Hvað er eiginlega þetta Mansplaining/Hrútskýring?
Orðið er sett saman úr orðunum hrútur og útskýring og er þýðing á hugtakinu Mansplaining, sem sett er saman úr orðunum „man“ og „explain“.
Hugtakið er notað um það þegar einhver útskýrir eitthvað fyrir öðrum, oftast karlmaður fyrir konu, á lítillækkandi hátt. Eins getur hrútskýring átt við aðstæður í samræðum þegar einhver gefur sér fyrirfram að vita meira um tiltekið mál en viðmælandinn, jafnvel þó viðmælandinn sé í raun fróðari um efnið.

Nokkrar konur deildu reynslu sinni af hrútskýringum með Fréttatímanum:
Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri:
„Í gamla daga þegar við vorum í Kvennalistanum, vorum við ungar og sprækar og fórum oft á bari eða kaffihús eftir fundi. Það kom varla fyrir að ekki kæmu til okkar einn eða fleiri karlmenn og gerðu sig heimakomna hjá okkur. Byrjuðu kannski á að hrósa því hvað þetta væri nú allt saman flott hjá okkur og að þeir væru nú heldur betur sammála okkur. En, svo kom alltaf eitthvað en. Í kjölfarið fylgdu föðurlegar ráðleggingar um það sem við áttum að gera öðruvísi. Algengt var að menn sögðu okkur að við yrðum að kjósa okkur formann, það þótti þeim mikilvægt. Þetta var ekki einstakt dæmi, heldur síendurteknar uppákomur.
Við skemmtum okkur við það að ímynda okkur hvernig tekið yrði í það ef við snerum aðstæðunum við. Á þessum tíma var Albert Guðmundsson fastagestur á Hótel Borg og þangað mættu hinir og þessir karlar reglulega með honum til að leggja á ráðin.
Við sáum fyrir okkur, hvernig tekið væri í það ef við gengjum sjálfsöruggar upp að þeim, og stilltum okkur kumpánlega upp við borðið, styddum höndum á stólbökin þeirra, hölluðum okkur yfir þá og hrósuðum þeim fyrir vel unnin störf. En veittum þeim jafnframt óumbeðnar ráðleggingar um hvernig þeir ættu að gera hlutina. Það ríkti nefnilega alltaf þessi vissa, að við þyrftum hjálp og skilningur þeirra, karlanna, væri réttur.“
Áróra Gústafsdóttir, viðskiptafræðingur MBA: „Versta dæmi sem ég hef lent í er samtal við mann sem ég kannaðist lítillega við, hann var þá að læra námsráðgjöf. Ég bað hann ekki um ráðleggingar, en af því að það kom til tals að ég væri búin að skrá mig í krefjandi nám fór hann að draga úr mér. Ég væri of sæt til að geta lært og sennilega of heimsk fyrir svona erfitt nám. Dæmið sem hann tók til við að útskýra fyrir mér var að maður gæti alveg lært sjúkraliða eða hjúkrun til að geta annast sjúklinga, maður þyrfti ekkert að fara í læknisfræði til þess. Ég hef oft hugsað til baka og hryllt mig yfir því að hann skuli hafa valið sér þennan starfsvettvang og jafnvel eyðilagt drauma.“
Það ríkti nefnilega alltaf þessi vissa, að við þyrftum hjálp og skilningur þeirra, karlanna, væri réttur.“
Guðrún Margrét Guðmundsdóttir mannfræðingur:
„Karlar hafa hrútskýrt fyrir mér tilveruna alla tíð, lengst af var það svo sjálfsagður hluti veruleikans að ég tók ekki eftir neinu. Þegar ég varð femínisti blasti við að ójöfn staða kynjanna væri afleiðing ævaforns heilaþvottar um yfirburði karlkynsins. Sjálft fyrirbærið var þó enn á reiki, karlar að „besserwissera“ var einfaldlega hluti af öllu hinu. Þetta breyttist þegar hugtakið að hrútskýra var tekið inn í tungumálið. Þá loks gat maður farið að góma, greina og beita gegn hrútskýrendum, svona eins og að fá glænýtt og skínandi vopn í hendur. Kvöðin til að beita karlmannlegri visku eykst, sýnist mér, samfara valdinu sem málefnið inniber, grasserar í umræðu um fjármál, stjórnmál og í íþróttum, í öðrum löndum einnig í trúmálum og hernaði. Í umræðu um heimspólitík og hernað lendi ég aftur og aftur í því að karlar verða fyrst undrandi á að ég hafi almennt vit á málefninu, brosa svo í kampinn, sem snarlega umbreytist í pirring og jafnvel móðgun ef ég reynist vera þeim ósammála. Áður hefði ég jafnvel fengið samviskubit og talið mig e.t.v. hafa gengið of langt í rökræðunum en með tilkomu þessa prýðishugtaks er það nú ég sem brosi góðlátlega, vitandi að þarna séu hrútskýrendur á ferð.“
Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar: „Frábært orð, hrútskýring! Ég held líka að flestar konur þekki þetta, hafi lent í hrútskýringu. Ég er engin undantekning. Hrútskýring getur samt verið alls konar og ég held að eldri menn fari öðruvísi með þetta en þeir yngri. Í stað þess að hækka röddina og tala konu í kaf, tala þeir vinalega til hennar, svolítið eins og hún sé 10 ára. Nú er ég er á fimmtugsaldri, búin að sinna ýmsum stjórnunarstörfum og hef verið í stjórnmálum í 24 ár. Samt mæti reglulega viðmótinu að ég sé unga, hressa stelpan. Ekki reynsluboltinn eða manneskjan með þekkinguna. Þarna spilar sennilega líka inn í að ég tala mikið og oftast alltof hátt þannig að hrútskýringar yngri manna virka illa í mínu tilfelli. En í staðinn hef ég á stórum fundum nýlega verið kölluð skrautfjöður, sætasta stelpan og ágætis viðbót.“
Hann belgist út af gleði yfir að hafa blottað heimsku þína, voða ánægður með sig.
Þórunn Jarla Valdimarsdóttir rithöfundur:
„Óbrigðult ráð til að staðfesta að hrútur-allt-vitandi gangi laus er að segja orðið Wisserbesser í staðinn fyrir Besserwisser. Þeir sem eru gefnir fyrir að hrútskýra eru húmorsvana og finna sig samstundis kúna til að leiðrétta þig.
– Anton er algjör Wisserbesser, segir þú.
Hann sér ekki glottið á andliti þínu þegar þú segir þetta. Man ekki að þú ert ekki svo illa að þér. Leiðréttir þig hrokafullur að bragði:
– Þetta er rangt hjá þér. Þetta er þýskt hugtak og er rétt Besserwisser.
Hann belgist út af gleði yfir að hafa blottað heimsku þína, voða ánægður með sig.
Þú bara glottir og heldur áfram að láta hann móðan mása.“
Ragnheiður Gústafsdóttir:
„Þegar ég var að byrja að sendast fyrir verkstæði sem ég er meðeigandi í, sækja varahluti í hinar ýmsu verslanir, verslanir sem karlmenn voru í algjörum meirihluta viðskiptavina, varð ég alltaf að vita nákvæmlega hvað afgreiðslumennirnir gætu hugsanlega spurt mig um til að geta gert lítið úr mér. Ég man sérstaklega eftir einum manni sem spurði og spurði, alltaf var ég með svörin, hann var löngu kominn með allar upplýsingar til að geta náð í það sem ég bað um en mátti samt til með að koma með eina í lokin sem ég var ekki með svar við. Ég man ekki hvað það var sem ég var að sækja en ég varð svo reið að ég spurði manninn hvort það væri í starfslýsingu afgreiðslumanna þessarar verslunar að gera lítið út konum sem kæmu þar inn.
Síðan hefur meðeigandi minn (karlmaður) hringt og pantað það sem vantar og ég bara sæki það, ég nenni ekki að taka þátt í þessum leik.
Frá því ég var að fara fyrst og þar til nú hafa menn samt lagast og þeim fækkar sem eru með hroka og leiðindi, eru freka bara að spjalla á léttu nótunum.“
Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, forstöðumaður rannsóknarþjónustu og gæðastjóri við Listaháskóla Íslands:
Í minni stöðu sem stefnumótandi aðili á háskólastiginu tek ég virkan þátt í umræðu um gildi náms, rannsókna og lista í íslensku sem alþjóðlegu samhengi. Ég hef beitt mér sérstaklega í umræðu um rannsóknir í samhengi við listsköpun, sem er afar spennandi svið út frá háskólapólitík því það spyr ögrandi spurninga um eðli akademíunnar, um rótgróið vald orðræðunnar, um aðferðafræðilegar blokkir, kynjafræðilega nálgun til þekkingarframleiðslu, háskóla sem innilokaða í eigin skammhlaupi án tengsla við umheiminn. Sem sagt, ég á því láni að fagna að vera þátttakandi í mjög frjórri og gagnrýninni umræðu um þekkingarsköpun sem gaman er að takast á um við fólk frá ólíkum fræðasviðum og bakgrunni. Þess vegna verð ég fyrir miklum vonbrigðum þegar það gerist að ég þarf að hlusta á ofureinfaldar hrútskýringar um grunngildi háskólamenntunar, þar sem mér er kennt að háskólastarf skiptist annarsvegar í kennslu og hinsvegar í rannsóknir. Þetta er lesið yfir mér með sama tóni og barnaskólakennarinn minn kenndi mér um grunnáttirnar fjórar. Takk, gott að vita! Nú get ég haldið áfram að sinna vinnunni minni …
Meira úr umfjöllun Fréttatímans um hrútskýringar:
Strákarnir gera grín að femínisma en stelpurnar standa saman

Snýst um að brjóta minnimáttar niður

Nokkur þekkt dæmi um hrútskýringar

Bylgja Babýlons um mansplaining: „Ég má alveg tala við þig sko!“

The post Hrútskýringar: Konur deila sögum appeared first on Fréttatíminn.