Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Bölvun olíunnar og hrun Venesúela

$
0
0

Venesúela er á barmi gjaldþrots. Hvernig getur olíuríkasta land heims verið svo illa statt?

Fréttir sem berast frá Venesúela þessa dagana verða æ fjarstæðukenndari. Versta verðbólga í heimi, næst hæsta morðtíðni heims og mesti samdráttur í framleiðslu hjá nokkru landi. Hillur í búðum eru oftast tómar og borgarar þurfa að standa í biðröðum til að freista þess að kaupa nauðsynjar. Stjórnvöld sem bjuggu til þennan vanda ljúga kerfisbundið og finna blóraböggla í hverju horni. Vöruskortur og ófriðarástand magnast stöðugt og nú telja margir að landið sé á barmi algjörs efnahagslegs hruns. 95% útflutningstekna landsins koma frá olíu og lágt heimsmarkaðsverð hefur þýtt að Nicolás Maduro forseti getur ekki viðhaldið efnahagslegu módeli landsins sem Hugo Chávez heitinn, lærifaðir hans, kom á. Margir telja að honum muni reynast erfitt að stjórna landinu út kjörtímabil sitt sem lýkur árið 2019. Verðbólga í landinu mun mælast um 500-1000% í ár. Hvað fór úrskeiðis í byltingu Chávez og félaga?

Hermaðurinn sem sló í gegn

Chávez var fyrrverandi fallhlífarhermaður sem sat í tvö ár í fangelsi eftir að hann framdi misheppnað valdarán árið 1992. Hann féllst á að leggja niður vopn gegn því að hann fengi að ávarpa þjóðina í sjónvarpi. Hann var kraftmikill ræðumaður. Ávarp hans var ekki nema tæpar tvær mínútur en það dugði til að fólk hreifst af Chávez, persónutöfrum hans og djörfum hugmyndum. Hann lofaði að breyta landinu til frambúðar. Þar hófst ástarsamband hans og stórs hluta þjóðarinnar sem entist til dauðadags hans í mars 2013. Og hann var réttur maður á réttum stað þegar hann var kjörinn forseti árið 1998 og tók við embættinu í febrúar 1999.

Lagði landið að veði. Flest efnahagsleg framfaraverk Hugo Chávez gufuðu upp þegar olíuverð lækkaði í heiminum. Hans verður þó lengi minnst fyrir baráttu fyrir réttindum fátækra og afskiptra í Rómönsku Ameríku. Mynd: Nordic Photos/Getty Images
Lagði landið að veði. Flest efnahagsleg framfaraverk Hugo Chávez gufuðu upp þegar olíuverð lækkaði í heiminum. Hans verður þó lengi minnst fyrir baráttu fyrir réttindum fátækra og afskiptra í Rómönsku Ameríku. Mynd: Nordic Photos/Getty Images

Bölvun auðlinda

Mikil upplausn ríkti í Venesúela. Efnahagsleg vandræði höfðu elt landið í áraraðir og ómögulegt virtist að minnka bilið á milli ríkra og fátækra. „Bölvun auðlinda“ er þekkt hugtak. Sagan hefur sýnt að ríki sem eignast mikinn olíuauð lenda oftar en ekki í vandræðum. Venesúela er talið búa yfir um 300 milljörðum tunna af vinnanlegri olíu, sem er það mesta í heimi. Hagkerfi landsins hafði sveiflast gríðarlega vegna flökts olíuverðs í gegnum tíðina. Þegar verðið var hátt var illa farið með ágóðann og spilling var ætíð viðloðandi bransann.

Bólivarísk bylting

Chávez vildi breyta lífi fátækra og nota olíuauðinn til þess. Margir úr millistétt þjóðfélagsins voru tilbúnir að styðja hann vegna þessa. Hann byrjaði á því að berja í gegn nýja stjórnarskrá þar sem honum voru færð aukin völd. Eitt ákvæðið breytti opinberu nafni ríkisins í „Bólivaríska lýðveldið Venesúela“ í höfuðið á byltingarhetjunni Simón Bolívar. Upp frá því fór orka hans og tími – og helstu auðlindir ríkisins – í „bólivarísku byltinguna“. Í upphafi var þessi bylting ekki endilega sósíalísk í gegn og ekki andvestræn. En næstu árin varð það einmitt raunin. Chávez varð sífellt róttækari samhliða átökum við stjórnarandstöðuna í landinu. Hápunkturinn var árið 2002 þegar Chávez var steypt af stóli um stundarsakir í misheppnaðri valdaránstilraun. Hann sakaði Bandaríkin um að hafa skipulagt athæfið og að George W. Bush Bandaríkjaforseti hefði viljað sig feigan.

Vinstri beygja í Rómönsku Ameríku

Um þetta leyti var bylgja vinstri stjórnmála að hefjast í Rómönsku Ameríku. Fólk hafnaði hinum svokallaða „Washington Consensus“, efnahagsmódeli nýfrjálshyggjunnar, einkavæðingar og bandarískra áhrifa, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn höfðu boðað á tíunda áratugnum. Mörg lönd álfunnar – sérstaklega Argentína og Brasilía – höfðu farið mjög illa út úr Asíukreppunni sem hófst árið 1997. Fólk var þar að auki „skeptískt“ í garð Bandaríkjanna eftir að þau höfðu aðstoðað við að koma á fót herforingjastjórnum í ýmsum löndum Suður-Ameríku í kalda stríðinu og framið þannig óbeint mannréttindabrot, mannrán og morð. Þessi mótstaða átti svo enn eftir að aukast eftir valdatöku George W. Bush og félaga hans.

Blóðsugur kapítalismans

Chávez byggði stjórnmálaheimsmynd sína á söguskoðuninni um að Mið- og Suður-Ameríka væru fórnarlömb kerfisbundinnar rányrkju Bandaríkjamanna á auðlindum. Úrúgvæski blaðamaðurinn Eduardo Galeano gerði þessari hugmynd skil í bókinni Hinar opnu æðar Rómönsku Ameríku árið 1971 og bókin varð nokkurs konar stefnuskrá Chávez. Allt frá því er Kólumbus mætti á svæðið hafi eftirmenn hans, nú síðast bandarískir kapítalistar, sogið blóðið úr álfunni líkt og vampírur.

Popúlismi

Að mati Chávez var eina leiðin út úr þessum vanda að feta í fótspor frelsishetjunnar Simóns Bólivar, sem á sínum tíma leiddi Venesúela og aðrar Suður-Ameríkuþjóðir undan oki spænsku krúnunnar. Venesúelska þjóðin – sérstaklega sá risastóri hluti hennar sem bjó undir fátæktarmörkum – horfði í kringum sig og hugsaði. „Venesúela er eitt ríkasta land heims af auðæfum. Guð hefur blessað okkur með mestu olíulindum heims. Landið er fullt af jarðmálmum og gimsteinum, stórkostlegri náttúru og frjósömu ræktunarlandi. Af hverju erum við fátæk? Við hljótum að hafa verið rænd.“ Þetta var kjarninn í popúlisma Chávez. Einföld heimsmynd þar sem hvert mannsbarn getur bent á óvininn og vandamálin og lausnir við þeim. Og um leið og eitthvað bjátaði á, til dæmis efnahagsvandi, benti Chávez strax á Bandaríkin. Þau hlytu að vera á bak við þessa árás. Líklega baktjaldamakk CIA. Stjórnarandstaðan var sömuleiðis brennimerkt sem landráðamenn og svikarar sem vildu selja landið í hendur bandarískra stórfyrirtækja.

„You are a donkey“

Ég var viðstaddur stóran útifund með Hugo Chávez í Buenos Aires í Argentínu í febrúar 2007. Inntak ræðu Chávez var að George W. Bush væri „pólitískt lík“. Hann var á hátindinum. Bush var fullkominn óvinur því hann var á kolöfugum enda í pólitíska litrófinu og var auk þess óvinsæll forseti víða um heim á þeim átakaárum eftir 11. september. Á þeim árum var Chávez líka í hlutverki litríks sérvitrings í heimsmálunum. Hann stjórnaði sjónvarpsþættinum „Aló Presidente“, sem sýndur var á hverjum sunnudegi í ríkissjónvarpinu. Þar talaði hann blaðalaust klukkutímunum saman og varð tíðrætt um Bush sem hann nýtti hvert tækifæri til að uppnefna fyllibyttu og aumingja. „You are a donkey, mister Danger. You are a donkey, mister Bush,“ hrópaði Chávez í sjónvarpssetti sem leit út fyrir að vera einhvers konar raunveruleikaþáttur um líf forsetans. Einu sinni sendi hann hermenn að kólumbísku landamærunum í beinni útsendingu. Hann var gæddur persónutöfrum sem öfluðu honum mikils stuðnings um heim allan sem fulltrúa sósíalisma og vinar litla mannsins. Raunverulegar aðgerðir hans í stjórnmálum heima fyrir voru hins vegar þokukenndari.

Fátækt í brennidepli

Lula da Silva í Brasilíu og Nestor Kirchner í Argentínu bjuggu við mikinn efnahagsuppgang vegna hás hrávöruverðs í heiminum. Áhersla var lögð á að minnka fátækt. Á fyrstu árum stjórnar Hugo Chávez, þegar olíuverð var í hæstu hæðum, gekk líka vel að koma íbúum landsins upp úr fátækt og þannig að minnka bilið milli þeirra sárfátæku og ofurríku. Chávez dældi gróða af olíusölu í félagsleg verkefni, jók heilsuþjónustu og menntun. Hann niðurgreiddi líka matvælaverð, rafmagn, bensín og aðrar nauðsynjar. Þetta jók vinsældir Chávez enn frekar og tryggði hvern kosningasigurinn á fætur öðrum. Fátæklingar höfðu eignast talsmann og stóðu með sínum manni allt þar til hann lést. En á meðan til dæmis Brasilía – sem nú gengur í gegnum hremmingar eftir mörg eyðsluár – stundaði mildari gerð sósíaldemókratisma, gekk Chávez miklu lengra.

Júdas fyrsti kapítalistinn

Árið 2005 kynnti Chávez til sögunnar nýtt efnahagskerfi fyrir Venesúela sem hann kallaði „Sósíalisma 21. aldarinnar“. Hann sagði að Sovétríkin hefðu klúðrað sinni byltingu vegna einræðistilburða. Lausnin væri lýðræðislegur sósíalismi þar sem hinir fátæku myndu rísa á fætur á skömmum tíma með því að kjósa rétta menn til að stjórna landinu. Við þetta blandaði hann svo kristilegum gildum. Jesús var fyrsti sósíalistinn og Júdas fyrsti kapítalistinn, samkvæmt nýju hugmyndafræðinni. Óvinir Rómönsku Ameríku og þriðja heimsins voru Bandaríkin og heimsvaldastefnan. En þó hann kenndi þessa speki við 21. öldina var um að ræða gamalt vín á nýjum belgjum. Chávez hafði vingast mjög við Fidel og Raúl Castro. Hann kom Kúbverjum úr peningavandræðum með olíudollurum. Kúbverskir læknar voru fluttir frá Kúbu til Venesúela, en líka gamalkunn stef. Chávez vildi nú þjóðnýta landbúnað Venesúela og hóf að ríkisvæða allskyns fyrirtæki. Þessar aðgerðir mynduðu strax nýja og gríðarstóra útgjaldaliði og meðalmennska og lítil kunnátta í stjórnun þessara stofnana bökuðu mörg vandræði.

Erfði ónýtt ríki. Nicolás Maduro var strætóbílstjóri og verkalýðsforingi áður en hann gekk til liðs við hreyfingu Chávez um 1990. Þegar hann varð forseti árið 2013 var orðið of seint að bjarga landinu frá efnahagshruni. Mynd: Nordic Photos/Getty Images
Erfði ónýtt ríki. Nicolás Maduro var strætóbílstjóri og verkalýðsforingi áður en hann gekk til liðs við hreyfingu Chávez um 1990. Þegar hann varð forseti árið 2013 var orðið of seint að bjarga landinu frá efnahagshruni. Mynd: Nordic Photos/Getty Images

Framfarir reistar á sandi

Til að gera langa sögu stutta hefur nú komið í ljós að framfaraverkefni Chávez voru flest reist á sandi. Nicolas Maduro hefur erft ríki sem glímir við alvarlegan vanda á nánast öllum sviðum. Að sumu leyti er þetta sama Venesúela og fyrr. Þetta er eitt af helstu olíuríkjum heims sem þrátt fyrir ríkidæmi býr við mikla misskiptingu. Gríðarlega margir búa í fátækrahverfum sem eru meðal þeirra hættulegustu í Suður-Ameríku. Hagkerfi landsins er á barmi hruns, hillur í stórmörkuðum eru tómar, apótek og spítalar án lyfja, rafmagnsleysi er árlegt vandamál þegar þurrkar ríkja og morðtíðni hefur margfaldast í borgum landsins.

Eyddu öllu og tóku lán

Venesúela undir chavismo ber mörg merki auðlindabölvunarinnar. Smám saman dróst úr öðrum útflutningi en olíu, sérstaklega þegar óvarleg þjóðnýting á stórum skala eyðilagði framleiðslu á ýmsum landbúnaðar- og iðnaðarvörum. Nú þegar 95% útflutningsins er olía og olíuverð hefur verið í sögulegri lægð er ríkið einfaldlega ekki í stöðu til að borga fyrir innflutning á vörum. Noregur og fleiri olíulönd hafa byggt upp stóra sjóði, meðal annars til að minnka skaðann af flöktandi olíuverði. Chávez gerði það hins vegar ekki. Auk þess notaði hann olíuna, þegar verðið var hátt, sem veð til þess að taka gríðarleg lán. Eftir að olíuverð lækkaði er ríkið ekki lengur í stakk búið til að borga af þessum lánum og við blasir greiðslufall. Og til að bæta gráu ofan á svart framleiðir Venesúela sífellt minna af olíu vegna fúinna innviða í olíuvinnslunni. Chávez þjóðnýtti alla olíuframleiðslu og rak fjölda starfsmanna úr ríkisfyrirtækinu PDVSA. Aðeins fylgismenn hans máttu vinna þar. Það þýddi að landið missti marga helstu sérfræðinga sína úr landi.

Rafmagnslaust

Þessa daga er rafmagnsskorturinn í landinu svo alvarlegur að Maduro hefur beðið fólk um að nota ekki hárþurrku nema á sérstökum tyllidögum og ekki strauja föt. Klukkan í landinu verður færð um hálftíma til að létta á rafmagnsnotkun. Opinberar stofnanir verða aðeins opnar tvisvar í viku á næstu vikum með sama markmiði. Þurrkar í landinu þýða að vatnsaflsvirkjanirnar sem sjá landinu fyrir raforku ná ekki að framleiða rafmagn í nægilegum mæli. Þó veðurfyrirbrigðið El Niño sé ein af ástæðum þurrkanna blasir sú staðreynd við að þessir innviðir Venesúela eru einfaldlega ekki nógu góðir. Kaupmáttur fátækra jókst mikið þegar olíuverð var hátt. Milljónir manna gátu keypt heimilistæki á lágu verði. Rafmagn er svo nánast ókeypis vegna niðurgreiðslna ríkisins. Þessi vandi endurspeglar popúlíska stjórnarhætti Chávez og Maduro. Atkvæði voru keypt með gríðarlegum fjáraustri til ákveðinna vinsælla verkefna sem nokkrum árum síðar eru gufuð upp eða gagnslaus.

Mótmæli og kosningar

Nicolás Maduro, sem áður hafði verið utanríkisráðherra og varaforseti í stjórn Chávez, var kosinn forseti í apríl 2013, mánuði eftir andlát Chávez. Hann vann mjög nauman sigur á Henrique Capriles Radonski, helsta leiðtoga stjórnarandstöðunnar. Mikil mótmæli hafa verið síðan þá. Maduro hefur sakað Bandaríkin um vandræði Venesúela. Þau stundi efnahagslegt stríð gegn landinu. Hann hefur til dæmis sakað CIA um að senda flugumenn sína til að standa í biðröðum í landinu og veikja þannig traust almennings á byltingunni. Í febrúar 2014 var Leopoldo López, annar stjórnarandstöðuleiðtogi, handtekinn á mótmælum og dæmdur í 13 ára fangelsi fyrir að hvetja til ofbeldis. Stjórnarandstaðan vann svo stórsigur í þingkosningum í desember síðastliðnum. Sósíalistaflokkurinn í Venesúela er því í minnihluta á þingi fyrsta skipti í 17 ár. Stjórnarandstaðan safnar nú undirskriftum til að hvetja til sérstakrar þjóðaratkvæðagreiðslu, sem stjórnarskráin leyfir, til að koma frá vanhæfum forseta.

Helgi Hrafn Guðmundsson – ritstjorn@frettatiminn.is

The post Bölvun olíunnar og hrun Venesúela appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652