Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Ríkið velti 600 milljóna kostnaði yfir á sveitarfélögin – börn sem ekki passa inn í kerfið

$
0
0

Velferðarráðuneytið ýtti börnum með þroska- og hegðunarvanda með einu pennastriki yfir á sveitarfélögin árið 2013 en þeim fylgir kostnaður upp á allt að 600 milljónir. Vandi þessara barna hafði fram að því talist heilbrigðismál og því á forræði ríkisins.

Í apríl 2014 ákvað nefnd á vegum velferðarráðuneytisins einhliða að þessi málaflokkur ætti að heyra undir sveitarfélögin. Þeirri ákvörðun fylgdi ekkert fé og því vilja sveitarfélögin ekki una. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur meira að segja lýst því yfir sveitarfélögunum beri ekki skylda, samkvæmt lögum, til að annast þessi börn og þau hafi tekið málaflokkinn yfir án þess að þurfa það í raun.
Talið er að átta til tólf börn á Íslandi séu með svo alvarlegan þroska- og hegðunarvanda að þau þurfi umönnun næstum því allan sólarhringinn. Þau hafa til viðbótar við þroskaröskun þróað með sér geðræn vandamál eða erfiða geðsjúkdóma. Mörg þeirra hafa að auki einangrast, fallið úr skóla, leiðst út í fíkniefnaneyslu eða sótt í óæskilegan félagsskap.
Stuðningur við foreldra og heimili er ekki nægur og venjuleg fósturheimili henta ekki þar sem hætta er á því að börnin skaði sig sjálf og aðra. Eftir að sveitarfélögin tóku málefni fatlaða yfir hefur verið deilt um hvort ábyrgðin á þessum börnum eigi að vera á hendi ríkis eða sveitarfélaga.

Það er verið að brjóta á börnum

Elín Sigurðardóttir, varaformaður velferðarráðs Reykjavíkur, segir að borgin – hafi haldið áfram að þjónusta sína skjólstæðinga þrátt fyrir þessa ákvörðun en það standi yfir viðræður við ríkið um hvernig fara skuli með kostnaðinn. Ef ekkert komi út úr þeim viðræðum telur hún ekki útilokað að málið endi fyrir dómstólum.
Flest þessara barna eru búsett í Reykjavík en það gefur auga leið að minni sveitarfélög úti á landi ráða ekki við að greiða frá fjórum og allt upp í átta milljónir á mánuði fyrir hvert barn.

Elín segir mikilvægt að tryggja þjónustu fyrir þennan hóp. Sveitarfélögin séu misvel búin til að greiða fyrir dýr úrræði og hættan sé sú að börn frá minni sveitarfélögum verði einfaldlega útundan. Það sé brot á jafnræðisreglu. Finna þurfi lausn sem bæði ríki og sveitarfélög geti unað við.

Þessu til viðbótar hefur Barnaverndastofa gert samninga við Akureyrarbæ undanfarin sex ár um öryggisvistun tveggja barna með fjárveitingu frá velferðarráðuneytinu og hefur þjónustan verið fjármögnuð að fullu vegna þessara einstaklinga til 20 ára aldurs. Þriðja barnið var svo dæmt í öryggisvistun í árslok 2015.

Vistun hvers barns kostar á bilinu 50 til 80 milljónir á ári. Eftir að tvítugsaldri er náð hefur velferðarráðuneytið hinsvegar hætt að greiða með börnum í öryggisvistun og bærinn hefur staðið straum af því, að frádregnum greiðslum úr jöfnunarsjóði. Bærinn hefur því greitt um 140 milljónir af eigin fé vegna öryggisgæslunnar.

The post Ríkið velti 600 milljóna kostnaði yfir á sveitarfélögin – börn sem ekki passa inn í kerfið appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652