Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Samfylkingarinnar, var kjörin formaður BHM í apríl síðastliðnum. Þá höfðu verkfallsaðgerðir 18 aðildarfélaga bandalagsins staðið yfir í tvær vikur og lenti Þórunn því beint í hringiðu mikilla átaka á vinnumarkaði sem ekki enn sér fyrir endann á. Eftir tíu vikna verkfall setti löggjafinn lög um bann við verkfalli en í kjölfarið stefndi BHM ríkinu á þeim forsendum að lögin væru brot á stjórnarskrárvörðum rétt BHM-félaga til að semja um kaup og kjör. Málflutningur fór fram í héraðsdómi síðastliðinn mánudag og er búist við dómi þann 15. júlí. „Rökin sem færð eru fram af ríkinu um neyðarástand halda ekki,“ segir Þórunn. „Verkfallsréttur er takmarkaður hjá opinberum starfsmönnum að því leyti að þegar á svona aðgerðum stendur eru starfandi undanþágunefndir sem hafa beinlínis það hlutverk að afstýra neyð. Þannig var það hjá öllum okkar stéttum sem tóku þátt í aðgerðunum, hvort sem það voru dýralæknar, ljósmæður eða aðrir,“ segir hún.
Um síðustu mánaðamót var gerðardómur skipaður til þess að úrskurða um kjör aðildarfélaganna, eins og kveðið var á um í lögunum sem Alþingi setti 13. júní síðastliðinn. BHM hefur gert athugasemdir við forsendurnar sem lögin setja gerðardómi en að sögn Þórunnar lögbinda þær nánast lokatilboð ríkisvaldsins. „Ég hef haldið því fram að það sé beinlínis ósvífni að setja þetta í lagatexta. Þarna er verið að lögbinda tilboð ríkisvaldsins sem voru í raun þannig að þau hefðu getað verið samin á skrifstofu Samtaka atvinnulífsins. Ástæðan fyrir því að ég segi að þetta sé ósvífni er að ríkisvaldið er vinnuveitandi og ætti því að vita hvert launa- og starfsumhverfi opinberra starfsmanna er. Það er gjörólíkt launa- og starfsumhverfi fólks á almennum vinnumarkaði og því ekki hægt að bera saman kjarasamninga á almennum markaði og hinum opinbera eða yfirfæra þá óbreytta. Opinberir starfsmenn semja ekki um markaðslaun, þeim er raðað í launaflokka og þar sitja þeir þangað til annað er ákveðið í kjarasamningum en á almenna markaðnum er samið um lágmarkstaxta sem síðan er hlaðið ofan á þegar fólk semur beint við vinnuveitandann í launaviðtölum, eins og þekkt er,“ bendir Þórunn á.
Hún segir jafnframt skorta mikið upp á skilning ríkisvaldsins sem vinnuveitanda á mikilvægi háskólamenntunar. „Innan raða BHM eru háskólamenntaðir sérfræðingar sem sinna mjög mikilvægum störfum, hvort sem það er í heilbrigðisþjónustu, hjá sýslumanni eða annars staðar. Þetta er oftast þjónusta sem ríkinu ber að veita lögum samkvæmt og þess vegna er það ábyrgðarhluti ríkisins að full mönnun sé í þessum stéttum, nýliðun sé eðlileg og að fólk langi til að vinna þessi störf. En það þarf líka að borga fyrir þau. Fólk sem hefur aflað sér sérfræðimenntunar á sínu sviði þarf líka að sjá það í launaumslaginu að það hafi lagt á sig margra ára háskólanám, auk þess að stofna til skulda við Lánasjóðinn ásamt seinkun á innkomu sinni á vinnumarkaðinn. Það þarf að bera eitthvað úr býtum fyrir þessa fjárfestingu. Að auki er þetta er ekki bara fjárfesting einstaklingsins heldur líka samfélagsins. Þekking skapar góða þjónustu, tækniframfarir og byggir undir gott samfélag. Það hefur valdið mér djúpum vonbrigðum að horfast í augu við skilningsleysi ríkisvaldsins sem vinnuveitanda á þessum sameiginlegu hagsmunum félaga BHM og ríkisins. Ég gekk reyndar út frá því að ríkisvaldið hefði á þessu skilning, kannski var það barnaskapur, en komst svo fljótt að því að það var ekki þannig,“ segir Þórunn.
Spurð út í átökin sem fylgja kjaraviðræðum segir hún að því miður sé það svo að samskipti á vinnumarkaði, eins og samskipti annars staðar í samfélaginu, einkennist af miklum átökum. Þau gera það enn, en þannig þarf það ekki að vera. Að sjálfsögðu er tekist á um brýna hagsmuni en það má gera með málefnalegum hætti. Þótt það geti orðið harkaleg átök þá finnst mér óheilbrigt að leggja upp með að það hljóti að verða átök í kringum kjarasamninga,“ segir hún og bendir á að BHM hafi ríkan vilja til þess að fara í vinnu við endurskoðun á vinnumarkaðsmódelinu með það fyrir augum að færa það nær því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. „Þar hafa aðilar; ríkisvaldið, atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin, komið sér saman um ákveðið skipulag á vinnumarkaði sem ég held að við ættum að líta til. Áherslan er á meiri samvinnu og sameiginlega markmiðssetningu og sömu sýn á það hvernig við vinnum þessi mál og hvert skuli stefna. Því verður ekki komið á í miðjum verkfallsaðgerðum heldur þarf að vinna skipulagt að breytingunum yfir langan tíma og ná um þær sátt,“ segir hún.
Enn í pólitík
Þórunn er augsýnilega enn í pólitík. Hún skellir upp úr þegar hún er spurð að því. „Já, því hefur verið haldið fram. Hagsmunabarátta háskólafólks hér innan BHM og barátta okkar fyrir bættum kjörum okkar fólks er að sjálfsögðu pólitísk barátta, hún getur eiginlega ekki orðið neitt annað. Við reynum að segja fólki að fjárfesting í menntun sé góð fyrir samfélagið og einstaklinginn og menntun beri að meta til launa – því miður er það þannig að það er enn fullt af fólki á Íslandi sem telur það hreinlega ekki nauðsynlegt að meta menntun til launa, ég skil ekki alveg þá lífssýn og tel því að það sé starf okkar hér að leiða fólki það fyrir sjónir að allir hafi hag af því að hér búi vel menntuð þjóð, háskólamenntaðir búi við sæmileg kjör og vilji búa og starfa á Íslandi, því að það sé best fyrir samfélagið sem heild. Ef það er pólitík þá, „so be it“,“ segir Þórunn og hlær.
Var sennilega dálítið „búin á því“
Aðspurð segist hún ekki sakna „hinnar“ pólitíkurinnar. „Nei, en reynslan sem ég bý að er mikil og góð.“ Þegar hún er jafnframt spurð hvers vegna hún hætti á þingi árið 2011 eftir að hafa setið sem ráðherra í ríkisstjórn segir hún fyrir því margar ástæður. „Eftir á að hyggja var ég sennilega dálítið „búin á því“ þegar ég hætti á þingi. Þetta voru þannig tímar að hvert ár er í rauninni nokkur ár hvað varðar reynslu og annað,“ segir Þórunn.
Þegar hún er spurð hvernig það hafi verið að sitja í hrunstjórninni svokölluðu tekur hún sér langa pásu áður en hún svarar: „Það voru mjög mikil forréttindi að því leyti að ég fékk að gegna embætti umhverfisráðherra og að sinna mínum hjartans málum. Það var frábært. En um leið kynntist ég því mjög vel hvernig stjórnarsamstarf tveggja flokka fer fram og öllum þeim málamiðlunum sem eiga sér stað og því hvað það getur verið erfitt, bæði að kyngja þeim og einnig að standa með þeim eins og alltaf þarf. Þannig var þetta ekki slæm reynsla, heldur reynsla sem er mjög verðmæt. Maður skilur betur hvað gengur á í slíku samstarfi,“ segir hún.
„En hrunið breytti öllu,“ heldur hún áfram. „Hrunið breytti öllu í þessu samfélagi. Það breytti öllu fyrir stjórnmálin – við erum rétt að byrja að vinna okkur út úr því. Auðvitað var þetta hrikalega töff tími, bæði það að vera á vaktinni þegar bankarnir hrundu og ekki síður úrvinnslan, ekki síður. Ég er ekkert að segja að það hafi verið eitthvað erfiðara fyrir stjórnmálamenn en aðra, held þetta hafi bara verið erfitt fyrir alla. En þegar maður horfi til baka þá sér maður hvað voru réttar ákvarðanir, mjög erfiðar, en nauðsynlegar og réttar en líka hvað hefði mátt betur fara,“ segir Þórunn.
Þegar hún er innt nánar eftir þessum réttu og röngu ákvörðunum segir hún að réttu, erfiðu ákvarðanirnar hafi verið neyðarlögin og samstarfið við AGS. „Það voru grundvallarákvarðanir sem voru erfiðar en nauðsynlegar. Það var hins vegar rangt af okkur að halda svona fast í fyrsta IceSave samninginn. Það voru mistök. Við hefðum ekki átt að gera það,“ segir hún.
Hjartað slær enn fyrir Samfylkinguna
Þórunn segir mikilvægt að Íslendingar læri af reynslu sinni af hruninu. „Við höfum vonandi lært að svona bóluástand má ekki verða aftur. Við megum ekki vanrækja þá skyldu okkar að sinna almennilegu eftirliti, hvort sem það er með fjármálastofnunum eða öðrum lykilstofnunum í samfélaginu. Hrunið hlýtur jafnframt að kenna stjórnmálafólki að það verði að komast út úr þessum átakastjórnmálum, það er nauðsynlegt fyrir þjóðina. Sem betur fer er það að gerast. Það er að minnsta kosti skýr vilji hjá kjósendum til þess og það eru þeir sem velja stjórnmálamennina til verka. Þau sem eru með opin eyru heyra kröfuna enda er ljóst hvernig myndi fara ef yrði kosið til þings í dag,“ segir hún.
Spurð hvort Samfylkingunni hafi ekki tekist að hlusta á þjóðina miðað við það litla fylgi sem flokkurinn hefur núna, svarar hún: „Nei, það er alveg rétt. Þetta er staða sem Samfylkingin þarf að vinna úr.“ Hún vill ekki dæma um það hvernig best sé fyrir flokkinn að gera það. „Ég er mjög meðvituð í því að horfa á Samfylkinguna utan frá núna og vil ekki dæma um það hvernig flokkurinn þarf að bregðast við,“ segir hún.
Þórunn játar því að hjarta hennar slái enn fyrir Samfylkinguna. Hún var ein þeirra sem tók þátt í að stofna hana á sínum tíma, fyrst sem kosningabandalag, en þá var Þórunn í Kvennalistanum. En hvar kviknaði pólitísk ástríða hennar? „Ég veit það ekki alveg. Hún er sennilega bara hluti af því að hafa áhuga á samfélaginu og lífinu og öðru fólki. Og síðan áhugi á því að vita hvernig allt virkar. Mig dreymdi um það sem barn að fara til útlanda, ferðast og sjá heiminn. Ég hef gert töluvert af því og svo lærði ég stjórnmálafræði og alþjóðastjórnmál sem mér finnst alltaf skemmtilegust, þessi alþjóðlega sýn á það sem er að gerast,“ segir Þórunn.
Ekki á leið í forsetaframboð
Liggur þá ekki beinast við, miðað við reynslu hennar og áhugasvið, að bjóða sig fram til forseta?
Þórunn skellir upp úr við þessa spurningu. „Nei,“ segir hún og hlær áfram. „En ég væri að ljúga ef ég segði þér að það hefði ekki verið nefnt við mig. Sem ég sit hér þá finnst mér bjánalegt að segja þetta. En það er alltaf betra að segja bara satt. En nei, ég hef ekki áhuga. En ég hef mikinn áhuga á því að breyta stjórnskipan á Íslandi og að efla umræðu um gildi og tilgang forsetaembættisins. Ég held við ættum að reyna að gera það. Við ættum ef til vill að tala minna um hverjir eigi að gegna því og meira um það til hvers við höfum forseta lýðveldisins og hvaða hlutverki embættið gegnir í samfélaginu, bæði samfélagslega og pólitískt og hvaða breytingar við viljum gera á því,“ segir Þórunn.
Ættleiddi barn ein
Þórunn er móðir 13 ára stúlku sem hún ættleiddi ein frá Kína þegar hún var ársgömul. Ættleiðingin vakti áhuga margra á sínum tíma, ekki síst vegna þess að Þórunn var meðal fyrstu kvenna sem fengu að ættleiða barn án þess að vera með maka. Hún segist hafa fundið fyrir þessum áhuga, sér í lagi frá þeim sem fannst hún ef til vill hafa notið forréttinda vegna stöðu sinnar. „Það er svo sem skiljanlegt. Ættleiðing er hins vegar ferli sem er bæði strangt og erfitt. Það þarf og á að vera það. Ég var svo heppin að komast í gegnum þetta nálarauga en sem betur fer hafa margar aðrar einhleypar konur gert það líka. Á endanum snýst ættleiðing alltaf um barnið en ekki foreldrana, það þarf að minna á það í hvert skipti sem það er rætt. Ættleiðing snýst um að börn eignist fjölskyldu en ekki um að fullorðnir verði foreldrar,“ segir hún.
Þórunn er fædd og uppalin í Reykjavík, í Norðurmýri og Fossvogi. Hún er ein þriggja systra og var fjölskyldan „ósköp venjuleg íslensk úthverfafjölskylda,“ eins og Þórunn orðar það. Þegar hún er spurð hvað hún taki sér fyrir hendur þegar hún er ekki að vinna svarar hún: „Ég hef alltaf unnið eins og skepna. Ég hef hinsvegar lært, kannski af biturri reynslu, að ef maður tekur sér ekki frí kemur það í bakið á manni. Auðvitað er það þannig að þegar kona hefur um fleiri en sjálfa sig að hugsa verður hún náttúrlega að gjöra svo vel og forgangsraða rétt. Það hef ég líka lært. En það breytir því ekki að ég hef einhvern veginn sóst eftir því að vera í þannig umhverfi að vinna meira en minna og það er kannski bara af því það er skemmtilegt, það gefur mér svo mikið,“ segir hún.
„Þegar ég er ekki í vinnunni þá er ég yfirleitt að slugsa við heimilsisstörfin af því mig langar frekar að lesa bók eða fara í bíó eða leikhús eða hitta vini mína. Svo reyni ég að sjálfsögðu að verja eins miklum tíma með dóttur minni og ég get. Við fengum okkur hund – eigum labrador sem er að verða tveggja ára. Sú góða tík hefur alveg látið hafa fyrir sér síðan við fengum hana en hún sér meðal annars til þess að ég fer út að ganga kvölds og morgna, sem er dásamlegt. Ég tala nú ekki um í svona sumri eins og núna. Það er ekki alltaf eins skemmtilegt þegar er myrkur og slydda en samt sem áður, það góða við að eiga hund er að hann setur manni skorður. Það þýðir ekki að fá sér hund og láta hann bara liggja,“ segir hún og hlær.
Þórunn hefur, líkt og flestir ef ekki allir foreldrar ættleiddra barna á Íslandi, talað um uppruna dóttur sinnar við hana frá því hún var ómálga barn. „Það er mjög mikilvægt og það gera allir sem betur fer. Dóttir mín er jákvæð fyrir uppruna sínum en það er misjafnt milli barna. Sum hafa mjög mikinn áhuga á uppruna sínum en önnur ekki. Við mæðgur fórum í nokkurs konar upprunaferð til Kína fyrir fjórum árum, sem var yndisleg. Það var mjög jákvæð og góð reynsla. Það var jafn gaman að fara í ferðina og koma heim aftur og vera kominn heim og vera búin að fara í þessa ferð saman. Þetta var eitthvað sem við urðum að gera og gaf okkur báðum mjög mikið,“ segir Þórunn.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
sigridur@frettatiminn.is
MYNDATEXTAR
„Hrunið breytti öllu í þessu samfélagi. Það breytti öllu fyrir stjórnmálin – við erum rétt að byrja að vinna okkur út úr því. Auðvitað var þetta hrikalega töff tími, bæði það að vera á vaktinni þegar bankarnir hrundu og ekki síður úrvinnslan, ekki síður,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. Myndir/Hari
The post Barátta fólks í BHM er pólitísk barátta appeared first on FRÉTTATÍMINN.