á hvaða stigum lífsins sem er. „Mannkærleikur og ást, er lykillinn,“ segir Guðrún.

24959_saumaklubbur-2
Þær Hrefna Ragnarsdóttir, Guðrún Daníelsdóttir, Björg Júlíe Hoe Hermannsdóttir, Sigríður Jónsdóttir (Sissa) hafa haldið vináttu við hver aðra áratugum saman. myndir|Salka

salka@frettatiminn.is

The post Mikilvægt að hlúa að vináttunni appeared first on Fréttatíminn.


Maður lærir mest á að taka sénsa

$
0
0

Iva Marín Adrichem ræðst aldrei á garðinn þar sem hann er lægstur, hvort sem kemur að lagavali í söngkeppnum eða því að halda tölur á málþingum á vegum félagsins Tabú. 

Iva Marín er sautján ára nemi við Menntaskólann í Hamrahlíð sem þegar hefur vakið athygli á ólíkum sviðum, fyrir söng sem baráttu fyrir mannréttindum. Hún býr með fjölskyldu sinni í Kópavogi, en ólst upp í Hollandi þar sem hún var í skóla til níu ára aldurs.
„Þar úti má enginn tala í tímum nema að rétta upp hönd og við ellefu ára aldur þurfa allir nemendur að taka landspróf sem segir til um hvernig nám þeir stunda restina af skólagöngunni. Það býður í raun upp á mismunun því það er erfitt að breyta um braut eftir þetta próf, ef þú klúðrar því hefur það áhrif á alla skólagönguna eftir það.“ Iva var í skóla fyrir blinda og sjónskerta og segir námið þar beinlínis gera ráð fyrir að börnin séu minni bóklegum gáfum gædd en þau sem ganga í almennan skóla. „Þar var ekki einu sinni boðið upp á að fara í akademíska braut í menntaskóla, heldur aðeins iðnnám.“ Þannig fengu börnin í skólanum ekki sömu tækifæri til vals í náminu og börn í almennum skóla.
Hún segir mikla flokkun í hollenska skólakerfinu, en það sé ekki af hinu góða. Ofan á þetta voru börn látin skipta yfir í annan skóla fengju þau viðbótargreiningu ofan á sjónskerðinguna. „Ef þú varst svo til dæmis greindur með ADHD varstu tekinn úr skólanum og settur í sérstakan iðnskóla, og varst þá heilum tveimur til þremur árum á eftir jafnöldrum þínum í skóla.“ Henni líkar því betur að vera í blönduðum skóla á borð við Menntaskólann við Hamrahlíð, en utan hans stundar hún söngnám.

„Ég hef verið að syngja frá því ég var pínulítil, en 13 ára byrjaði ég að læra klassískan söng.“ Iva tók svo þátt í söngkeppni framhaldsskólanna á síðasta ári fyrir hönd Menntaskólans við Hamrahlíð. Þar söng hún hið alræmda lag Loving You, sem Minnie Riperton gerði frægt. „Lagið er þekkt sem „lagið með háu nótunni,“ þannig þetta var ákveðin áhætta. Eins og kennarinn minn sagði við mig: Ef þú klúðrar þessari háu nótu ertu búin að vera.“ Það hafðist samt að ná nótunni, svo ég tóri enn,“ segir Íva glettnislega.
Hún segist frekar taka áhættu í lagavali en halda sig við örugga kosti. „Í 9. bekk tókum við vinkona mín einmitt lag með drottningunni Whitney Houston í undankeppni Samfés og klúðruðum því alveg glæsilega. En maður lærir einfaldlega mest á því að taka sénsa.“

Iva er líka í Graduale Nobili-kórnum og þegar kórinn sendi meðlimi sína í áheyrnarprufur fyrir uppsetningu Íslensku óperunnar á La Bohéme opnaðist fyrir henni nýr heimur. „Ég var ekkert að spá í óperu og hlustaði bara á Lady Gaga og Adele, en nú gjörsamlega elska ég óperur og að taka þátt í þeim.“ Iva hefur verið viðloðandi óperuna síðan.
Hún hefur tekið virkan þátt í starfi Tabú, femínísks félags kvenna með fötlun, frá stofnun félagsins. Hún hefur komið fram á málþingum og skrifað greinar á þess vegum. „Þetta er svo þroskandi starf því þarna eru konur á öllum aldri með ólíkar skerðingar og fjölbreyttan bakgrunn. Það hefur gefið mér ótrúlega mikið að vinna með þeim og vonandi get ég gefið eitthvað til baka með því að vera í þessu starfi. Umræðan um réttindi fatlaðra hefur ekki verið nógu sýnileg hingað til.“

Hún segir misrétti og ofbeldi gegn fötluðum þrífast í aðgreiningu á borð við þá sem hún upplifði í skólanum í Hollandi. „Nú var einmitt að komast upp gróft kynferðisofbeldismál í skóla fyrir börn með viðbótarfatlanir og tungumálaörðugleika í Hollandi, þar sem kennari beitti varnarlaust barn ofbeldi. Þessi aðgreining laðar að ofbeldismenn, það er bara staðreynd. Eins hef ég heyrt um ljót mál í sérskólum á borð við Heyrnleysingjaskólann (sem starfræktur var til 1992). Ég held að við gætum komið í veg fyrir slík mál með því að blanda börnum með ólíkar þarfir saman.“

Ivu finnst þó að umræðan eigi að leita lausna í stað þess að einblína bara á hversu hræðilegir hlutirnir séu. Hún segir fórnarlambsvæðingu jafnframt ekki vera jákvæða þegar komi að málum eins og geðheilsu, fötlun eða ofbeldi. „Það verður auðvitað að skoða vandamálin gagnrýnið en mér fyndist frábært ef fjölmiðlar kæmu lausnunum líka á framfæri. Lausnum sem oft koma fram á málþingum og öðrum vettvangi þar sem þessi mál eru rædd, en fá ekki athygli í fjölmiðlum.“

Hún er sammála því að ungt fólk virðist verða sífellt meðvitaðra um mannréttindamál. „Ég held að þessi þróun komi til vegna þess að þessi mál eru rædd meira og fyrr í skólunum. Ég tek eftir því að ungt fólk lætur sig slík mál varða og nýjasta og frægasta dæmið er líklega þetta frábæra atriði Hagaskóla í Skrekk.“
Aðspurð um hvort söngurinn eða stjórnmálin laði hana frekar að sér segist hún ætla að einbeita sér að söngnum fyrst um sinn. Enda geti það verið lýjandi að vera sífellt að vinna í mannréttindamálum.
„Maður verður líka að kunna að hafa gaman og velta sér ekki bara upp úr því slæma, þá brennur maður bara út.“

Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir

salka@frettatiminn.is

 

Íva Marín Adrichem
Iva Marín Adrichem er með fjölhæfari sautján ára stúlkum. myndir|Hari

The post Maður lærir mest á að taka sénsa appeared first on Fréttatíminn.

829 hafa fengið sanngirnisbætur

$
0
0

Rúmlega níu hundruð manns hafa sótt um sanngirnisbætur vegna miska sem þeir telja sig hafa orðið fyrir eftir dvöl á vistheimilum sem starfrækt voru á landinu á árum áður. Nemar í rannsóknarblaðamennsku við Háskóla Íslands tóku saman tölur yfir hvernig sanngirnisbótunum hefur verið úthlutað. 

Alls sóttu 903 um bætur en um fimmtíu umsóknum var hafnað. Heildarupphæðin sem greidd hefur verið er 1.962.800.000 krónur en ríkið hefur skuldbundið sig til að greiða 120 milljónir til viðbótar. Að meðaltali er áætlað að hver vistmaður hafi fengið um tvær og hálfa milljón króna í bætur.

Sýslumanninum á Siglufirði, Halldóri Þormari Halldórssyni, var falið að sjá um sáttaboð til þeirra sem sóttu um. Langflestir umsækjendur um bæturnar tóku boði sýslumannsins. Af þeim 829 sem fengu greiddar bætur leituðu 26 til úrskurðarnefndar sanngirnisbóta. Úrskurðarnefndin, sem Þorbjörg I. Jónsdóttir fór fyrir, endurmat sáttaboð sýslumanns og skoðaði alvarleika ofbeldis og afleiðingar þess. Horft var í glötuð tækifæri vistmanna, til að mynda til skólagöngu.

24972 Breiðavík
Mynd: Víglundur Þór Víglundsson

Eftir að Breiðavíkurmálið komst í hámæli árið 2007, og fjallað var um slæma meðferð á börnum á nokkrum vist- og meðferðarheimilum landsins, skipaði Geir Haarde forsætisráðherra nefnd sem ætlað var að kanna tjónið sem vistmenn hefðu orðið fyrir. Vistheimilanefndin staðfesti að meiri líkur en minni væru á að börn hefðu sætt illri meðferð á níu vistheimilum ríkisins. Árið 2010 voru samþykkt lög um að greiða þeim bætur sem höfðu orðið fyrir tjóni.

Lögin mæla fyrir um greiðslu sanngirnisbóta úr ríkissjóði til þeirra sem urðu fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á stofnunum og heimilum. Með lögunum er slegið af almennum sönnunarkröfum í skaðabótamálum.

Fyrirkomulag bótagreiðslnanna var byggt á írsku kerfi þar sem gefin eru miskastig fyrir hvern þátt. Hvert miskastig gefur 60 þúsund krónur og miðað er við að hámarksbætur séu 6 milljónir króna. Bæturnar voru meðal annars metnar út frá því hvernig fólk var statt í lífinu síðar. Bæturnar voru skattfrjálsar og höfðu ekki áhrif á aðrar bætur.

Formaður Samtaka vistheimilabarna, Jón Magnússon, segir að almenn óánægja ríki hjá flestum sem hann hefur rætt við vegna sanngirnisbótanna. Fólki hafi fundist sex milljóna króna þakið of lágt auk þess sem það var óánægt með að bæturnar voru greiddar út í þremur skömmtum.
P. Valgerður Kristjánsdóttir var á Bjargi frá tólf ára aldri.
„Ég fékk rúmar 3 milljónir og þær dugðu ekki fyrir neinu. Mér fannst þetta vera skammarbætur og þær breyttu engu fyrir mig. Bæturnar höfðu enga þýðingu. Þær voru greiddar út í skömtum og það var enn verra, ég skil ekki af hverju við fengum þær ekki bara í einu lagi.“

Valgerður segist aldrei hafa jafnað sig á lífsreynslunni á Bjargi. „Ég gleymi aldrei þegar við fórum þangað. Pabbi og mamma fóru með mig og það vissi enginn annað en að þetta væri stúlknaskóli. Þegar við komum þá var allt opið og fínt og leit vel út en um leið og þau voru farin þá var hurðinni læst. Ég hef aldrei komist yfir þennan tíma og hann situr alltaf fast í mér. Ég vil meina að íslenska ríkið hafi reynt að kaupa sig ódýrt frá þessum málum.“

 

Jón Magnússon, formaður Samtaka vistheimilabarna, var vistaður í Breiðavík, Kumbaravogi og upptökuheimili ríkisins í Kópavogi.

„Bæturnar breyttu engu fyrir mig. Þær höfðu engin áhrif á líf mitt. Það eina sem þetta gerði fyrir mig var að þetta var svolítil viðurkenning á að því að það var brotið á mér.“
Jón segir að fólk hafi verið kúgað til að taka sáttaboði sýslumanns. „Ríkið segir að vegna þess að brotin gegn okkur séu fyrnd, þá sé sanngirnisbótafyrirkomulagið það eina í stöðunni. Þessu er ég ósammála því við urðum fyrir mannréttindabrotum og þar af leiðandi voru þessir einhliða samningar um sanngirnisbæturnar bara gjörningur. Við vorum aðilar að mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna þegar öll þessi brot áttu sér stað.“

The post 829 hafa fengið sanngirnisbætur appeared first on Fréttatíminn.

Rómantík í Reykjavík

$
0
0

Guðjón Friðriksson sagnfræðingur þekkir vel til sögu Reykjavíkur. Hann segir að á fyrri hluta 20. aldar hafi nokkrir staðir haft á sér rómantískan blæ.

„Suðurgatan var oft kölluð ástarbraut og þangað fóru ungir elskendur, eða fólk sem var að draga sig saman. Það gekk gjarnan þarna um og fór inn í kirkjugarðinn sem þá var kannski fegursti bletturinn í borginni. Hólavallakirkjugarður var bæði gróðursæll og friðsæll á þeim tíma,“ segir Guðjón.

Á fyrri hluta 20. aldar var Suðurgatan kölluð Ástarbraut og kirkjugarðurinn var vinsæll staður hjá elskendum. Ljósmynd/Hari
Á fyrri hluta 20. aldar var Suðurgatan kölluð Ástarbraut og kirkjugarðurinn var vinsæll staður hjá elskendum. Ljósmynd/Hari

„Svo fór nú orð af því að stelpur sem voru að slá sér upp með sjóliðum, sem komu oft hingað á þessum tíma, færu vestur á mela með þeim. Fólk fór mikið út í Örfirisey. Þá var ekki bílfært þangað og gengið var eftir mjóum hafnargarði til að komast í lautir og hóla sem þótti rómantískt. Þegar ég var á menntaskólaaldri fór fólk á bílum út í Örfirisey og síðan var bílunum lagt og fólk fór eitthvað í kelerí. Ég man alltaf eftir því að einn bekkjarbróðir minn í menntaskóla fékk lánaðan bíl pabba síns og við fórum stundum í gamni þangað. Þá slökkti hann á ljósunum og ók hægt upp að bílunum sem fólk var að kela í og kveikti svo skyndilega á háu ljósunum. Þá varð auðvitað uppi fótur og fit í bílunum!“

24918 Frikirkjan 00894

Guðjón segir að á þessum tíma hafi verið þrengra um fólk og stórar fjölskyldur voru kannski saman í tveimur herbergjum. „Áður en fólk eignaðist bíla var ekki um annað að ræða en fara eitthvert.
Þetta er allt öðruvísi nú þegar fólk hefur eigin herbergi og nóg er af vistarverum. Í dag eru líka allir þessir barir og veitingahús. Það breyttist margt þegar bílarnir komu – um allan heim. Bílarnir gáfu fólkinu frelsi. Þá fór fólk að fara út úr bænum, upp að Kolviðarhóli, að Lögbergi eða Geithálsi. Gjarnan þar sem voru veitingastaðir.“

24918 tjornin 01122 24918 tjornin 01127

 

 

The post Rómantík í Reykjavík appeared first on Fréttatíminn.

Svikinn sem barn – 35 ár á stofnunum

$
0
0

Sigurður Hólm Sigurðsson, 49 ára fangi á Litla-Hrauni, fannst látinn í klefa sínum 17. maí árið 2012. Rúmu ári síðar voru Annþór Kristján Karlsson og Börkur Birgisson ákærðir fyrir stórfellda og hættulega líkamsárás sem hefði leitt hann til dauða. Árið 2013 var ákært í málinu. Rannsókn þess hefur verið gríðarlega umfangsmikil og ekkert til sparað. Byggð var nákvæm eftirlíking fangaklefans og ótal sérfræðingar hafa verið kallaðir til. Búist er við að dómur verði kveðinn upp á næstu vikum.

En þótt rannsóknin á dauða hans hafi verið dýr og ekki hafi verið horft í aurana þegar kom að því að loka hann inni á stofnunum, er ekki þar með sagt að íslenskt þjóðfélag hafi verið með opinn faðminn þegar hann var lítill og hræddur drengur sem þurfti á stuðningi að halda til að hefja lífið.

Lögheimili á Hrauninu

„Hann gekk aldrei lengi laus, það má nánast segja að hann hafi átt lögheimili á Litla-Hrauni, frá því að ég kynntist honum fyrst,“ segir vinur hans úr fangelsinu sem var síbrotamaður líkt og hann þar til fyrir nokkrum árum að hann gati snúið lífi sínu við. „Það kom mér ekki á óvart að lífi hans lauk á þennan hátt.“

2010 hóf Sigurður Hólm enn eina afplánunina fyrir ýmsa smáglæpi en í þetta sinn átti hann ekki afturkvæmt úr fangelsinu nema í nokkra daga. Þá var hann fluttur aftur í gæsluvarðhald, en þar endaði hann daga sína.
„Ég frétti af honum nokkrum dögum áður en hann lenti inni. Hann var rosalega illa farinn, var nánast við dauðans dyr af neyslu,“ segir æskuvinur hans úr fangelsinu.
„Hann hafði horast gríðarlega og neyslan var algerlega stjórnlaus. Það má segja að fangelsið hafi nánast bjargað lífi hans í nokkur skipti, eins einkennilega og það hljómar.“

Innmúraður Hraunari

„Sigurður Hólm var frekar rólegur, stríðinn og brosmildur náungi, eiginlega ljúflingur en þegar hann var undir áhrifum varð hann stjórnlaus, stal því sem hann kom höndum yfir og gat verið ofbeldisfullur,“ segir æskuvinurinn úr fangelsinu.
Hann segist hafa verið fjórtán ára þegar þeir kynntust á Hlemmi, þar sem uppreisnargjarnir krakkar, pönkarar, rónar og utangarðsmenn blönduðu geði. Þar var Bjarni móhíkani, Siggi pönk, Pési, Lalli Johns og fleiri. Menn skiptust á sjússum, reyktu hass og skiptust á töflum eða tóku spítt.
„Þegar ég var 18 ára var ég sendur á Litla-Hraun og þá hittumst við aftur, hann var þá um tvítugt og við urðum ágætis vinir. Hann var þá orðinn innmúraður Hraunari, eins og það var kallað. Ég átti eftir að verða það líka. Ég sat af mér um ellefu ár áður en ég náði að rétta mig við. Við vorum félagar megnið af þessum tíma. Hann var mér nánari en nokkur bróðir.“
En þrátt fyrir þetta segir félaginn í fangelsinu að þeir hafi lítið rætt um fortíðina. „Það gerðu menn bara yfirleitt ekki. Svo var nánast eins og hann skammaðist sín. Hann var með ljót ör á líkamanum og ég vissi að hann hafði orðið fyrir hræðilegu ofbeldi sem barn.“

Nær dauða en lífi

Sigurður Hólm bjó með móður sinni og yngri systur í Bjarnaborg á horni Vitastígs og Hverfisgötu fyrstu árin, en þar voru íbúðir fyrir fátækt fólk og fjölskyldur í erfiðleikum, á vegum Reykjavíkurborgar. Þrjár eldri hálfsystur hans ólust upp hjá ættingjum, en tveir eldri hálfbræður hans voru á barnaheimilinu á Kumbaravogi.
Fimm ára var hann fluttur nær dauða en lífi á sjúkrahús eftir að lögregla fann hann ráfandi um á Hverfisgötunni. Hann var vart nema skinn og bein, maginn uppblásinn eins og hjá börnum sem hafa ekki nærst í langan tíma. Hann var brotinn á báðum framhandleggjum og upphandlegg, afmyndaður í andliti af barsmíðum, nefbrotinn, með skaddaða vör og með ljót för á hálsi og höndum. Samkvæmt lögreglunni gat hann ekki talað og starði bara út í loftið þegar á hann var yrt.
Sigurður Hólm var fluttur á sjúkrahús en læknisskoðun leiddi í ljós að misþyrmingarnar hefðu staðið lengi yfir, þar sem bæði framhandleggsbrotin virtust vera gömul. Á sínum tíma kom fram að þetta væri versta barnaverndartilfelli sem sést hafði á Íslandi í áratugi.

Lítill og umkomulaus

Eftir fjölskylduharmleikinn í Bjarnaborg var hann sendur á barnaheimilið á Kumbaravogi en þar voru tveir bræður hans fyrir. „Ég man vel eftir deginum þegar hann kom. Hann var svo lítill, hræddur og umkomulaus, enn í gipsi og efri vörin saumuð saman,“ segir kona sem var barn á Kumbaravogi á þessum tíma. „Ég man að mér fannst að hann hefði verið sætur lítill strákur en andlitið var afmyndað. Þá var hann með skurði á höndum og fótum, því hann hafði verið bundinn og böndin höfðu skorist inn í holdið.“
Hún segir að það hafi verið rætt við krakkana, sem voru alls fjórtán talsins, og þeim bannað að ræða við hann um ofbeldið sem hann hafði orðið að þola. „Það var sjálfsagt hugsað til að vernda hann en við stelpurnar vorum ekki alveg á því. Við fórum gjarnan með hann afsíðis þegar enginn sá til og spurðum hann út í hvað hefði komið fyrir.“

Hefði þurft meira

Hún segist oft hafa hugsað það síðan, hvað það hafi verið harkalegt að setja svona lítið barn á heimili eins og Kumbaravog eftir þessa lífsreynslu. „Það fór lítið fyrir honum, hann var hljóðlátur og ljúfur. Hann hefði þurft meiri kærleika og skilning ef hann hefði átt að vinna úr áfallinu,“ segir hún.
Sigurður Hólm bjó á Kumbaravogi næstu tíu árin, þar til hann var fimmtán ára. „Það var enginn sérstaklega vondur við hann á Kumbaravogi. En það var enginn sérstaklega góður við hann heldur,“ segir uppeldissystir hans.
Seinna komumst mál barnaheimilisins á Kumbaravogi í hámæli og erfitt líf barnanna þar. Þar var barnaníðingurinn Karl Vignir Þorsteinsson tíður gestur en hann hefur játað fyrir lögreglu að hafa misnotað þrjá drengi á heimilinu þessum tíma.

Ráku upp stór augu

Sigurður Hólm var yngstur þegar hann kom í fyrsta sinn að Litla Hrauni, sextán ára, en fangelsið átti eftir að verða heimili hans næstu árin innan um fíkla, alkóhólista, harðsvíraða ofbeldismenn, barnaníðinga og þjófa. „Ég man að við rákum upp stór augu þegar hann mætti í afplánun. Ég fékk eiginlega sjokk. Hann var svo ungur og barnalegur og átti greinilega ekki heima þarna,“ segir Bárður R. Jónsson sem var í fangelsi þegar Sigurður Hólm mætti þangað í fyrsta skipti.

Hann féll þó fljótlega inn í hópinn í fangelsinu og var fljótlega farinn að spila póker upp á sígarettur. „Hann var mjór og uppburðarlítilll, hafði sig lítið í frammi í fangelsinu en þar var lifað eftir reglunni, sá sem er frekastur fær mest,“ segir annar fangi sem þekkti Sigurð vel úr fangelsinu. „Hann fékk fljótlega nafnið Siggi Póló enda eyddi hann öllum vasapeningunum sínum í kók og prins póló.“

Eftir því sem árin liðu kom Sigurður og fór úr fangelsinu. Hann þótti góður félagi, æfði lyftingar inni og spilaði fótbolta. „Sigurður var svolítið barnalegur, enda hafði hann ekki fengið mikla tilsögn í lífinu, en hann var alls ekki vitlaus,“ segir æskuvinur hans úr fangelsinu. „Hann var alltaf hress og skapgóður, en tengdist ekki mörgum nánum böndum í fangelsinu. Eftir á að hyggja, var það svolítið einkennandi fyrir hann.“
Kristján Friðbergsson, forstöðumaður barnaheimilisins á Kumbaravogi, reyndist Sigurði betri en enginn, heimsótti hann í fangelsið og færði honum ýmislegt sem hann vantaði og þá átti Sigurður eldri bróður sem leit til með honum.

Á vergangi

Áfengis- og fíkniefnaneysla Sigurðar fór vaxandi ár frá ári og utan fangelsisins var hann í samfelldri neyslu, smáglæpum og dópsölu til að standa straum af neyslunni.
„Ég held að hann hafi í raun meira og minna verið á vergangi þegar hann var ekki innan fangelsismúranna,“ segir æskuvinurinn. „Hann kunni ekki að eiga heima neins staðar annars staðar. Þetta var þessi venjulegi vítahringur fíkilsins. Maður kemur í fangelsið og ætlar að breytast í þetta sinn. Hætta allri neyslu, verða betri maður. Eftir nokkra daga í fangelsinu kemst maður yfir þetta, fær eitthvað efni og einhver lyf og dofnar upp aftur. Þegar maður kemur út fer allt í sama farið.“
Hann bendir á að í gamla daga hafi ekkert beðið manna utan fangelsisins sem voru búnir að brenna allar brýr að baki sér. Oft hafi menn átt smávegis pening eftir vinnu í fangelsinu en alls ekki alltaf. Sumir hafi átt fjölskyldu sem þeir hafi getað leitað til en alls ekki allir.
„Okkur var bara hleypt út, við tókum rútuna í bæinn og fórum að safna upp í næstu afplánun. Stundum komu menn fljótt aftur. Ég held að Siggi hafa samt nánast slegið eitthvert met þegar honum var hleypt út einn morguninn, en lokaður aftur inni um kvöldið. Þá hafði hann náð að brjóta af sér á Selfossi á leiðinni í bæinn.“

Ónauðsynlegt fórnarlamb

Sigurður Hólm Sigurðsson varð einungis 49 ára en varði 35 árum á stofnunum. Hann fékk samtals 32 fangelsisdóma og var samanlagt dæmdur til 26 ára fangelsisvistar. Hann var bak við lás og slá í alls 25 ár en gera má ráð fyrir að það hafi kostað samfélagið um 250 milljónir króna. Þá var hann tíu ár á barnaheimilinu Kumbaravogi. „Hann var skilgreint afkvæmi stofnanamenningar íslenska ríkisins og gat aldrei lifað sjálfstæðu lífi, vegna þess að hann fékk aldrei þá aðstoð sem hann þurfti,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga. „Sigurður var veikur og þetta voru allt litlir glæpir og ónauðsynlegir, Um allt kerfið er fjöldinn allur af ónauðsynlegum fórnarlömbum. Hann hefði þurft markvissa hjálp strax og hann lenti inni í fangelsi og í raun miklu fyrr.“ Guðmundur Ingi segist engan þekkja inni í fangelsi sem ekki vilji vera eitthvað annað en afbrotamaður og fíkill. „Fangar fá bara ekki tækifæri til þess. Það er erfitt fyrir fíkla að vera edrú árum saman inni í fangelsi, jafnvel þótt þeir vilji taka sig á. Það er nóg af efnum inni í fangelsinu og læknadópið er ekki best. Það er mjög dýrt fyrir skattgreiðendur að hafa menn eins og Sigurð inn og út úr fangelsum alla ævi. Það væri miklu ódýrara að senda menn í markvissa meðferð, jafnvel í nokkur ár. Það myndi líka spara miklar þjáningar,“ segir Guðmundur Ingi.

Endastöðin

„Ég sá hann í síðasta sinn fyrir utan Bónus við Hallveigarstíg, rétt áður en hann dó,“ segir Bárður R. Jónsson. „Við skiptumst á nokkrum orðum og hann bar sig ágætlega. Reyndi ekki að slá mig um pening eða sígarettur eins og hann væri útigangsmaður. En hann bar þess auðvitað merki að vera tæplega fimmtugur, fíkniefnaneytandi og síbrotamaður. Það þolir þetta enginn til lengdar. Stundum er fólk bara komið á endastöð,“ segir hann.
„Hann var jarðaður í kyrrþey og bara nánasta fjölskylda viðstödd. Ég náði því ekki að fylgja honum til grafar. Mér fannst það svolítið leiðinlegt af því að við vorum samferða næstum því alla ævina. Auðvitað hefði ég átt að kveðja hann,“ segir æskuvinur hans úr fangelsinu. „En við því er ekkert að gera.“

 

The post Svikinn sem barn – 35 ár á stofnunum appeared first on Fréttatíminn.

Flóð í Borgarleikhúsinu: Kuldaköst og kartafla í hálsinum

$
0
0

Frysti­tog­ar­inn Pét­ur Jóns­son RE-69 var fyrsta skipið á vett­vang eft­ir að snjóflóðið féll á Flateyri fyrir tuttugu árum. Áhöfnin upplifði þar einn erfiðasta dag lífs síns en eftir að hafa tekið þátt í björgunarstarfinu fóru mennirnir aftur um borð og kláruðu þriggja vikna rækjutúr. Aðstandendur leikverksins Flóð, sem nú er sýnt í Borgarleikhúsinu, buðu áhöfninni í leikhús síðastliðinn sunnudag.

„Það var búið að vera vitlaust veður í nokkra daga og við höfðum verið í vari við Ísafjörð í nokkra daga þegar neyðarkallið barst,“ segir Birgir Kjartansson, einn skipverjanna á Pétri Jónssyni, en þeir voru fyrstir á vettvang eftir að snjóflóðið féll á Flateyri. „Við vorum eina skipið á landinu sem gat komist að Flateyri og þangað fórum við í brjáluðum stórsjó. Þetta voru miklir og stórir öldudalir og ég viðurkenni það að ég var mjög smeykur,“ segir Ólafur William Hand sem var tuttugu og fimm ára gamall og sá óreyndasti um borð þrátt fyrir að eiga nokkra túra að baki.

Allir úr áhöfninni sem vettlingi gátu valdið fóru í land og aðstoðuðu heimamenn við að grafa. „Við tókum þátt í að grafa upp átján manns sem voru látnir en ein ellefu ára stúlka fannst á lífi, Sóley Eiríksdóttir. Í leikritinu lýsir hún einmitt upplifun sinni af því að heyra björgunarmenn ganga fyrir ofan sig á meðan hún var niðurgrafin. Þetta voru mjög erfiðar aðstæður, það var myrkur og blindbylur og þetta var erfitt fyrir okkur en ég get ekki reynt að setja mig í spor Flateyringanna sem þarna voru með okkur að grafa,“ segir Ólafur.

„Ég upplifi minningarnar sem lítil flöss og leikritið er einmitt þannig, minningabrot sem raðast saman. Ég man neyðarkallið, man eftir hræðslunni á siglingunni og hvað væri fram undan, þegar við komum í bakaríið á Flateyri þar sem fólk safnaðist saman, þegar við fundum fyrsta einstaklinginn, öskrið úr næsta húsi þegar stúlkan fannst á lífi, eymdina í frystihúsinu og ég man eftir rauðu hjálparsveitargöllunum þegar þeir stigu í land,“ segir Ólafur. Þeir Birgir eru sammála um að leikritið hafi haft djúpstæð áhrif á þá. „Ég upplifði hroll og kuldaköst og fékk kartöflu í hálsinn. Það var ekki annað hægt, verkið lýsir svo vel samkenndinni sem var til staðar í öllu vonleysinu,“ segir Ólafur.
„Ég var með efasemdir um að hægt væri að fara með snjóflóð á fjalirnar en ég varð mjög hrifinn, sérstaklega þar sem þetta byggir á sögum fólks sem upplifði þetta. Þetta snerti mig mjög djúpt og leikmyndin sem byggir bara á borði, stólum og nokkrum hlutum talaði ótrúlega sterkt til mín. Atriðið þegar Halldóra Geirharðsdóttir segir sögu stráksins sem missti bróður sinn og föður í flóðinu var svakalega sterkt,“ segir Birgir.

Eftir einn erfiðasta dag lífs síns fór áhöfnin á Pétri Jónssyni aftur um borð í togarann og kláraði þriggja vikna rækjutúr. „Við fengum engan tíma til að átta okkur eða syrgja, þetta voru aðrir tímar,“ segir Birgir.
„Það sem bjargaði okkur var að það var bilað fiskirí svo við bara einbeittum okkur að vinnunni. Svo fór maður inn í herbergi fékk sér sígó og talaði ekki um það sem hafði gerst,“ segir Ólafur. „Við vorum dálítið að vona að það yrði tekið á móti skipinu í Reykjavík en það bara gleymdist og þannig var bara lífið.“

24910 Olafur og Birgir 00907

Ólafur William Hand og Birgir Kjartansson voru hluti af áhöfninni á Pétri Jónssyni, skipinu sem kom fyrst á staðinn eftir snjóflóðið á Flateyri. Áhöfnin fór saman að sjá Flóð, heimildaverk eftir Björn Thors og Hrafnhildi Hagalín, og var sammála um að verkið hefði haft djúpstæð áhrif á bæði á sál og líkama. „Mér finnst að þetta verk ætti að fara í framhaldsskólana því það er hægt að vinna svo mikið með það. Þetta er skylduáhorf,“ segir Ólafur. Mynd/Hari

The post Flóð í Borgarleikhúsinu: Kuldaköst og kartafla í hálsinum appeared first on Fréttatíminn.

Fullorðinn í foreldrahúsum – Hinn nýi íslenski draumur

$
0
0

Með hækkandi leiguverði og minnkandi framboði á húsnæði sem hentar ungu fólki í startholum lífsins fjölgar þeim sem dvelja í hreiðrinu fram eftir aldri. Talið er að nærri helmingur ungs fólks á aldrinum 18-30 ára í Evrópu búi enn í foreldrahúsum. Ísland er þar ekki undanskilið. Eru þetta ósjálfstæðir eilífðarunglingar eða er þetta bara það sem koma skal ef leigumarkaðurinn breytist ekki?

Hinn tuttugu og tveggja ára gamli Róbert Risto Hlynsson er alltaf kallaður Poddi. Poddi býr með foreldrum sínum, yngri bróður, hundi og tveim hænum á Njálsgötunni. Herbergi Podda er lítið herbergi í kjallaranum, en hann hefur fimlega komið skápum og rúmi fyrir svo honum líði vel heima. Af og til heyrum við þungt fótatak fyrir ofan okkur. „Þetta er pabbi. Það er frekar nett að þekkja fótatak allra, svo á kvöldin þegar allir eru sofnaðir heyri ég líka suðið frá ísskápnum hingað niður,“ segir Poddi og hlær.

Poddi segir ákveðið frelsi í að búa heima – nefnilega peningafrelsi. „Ég var áður að leigja og þá hélt ég að sportið væri að maður mætti hafa læti og halda partí heima hjá sér. Það var svo ekki raunin, það má yfirleitt ekkert halda partí þar sem maður leigir, svo það er ekkert gaman.“ Poddi leigði í íbúð þar sem hann borgaði leigusalanum svart, svaf á sófanum og mygla var í húsinu. „Þetta var eiginlega í þvottahúsi svo það var engin loftræsting eða neitt. Einu sinni gleymdum við Hlöllabát í ísskápnum og hann fór að mygla en lyktin komst ekkert út. Ég hef ekki borðað Hlölla síðan.“
Poddi hefur verið í menntaskóla með hléum í sex ár, en klárar stúdentspróf frá Myndlistarskólanum í Reykjavík í vor. Hann vinnur svo með skóla í símaveri á kvöldin.
Eftir stúdent langar hann í háskóla en er ekki viss hvort hann haldi þá áfram að búa í foreldrahúsum. „Þá myndi ég örugglega taka námslán og taka húsnæðislán fyrir þau. Lifa hátt á námslánum. Er það ekki það sem fólk gerir?“

24936_poddi_poddsen_fullordinn_foreldrahus_samsett

Hann segist ímynda sér að ef hann þyrfti að búa einn með náminu myndi hann bugast á endanum. „Rútínan væri bara vinna, sofa, skóli, elda klukkan tíu á kvöldin.“

Poddi bendir á að leigumarkaðurinn henti mörgum í hans stöðu illa, enda vilji hann ekki eiga bíl og þá eigi hann ekki annarra kosta völ en að búa nálægt skólanum sínum. „Ég get því ekki bara flutt í Breiðholt og borgað ódýrari leigu. Breiðholt er samt kúl hverfi, en þá þyrfti ég að eiga bíl því Ísland er bílaland. Og ég er ekki með bílpróf!“

Poddi er almennt jákvæður, og segir margt gott fylgja því að búa með foreldrum sínum. „Foreldrar geta minnt mann á hluti eins og að taka myglaða Hlöllabáta tímanlega úr ísskápnum. Hlutir sem maður man ekki alltaf eftir þegar maður býr einn.“

24936_poddi_poddsen_fullordinn_foreldrahus-3

Poddi er fimmti og síðasti í röð heimsókna til fullorðinna í foreldrahúsum. Áður voru þau Hrútur, Kristín Helga, Ragnar Bjarni og Sunna Rut heimsótt.

24421_Hrutur-2-776x517

 

24429_KristinHelga-1

 

24430_RagnarBjarni-1-776x517

 

24831_Sunna_Rut_Thorisdottir_fullordiniforeldrahusum-1
salka@frettatiminn.is

The post Fullorðinn í foreldrahúsum – Hinn nýi íslenski draumur appeared first on Fréttatíminn.

Efnahagslegt hrun ungs fólks

$
0
0

Ungt fólk á Íslandi hefur setið eftir í efnahagslegu tilliti. Á meðan kjör miðaldra og eldra fólks eru í dag nokkuð betri en um þau voru um aldamótin eru kjör ungs fólks umtalsvert lakari, tekjur lægri og eignastaða verri. Þessi skil á milli efnahagslegrar stöðu kynslóðanna skýra rof á pólitíska sviðinu og krónískan landflótta.

Helstu gátur íslensks samfélags eru hvers vegna landflóttinn stöðvast ekki þótt kaupmáttur virðist fara vaxandi, hvers vegna kjósendur hafa snúið baki við hefðbundnum stjórnmálaflokkum og hvers vegna reiðin og sundrungin í samfélaginu hjaðnar ekki þótt rúm sjö ár séu liðin frá Hruninu mikla. Mögulega má rekja forsendur alls þessa að sama brunni.

It’s the economy, stupid, sagði James Carville, helsti ráðgjafi Bill Clinton í forsetakosningunum 1992. Og líklega má skýra helstu brotamein íslensks samfélags einmitt til efnahags og fjárhags fólks.

Það er nefnilega staðreynd að frá aldamótum hafa tekjur ungs fólks dregist saman á meðan tekjur eldra fólks hafa aukist, fjárhagslega staða unga fólksins hefur versnað á meðan staða eldra fólks styrkist og yngra fólkið hefur fengið minni stuðning út úr skattkerfinu á sama tíma ríkið hefur aukið stuðning við eldra fólk. Atvinnuleysi hefur farið verr með yngra fólk en eldra, hækkun íbúðaverðs hefur haldið því frá húsnæðiskaupum og hækkun leiguverðs hefur keyrt niður kaupmátt þess.

Það er með öðrum orðum mun erfiðara að vera ungur í dag en um síðustu aldamót. Og skal þá engan undra að ungt fólk hafi gefist upp á stjórnmálaflokkunum sem hafa byggt upp og viðhaldið kerfinu sem vinnur gegn því. Og það er skiljanlegt að margt af unga fólkinu kjósi að fóta sig fremur í nágrannalöndunum þar sem er ríkari stuðningur við námsmenn, börn og unga foreldra.

Krónískur landflótti

Þegar tölur um brottflutta umfram aðflutta Íslendinga eru skoðaðar verður að hafa í huga að brottfluttir verða að jafnaði alltaf fleiri en aðfluttir. Það er þannig hjá öllum þjóðum og verður svo meðan fólk flytur á milli landa. Þótt börn Íslendinga fái íslenskan ríkisborgararétt þótt þau fæðist í útlöndum þá er vegur það ekki upp fjölda þeirra sem fæðast á Íslandi en kjósa að búa í öðrum löndum.

En þetta hlutfall, brottfluttir umfram aðflutta, er miklum mun hærra á Íslandi en í nágrannalöndunum. Frá aldamótum hefur fjöldi brottfluttra íslenskra ríkisborgara umfram aðflutta numið um 2,4 af hverjum 1000 íbúum árlega að meðaltali. Sama hlutfall er 0,2 í Noregi. Landflóttinn á Íslandi er því tólf sinnum meiri en náttúrlegt misvægi brottfluttra og aðfluttra ríkisborgara í Noregi.

Brottfluttir íslenskir ríkisborgarar umfram aðflutta voru 12 þúsund frá aldamótaárinu og til ársloka 2015. Ef hlutfallið hefði verið það sama og í Noregi hefðu brottfluttir verið 1000 fleiri en aðfluttir. Eðlilegur leki er samkvæmt því eitt þúsund manns en hinn eiginlegi landflótti um ellefu þúsund manns.

Og það er alvarlegur landflótti. Til að finna viðlíka hlutfall verður við að bera okkur saman við Færeyjar, nyrstu hluta Skotlands, Troms og Norðurlandið í Noregi, norðurhéruð Svíþjóðar og finnsku skógana.

Íslendingar hafa upplifað landflótta áður. Stórir hópar freistuðu gæfunnar erlendis eftir síldarhrunið 1968, í kreppunni eftir þjóðarsáttarsamningana 1989 þegar launþegar greiddu niður verðbólguna með kjaraskerðingu, upp úr olíukreppunni 1975 og á stöðnunarárunum á fyrstu Davíðsárunum.

Það sem er sérstakt við landflóttann síðustu tvö árin er að ekki dregur úr honum þótt hagvöxtur aukist og kaupmáttur batni samkvæmt opinberum tölum. Það bendir til að þótt landsframleiðsla aukist og laun hækki þá sitji stór hópur fólks eftir. Og aldursgreindar tölur um landflótta benda til að þessi hópur sé unga fólkið.

Ungt folk graf 01

Hrun hefðbundni flokkanna

Önnur merki um rof milli kynslóða er mismunandi afstaða kjósenda til hinna hefðbundnu flokka; Sjálfstæðisflokks, Framsóknar, Samfylkingar og Vinstri grænna. Fram eftir þessari öld nutu þessir flokkar fylgis um 95 prósent kjósenda. Það var lítill og fámennur hópur kjósenda sem vildi kjósa eitthvað annað.

Þrátt fyrir Hrunið mikla gerðist það ekki fyrr en seint á árinu 2010 sem samanlagt fylgi þessara flokka fór varanlega niður fyrir 90 prósentin í mánaðarlegum könnunum Gallup. Undir árslok 2012 fór samanlagt fylgi flokkana niður fyrir 80 prósentin, um mitt ár 2014 féll það niður fyrir 70 prósentin og fyrir tæpu ári fór það niður fyrir 60 prósentin.

Síðasta hálfa árið hefur samanlagt fylgi þessara flokka verið í kringum 56 prósent. Það merkir að um 95 þúsund manns hafi snúist gegn fjórflokknum frá upphafi aldarinnar. Það er gríðarlegur fjöldi fólks.

Hvort sem okkur finnst sem þessir flokkar eigi þetta skilið eða ekki verðum við að viðurkenna að þessi staða veikir samfélagið. Flokkarnir hafa sveigt samfélagið að þörfum sínum gegnum áratugi við völd. Þeir fá styrki úr ríkissjóði sem meginstoðir lýðræðislegs starfs í samfélaginu. Flokkarnir hafa verið gatnamót mismunandi hagsmuna og skoðana og í gegnum þá hafa verið dregin helstu álitamál samfélagsins og niðurstöðu þeirra leitað innan vébanda flokkanna og milli þeirra.

Það er því alvarleg staða þegar þessar valdastofnanir hafa misst stuðning meðal almennings. Umboð flokkanna veikist og þeir eiga erfitt með að endurnýja stefnu sína eða laða fólk til starfs og þátttöku.

Í raun má segja að allir flokkarnir séu í sambærilegri stöðu. Þeir hafa veikst svo mjög að innra með þeim býr ekki lengur þróttur til að finna leið út úr vandanum, endurnýjunarkrafturinn er horfinn.

Það sést vel þegar skoðuð er afstaða aldursflokkanna til flokkanna. Aðeins 34 prósent fólks undir þrítugu treystir sér til að kjósa hefðbundnu flokkana, samkvæmt könnun MMR frá í janúar, en 66 prósent segjast vilja kjósa Pírata eða eitthvað annað en fjórflokkinn. Fjórflokkurinn er í tæpum minnihluta meðal fólks frá þrítugu til fimmtugs; 49 prósent segjast vilja kjósa einhvern fjórflokkanna en 51 prósent Pírata eða eitthvað annað. Það er ekki fyrr en meðal fólks yfir fimmtugu sem fjórflokkurinn nær meirihluta.

Það virðist augljóst að þessir fjórir flokkar miði stefnu sína og sjónarmið fyrst og fremst út frá hagsmunum og afstöðu eldra fólks. Fyrir yngra fólki virka þessar stofnanir sem andstæðingur; fyrirbrigði sem vinnur gegn hagsmunum þess og vill því illt.

Tekjur yngra fólks lækka

Hvað er hæft í því? Hafa hefðbundnu stjórnmálaflokkarnir svikið unga fólkið?

Samkvæmt upplýsingum sem Hagstofan vinnur upp úr skattframtölum er augljóst að kjör yngra fólks hafa versnað það sem af er þessari öld á meðan kjör miðaldra og eldra fólks hafa batnað. Munurinn er mikill og sláandi.

ungt001

Þannig höfðu atvinnutekjur ungmenna, 24 ára og yngri, lækkað um tæpar 37 þúsund krónur á mánuði að meðaltali frá aldamótum fram til 2014. Ráðstöfunartekjur þessa hóps eftir skatta höfðu lækkað nokkuð minna eða um tæplega 27 þúsund krónur á mánuði. Það er samt nokkur upphæð eða 323 þúsund krónur á ári. Það munar um minna.

ungt002

Kjör ungs fólks á aldrinum 25 til 39 ára hafa versnað enn meira. Atvinnutekjur þess hafa að meðaltali dregist saman um tæplega 59 þúsund krónur á mánuði og ráðstöfunartekjur eftir skatta um tæplega 50 þúsund krónur.

ungt003 ungt004

Tekjur allra annara aldurshópa hafa hækkað og því meira sem fólk er eldra. Ungt miðaldra fólk á aldrinum 40 til 49 ára hafði þannig rúmlega 27 þúsund krónum meira í atvinnutekjur 2014 en um aldamótin og tæplega 13 þúsund krónum meira í ráðstöfunartekjur eftir skatta. Eldra miðaldra fólk, 50 til 66 ára, fékk rúmlega 46 þúsund krónum meira í atvinnutekjur 2014 en um aldamótin og tæplega 54 þúsund krónum meira í ráðstöfunartekjur.

ungt005

Fólk á ellilífeyrisaldri fékk tæplega 117 þúsund krónum meira í heildartekjur á mánuði 2014 en um aldamótin og hafði rúmlega 79 þúsund krónum meira á mánuði til ráðstöfunar eftir skatta.

Þegar þetta er skoðað er augljóst úr hvaða jarðvegi hugtakið Sjónarmið sjötugra er sprottið. Það er sprottið úr þessum raunveruleika og lýsir upplifun ungs fólks sem finnur á eigin skinni hvernig lögmál samfélagsins eru sveigð að hagsmunum hinna eldri og frá hagsmunum ungs fólks.

Eldri eignast meira

Þegar eignabreytingar eru skoðaðar birtist svipuð mynd. Heildareignir yngri hópanna dragast saman og þeir búa í ódýrari íbúðum en um aldamótin. Af eignastöðu yngsta hópsins má sjá að hann er nú ólíklegri en áður til að hætta sér út í íbúðakaup. Eignir ungs fólks á aldrinum 25 til 39 ára, foreldrakynslóðin, hafa líka dregist saman.

Það er ekki fyrr en meðal fólks eftir fimmtugt sem eignastaðan hefur batnað frá aldamótum og fram til 2014. Hjá allra elsta fólkinu hefur hún síðan batnað enn meira. Það er eiginlega eini hópur sem býr í dag við mun betra eiginfjárstöðu en um aldamótin. Miðaldra fólk hefur meira umleikis en skuldar líka meira. Yngsta fólkið hefur minna umleikis og skuldar þar af leiðandi minna. Stór hluti þess hefur ekki efni á að taka þátt í séreignastefnu gömlu flokkanna. Hún hentar eldra fólki en ekki yngra.

Ungt folk graf 04

Húsaleigan étur upp tekjurnar

Þar sem stór hluti ungs fólks er á leigumarkaði bitnar mikil hækkun húsaleigu hart á ungu fólki. Opinberar upplýsingar um leiguverð liggja ekki fyrir hjá Þjóðskrá nema aftur til 2011. Frá þeim tíma og fram til 2014 jukust ráðstöfunartekjur ungs fólks á aldrinum 25 til 39 ára sáralítið ef nokkuð. Að teknu tilliti til hækkunar leiguverðs lækkaði ráðstöfunarfé þessa hóps hins vegar um 5 til 8 prósent á sama tíma og ráðstöfunartekjur miðaldra fólks hækkuðu um 5 til 10 prósent.

Þrátt fyrir að almenna og mikla hækkun húsaleigu hafa stjórnvöld verið treg að til að verja fjármunum til húsaleigubóta. Það sýnir vel áhrif Sjónarmiða sjötugra á íslenskt samfélag. Auk húsaleigubóta eru námslán, fæðingarorlof og barnabætur ríkustu hagsmunamál yngra fólks. Eins og fram kom í úttekt Fréttatímans fyrir tveimur vikum verja Íslendingar mun lægri upphæðum í fæðingarorlof og barnabætur en aðrir Norðurlandabúar.

Ungt folk graf 05

Þegar endurgreiðslur út úr íslenska skattkerfinu eru skoðaðar kemur í ljós að það sem af er þessari öld hefur mjög dregið úr framlögum til yngra fólks en greiðslur til eldra fólks hafa hins vegar aukist. Ungt fólk á aldrinum 25 til 39 ára fékk þannig rúmum tveimur milljörðum minna í vaxta- og barnabætur árið 2014 en þessi hópur hefði fengið ef bæturnar hefðu verið jafn miklar og árið 2000 og skipting milli aldurshópa sú sama. Á sama tíma jukust greiðslur til fólks á fimmtugsaldri um nærri 600 milljónir króna og til fólks milli fimmtugs og ellilauna um nærri sömu upphæð.

Ungt folk graf 02

Fleiri öryrkjar og atvinnulausir

Í Fréttatímanum í síðustu viku kom fram að hlutfallslega fleira ungt fólk á Íslandi er á örorkubótum en á Norðurlöndunum og munar þar töluverðu. Það bendir til þess að lífsbaráttan á Íslandi sé erfiðari ungu fólki. Ekkert hefur skaðlegri áhrif á heilsu fólks en basl. Í blaðinu kom einnig fram að fleira ungt fólk á Íslandi þiggur framfærslu frá sveitarfélögum en á Norðurlöndunum.

Þegar kannað er hvernig atvinnuleysi skiptist milli aldurshópa kemur í ljós að aukið atvinnuleysi hefur mest bitnað á ungu fólki á aldrinum 25 til 39 ára. Um aldamótin voru um 1,2 prósent þessa aldurshóps á atvinnuleysisskrá en árið 2014 var hlutfallið komið upp í 4,2 prósent. Það er mun hærra hlutfall en meðal elda fólks og miðaldra.

Ungt folk graf 06

Áhrif þessa sjást einnig í hlutfalli háskólamenntaðra á atvinnuleysisskrá. Í upphafi aldarinnar voru háskólamenntaðir aðeins um 7 prósent atvinnulausra en þeir eru nú um fjórðungur. Það má sjá af þróun atvinnuleysis eftir menntun hverjar áherslur stjórnvalda hafa verið. Mest hefur dregið úr atvinnuleysi meðal ómenntaðra og fólks með iðn- eða starfsmenntun. Minna hefur dregið úr atvinnuleysi háskólamenntaðra.

Það bendir til að áhersla stjórnvalda taki ekki mið af raunveruleika yngra fólks. Afstaða þeirra litast af Sjónarmiðum sjötugra.

Óréttlætið mölvar flokkana

Þegar allt þetta er dregið saman er augljóst að skarð hefur myndast milli kynslóða í samfélaginu. Það sést á viðhorfum til stjórnmálaflokka og annarra samfélagsmála og í vaxandi landflótta. En það sést ekki síður í því hversu ólík þróun tekna, eigna og annarra efnahagsþátta hafa verið milli aldurshópa frá aldamótum. Skilin eru skýr og afgerandi. Segja má að fólk yfir fertugu búi nú við betri kjör að flestu leyti og enn frekar fólk yfir fimmtugu.

En raunveruleiki fólks undir fertugu er allt annar. Yngra fólkið býr við lakari kjör að flestu leyti en ungt fólk gerði fyrir fimmtán árum. Þessi efnahagslegi raunveruleiki hefur ekki aðeins getið af sér efnahagslegt óréttlæti heldur líka myndað gjá í afstöðu til samfélagsmála. Óréttlætið er að mölva niður gamla flokkakerfið og dregur jafnframt úr getu þess til að bregðast við. Það virðist lokað inni meðal eldra fólks og ekki geta séð né brugðust við vanda yngra fólks.

Gunnar Smári Egilsson
gunnarsmari@frettatiminn.is

 

24953
Guðrún Andrea Maríudóttir

Ungt fólk er í vítahring
Guðrún Andrea Maríudóttir er 25 ára gamall nemi í félagsráðgjöf og vinnur meðfram náminu á sambýli. Hún segir ungt fólk komið í ákveðinn vítahring. „Mín kynslóð hefur ekki færi á að kaupa sér íbúð nema safna milljónum í útborgun og situr því föst í leiguíbúð sem kostar tvöfalt verð útborgunar á mánuði. Þetta setur manni skorður og mín tilfinning er að manni sé beinlínis gert erfitt fyrir að fóta sig sem ung manneskja.“
Hún segir kynslóðirnar á undan hafa sett viðmið um lífsgæði sem er ekki séns fyrir ungt fólk að fylgja: „Maður á til dæmis að mennta sig í stað þess að fara strax á vinnumarkað, en svo fær maður ekki vinnu nema hafa reynslu.“ Henni finnst ekki furðulegt að ungt fólk styðji ekki fjórflokkinn í ljósi stöðunnar: „Við upplifum að ráðamenn líti beinlínis niður á okkur. Það er skrýtið að fjórflokkarnir reyni ekki að halda í unga fólkið, því við erum stærsti kjósendahópurinn. Ef ekkert er í boði fyrir okkur nennum við einfaldlega ekki á kjörstað!“ -sgþ

24948_aron_oskarsson-1
Aron Óskarsson, formaður Stúdentaráðs. Mynd/Rut

Vantar samtal við ungt fólk

„Ég upplifi okkur sem kynslóðina sem lendir einhversstaðar á milli. Eldri systkini okkar gátu keypt sér húsnæði þó það væri kannski ekki á bestu kjörunum en það er svo miklu erfiðara fyrir okkur að eignast eitthvað. Margir stúdentar hafa áhyggjur af því hvað taki við eftir foreldrahús,“ segir Aron Óskarsson, formaður stúdentaráðs. Aron er nemi á ferðamálabraut og leigir í stúdentagörðunum. „Auðvitað vilja flestir búa nálægt fjölskyldu sinni en svo er maður að heyra hvað lífið sé miklu auðveldara fyrir ungt fólk annarsstaðar í Evrópu, eins og t.d. í Danmörku þar sem fólk fær styrk til að vera námi í stað þess að safna skuldum. Kjör okkar fara bara versnandi. Könnun sem Félagsvísindastofnun gerði í árið 2014 sýndi að ráðstöfunartekjur íslenskra stúdenta eru 100 þúsund krónum lægri á mánuði en árið 2004.“
Aron segir lélega kosningaþátttöku ungs fólks vera áhyggjuefni. „Þegar staðan er svona þá ættum við unga fólkið að láta okkur málin varða. En ég held að lítill áhugi sé að hluta til vegna skorts á samtali við ungt fólk. Núna er t.d. verið að endurskoða Lánasjóðinn en það er enginn nemandi í stýrihópnum.“ -hh

 

The post Efnahagslegt hrun ungs fólks appeared first on Fréttatíminn.


Hyggst búa áfram í myglaðri íbúð

$
0
0

Eigandi íbúðar, sem metin er stórhættuleg vegna myglusvepps, segist vel geta búið í íbúðinni. Húsfélagið hefur krafist þess fyrir héraðsdómi að eigandinn selji íbúðina sína. Farga þurfi öllum innréttingum og innbúi. 

Eigandi íbúðar, sem metin er stórhættuleg vegna myglusvepps, er arkitekt og hefur unnið að bæjarskipulagi og ýmiskonar skipulagsmálum. Hann hefur ekki hugsað sér að flytja úr íbúðinni.

20140226_160056 (1)

Íbúðin er í fjölbýlishúsi í Vesturbæ Reykjavíkur. Í lok janúar var mál húsfélagsins gegn honum þingfest fyrir héraðsdómi Reykjavíkur og þess krafist að hann selji íbúðina. Beðið er dómsniðurstöðu. Að sögn annarra íbúa í blokkinni hefur húsfélagið reynt að fá manninn til að bregðast við myglusveppnum í íbúðinni í bráðum fjögur ár. Ítrekaðar tilraunir hafi verið gerðar til að fá manninn til grípa til aðgerða svo sveppurinn dreifist ekki í aðrar íbúðir.

Tvær verkfræðistofur hafa gert úttekt á íbúðinni og bent á að hún sé ekki íbúðarhæf. Önnur skýrslan er frá 2013 og hin 2014. Heilbrigðiseftirlitið komst að sömu niðurstöðu. Viðgerðir þoli enga bið og að það sé brýnt heilsufarsmál eiganda íbúðarinnar og nærliggjandi íbúða að ráðið verði niðurlögum sveppsins. Farga verði öllu innbúi, endurnýja þurfi alla glugga, svalahurð, öll gólfefni og innréttingar. Þá þurfi að slípa útveggi og hreinsa einangrun af útveggjum fyrir enduruppbyggingu. Alla innanstokksmuni þurfi að flytja úr íbúðinni út um svaladyr svo myglugró dreifist ekki á stigagang eða í aðrar íbúðir.

„Þetta eru stór orð,“ segir íbúðareigandinn. Aðspurður um hið óvenjulega háa rakastig íbúðarinnar, sem skýrslurnar benda á, svarar hann: „Ég finn ekki fyrir því.“

20140226_160123

Fulltrúar annarrar verkfræðistofunnar mættu á húsfund í blokkinni og fóru ítarlega yfir athugasemdirnar með eiganda íbúðarinnar. Hann hafi samt ekki brugðist við.

Maðurinn segist ekki hafa vitað að málið væri komið til héraðsdóms og var ekki viðstaddur þingfestinguna. „Það er óvenjulegt að fólk mæti ekki og taki til varna í svona máli,“ segir Eiríkur Gunnsteinsson, lögmaður húsfélagsins. „Ítrekað hefur verið reynt að fá íbúann til að bregðast við. Gerð var verkáætlun sem ekki var farið eftir og því gafst húsfélagið upp og leitaði réttar síns.“

20140226_160224

„Ég hef reynt ýmislegt til að útrýma sveppnum en ég verð að kynna mér málið betur,“ segir maðurinn.

Einn íbúa í húsinu reyndi fyrir skemmstu að selja íbúð sína en kaupsamningnum var rift þegar kaupendur komust að því að nærliggjandi íbúð væri þakin myglusveppi.

24992 myglusveppur2

The post Hyggst búa áfram í myglaðri íbúð appeared first on Fréttatíminn.

Við erum gæfurík

$
0
0

„Ég lá í götunni, særð og hrædd. Fann fyrir gríðarmiklum verkjum; tvær byssukúlur. Merde! Þetta er þá að gerast hugsaði ég. Svo hringdi ég í Finnboga” Caroline Courriouix er ein þeirra sem lifði af skotárásirnar í París, 16. nóvember. Í þessari viku steig hún í fyrsta skipti upp úr hjólastól sem hún hefur verið bundin við í tvo mánuði. Hún er búsett í Montmartre hverfinu þar sem hún býr ásamt unnusta sínum, Finnboga Rúti Finnborgasyni . Þau kynntust í Damaskus í Sýrlandi þar sem Finnbogi var við nám í arabísku, en flúðu land 2011 þegar borgarastyrjöldin braust út. “Ásrásirnar hafa ekki breytt okkur, við erum enn sama fólkið. Kannski vegna þess að við erum stöðugt umkringd af góðum vinum og fjölskyldu. Við erum gæfurík – það er það sem heldur okkur gangandi. Við stefnum á að ferðast meira, flytja jafnvel til Mið-Austurlanda.”

 

Æðruleysið og krafturinn hjá þessu unga fólki er í raun magnað. Caroline Courriouix er frönsk og Finnbogi Rútur Finnbogason íslenskur, þau eru bæði innan við þrítugt og tala um borgarastyrjaldir, arabíska vorið, hryðjuverkaárásir sem þau hafa upplifað á eigin skinni af ótrúlegri hugarró. Þau búa saman í lítilli íbúð í Montmartre hverfinu, hann lærir heimspeki og alþjóðafræði við Háskólann í Sorbonne á meðan hún vinnur í listageiranum í París. Örlögin leiddu þau saman í Damaskus í Sýrlandi þar sem Finnbogi var við nám í arabísku, en hún var á ferðalagi. Finnbogi þurfti svo að flýja land vegna borgarastyrjaldarinnar. Fór aftur heim til sín í París þar sem þau tóku aftur upp þráðinn og eru búin að vera saman síðan.
Hvað dró þig til Damaskus?
„Ég kom þangað fyrst 2006 með fjölskyldu minni, við ætluðum til Líbanon en þá skall á stríð í suðurhluta landsins og við breyttum ferðaáformum okkar og fórum til Sýrlands í staðinn og eyddum tveimur vikum þar. Ég varð algjörlega heillaður af Damaskus og þegar ég byrjaði mitt háskólanám í Reykjavík ákvað ég mjög fljótlega að drífa mig til Damaskus að læra arabísku. Ég var í Damaskus í eitt og hálft ár, kom haustið 2009 en færði mig síðan yfir til Jórdaníu um það leyti sem deildinni minni í háskólanum var lokað. Þetta var allt að gerst í byrjun 2011; arabíska vorið, Egyptaland féll, svo Líbýa. Síðan byrjuðu átökin í Sýrlandi, yfirvöld lokuðu landamærunum og ég komst ekki aftur í skólann.“
„Mér fannst aldrei líklegt að arabíska vorið myndi ná til Sýrlands, fannst það í raun fráleitt. Mér fannst Sýrland ekki stríða við sömu vandamál og nágrannalöndin. Ég skynjaði mjög sterkt hve allt var á fleygiferð, allt virtist opið, frjálst, viðskiptin stöðugt að aukast sem og ferðamennskan, hótelin urðu stærri og dýrari, úrvalið varð meira í mat og drykk. Þegar landið var opnað á sínum tíma fór mikil og jákvæð dýnamík í gang. Millistéttin óx hratt, það var friður í Damaskus og mikil og skemmtileg stemning í borginni.“
„Mér fannst Damaskus alveg ótrúlega falleg,“ segir Caroline. „Mikil gæska hjá öllu mannfólkinu. Allir svo hjartahlýir og góðir við mann. Og þarna urðum við ástfangin.“

24920_caroline-1

Við lifðum af

Í síðustu viku komst Caroline loksins úr gifsi og hjólastól; stóð upprétt í fyrsta sinn í þrjá mánuði. Hún segir það ótrúlega tilfinningu að geta gengið aftur. Eftir að hafa verið særð á báðum fótleggjum og legið tvær vikur á sjúkrahúsi, dvalið þrjá mánuði í foreldrahúsum, fimmtíu daga samfleytt í sama rúminu, nánast ósjálfbjarga er hún loksins orðin frjáls. „Mér finnst ég hafa lifnað við. Ég er upprisin! Komin aftur heim til mín í íbúðina í París. Þetta lítur satt að segja mjög vel út, ég á eftir að ná mér að fullu, vonandi, verð með svona 5% örorku sem á ekki eftir að hamla mér mikið. Sem betur fer er ég ekki ballettdansari eða skíðakona!“
En hvað gerðist þetta föstudagskvöld þrettánda nóvember?
„Við vorum nýkomin úr ferðalagi frá Íran. Komum kvöldið áður. Ég ákvað að kíkja niður í bæ og fá mér rauðvínsglas með vinkonu minni, Alice, á kaffibarnum Le Carrillon. Þegar við heyrðum skothvelli héldum við fyrst að þetta væru flugeldar. En svo gerðist þetta æ háværara og ógnin þyrmdi yfir okkur. Við vissum ekkert hvað var að gerast fyrr en við sáum eldglæringarnar. Þetta var fyrsti staðurinn sem var ráðist á. Þarna hófust skotárásirnar þetta kvöld. Svo fékk ég fyrsta skotið og féll í götuna. Vinkona mín sömuleiðis. Fyrstu byssukúlurnar þeyttu okkur niður og það hefur sjálfsagt orðið okkur til lífs, að við féllum niður svona snemma. Alls staðar í kringum okkur lést fólk. Við vorum ótrúlega heppnar. Við lifðum af.“
„Ég komst samt ekki á gjörgæsludeild fyrr en eftir þrjá tíma, það voru svo margir særðir sem þurftu hjálp. Það var farið með okkur í fyrstu í sjúkrabíla út fyrir borgina, enn verið að leysa ástandið á Bataclan. Þetta voru alls þrír tímar sem liðu, frá því að ég var skotin og þangað til að ég komst undir læknishendur, þeir liðu hægt og sérkennilega á meðan verið var að girða allt af, loka öllum götum. Þetta virtist líða endalaust. En þrátt fyrir allan örvæntinguna fannst mér magnað að fylgjast með öllu þessu fólki að störfum. Það var mjög fallegt og manneskjulegt að sjá það vinna svona hratt og vel og gera alveg ótrúlega hluti undir gríðarmiklu álagi.“

24920_caroline-4

Fjandinn, er þetta að gerast!

Sástu aldrei árásarmennina?
„Nei, aldrei. Ég var skotin, féll niður. Sá ekkert. Ég er ekki viss um að nokkur maður á þessum kaffibar hafi séð þá. Samt voru þeir einungis í tveggja metra fjarlægð. Þeir voru sennilega þrír eða fjórir. Við vitum það ekki enn. Þeir sem sáu árásarmennina greinilega hafa líklegast verið myrtir.“
Hvað fór í gegnum hugann þegar þú lást þarna og hafðir áttað þig á að þú vars varst stödd í miðri hryðjuverkaárás?
„Ég bara bölvaði hressilega! Merde, merde, merde! Fjandinn þetta er þá að gerast. Svo fór ég að hugsa um að fela mig, liggja á jörðinni og láta lítið fyrir mér fara. Hvernig get ég varið mig? En manni dettur ekkert gáfulegt í hug á svona stundu. Maður veit að þetta er að gerast og það er ekkert sem breytir því. Svo hringdi ég í Finnboga.“
„Ég sá bara skilaboðin í símanum – að hún hefði verið skotin og ég þyrfti að koma strax. Þannig að ég kom samstundis með leigubíl,“ segir Finnbogi.
Hvernig var aðkoman?
„Ég fékk ekki að sjá Caroline. Það voru herlögreglumenn alls staðar. Búið að girða allt af. Hvarvetna mátti sjá sjúkraflutningamenn bera út látna og særða. Það var mikil spenna í loftinu og ég fékk ekkert að vita. En það var þarna maður sem var með Caroline sem leyfði mér að heyra í henni gegnum síma og þá vissi ég að hún væri á lífi og væri á leið á spítala. Svo ég fór þangað tveimur tímum seinna og hitti hana þar.“
Að verða fyrir hryðjuverkaárás er ekki venjuleg lífsreynsla. Hafa þessar árásir breytt þér eitthvað Caroline?
„Nei, það held ég ekki. Það á samt eftir að koma í ljós. Ég er auðvitað nýskriðin upp úr hjólastól, ég er farin að ganga á ný. Ég er ekki búin að fara á kaffihús, bar eða veitingahús eftir að þetta gerðist. Kannski á ég eftir að verða hrædd. Ég veit það ekki ennþá. En að öðru leyti er ég sama manneskjan, en ég á örugglega eftir að upplifa einhver eftirköst, einhverja hræðslu sem ég hef aldrei fundið fyrir áður. Ég er meðvituð um þetta og það er eðlilegt að upplifa slíkt eftir svona áfall. En mér finnst ég ekki hafa breyst – og ég ætla ekki að láta þessa atburði breyta mér. Ég má ekki láta það gerast.“
En þú Finnbogi, hafa þessar árásir breytt þér? Ertu tortryggnari?
„Já, en kannski bara í fyrstu. Ég varð eftir í París og hélt áfram að gera það sem ég er að gera. Maður var afskaplega varfærinn svona fyrstu dagana. Svo kemur þetta alltaf yfir mann öðru hvoru, þetta óöryggi, mjög sjaldan að vísu. Ég labba mikið um París og er mikið úti á kaffihúsum og ég hef ekkert dregið úr því. Mestu áhrifin í fyrstu voru þessi mikla óvissa. Hvað hafði eiginlega gerst? Eftir því sem tíminn leið og maður skildi betur alla þessa atburðarás, leið manni betur.“
Finnst þér hryðjuverkaárásirnar hafa breytt stemningunni í París?
„Eins og er, já. Þetta voru stórar árásir sem hafa vissulega sett mark sitt á borgina. En þetta er tímabundið ástand. París hefur áður gengið í gegnum annað eins, hryðjuverk og stríð. Þetta var stór árás sem hafði stór og mikil áhrif, en París er bara svo miklu stærri. París er STÓRT og mikið fyrirbæri sem er ekki auðvelt að eyðileggja. Fyrir langflesta hér heldur því lífið bara áfram.“

Viðbrögð almennings friðsæl og yfirveguð

En hvað finnst þér þá um viðbrögð stjórnvalda? Stríðsyfirlýsingar, loftárásir í Sýrlandi, neyðarlögin, allar þessar handtökur?
„Mér finnst eðlilegt að ríkisstjórnin bregðist við. Mér finnst líka eðlilegt að þjóðin spyrji sig spurninga. Það er enn að gerast. Það er svo stutt síðan þetta gerðist. Við eigum eftir að sjá hvort þessar aðgerðir stjórnvalda séu réttmætar. Við höfum auðvitað ágætis fordæmi frá Bandaríkjunum þar sem menn fóru sannarlega yfir strikið í viðbrögðum við hryðjuverkum. Mér sýnist samt, og ég held, að viðbrögð franskra stjórnvalda séu þaulhugsuð. Þau voru greinilega vel undirbúin fyrir svona árásir, þau brugðust við hratt, það var greinilega til áætlun, strax frá byrjun.“
Caroline, óttast þú að árásirnar eigi eftir að breyta frönsku samfélagi?
„Nei, ekki raunverulega. Fylgi Front National var mikið fyrir þessar árásir og ég held að þær hafi ekki aukið fylgi hægri-öfgamanna. Mér fannst raunar jákvætt að sjá hin almennu viðbrögð, þau voru friðsæl og yfirveguð. Maður hefur auðvitað vissar efasemdir með þessi neyðarlög en ætli maður verði ekki bara að treysta stjórnvöldum í þessu. Þetta eru mjög flóknar og erfiðar kringumstæður, það er því erfitt að gagnrýna viðbrögð stjórnvalda. Hvað eiga þau að gera? Ég held þau séu að reyna að gera það besta í stöðunni.“

24920_caroline-2

Ætla að læra arabísku

En framtíðin? Hvað tekur við hjá ykkur?
„Nú er það endurhæfing. Koma löppunum í gang sem fyrst. Ég get ekki ferðast mikið eins og er. Við erum föst hér í Montmartre, sem er svo sem ekki slæmt. Ég má samt ekki fara í flugvél en ég get tekið lest. Ég er farin að sakna þess að vera frjáls, geta farið um, gert það sem ég vil. Eins og er þarf ég manneskju til að hjálpa mér hvert sem ég fer.“
„Hún er vanalega alltaf með eitthvað á prjónunum,“ segir Finnbogi, „hún er alltaf að gera eitthvað. Þetta bindur hana niður eins og er. Manneskja sem er alltaf í fimmta gír og er allt í einu sett í handbremsu. Hún er samt sem áður óstöðvandi!“
„Það fyrsta sem ég ætla að gera er að læra arabísku og sjá Atlantshafið,“ segir Caroline. „Finnbogi talar arabísku og ég fer á fullt eftir tvær vikur hjá Arabísku menningarstofnuninni í París og svo kannski bara að flytja til Mið-Austurlanda. Það gæti verið spennandi! En fyrst er það Atlantshafið. Við þurfum að komast til Bretaníu eða Normandí, finna fyrir hafinu, fá kraftinn þaðan. Svo væri gaman að fara til Íslands í sumar.“
Þið eruð uppfull af krafti og bjartsýni – jafnvel eftir svona hrylling – hvernig farið þið að því?
„Hvað annað?,“ spyr Finnbogi. „Lífið er gott, uppfullt af tækifærum. Við erum umkringd góðu fólki, vinum og fjölskyldu, við erum enn með íbúðina okkar hér í Montmartre.“
„Við erum gæfurík,“ segir Caroline. „Það fylgir okkur einhver gæfa, Ég finn það sterkt. Svo hef ég aldrei kunnað að stoppa. Maður verður bara að halda áfram, sama hvað gerist.“

Freyr Eyjólfsson
ritstjorn@frettatiminn.is

Myndir: Oddlaug Árnadóttir.

 

The post Við erum gæfurík appeared first on Fréttatíminn.

Afgönsk matarveisla í hjarta Reykjavíkur

$
0
0

Matarkvöld Samtaka kvenna af erlendum uppruna er leynd perla í matarhafsjó bæjarins. Fréttatíminn kíkti í afganska matarveislu þar sem rétturinn manto var stjarna hlaðborðsins, enda réttur sem er gerður til að skapa minningar. 

 

Kvöldin byrjuðu smátt þar sem nokkrar konur í samtökunum hittust og útbjuggu einn rétt frá einhverju heimalandinu. Skipst var á sögum milli þess sem maturinn varð til í höndum kvennanna og svo var setið fram eftir og kjaftað. Hugmyndin að kvöldunum var, og er enn, að þar gætu erlendar konur hitt íslenskar konur, skipst á sögum og uppskriftum, styrkt hver aðra, búið til tengslanet og æft sig í íslensku. Eftir því sem konunum fjölgaði varð flóknara að elda saman og þegar maturinn var farinn að verða tilbúinn rétt fyrir miðnætti ákváðu skipuleggjendur að framvegis yrði nýtt fyrirkomulag. Nú hittist hópurinn tvisvar í mánuði og borðar af hlaðborði þar sem allar hafa lagt sitt af mörkum eða þá í þemaveislu þar sem nokkrar konur sjá um að elda og kynna mat frá einu landi og svo er greitt í sjóð sem rennur til kokka kvöldsins. Allar konur sem hafa áhuga á að kynnast nýrri matarmenningu eru hjartanlega velkomnar en það er um að gera að bóka sig með fyrirvara því færri komast að en vilja.

24907_afganskt_matarbod-100

Í síðustu viku sá Zahra Mesbah um afganska matarveislu með aðstoð systur sinnar, mömmu og vinkonu þar sem þær reiddu fram fjölda rétta sem tók þær tvo daga að undirbúa. „Það er mikið um lamb í afgönskum mat og við eldum almennt mikið af lambi á Íslandi. Svo höfum við alltaf hrísgrjón með öllum mat og við hátíðleg tækifæri, eins og í kvöld, sjóðum við þau upp úr kraftinum af kjötinu og bætum kryddi og þurrkuðum ávöxtum út í. Þess vegna eru hrísgrjónin svona dökk. Við notum mikið af kóríander, hvítlauk og chili en samt gerum við ekki of sterkan mat. Mamma vill miklu sterkari mat en við systurnar og býr til sína eigin extra sterku chilisósu sem hún borðar með öllum mat,“ segir Zahra og hlær. Zahra er tuttugu og tveggja ára nemi í ensku og íslensku í Háskóla Íslands og hefur búið á Íslandi í þrjú ár. „Við vorum þrjár fjölskyldur sem komum hingað saman fyrir þremur árum, þrjár mæður með sjö börn samtals, og við vorum fyrstu afgönsku flóttamennirnir á Íslandi. Faðir minn, sem var stjórnmálamaður í Afganistan, var myrtur þegar ég var tveggja ára og þá flúðum við til Írans þar sem við bjuggum þar til við fengum hæli hér í gegnum Rauða krossinn.“

24907_afganskt_matarbod-103

Zahra segist ekki hafa haft neinar hugmyndir um Ísland áður en hún kom en hún hlær innilega að sinni fyrstu matarminningu. „Stuttu eftir við komum var okkur boðið upp á fiskisúpu í tungumálaskólanum. Fiskisúpu! Ég hafði aldrei heyrt neitt jafn furðulegt, við borðuðum ekki mikið af fiski í Íran því fiskur er svo dýr en þegar við fengum hann þá var hann eldaður í ofni, ég hafði aldrei heyrt um fisk í súpu. En mér fannst hún mjög góð, bara óvenjuleg, og í dag er ég mjög hrifin af fiskisúpu, sérstaklega með rækjum og rjóma.“

24907_afganskt_matarbod-102

Afgönsku konurnar sem hingað komu saman halda vel hópinn og segir Zahra mat skipta þær miklu máli, með honum haldi þær í hefðina og minningar um tíma sem hafi glatast. Þær hittist við öll hátíðleg tækifæri og þá sé alltaf eldað manto, rétturinn sem þær bera á borð í matarveislu kvöldsins. Manto er gufusoðnar bollur með kryddaðri lambakjötsfyllingu, líkar dömplings, sem tekur heilan dag að útbúa.
„Nafnið á réttinum þýðir „ég og þú“ og ég held að það sé vegna þess að þessi matur er alltaf eldaður í hópi. Fjölskylda mömmu minnar, sem var líka flóttafólk í Íran, kom alltaf saman um helgar og þá var þessi réttur eldaður og allir tóku þátt, bæði fullorðnir og ungir, karlmenn og konur. Þá settum við risastóran dúk á stórt borð og þar var deigið flatt út á meðan aðrir bjuggu til fyllinguna. Svo hjálpuðust allir að við að búa til bollurnar sem eru svo gufusoðnar í sérstökum pottum. Þetta tók allan daginn og var mjög skemmtileg stund, það voru sagðar margar sögur og mikið af bröndurum og mikið hlegið. Við sem komum hingað saman fyrir þremur árum erum mjög nánar og við eldum alltaf manto saman því við elskum það allar. Rétturinn minnir okkur á það gamla en hann býr líka til nýjar minningar.“

24907_afganskt_matarbod-110

Maryam Raisi, Zahra Mesbah, Hava Foroutan og Fereshte Mesbah sáu um afgönsku matarveisluna.

Uppskriftina að manto og öðrum dýrindis réttum frá Afganistan og Íran er hægt að nálgast á matarbloggi móður Zöhru: http://havalinda.weebly.com/uppskriftir.html

The post Afgönsk matarveisla í hjarta Reykjavíkur appeared first on Fréttatíminn.

Nýtt Íslandsmet í heppni

$
0
0

6,7 milljarða hagnaður nýrra hluthafa í Borgun vegna yfirtöku Visa International Service á Visa Europe, er án efa nýtt Íslandsmet í heppni. 

6,7 milljarðar króna eru rétt tæplega samanlagðir allir vinningar í Laugardagslottóinu í tíu ár. Á verðlagi dagsins námu þeir rétt tæplega 7 milljörðum króna síðustu 10 ár.  Ef eitthvað er að marka yfirlýsingar hluthafa í Borgun, um að þeir hafi ekki haft grænan grun um að von væri á slíkum hagnaði, hlýtur þetta að teljast Íslandsmet í heppni.

Hagnaður Engeyinga og annarra hluthafa Borgunar er því viðlíka og ef þeir hefðu unnið alla vinninga í lottói síðan 17. júlí 2004. Ef við miðum aðeins við vinninga fyrir fimm tölur réttar þá jafngildir heppni þeirra því að þeir hafi fengið fimm tölur réttar í hverri viku allt frá 24. apríl 1999, seint á síðustu öld.

The post Nýtt Íslandsmet í heppni appeared first on Fréttatíminn.

Sérfróðir bloggarar

$
0
0

Mikið er til af vönduðum íslenskum bloggum sem eiga það til að týnast í okkar vanabundna nethring. Þar má finna mikla sérfræðiþekkingu þar sem kafað er dýpra í málefni sem höfundar hafa lagt fyrir sig. 


24917 Norðurskaut

nordurskaut.is
Um: Íslenska sprotaumhverfið.
Hver: Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, agile-þjálfi hjá QuizUp.
Hvers vegna: Skortur á umfjöllun um íslenska sprotaumhverfið annað en stöku fréttatilkynningar og viðtöl. Okkar þekking liggur helst í hugbúnaði og við reynum að fjalla um hana á uppbyggilegan og gagnrýninn hátt.
Drifkraftur: Við viljum leggja okkar af mörkum að hjálpa tækni- og sprotasenunni að vaxa og dafna með því að gefa henni vettvang. Einnig er þetta er góð leið til þess að kynnast skemmtilegu og kláru fólki í bransanum.

24917 Guðrún Svava

gudrunsvava.wordpress.com
Um: Líkamsbeitingu, hreyfingu og heilbrigði líkamans.
Hver: Guðrún Svava Kristinsdóttir, „movement“ kennari.
Hvers vegna: Koma á framfæri hugsunum um líkamsbeitingu út frá vísindalegum sönnuðum staðreyndum um líkamann. Það eru margar nýstárlegar hugmyndir á lofti en ég horfi til þess hvernig líkaminn starfar best út frá anatómíunni.
Drifkraftur: Ég er kennari og hef gaman af því að koma efni frá mér á skemmtilegan hátt sem allir geta nýtt sér. Það eiga allir líkama og fólk er mis meðvitað um hvernig það á að beita honum.

24917 gudmkri mynd
mynd/Baldur Kristjáns

gudmkri.is
Um: Skipulagsmál, í reykvísku samhengi.
Hver: Guðmundur Kristján Jónsson, framkvæmdastjóri Borgarbrags ehf.
Hvers vegna: Það eru fá málefni sem snerta þjóðina jafn mikið og skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu. Það er lítið skrifað um málaflokkinn á aðgengilegan hátt. Ég vil leggja mitt af mörkum til að breyta því.
Drifkraftur: Trú á Reykjavík og ástríðu fyrir að byggja hér upp öflugt og alþjóðlegt borgarsamfélag. Ég lærði borgarskipulagsfræði í Kanada og ætlaði mér að setjast að í Toronto. Ég kynntist hinsvegar nýju Aðalskipulagi Reykjavíkur árið 2013 og ákvað í kjölfarið að veðja á Reykjavík. Samkeppnishæfni landa stendur og fellur með styrkleika borgarsamfélaganna og við þurfum að styrkja okkar einu borg eins hratt og örugglega og kostur er.

The post Sérfróðir bloggarar appeared first on Fréttatíminn.

Viewing all 7652 articles
Browse latest View live