Frakkar uppgötva Ísland, var fyrirsögn á íþróttasíðu France Soir fyrir fyrsta leik íslenska karlaliðsins í stórmóti gegn Frökkum í Nantes sunnudaginn 2. júní 1957, fyrir 59 árum. Greinin stiklaði á sögu Íslands frá Víkingatíma til Alberts Guðmundssonar og fótboltafærni hans. Þetta var fyrsti leikur liðanna í undankeppni fyrir heimsmeistaramótið 1958, sem Svíar héldu og Brasilíumenn sigruðu.
Brasilíumenn unnu Frakka í undanúrslitum 5:2 lokamótsins, 17 ára gamall Pelé skoraði þrennu en stórstjarna Frakka, Just Fontaine, aðeins eitt. Fontaine varð þó markahæsti maður keppninnar með 13 mörk í sex leikjum, afrek sem enginn hefur leikið og ákaflega ólíklegt er að nokkur muni nokkru sinni endurtaka.
En Fontaine var ekki með þegar Frakkar hófu undankeppnina í leik á móti Íslendingum í Nantes ári fyrr. Og Íslendingar mættu heldur ekki með sinn aðal mann, Albert Guðmundsson. Albert hafði komið heim úr atvinnuknattspyrnu frá Frakklandi nokkrum árum fyrr, komið FH upp í fyrstu deild sem spilandi þjálfari, var 34 ára og enn góður á boltann þótt yfirferðin væri ekki eins mikil og fyrr. Ístran, sem seinna meir varð einkennismerki Alberts ásamt vindlinum og teinóttu jakkafötunum, var farin að taka á sig form.
Albert hafði boðið KSÍ krafta sína við heimkomuna en fengið dræm viðbrögð. Hann taldi sig geta miðlað af reynslu sinni til leikmanna en forystumenn KSÍ voru ekki vissir um að það sem gagnast hafði Albert á leikvöllum í Frakklandi og á Ítalíu dygði við íslenskar aðstæður. Þeir réðu því þjálfara Vals, Skotann Alex Weir, til að undirbúa landsliðið fyrir fyrstu undankeppni sína fyrir stórmót og létu landsliðsnefnd velja leikmenn í liðið. Albert fékk ekki að fara með til Frakklands.

Weir hafði spilað með fjölda liða í Skotlandi sem framherji og þjálfað víða um heim eftir að ferlinum lauk og meðal annars landslið Myanmar, sem þá hét Burma, í sínu fyrsta alþjóðlega móti, Asíumótinu 1954. Burma hreppti brons með 5:4 sigri á Indónesíu, en Taiwan, sem keppti undir nafninu lýðveldið Kína, vann gull og Suður-Kórea silfrið.
En þrátt fyrir alþjóðlega reynslu þjálfara Íslands og fjarveru Just Fontaine lentu Frakkar ekki í neinum vandræðum með Íslendingana. Staðan var 5:0 í hálfleik og 8:0 þegar leikurinn var loks flautaður af. Oliver, Vincent og Piantoni skoruðu tvö hver og Dereuddre og Brahimi sitthvort. Íslendingar sáu aldrei til sólar í leiknum. Fyrirsögn Morgunblaðsins dró fram það eina jákvæða: Ísland var nálægt því að skora en bjargað var á línu. Annars var leikurinn hreinn varnarleikur af Íslands hálfu.
Eftir leikinn sagði Björgvin Schram að Frakkarnir hefðu hrósað Íslendingum fyrir baráttuvilja en bent á liðið væri skammt á veg komið í leikni og þjálfun. Björgvin sagði úrslitin hafa verið eftir gangi leiksins, kannski hefði munurinn mátt vera tveimur til þremur mörkum minni.
Mánudaginn eftir hélt íslenska liðið til Brussel og mætti belgíska landsliðinu á miðvikudeginum. Þar komust Belgarnir í 5:0 eftir 25 mínútur. Á 33. mínútu náði Þórður Þórðarson að skora en þá bættu Belgarnir við tveimur mörkum. Staðan var orðið 7:1 í hálfleik. Og fljótlega í þeim seinni bættu Belgar við enn einu markinu áður en Þórður lagaði stöðu með öðru marki. Ríkarður Jónsson bæti síðan við þriðja marki Íslands við undir lokin. Leiknum lauk 8:3.

Það var bjartara yfir Björvin Schram þegar hann gaf blaðamanni Morgunblaðsins skýrslu eftir leikinn. „Við höfum séð í þessum leikjum að það er tilgangslaust að rígbinda liðið í vörn. Það verður að reyna að hrinda knettinum fram og sækja þegar færi gefst. Það tókst, en aðeins ekki fyrr en í síðari hálfleik í síðari leiknum.“
Fyrirsögn Morgunblaðsins var:
Allt annar og betri leikur en við Frakka – einkum síðari hálfleikur
Fyrirsögn Þjóðviljans var enn upplitsdjarfari:
Belgar unnu 8:3 – Íslendingar náðu yfirhöndinni í síðari hálfleik; gerðu þá 2 gegn 1
Íslenska landsliðið hafði skorað þrjú mörk í tveimur leikjum á þremur dögum en fengið á sig sextán. Til samanburðar hefur íslenska landsliðið skorað 23 mörk í 14 leikjum í Evrópukeppninni 2016, séu undankeppni og lokakeppni, talin saman og fengið á sig 10.

Þegar Frakkar komu til Íslands að leika á nýbyggðum Laugardalsvellinum um haustið var Albert Guðmundsson í landsliðshópnum en ekki skráður í byrjunarliðið. Sem fyrr vakti þetta undrun og reiði margra. Þegar liðið var kynnt var Gunnlaugur Lárusson, formaður landsliðsnefndar, spurður hvers vegna Albert væri ekki í liðinu og svaraði hann: „Albert er að dómi nefndarinnar ekki í þjálfun og hann er að okkar dómi ekki meðal ellefu bestu knattspyrnumanna Íslands.“
Þetta svar vakti mikla undrun og rituðu blaðamenn langa vandlætingarpistla um valið á landsliðinu og fjarveru Alberts. Einhverjir áhugamenn tóku sig til og prentuðu 1000 spurningaseðla sem þeir dreifðu í fyrirtæki til að framkvæma einskonar skoðanakönnun. Á miðunum voru tvær spurningar:
- Telur þú að Albert Guðmundsson eigi að vera í íslenska landsliðinu?
- Telur þú að landsliðið eins og það er nú skipað sé það bezta sem völ er á?
700 seðlar skiluðu sér til baka. 694 sögðust vilja Albert í landsliðið og allir þeirra svöruðu seinni spurningunni skiljanlega neitandi. Af þeim sem vildu Albert ekki í landsliðið sagði einn að liðið væri ekki skipað eins og best var á kosið en annar var í vafa. 4 af 700 voru á því að Ísland væri að stilla upp sínu sterkasta liði eða 0,6 prósent.
Á blaðamannafundi fyrir leikinn undruðust frönsku leikmennirnir hvers vegna Albert hafði ekki verið valinn í landsliðið og spurðu blaðamennina hverju það sætti en fengu fá svör. Þeir sáu fram á erfiðari leik en í Nantes, hældu íslensku leikmönnunum og einkum Ríkarði Jónssyni. Þeir töldu sitt lið nokkuð gott og það besta sem Frakkar gætu stillt fram þótt mögulega mætti styrkja það með einum eða tveimur mönnum sem ekki hefðu getað leikið. Þar hafa þeir örugglega haft Just Fontaine í huga en hann kom ekki með franska liðinu til Íslands.

Veður var gott þennan sunnudag og níu þúsund manns mættu á völlinn, þjóðleikvanginn nýja. Leikurinn var jafnari en sá í Nantes og staðan aðeins 0:2 fyrir Frakka í leikhléi. Þegar tólf mínútur voru liðnar af seinni hálfleik var staðan orðin 0:4. Þórður Jónsson setti hins vegar eitt mark um miðjan hálfleik eftir skyndisókn og Íslendingar hefðu getað bætt við öðru því Ríkarður Jónsson misnotaði vítaspyrnu, lét verja frá sér. Áður en yfir lauk bættu Frakkar við fimmta markinu og leikurinn fór 1:5.
Blöðin voru nokkuð jákvæð. Fyrirsögn Þjóðviljans var:
Frakkland vann Ísland 5:1 eftir jafnari leik en búist var við
Frímann Helgason, íþróttaskrípent Þjóðviljans, sagði íslenska liðið hafa staðið sig nokkuð vel meðan leikmenn höfðu úthald, fyrsta hálftímann eða svo. Franska liðið hafi hins vegar ráðið yfir mikilli leikni og hraða.
Morgunblaðið var gagnrýnara og sagði í fyrirsögn að Ísland hafi misnotað tækifæri sín gegn óæfðu frönsku liði. Atli Steinarsson skrifaði um leikinn og sagði Frakka hafa borið af í tækni, uppbyggingu og samleik. Þrátt fyrir það hefði leikurinn mátt enda 3:6 ef öll góð færi hefðu verið nýtt. Samkvæmt leikskýrslu áttu Frakkar 25 marktilraunir á móti 9 frá Íslendingunum.
Í hófi eftir leikinn lýsti Björvin Schram leiknum sem stórkostlegum sigri Íslands. Hann sagði að sigra mætti á annan hátt í knattspyrnuleik en með því að skora mörk. Slíkan sigur hefði íslenska liðið unnið. Björgvin skammaði hins vegar blaðamenn fyrir að hafa gagnrýnt val og leikmönnum og sagði þá hafa misskilið það sem fram hafði komið á kynningarfundi fyrir leikinn. Sagði að mögulega væri betra að halda slíka fundi á frönsku í framtíðinni því sumir blaðamenn ættu erfitt með að skilja móðurmálið.

Albert var ekki í leikmannahópnum í leiknum gegn Belgum þremur dögum síðar. Hann var háður í miklu roki og Íslendingar léku undan vindi í fyrri hálfleik. Og þeir skoruðu á fyrstu mínútu, Þórður Jónsson hljóp upp með boltann og gaf á Ríkarð sem skoraði með hnitmiðuðu skoti. Eftir þetta tóku Belgar öll völd á vellinum og unnu leikinn 2:5. Þórður Þórðarson skoraði seinna mark Íslands í seinni hálfleik þegar staðan var orðin 1:4.
Fyrirsögn Moggans var: Ísland hafði 1:0 eftir 15 sekúndur – en Belgar áttu svo leikinn. Þjóðviljinn sagði: Ísland lék ekki nærri eins góðan leik og gegn Frökkum. Um Helga Daníelsson markmann sagði Vísir: Helgi varði stundum eins og snillingur en stundum týndist hann líka og markið stóð eftir mannlaust.
Þannig lauk þátttöku Íslands í fyrstu stóru keppninni. Fjórir tapleikir, sex mörk skoruð á móti 26 mörkum andstæðinganna.
The post Frakkland 8 – Ísland 0 appeared first on Fréttatíminn.