Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Gegnsæ ógn

$
0
0

Maríuerla með unga sína hefur verið yndi okkar á pallinum við sumarbústað okkar hjóna í mörg ár. Þar gerir hún sig heimakomna, spígsporar með tinandi stél og æfir unga sína í flugkúnstum. Hún kom seint í sumar, jafnvel svo seint að minn betri helmingur hafði áhyggjur af því að þessi vinkona okkar væri horfin á vit fiðraðra forfeðra sinna. Ég gat mér þess hins vegar til að kalt vor hefði haft áhrif á hreiðurgerðina og því skyldum við bíða og sjá. Nokkru síðar sá ég maríuerluna flögrandi milli trjátoppa og fljótlega eftir það var hún komin á pallinn, sínar heimaslóðir.

Fuglalífið í kringum okkur í sveitinni er fjörugt en hefur breyst talsvert í gegnum árin, eftir því sem trjágróðri fer fram. Það má segja að landið sé orðið hálfgerður skógarlundur, raunar talsvert umfram það sem við ætluðum okkur. Þegar við settum niður trjáplöntur á sínum tíma hugsuðum við lítt um það hversu hávaxin trén gætu orðið. Þau eru að sönnu prýði hvert og eitt en eru að hluta farin að skyggja á fallegt útsýni. Við gerðum okkur heldur ekki grein fyrir sjálfsáningu trjánna. Skógarlundurinn vex því og vex og ber hlýnandi veðurfari vitni. Gosið fræga í Eyjafjallajökli dreifði síðan fínum öskusalla yfir allan gróður á svæðinu. Sá salli var sem besti áburður mátti nánast horfa grös og tré vaxa í kjölfar þeirrar áburðardreifinar.

Sennilega kemur að því að við verðum að grisja því óboðlegt er að stórfljótið Hvítá hverfi alveg sjónum okkar, auk Hestfjalls í fjarska. Vörðufellið, sem stakstætt er á Skeiðunum stendur að vísu upp úr svo trauðla ná birkitré og víðir að fela það. Við gættum þess þó, þegar við hófum skógræktina að hafa aspir allar í norðurátt, til þess að skýla okkur. Þar mega þær vaxa að vild – og gera það svikalaust.

Skógarfuglarnir syngja okkur sinfóníu frá vori og langt fram eftir sumri. Þeir hafa tekið yfir en mófuglarnir væntanlega fært sig aðeins um set. Jaðrakan og spói eru því sjaldséðari en áður en þrestir kunna sér ekki læti, auk smærri skógarfugla. Ein þrastamóðir tók meira að segja upp á því að verpa í tré alveg við pallinn hjá okkur. Þótt okkur sé hlýtt til hennar var staðarvalið ekki skynsamlegt því fuglinn fælist mannaferðir, jafnvel þótt við tiplum á tánum. Því óttast ég að ungar líti ekki dagsins ljós úr því hreiðri, þótt enn sitji kella á nú þegar komið er fram í júlí. Hrossagaukurinn hefur haldið tryggð við okkur allan tímann með dásamlegum flugkúnstum sínum og fjaðursöng. Álftir og endur eru í grenndinni enda Hvítá dvalarstaður þeirra. Þar eru einnig mávar, kannski ekki alveg jafn velkomnir enda sækjast þeir eftir eggjum og ungum smávina okkar. Hrafn og kjói sýna sig annað slagið og einu sinni höfum við séð örn fljúga tignarlega yfir í grennd við Vörðufellið, þótt við séum vanari heimsóknum konungs fuglanna þegar við eigum erindi vestur á firði.

Þarfir fugla og manna fara hins vegar ekki alltaf saman. Við höfum lengi ráðgert að setja glerveggi sem framlengingu við bústaðinn fram á pallinn til skjóls. Íslenskt veðurfar er með þeim hætti að það þarf að búa til skjól sem víðast. Við létum af þessu verða nú snemmsumars, pöntuðum gler frá Hellu og fengum smið sem smíðaði ramma utan um þetta pallagler okkar.

Allt gekk þetta vel fyrir sig og við fengum langþráð skjól á pallinum. Vandinn er hins vegar sá að þessi framkvæmd okkar er ekki sérstaklega fuglavæn. Hættan er sú að þessir fiðruðu félagar okkar átti sig ekki á því að glerið gagnsæja og fína er banvænt þegar þeir stíma beint á það. Einkum vorum við hrædd um líf og limi maríuerlunnar og unganna hennar, sem eiga heima á pallinum ekkert síður en við. Þegar smiðurinn hafði lokið verki sínu brugðum við því á það ráð að hengja ýmis konar dót til bráðabirgða í gluggana því meiningin var að kaupa gluggafilmu með doppum eða öðru flúri til álímingar á glerið og setja upp næst þegar við kæmum. Til öryggis skrifaði ég minnismiða um gluggafilmuna svo ekki gleymdist að kaupa þessar bráðnauðsynlegu fuglafælur.

Það var hins vegar ekki fyrr en við renndum í hlað við bústaðinn um liðna helgi að við áttuðum okkur á að við höfðum gleymt að kaupa varnarfilmuna. Það var því með hálfum hug sem við gengum fram á pallinn og óttuðumst bæði það sama, að maríuerlufjölskyldan okkar lægi dauð við glerið. Svo var hins vegar ekki, sem betur fer, en andvana þröstur lá þar, hafði flogið á fullri ferð á glerið nýja. Með okkur var sex ára drengur, barnabarn okkar. Hann syrgði fuglinn, ekki síður en við, og það var honum nokkur lífsreynsla að sjá þetta. „Ég hef aldrei séð neitt áður sem er dáið,“ sagði hann.

Sú ákvörðun var tekin á staðnum að þrösturinn sálugi fengi viðhafnarútför. Sú var ósk drengsins og ekki gátum við staðið gegn svo frómri ósk, auk þess sem amman og afinn báru í raun ábyrgð á ótímabærum dauða fuglsins. Áður en útförin fór fram kom lítill frændi í heimsókn, drengur á svipuðu reki. Saman tíndu sveinarnir blóm fyrir athöfnina, sóleyjar og gleymmérei. Ég sótti skóflu og tók gröfina. Ömmunni þótt tilhlýðilegt, svo allt færi eftir settum reglum, að syngja með drengjunum „Ó Jesú bróðir besti“, en lét upphafserindið nægja.

Ég skrifaði annan minnismiða áður en við fórum heim. Þar stendur stórum stöfum: „Doppur á gler“. Það gengur ekki að fækka með þessum hætti skógarfuglunum – og alls ekki maríuerlunum okkar.

The post Gegnsæ ógn appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652