Hópur listakvennna hittist reglulega í morgunkaffi til að ræða lífið og listina og fá styrk hjá hver annari. Undir einum kaffibollanum datt þeim í hug að takast saman á við ástina í allri sinni dýrð á samsýningu í SÍM-salnum.
„Við erum nokkrar konur sem hittumst alltaf reglulega í morgunkaffi til að ræða lífið og listina,“ segir Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, sýningarstjóri sýningarinnar Ástarsameindir, sem opnar dyr sínar í SÍM-salnum í kvöld, föstudagskvöld. Sjö þessara kvenna munu sýna verk sem öll takast á við ástina einhvern hátt, en Ragnheiður Harpa og Steinunn Lilja Emilsdóttir eru sýningarstjórar.
„Undir kaffibollunum leitum við eftir samtali um það sem við erum að fást við því það er gott að fá endurgjöf á hugmyndir. Við finnum mikinn styrk í því að spegla okkur í hver annari,“ segir Ragnheiður Harpa en í einu þessara kaffisamsæta kviknaði hugmynd að sýningu í SÍM salnum. Eftir nokkrar vangaveltur ákváðu listakonurnar að takast þar á við sjálfa ástina. „Þetta er svo stórt og rosalegt efni sem er næstum því bannað að fjalla um því það er svo banalt. En einmitt þess vegna langaði okkur að gera það að okkar.
Ragnheiður segir sýninguna vera eitt allsherjar samtal. „Við erum að fjalla um alskyns útgáfur af ástinni, allt frá því hvernig hún getur tengst hlutum yfir í augnablikið sem þú verður ástfangin. Við pældum mikið í því hvað við vildum draga úr ástinni en listakonurnar vinna allar mjög ólíkt svo útkoman er mjög fjölbreytt. Við drögum fjölskyldur okkar og vini líka dálítið inn í samtalið og spáum í það hvernig ástin getur þroskast. Ein listakonan spurði til dæmis foreldra sína hvernig væri eiginlega hægt að hafa verið saman í 25 ár og svarið var að einstaklingurinn yrði að vera sáttur í eigin skinni til að geta það.“
Opnun Ástarsameindarinnar er á Safnanótt, 5. febrúar, frá klukkan 19-22 og verður gestum og gangandi boðið upp á ástarkokteil, gjörninga, texta og annað meðlæti.

The post Ástin er banalt efni appeared first on Fréttatíminn.