Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Páskaskankar Ylfu á Kopar

$
0
0

„Ég er mjög spennt fyrir því að eyða páskunum með fjölskyldunni. Ég fæ að vísu ekki að vera með manninum mínum því hann er að vinna en ég fæ að vera með öllum hinum. Þetta eru góðar stundir sem maður fær ekki nógu oft,“ segir Ylfa Helgadóttir, matreiðslumaður og einn eigenda veitingastaðarins Kopar.

Kopar fagnar þriggja ára afmæli í maí og hefur notið mikilla vinsælda. „Já, við njótum mikils meðbyrs. Þarna við höfnina hefur myndast veitingaþorp í útjaðri miðbæjarins og viðtökurnar hafa verið frábærar,“ segir Ylfa sem gaf sér tíma til að setja saman girnilega uppskrift að páskalambinu í ár. Það er nokkuð óvenjulegt, kjöt af skönkum borið fram í heimatilbúnu flatbrauði. Meðlætið er þó hefðbundið og helst úr dós, eins og Ylfa orðar það sjálf.

„Stundum er gaman að gera smá tilbreytingu á hefðum. Þegar hefðin er mikil þá eru breytingar vandmeðfarnar. Þessi uppskrift felur í sér tilbreytingu á páskamatnum sem nær samt að innihalda flesta þá þætti sem okkur þykir svo vænt um að fá með páskalærinu,“ segir Ylfa.

„Í minni fjölskyldu var barist um skankabitann, enda af mörgum talið besta kjötið. Bragðmikið og safaríkt, sérstaklega þegar það er eldað af nærgætni. Margar fjölskyldur þekkja að borða fajitas eða tacos og hér er útfærsla af íslensku páska fajitas með heimagerðu flatbrauði, rauðkáli og grænum baunum og svo framvegis.“

25556_Ylfa_Helgadóttir_Kopar-2

Brasseraðir lambaskankar með púrtvínssveppasósu og heimagerðu flatbrauði

Borið fram með rauðkáli, grænum og gulum baunum.

Fyrir 4 – 6

4 lambaskankar
ferskt timian
16 hvítlauksgeirar
smjörklípa
salt og pipar

Aðferð:
1. Raðið skönkunum í ofnfast mót og skerið 4 djúp göt í hvern skanka, beint inn í kjötið, um sentímetra djúpt með litlum hnífi.
2. Stingið hvítlauksgeirunum inn í kjötið og bindið timianið utan um með snæri.
3. Stráið salti og pipar yfir skankana og nuddið þeim upp úr smá smjörklípu.
4. Setjið inn í ofn á 150°C í 40 mín. Hellið þá einum lítra af vatni í formið og eldið áfram á 130°C í um 1 klukkutíma og 20 mín.
5. Takið út úr ofni og berið fram.

Flatbrauð

5 dl hveiti
½ tsk salt
2 dl mjólk
60 g smjör
ólívuolía / hvítlauksolía

Aðferð:
1. Setjið smjör og mjólk í pott og hitið þar til smjör bráðnar.
2. Blandið hveiti og salti saman í skál og hellið mjólkurblöndu yfir.
3. Hrærið deigið saman með sleif og hnoðið þar til hefur myndast ein heild.
4. Skiptið deiginu upp í litlar kúlur og fletjið þær út þar til ca. 2-3 mm þykkar.
5. Steikið á stórri pönnu, með smá olíu. Tekur um 1 mín á hvorri hlið, en það fer samt eftir pönnum og eldavélum.

25556_Ylfa_Helgadóttir_Kopar-1

Púrtvínssveppasósa

1 laukur
2 hvítlauksgeirar
1,5 dl púrtvín
1 pk sveppir – Flúða- eða kastaníusveppir
2,5 dl rjómi
2 msk rjómaostur (ef vill)
1-2 tsk salt
svartur pipar

Aðferð:
1. Skerið laukinn og hvítlaukinn smátt og svitið á pönnu í smá olíu.
2. Skerið sveppina í báta og steikið með lauknum.
3. Hellið púrtvíni út á og leyfið að sjóða niður um helming eða í ca. 2 mín.
4. Hellið rjóma út á og sjóðið niður þar til þykknar.
5. Bætið rjómaostinum út í, ef vill.
6. Saltið og piprið! Ath smakka vel til, salt og pipar er mjög mikilvægur þáttur í þessari sósu.

The post Páskaskankar Ylfu á Kopar appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652