Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Sigldi með afa á skútu um heiminn

$
0
0

Þura Stína sigldi skútu með afa sínum í átta mánuði frá Tyrklandi í Karíbahafið. Skipstjórinn og plötusnúðurinn er óhrædd að taka áskorunum og keppir nú í deildarmóti í kotru. 

Það má segja að Þura Stína Kristleifsdóttir geri það að lifibrauði að brjóta niður staðalímyndir. Hún hefur alla tíð tamið sér að segja „já“ við tækifærum. Sú jákvæðni hefur oftar en ekki gert hana að fyrstu eða einu stelpunni í hópnum. Í grunnskóla tók hún þátt í rapplagakeppni grunnskólanna, gerðist plötusnúður á Prikinu, varð skipstjóri og sigldi skútu yfir Karíbahafið og var nýverið eina konan til þess að keppa í deildarmóti í kotru.

„Afi átti fimm skútur á Tyrklandi. Eftir menntaskóla ákvað ég að sækja mér skipstjórnarréttindi, eða svokallað pungapróf í Vestmannaeyjum, og fara til hans að sigla. Ég vann í tvo mánuði að leigja út skútur og vinna á höfninni. Ég varð fyrir miklum fordómum, mennirnir á bryggjunni héldu að ég væri ein af dömunum um borð á mótorsnekkjunum.“

24820
Þura Stína sigldi 2000 sjómílur á skútunni Íslandssól með afa sínum.

Á þessum tveimur mánuðum gerðu Þura Stína og afi hennar skútuna Íslandssól ferðbúna fyrir átta mánaða ferðalag. „Afi nefndi allar skúturnar sínar eftir kvenpersónum úr sögum Laxness. Hann vildi einnig hafa þær allar undir íslensku flaggi og borgaði meira fyrir það, þrjóskur maður.“

Blóðskvettur og sjóræningjar

Þrátt fyrir að hafa komið við í tuttugu löndum og tekið um borð nýja áhöfn í hverju landi kynntist Þura Stína einveru í fyrsta skiptið á ferðalaginu. „Ég var ekki vön því að vera ein með sjálfri mér, ég hef alltaf verið umkringd fólki. Þarna stóð ég heilu næturvaktirnar ein með hafinu og stjörnubjörtum himni.“
Á einni slíkri næturvakt við strendur Afríku fylltist Þura Stína skelfingu þegar hún sá ljós fram undan, líkt og land væri í augsýn. „Það kom ekkert land fram á radarnum, ég hélt ég væri að klessa skútuna. Ég heyri síðan hljóð úr mótor og sé að þetta eru tugir smárra fiskibáta og einn þeirra birtist skyndilega upp við Íslandssól. Þá hélt ég að um sjóræningja væri að ræða og „fríkaði“ út. En þá voru þetta bátsverjar að vonast eftir sígarettum, ég var svo fegin.“

„Það kom í ljós að ég er með hátt stig af ofvirkni og einnig athyglisbrest. Ég er hrædd við að breytast undir áhrifum lyfja, vera minna skapandi eða minna ég.“

Þura Stína segir frá allskyns uppákomum á ferðalaginu, þá sérstaklega þegar vont veður skall á og hún og afi hennar urðu að standa vaktina tvö. „Við vorum mitt á milli Grikklands og Möltu þegar maður um borð skall á hnakkann með glas af trönuberjasafa í hendi. Þetta var blóðbað þegar ég kom að, en trönuberjasafinn, sem helltist út um allt, ýtti undir dramatíkina. Það var tveggja sólarhringa sigling í land og urðum því að sauma hann á staðnum.“

149591_468494279113_2879973_n (1)

Sjómennskan er karllæg

Þegar Þura Stína kom heim eftir ferðalagið reyndi hún að fá pláss um borð í togara. Þrátt fyrir að vera með pungapróf og reynslu við fiskverkun gekk það ekki eftir. „Þetta er karllægt umhverfi og ég hef heyrt tugguna „konur breyta stemningunni um borð.“ Ég hélt því áfram að vinna í frystihúsinu í Vestmannaeyjum og kom til Reykjavíkur á milli vertíða. Mér bauðst að reka Prikið um tíma og skemmtistaðinn Dollý síðar meir, sem var dýrmæt reynsla.“

Þura Stína segir það hark að reka skemmtistað í Reykjavík og þar hafi hún fyrst lært að segja nei. „Fólk er drukkið og í misgóðu ástandi, í þessu starfi og skiptir máli að vera ákveðinn. Þetta getur verið erfitt sérstaklega þegar vinir þínir eru inni á staðnum eða að vinna undir þér.“

Áður en Þura Stína gerðist rekstrarstjóri á Dollý bauðst henni að spila á skemmtistaðnum. Þá hafði hún litla reynslu í að þeyta skífum en tók því tilboði eins og henni einni er lagið. „Ég skildi ekki hvers vegna ég var fengin í þetta. Ég horfði á kennslumyndbönd á Youtube og fékk ráð hjá vinum mínum sem eru plötusnúðar og vonaði það besta. Þetta reyndist skemmtilegt kvöld sem opnaði nýjar dyr fyrir mér.“
Síðar sameinuðu þær Þura Stína og plötusnúðurinn Sunna Ben krafta sína og koma saman undir nafninu SunSura og eiga fast kvöld á Prikinu einu sinni í mánuði.

Þura Stína
„Ég ætlaði að snúa við á leiðinni, mér var ekki skemmt og hugsaði að nú hefði ég gengið of langt.“ mynd/Hari

Greindist seint með ofvirkni

Á meðan Þura Stína rak skemmtistaði í miðbænum fékk hún inngöngu í grafíska hönnun við Listaháskólann. Alla tíð hefur hún átt erfitt með einbeitingu og kvíðinn fyrir því að setjast aftur á skólabekk hvatti hana í greiningu. „Það kom í ljós að ég er með hátt stig af ofvirkni og einnig athyglisbrest. Ég er hrædd við að breytast undir áhrifum lyfja, vera minna skapandi eða minna ég sjálf. Þess vegna lét ég aldrei greina mig.“ Þrátt fyrir greiningu ákvað Þura Stína að reyna við námið án lyfja. „Það var erfitt á köflum og sérstaklega á löngum dögum í yfirferð eða á fyrirlestrum. Mér finnst mjög leiðinlegt að geta ekki móttekið það sem fer fram, en ég reyni mitt besta.“

„Ég sendi Kotrufélaginu tölvupóst og mánudaginn eftir það var ég mætt í minn fyrsta keppnisleik.“

Keppir á deildarmóti í kotru

Þura Stína segir hápunkt brjálæðisins hafa verið í haust þegar hún tók þátt í deildarkeppni í kotru. „Afi kenndi mér kotru þegar ég var lítil. Ég sendi Kotrufélaginu tölvupóst og mánudaginn eftir var ég mætt í minn fyrsta keppnisleik. Ég ætlaði að snúa við á leiðinni, mér var ekki skemmt og hugsaði að nú hefði ég gengið of langt.“ Þura Stína var fyrst kvenna til að skrá sig í félagið og keppir einu sinni í viku. Hún vonar að fleiri konur fylgi á eftir. „Kotra er enginn karlaleikur. Ég hlakka til að verða betri og vonandi komast á Íslandsmeistaramótið einn daginn.“

60270_438783194113_6043289_n (1)

Um þessar mundir vinnur Þura Stína að lokaverkefninu sínu, handbók um sjávarþörunga á Íslandi og hvernig má nýta þá til matar og lækninga. „Ég einbeiti mér eingöngu að náminu. Sjávarþörungar heilla mig og hafa fjölbreyttari tilgang en sem skraut á fínum veitingastöðum. Í sumar vonast ég til að taka verkefnið áfram í samstarfi við Hafrannsóknarstofnun.“

 

The post Sigldi með afa á skútu um heiminn appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652