Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Póstkortið: Eignast litlar fjölskyldur í Chile

$
0
0

Einar Pétur Jónsson settist að í Santiago í Chile fyrir þremur árum til að læra sjávarlíffræði. Á þeim tíma hefur hann lært að dansa, fylgjast með fótbolta og njóta þess að bíða á rauðu ljósi. Hann saknar ekki skammdegisins heima en þrátt fyrir að vera með hafið í bakgarðinum eru íslensku sundlaugarnar ofarlega í huga.

Ólíkt óþolinmæði Íslendinga á rauðu ljósi þá er biðin eftir græna ljósinu eitt það skemmtilegasta við Chile, samkvæmt því sem Einar Pétur Jónsson segir. „Á ýmsum götum Santiago er ótrúlega hæfileikaríkt fólk að leika listir sínar. Það hendir boltum á milli, strengir víra á milli staura, heldur jafnvægi á línu og leikur ýmsar sirkuslistir. Það er frábært að fylgjast með þessu, þetta er oftast fátækt fólk sem hefur unnið hörðum höndum að leggja þetta fyrir sig.“

25526 Einar Petur (aðsent)

Á daginn sinnir Einar náminu í sjávarlíffræði en hann hefur alla tíð verið hrifinn af dýrum á stærri skala. „Ég hef leikið mér í sjónum alla ævi og heillast af hafinu. Mér þótti því gráupplagt að sækja um háskóla í Chile, landi sem liggur þvert við hafið, en ég hafði verið hér áður í skiptinámi. Það er spennandi hversu ótrúlega lítið er vitað um sjávarlífið, aðeins lítil prósenta hefur verið rannsökuð. Það er stöðugt verið að uppgötva eitthvað nýtt sem er hvetjandi fyrir námsmann í faginu.“

Einar segir lífið í Chile leika við sig, náttúran er stórbrotin og hann ver miklum tíma á ströndinni og að ferðast um landið. „Fólkið hérna er hlýtt og tekur vel á móti manni, ég hef eignast litlar fjölskyldur víðsvegar sem er voða gott svona fjarri Íslandi. Ég sakna svo sannarlega ekki skammdegisins á Íslandi en sundlaugarnar og heita pottinn þrái ég alltaf.“

25526 Einar Petur (aðsent) 3

Dansinn og fótbolti er stór hluti af menningu Chilebúa og hefur Einar óhjákvæmilega lært þjóðdansinn og fylgst með boltanum. „Á þjóðhátíðardeginum, 18.september, dansa allir þjóðdansinn úti á götum borgarinnar og á ströndinni. Það er rífandi stemning í kringum þennan dag, mikið drukkið, grillað og skemmt sér. Í fyrra átti sér stað jarðskjálfti tveimur dögum áður og flóðbylgja fylgdi í kjölfarið, en Chilebúarnir láta ekkert stöðva sig í fjörinu. Dansinn er ekki upp á marga fiska hjá mér en ég reyni mitt besta.“

The post Póstkortið: Eignast litlar fjölskyldur í Chile appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652