Kári Stefánsson er staddur í lyftunni hans Spessa ljósmyndara í gömlu Kassagerðinni á Laugarnesi. Á ferðalaginu upp fjórar hæðir hússins segir Kári frá sínum íhaldssömu hæðum og leiðinlegustu lægðum í lífinu.

„Ég er svo ævintýralega íhaldssamur og fastur í mínum háskólaferli að það fyrsta sem mér dettur í hug er að ræða góða og slæma skóla,“ segir Kári um sínar hæðir og lægðir í lífinu og lýsir leiðinlegasta tímabili ævi sinnar. „Það var í læknadeild Háskóla Íslands sem mér þótti drasl af skóla, rekinn á furðulegan hátt. Öll áherslan var sett á próf og utanbókarlærdóm. Mér skilst hann sé betri í dag og dreg ég það ekki í efa.“
Þegar kemur að persónulegum botnum þarf Kári að hugsa sig um. „Eins og margur maðurinn hef ég lent í því að drekka meira en góðu hófi gegnir á mínu æviskeiði. Ég hef átt nokkra botna með mínum timburmönnum en guði sé lof þá er langur tími liðinn.“
Kári lýsir lífi sínu sem röð af spennandi augnablikum og voru menntaskólaárin þau skemmtilegustu. „Menntaskólinn við Reykjavík þótti mér ævintýralega skemmtilegur skóli. Mínar bestu stundir síðan hafa verið í hinum og þessum uppgötvunum sem ég kom að.“ Kári nefnir þá helst árið 2006 þegar hans teymi fann fyrsta erfðabreytanleika í erfðamenginu sem hefur áhrif á sykursýki. „Í mínu lifi þá er það eina sem hefur stöðugt og reglulega valdið mér vonbrigðum er ég sjálfur. Restin er býsna skemmtileg.“
Sjá fleiri sögur úr lyftunni:





The post Timburmenn vondir – MR góður appeared first on Fréttatíminn.