UTmessan fer fram á morgun, laugardag, viðburður sem býður almenningi að skyggnast inn í heim tölvugeirans. Á UTmessunni munu meðal annarra Sys/tur miðla þekkingunni áfram og bjóða fólki að spreyta sig í tölvutætingu.
Sys/tur er félag kvenna í tölvunarfræði í HR og hefur félagið tvíþættan tilgang: Að hvetja konur innan HR til að mynda tengslanet sín á milli og að hvetja konur til að koma í þennan geira. „Enda eru enn allt of fáar konur innan hans,“ segir Sigurlaug Guðrún Jóhannsdóttir, forkona sys/tra.
Sigurlaug var nýkomin af námskeiði Promennt í tölvutætingu þegar Fréttatíminn náði tali af henni.
„Ég hafði ekki prófað þetta áður, en nokkrar okkar höfðu reynslu.“ Hún segir tölvutætingu ganga út á að „líta undir húdd“ tölvunnar og sjá úr hverju hún er gerð. „Þetta var svolítið eins og að vera í smíðatíma, maður er að æfa sig í að nota rétta skrúfjárnið og svona. Þetta er rosalega verklegt og gefur manni nýja sýn á þennan þarfasta þjón nútímamannsins.“
Á UTmessunni á laugardag munu Sys/tur og Promennt miðla þekkingu sinni áfram og bjóða fólki á aldrinum 15-20 ára að setja saman tölvu í tölvutætingarkeppni. Sá fyrsti sem tekst að setja tölvuna saman og koma henni í gang vinnur svo námskeið í tölvutætingu.

The post Litið undir húdd tölvunnar appeared first on Fréttatíminn.