Á síðustu árum hefur skerpst á kröfu launafólks um að kjör þess verði lík því sem tíðkast í nágrannalöndunum. Ekki aðeins launakjör heldur einnig ýmiss réttindi og aðgengi að velferðarþjónustu. Við höfum séð þessa kröfu holdgerast í kjaradeilum síðustu missera; fyrst meðal þeirra stétta sem eiga auðvelt með að fá vinnu í öðrum löndum en síðan yfir allt sviðið. Í dag er hægt að undrast hvers vegna íslenskur almenningur sætti sig áratugum saman við lakari kjör, meira óöryggi og lakari velferð er fólk naut í næsta nágrenni.
Í sjálfu sér var fyrirséð að þessi krafa kæmi fram. Fyrirtækin í landinu hafa sótt það stíft undanfarin þrjátíu og fimm ár að skattaumhverfi þeirra og allar aðstæður yrðu með sama hætti og best gerist í nágrannalöndunum. Rökin eru að annars stæðust íslensk fyrirtæki ekki samkeppni.
Krafa launafólks er sama eðlis. Ef Íslandi tekst ekki að búa fólki sínu viðlíka kjör og best þykja í okkar heimshluta mun launafólk leita til annarra landa að viðunandi kjörum og öryggi fyrir sig og fjölskyldu sína.
Launafólk getur líka byggt kröfur sínar á baráttu fyrirtækjanna. Ef íslensk fyrirtæki búa við sömu skilyrði og fyrirtæki í nágrannalöndunum ættu þau að geta greitt starfsfólki sínu sambærileg laun. Atvinnulífið á Íslandi ætti að hafa bolmagn til að standa undir viðlíka velferð og þekkist í nágrannalöndunum.
Ef Íslendingar vilja búa við sambærileg kjör og velferð og Norðurlandabúar þurfa þeir að skoða hvernig íslenskt samfélag hefur byggst upp með öðrum hætti en hin norrænu ríki.
—
Veigamesti munurinn felst í því að á Íslandi auðnaðist verkalýðshreyfingunni ekki að vinna með sósíalískum flokkum að mótun samfélagsins með sama hætti og skóp hið norræna velferðarkerfi. Íslensk verkalýðshreyfing var klofin fram eftir síðustu öld. Tæpur helmingur hennar fylgdi Sjálfstæðisflokknum að málum og lagði áherslu á önnur mál en þau sem náðu að umbylta ríkjum Skandinavíu. Sósíalísku flokkarnir höfðu því ekki stuðning verkalýðshreyfingarinnar til að knýja á um uppbyggingu velferðarkerfis nema að hluta.
Upp úr miðri síðustu öld varð vinstri hluta verkalýðshreyfingarinnar ljóst að sundruð gæti hreyfingin litlu áorkað fyrir félagsmenn sína. Hreyfingin var því sameinuð að baki hægri sinnuðum kröfum; séreignarstefnu í húsnæðismálum og persónubundinni uppsöfnun lífeyrisréttinda.
Vegna andstöðu hægri manna við uppbyggingu velferðarkerfis innan ríkisins varð niðurstaðan á Íslandi að opinber félagsaðstoð varð veik en til hliðar við ríki og sveitarfélög byggðist upp kerfi á vegum verkalýðshreyfingarinnar sem ætlað var bæta félagsmönnum upp veikt velferðarkerfi ríkisins.
—
Eins og fram kemur í Fréttatímanum í dag hefur þessi stefna getið af sér uppsöfnunarsjóði lífeyris sem eru í raun of stórir fyrir íslenskt samfélag. Sjóðirnir girða í raun fyrir möguleika Alþingis til að leggja á skatta til að standa undir opinberu velferðarkerfi að norrænni fyrirmynd. Eftir hækkun lögbundinna iðgjalda upp í 15,5 prósent af launum munu lífeyrissjóðirnir soga til sín um 100 milljarða króna á ári sem ekki renna til velferðarmála.
En það má sjá merki þessa séríslenska kerfis víðar. Verkalýðsfélög reka til dæmis viðamikla starfsemi tengda endurhæfingu undir nafni Virk. Virk sinnir að mörgu leyti sambærilegum verkefnum og opinbera kerfið, sem er byggt upp að norrænni fyrirmynd, en er hins vegar svo vanfjármagnað að það getur illa sinnt skyldum sínum.
Sú skoðun hefur fest sig enn betur í sessi eftir fjármálahrunið 2008 að norrænu ríkin séu til fyrirmyndar í heiminum. Viðamikið velferðarkerfi dregur úr sveiflum og úr skaðlegum áhrifum þeirra efnahagssveiflna sem þó verða. Á Norðurlöndum er meiri félagslegt réttlæti og meiri félagslegur hreyfanleiki en í öðrum samfélögum.
Það er sorglegt að Íslendingum skuli ekki hafa auðnast að læra af þessum nágrönnum sínum. Í stað þess að gera það sem best hafði reynst kusu þeir að byggja upp eigið kerfi, ólíkt öllum öðrum kerfum. Íslendingar fóru hina íslensku sérleið.
Það er íslenska aðferðin. Íslendingar fara aldrei sömu leið og aðrir heldur þræða sérleiðir þar sem þeir geta glímt við séríslenskan vanda á séríslenskan máta.
The post Hinar háskalegur sérleiðir appeared first on Fréttatíminn.