Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Lærir iðnaðarverkfræði og spilar fótbolta í sólinni á Flórída

$
0
0
Elín Metta Jensen er tvítug fótboltastelpa sem raðar inn mörkum fyrir Val í Pepsi-deildinni. Hún heldur upp á Audrey Hepburn og Will Ferrell og nýtur þess að lesa bækur og fara út að labba með hundinn sinn.

Ég kláraði MR í vor og í sumar er ég að vinna í túristabúðinni The Viking niðri í bæ. Í haust fer ég svo til Bandaríkjanna í háskóla. Ég fékk skólastyrk í Florida State og mun læra iðnaðarverkfræði og spila fótbolta. Það er auðvitað leiðinlegt að missa stóran hluta úr Pepsi-deildinni en maður verður að elta drauma sína.

Staðalbúnaður
Ég er með klassískan fatasmekk en það fer eftir skapinu hverju ég klæðist. Ég get verið svolítið bóhem í klæðaburði en svo er ég oft mjög „sportí“ og vil vera í þægilegum skóm, til dæmis íþróttaskóm. Ég á mikið af bláum fötum sem er ágæt tilbreyting frá rauða Valslitnum. Ég kaupi oftast föt í H&M, Monki og Zöru.

Hugbúnaður
Mér finnst mjög skemmtilegt að fara á kaffihús. Súfistinn og Eymundsson á Skólavörðustíg eru í uppáhaldi og þar les ég tímarit og fæ mér kannski kakóbolla. Ég fer ekki mikið á djammið enda er enginn tími til að gera það á sumrin, við erum alltaf að keppa. En ef fótboltastelpurnar fara eitthvert út þá er það yfirleitt b5. Ég hef mjög gaman af bíómyndum. Ég er mikil Audrey Hepburn-kona, ég á safnið hennar og hef séð flestar myndirnar. Svo missi ég heldur ekki af myndum með Will Ferrell. Ég er búin að vera að fylgjast með Shark Tank-þáttunum. Þeir eiga að vera geðveikt alvarlegir en eru mjög fyndnir. Broad City eru líka mjög skemmtilegir. Annars fylgist ég auðvitað með fótbolta og núna síðast HM kvenna. Úrslitaleikurinn var einn skemmtilegasti leikur sem ég hef séð. Ég hélt með Bandaríkjakonum og þetta var því ekki leiðinlegt. Ég held líka að það hafi verið gott fyrir kvennaboltann að Bandaríkin urðu heimsmeistarar. Þar eru gríðarlegir peningar og deildin fær vítamínsprautu. Það er ennþá meira spennandi fyrir mig fara þangað eftir þetta.

Vélbúnaður
Ég er alltaf frekar sein í tæknimálunum en næ þessu þó að lokum. Ég er með Macbook Air og iPhone og er mikið á þessum týpísku miðlum. Skemmtilegasti miðillinn er Quora þar sem maður getur sett inn spurningar og fullt af fólki úti í heimi svarar þeim. Það er eiginlega skemmtilegra en Facebook. Svo er ég mjög hrifin af Instagram og Pinterest og ég nota Spotify mikið. Ég hlusta eiginlega á allt þar en núna er ég mest að hlusta á Queen og Foster the People.

Aukabúnaður
Ég borða mikið hjá mömmu minni enda fæ ég allskonar hollan mat þar. Til dæmis mjög góðan fisk. Ég borða líka stundum úti í bæ, oftast á Nings eða Saffran. Mér finnst gott að fara út að labba með hundinn minn, sem er Cavalier og heitir Kári, til að hreinsa hugann og njóta þess að vera úti. Ég reyni líka að vera dugleg að lesa bækur og var síðast að byrja á Jonathan Strange & Mr Norrell. Hún lofar mjög góðu. Í sumar ætla ég að reyna að vera dugleg að fara í sumarbústað og svo vona ég að tími gefist til að fara með vinunum í útilegu. Annars er ég að vinna niðri í bæ í sumar og kann mjög vel við mig þar. Ég er mikil 101-manneskja og er líka mjög hrifin af höfninni. Það er fallegur staður.

The post Lærir iðnaðarverkfræði og spilar fótbolta í sólinni á Flórída appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652