Þau Freyja, Skorri, Daði, Úlfhildur og Steinunn eiga það sameiginlegt að spila á stór hljóðfæri. Litlir fingurnir ná ekki alltaf gripinu og stundum er erfitt að bera hljóðfærið á milli staða, en ástríðan og smá hjálp frá mömmu og pabba gerir allt mögulegt.
Með bassa heima og í skólanum
Skorri Pablo er ellefu ára og hefur í nógu að snúast. Hann æfir fótbolta, á selló og kontrabassa. Hann segist þó alveg hafa tíma til þess að sofa. „Ég vildi ekki spila á lítið hljóðfæri eins og fiðlu heldur eitthvað stórt. Ég byrjaði að æfa á selló þegar ég var fjögurra ára en vildi líka læra á bassa, mér finnst djúpir tónar svo flottir. Núna er ég í hálfu sellónámi og hálfu bassanámi.“ Það tekur Skorra smá tíma að gera upp við sig af hvoru hljóðfærinu hann hefur meira gaman. „Bassanum. Ég á tvo svoleiðis, einn uppi í skóla og annan heima svo ég þurfi ekki að bera hann á milli.“

Halda að munnstykkið sé túban
Steinunn Jenna Þórðardóttir, 10 ára, bauð sig fram þegar skorti túbuleikara í lúðrasveitina. „Núna er ég búin að æfa í tvö ár og finnst það mjög gaman.“ Steinunn segist sem betur fer ekki þurfa að bera hljóðfærið á milli staða heldur einungis munnstykkið. „Margir krakkar í skólanum halda að munnstykkið sé túban, bara bestu vinir mínir vita að það er ekki rétt.“ Steinunn getur vel ímyndað sér að gerast túbuleikari þegar hún er orðin stór. „Já, ég elska allt við hljóðfærið, ég æfi mig hálftíma á dag og finnst það frábært.“

Taskan svolítið þung
Tíu ára Úlfhildur Ragna Arnardóttir ætlaði sér alltaf að læra á strengjahljóðfæri og stóð valið á milli fiðlu og sellós. „Mér finnst betra að sitja en standa svo ég ákvað að læra á selló. Ég elska tónlist og finnst hljóðið úr sellói svo fallegt.“ Fyrir Úlfhildi er lítið mál að flytja sellóið milli staða þar sem hún býr í næsta húsi við tónlistarkennarann. „Taskan er stundum svolítið þung en ég er enga stund að labba yfir. Einu sinni opnaði ég töskuna og þá var hálsinn brotinn, ég tók sellóið sem sjálfsögðum hlut og fór ekki nógu vel með það.“ Úlfhildur er óákveðin hvort hún gerist sellóleikari en getur ekki ímyndað sér að hætta. „Bryndís, kennarinn minn, er svo skemmtileg, ég ætla að læra hjá henni þangað til ég verð 55 ára. Þá er hún orðin gömul og hætt að sjá hvort ég sé að gera villur.“

Foreldrarnir hjálpa að bera hörpuna
Freyja Björk Frostadóttir er níu ára, en að verða tíu. Hún byrjaði að æfa á hörpu fyrir nokkrum mánuðum. „Ég vildi spila á hörpu eins og systir mín, við spilum stundum saman þegar hún er ekki inni í herberginu sínu. Það skemmtilegasta við hörpuna eru tónarnir, þeir eru svo fallegir.“ Freyja hefur gaman af því að spila á stórt hljóðfæri en mamma og pabbi þurfa stundum að hjálpa til við að bera hana. „Ég get alveg lyft hörpunni, hún er ekkert svo þung.“ Aðspurð hvort hún ætli sér að verða hörpuleikari þegar hún er orðin stór yppir hún öxlum. „Kannski, ég veit ekki alveg.“

Langt hljóðfæri, fleiri tónar
Daði Freyr Helgason er sjö ára og hefur æft píanóleik í fjögur ár. „Ég vildi læra á hljóðfæri og hélt að það væri gaman að læra á píanó og það var rétt hjá mér.“ Daði segir ekkert mál að spila á svona langt hljóðfæri. „Ég er orðinn mjög vanur, get spilað alveg efst og neðst. Mér finnst samt miðtónarnir skemmtilegastir.“ Uppáhalds lagið hans er nýtt arabalag sem hann lærði. „Arabalagið og Guð gaf mér eyra eru skemmtileg. Ég reyni að æfa mig á hverjum degi, eða þegar ég man eftir því.“

The post Lítið fólk, stórir draumar appeared first on Fréttatíminn.