Móðir Jóns Daða Böðvarssonar segir árangur sonar síns með landsliðinu ekki vera sér að þakka. „Hann hefur komist áfram á einstökum metnaði og sjálfsaga. En hann hefur kannski lært af mér að halda áfram eftir mótbyr.“
Þeir sem þekkja Jón Daða Böðvarsson segja sögu hans líkjast Öskubuskuævintýri. Selfyssingurinn sem hefur unnið hug og hjörtu þjóðarinnar með frammistöðu sinni á Evrópumeistaramótinu í fótbolta, hefur kynnst hæðum og lægðum í lífinu.

Ingibjörg Erna Sveinsdóttir féllst á að segja Fréttatímanum frá syni sínum, áður en hún stígur upp í flugvél til Frakklands. Ekki til að eigna sér heiðurinn af afrekum hans, heldur til skýra frá því sem hún telur að hafi gert hann að þeim öfluga leikmanni sem fólk sér í dag.
„Hann vill vera fyrirmynd barna sem eiga erfitt uppdráttar því það hefur haft mótandi áhrif á hann að hafa þurft að yfirstíga fjölmargar hindranir.“
Af þeim sem þekkja til Jóns Daða er honum lýst sem baráttujaxli með einstakt hugarfar. Hann hefur alltaf haft óþrjótandi metnað til að standa sig í fótbolta. En hann var líka dæmigerður ofvirkur strákur. Hann gat ekki verið kyrr. Hann var hvatís og með athyglisbrest og kannski enginn draumur að eiga við í skólastofu. Keppnisskapið var svo mikið að krakkarnir fundu fljótt leiðir til að æsa hann upp. Fyrir það fékk hann oft og tíðum skammir og neikvæða athygli. Móðir hans fékk líka, eins og sumir foreldrar ofvirkra barna, að heyra að hún hefði veitt syni sínum lélegt uppeldi.
„Svona var þetta bara þá og þetta er liðin tíð.“ Hún brosir og hristir höfuðið.
„En hann hefur gefið mér fullt leyfi til að segja frá sér, í þeirri von að horft verði á styrkleika barna sem eru svipaðri stöðu og hann var einu sinni,“ segir hún. „Eins og annar landsliðsmaður sagði um daginn, þá eru þeir eiginlega allir ofvirkir í þessu liði.“
Skapið kom honum áfram
Ingibjörg segir að þegar sonur hennar var að alast upp hafi skilningur á ofvirkni verið takmarkaður og stöðugt verið einblínt á neikvæða hegðun. „Það var hringt í mig úr skólanum þegar hann hljóp út á sokkunum, eða til að láta mig vita hvað hann hefði verið erfiður. Sjálf datt ég stundum í þá gryfju að hundskamma hann. Ég var ekki með neinar kennslubækur í þessu og hef stundum þurft að biðja hann fyrirgefningar á minni frammistöðu. En hann var ekkert vandamálabarn. Þegar hann var kominn á unglingsaldur var mér orðið ljóst hvað er mikilvægt að horfa ekki á það neikvæða við greininguna. Það verður að taka plúsana fram yfir mínusana. Einblína á styrkleikana og rækta þá. Fótboltinn var leið Jóns Daða til að virkja sína sterkustu hliðar og ef hann hefði ekki alltaf haft þetta keppnisskap sem stundum kom honum í vesen, væri hann ekki á þessum stað í dag.“

Í kvikmyndinni um landsliðið, Jökullinn logar, segir Jón Daði sjálfur frá þessu. Hann lýsir því að hann hafi oft verið sendur til skólastjórans og verið settur á róandi lyf gegn ofvirkninni. Og hvernig keppnisskapið hafi stundum orðið til þess að hann strunsaði heim af æfingum í bræði. Hann er sannfærður um að fótboltinn hafi hjálpað sér að lifa með ofvirkninni.
„Hann hefur alltaf gert svakalega miklar kröfur til sjálfs sín og rifið sig niður ef hann nær ekki því sem hann ætlar sér. Hann er harkalega sjálfsgagnrýninn og það hefur líka gert það að verkum að hann hefur æft meira til að verða betri. Jafnvel eftir sigur fer hann yfir hvað hann hefði getað gert betur og er alltaf kominn með hugann við næsta leik. Það er partur af hans karakter. Að einhverju leyti er það svipað og Lars er að gera með landsliðinu. Þeir virðast jarðbundnir liðsmennirnir, þó þeir vinni leiki, og leggjast yfir hvað þeir geta gert betur næst. Það er rosalega flott. Mér finnst líka jákvætt að þeir fái mikla hvatningu, eins og þessi vídeó sem þeir horfa á fyrir leiki. Andlega hliðin skiptir svo miklu máli. Ég mæli með því að fólk með mikið keppnisskap noti íþróttasálfræði. Hún hjálpar strákum á þessari braut mikið.“

En mömmusálfræðin, skiptir hún ekki jafn miklu máli og íþróttasálfræðin?
„Ég var kannski ekki manna best í því og þurfti oft að biðja vinafólk mitt um að sinna honum á leikjum. Ég var í vaktavinnu og komst lítið í burtu. Ég hafði heldur ekki mikinn áhuga á fótbolta svo hann sá oft um þetta sjálfur. Systkini hans eiga líka mikið í honum. Auðun, stóri bróðir hans, lék hálfgert föðurhlutverk í lífi hans og þeir hafa verið mjög nánir. Auðun er duglegur að ræða keppnishliðina við hann. Hann hefur alltaf verið mikill klettur í lífi Jóns Daða og veitt honum hvatningu og styrk. Þó ég hafi ekki verið með honum á leikjum fólst stuðningur minn kannski í öðrum þáttum. Ég ræddi við hann um að gera ekki mikið úr tapi, og að maður getur ekki alltaf unnið. Að hann mætti ekki brjóta sig niður eftir tap. Eins reyndi ég að passa upp á að hann fengi næga hvíld. Hann var mjög ungur þegar hann fékk áhuga á hollu matarræði og við ræðum mikið saman um hleðslu og heilsunammi og svoleiðis hluti. Menn í svona mikilli hreyfingu þurfa að borða reglulega og hugsa vel um hvað þeir setja ofan í sig.“
Ofsaþjálfun liðsmanna
Nú vilja allir vita hvað skóp þessa einstöku fótboltamenn okkar. Liðsmennina sem hafa unnið þjóðina alla á sitt band og fengið ólíklegasta fólk til að fylgjast með heilum fótboltaleikjum í fyrsta sinn.
„Að baki þessum árangri er ofsaþjálfun. Ég held að Jón Daði hlaupi um það bil tólf kílómetra í svona leik og þú getur rétt ímyndað þér hvað það er mikil brennsla. Ég held að það séu um sex þúsund kalóríur bara í einum leik. Hann hefur ofboðslegan sjálfsaga og til að geta þetta hefur hann lagt á sig óteljandi æfingar, allskonar líkamsrækt og sjálfsrækt. Sjúkraþjálfun, tækniæfingar og stífar keppnisferðir. Fólk áttar sig kannski ekki á því hve mikil vinna liggur að baki. Öll árin sem fóru í að undirbúa að komast á þennan stað. Hann er tuttugu og fjögurra ára og í sautján ár hefur hann varla gert annað. Fólk sem nú vill tína til hvað landsliðsmennirnir fá mikið fyrir að spila á EM, má líka líta til þessara hluta.“

Hún rekur upphafið á fótboltaáhuga sonarins til þess tíma þegar hann var sex ára gamall í sveitaskóla á Varmalandi í Borgarfirði. „Þar fékk hann að spila fótbolta með miklu eldri strákum. Þeir leyfðu honum bara að vera með. Ári síðar fluttum við á Selfoss og þá kom ekkert annað til greina en að setja hann í íþróttir.“
Á þessum tíma var orðið ljóst að Jón Daði glímdi við ofvirkni en þá helltist líka fótboltadellan yfir hann af fullum þunga og hefur hann verið heltekinn af íþróttinni síðan. Barnæskunni varði hann því að mestu við íþróttaaðstöðuna á Selfossi og þjálfararnir þar höfðu mikil áhrif á hann. „Ef hann var ekki á æfingu eða úti að leika sér í fótbolta þá var hann heima að spila fótboltaleiki í tölvunni. Ég veit ekki hversu oft ég fann hann seint um kvöld á einhverjum fótboltavellinum, þar sem hann hafði steingleymt sér í leiknum og vissi ekkert hvað klukkunni leið. Svo fylgdist hann með enska boltanum og átti þar margar fyrirmyndir. Þannig hefur þetta alltaf verið.“
Stofnaði styrktarsjóð fyrir fótboltabörn
Ingibjörg á þrjú börn og var lengi vel einstæð móðir. Hún vann fyrir sér sem hjúkrunarfræðingur og segir að stundum hafi verið erfitt að ná endum saman. Sjálfur hefur Jón Daði sagt að hann þekki það af eigin raun hvað kostnaðurinn við íþróttina geti verið íþyngjandi.
„Honum er mjög umhugað um að fótbolti sé fyrir alla, ekki bara þá sem koma úr réttu fjölskyldunum eða eiga peninga. Hann vill vera hvatning fyrir stráka með svipaðan bakgrunn og hann, og minna þá á að halda í drauminn sinn, styrkja það sem þeir eru góðir í. Gefast ekki upp. Ekki velta sér of mikið upp úr því þó þeir hafa verið reknir úr tíma.“

Árið 2012, þegar Jón Daði var valinn íþróttamaður Árborgar í annað sinn, gaf hann allt verðlaunafé sitt, þá 200 þúsund krónur, og stofnaði styrktarsjóð fyrir fótboltakrakka. Í samtali við Sunnlenska á þeim tíma sagði hann; „Ég veit það með vissu að þónokkuð mikið af fólki hefur því miður of bágan fjárhag til þess að börnin þeirra geti fengið að æfa og það er búið að vera þannig í mörg ár.“
Ingibjörg segir Jón Daða hafa komið heim til sín eftir að hann hlaut viðurkenninguna og sagðist vilja láta gott af sér leiða fyrir peningana. „Í sameiningu fundum við það út, að það vantaði slíkan sjóð. Hann vann svo hugmyndina áfram og fleiri komu inn í þetta. Það eiga ekki allir fyrir æfingagjöldum eða takkaskóm og það er ekkert gaman fyrir þessa krakka að skera sig úr af því að efnin eru ekki fyrir hendi.“ Jón Daði sagðist vona að styrkurinn yrði til þess að fleiri klúbbar kæmu slíku á legg.
Fótboltinn meðal við stríðni
Þeir sem þekkja Jón Daða, og Fréttatíminn hefur rætt við, lýsa þrautseigju hans og baráttu sem einstakri. Hann sé harður við sjálfan sig og keppnisskapið hafi fleytt honum áfram. Um tíma hafi hann af þeim sökum mætt mótlæti í skóla. „Hann átti erfitt uppdráttar því hann var hvatvís og fljótur að skipta skapi. Á tímabili tók ég eftir því að hann varð fyrir stríðni í skólanum og það var ákveðið einelti að byrja. Það varð svo slæmt að ég talaði við skólann á Selfossi, sem greip strax inn í. Ég held það hafi komið honum sjálfum á óvart að þá fóru hlutirnir að snúast við. Það sem enn og aftur hjálpað honum var fótboltinn og sú virðing sem hann vann sér inn meðal sumra, fyrir að vera góður í honum. Fólk fór að taka eftir styrkleikum hans. Málin snerust við og drengirnir sem byrjuðu á að stríða honum fóru að styðja hann. Hvatvísir krakkar verða oft fyrir aðkasti og það þarf að hjálpa þeim að gefast ekki upp þó þeir reki sig á.“
Ingibjörg segist einna helst hafa tekist að miðla því til sonar síns að læra af reynslunni. Hún hafi sjálf hafa fengið sinn skerf af mótlæti. „Ég hef það viðmót að líta á mótbyr sem ákveðna kennslustund. Ég hef kannski verið honum fyrirmynd í því og hann stendur alltaf upp aftur eftir áföll. Hann fylgdist með mér vinna mig út úr erfiðleikum og veikindum og það kom aldrei til greina að gefast upp. Hann heldur alltaf áfram og hefur þessvegna náð svona langt. Ég hef ekki unnið neina sigra fyrir hann, hann hefur gert það sjálfur og við erum öll í fjölskyldunni að rifna úr stolti af honum.“

Alltaf verið vanmetinn leikmaður
Stóri bróðir segir Jón Daða hafa svo einstakt hugarfar að hann hefði getað orðið ólýsanlega góður í hverju sem hann vildi.
Auðun Daníelsson á ótal falleg orð um bróður sinn, Jón Daða. „Hann hefði getað notað orkuna sína í hvað sem var og orðið hvað sem hann vildi. Eins og algengt er með fólk með athyglisbrest þá á það sér gjarnan eitthvert sérsvið. Sem dæmi þá byrjaði Jón Daði að spila á gítar fyrir fimm árum. Síðan hefur allur hans frítími farið í það og hann er auðvitað orðinn algjör atvinnumaður á hljóðfærið. Ef þú skoðar fjölskyldusöguna hans þá voru líka engir smá listamenn í kringum hann. Þorsteinn frá Hamri er afi hans og Ásta Sigurðardóttir amma hans.”

Auðun passaði yngri bróður sinn mikið og fannst hann hrikalega skemmtilegur krakki. „En ferillinn hans sem leikmaður hefur einkennst af miklu harki. Hvert sem hann hefur farið hefur hann þurft að byrja á að sanna sig og mér hefur alltaf fundist hann hafa verið vanmetinn leikmaður. Á Selfossi féll hann algjörlega í skuggann af öðrum leikmanni og það var ekki fyrr en í þriðja flokki að fólk fór að fatta hvað hann var góður. Þjálfarinn hans, Halldór Björnsson, barðist fyrir því að honum yrði gefið tækifæri í unglingalandsliðinu. Alltaf hélt hann áfram og við sjáum hvar hann er nú.“
Auðun segir að þó hann sé nýleg stjarna á Íslandi, hafi hæfileikar hans ekki dulist þeim sem fylgst hafa með fótbolta undanfarin ár. Jón Daði var algjör lykilmaður á Selfossi þegar liðið klifraði upp um deild og var valinn efnilegasti leikmaður Pepsí-deildarinnar árið 2012. „Sjálfsgagnrýnin er hans helsti ókostur og honum er algjörlega fyrirmunað að dæma sjálfan sig með sanngjörnum hætti. Ef hann gerir ein lítil mistök í leik, þá einblínir hann á þau þó frammistaða hans hafi að öðru leyti verið frábær. Hugarfar hans er svo einstakt. Allur þessi tími og orka sem hann hefur varið í komast á þennan stað. Vinnusemi hans er ótrúleg. Þeir sem venjulega hlaupa mest á vellinum eru miðjumenn. Tölfræði Jóns Daða sýnir að hann hleypur eins og miðjumaður þó hann sé framherji. Þar að auki er hann óeigingjarn á vellinum og ekki þessi ýkti framherjakarakter eins og kannski Ronaldo eða Zlatan. Hann hugsar fyrst og fremst um liðið.“
Hann ítrekar að Jón Daði hafi fært miklar fórnir í fótbolta og agi hans og einbeiting á unglingsárum hafi kostað ýmislegt. Til dæmis félagslíf, þegar aðrir byrjuðu að drekka og reykja. „Það er óhætt að segja að hann hafi verið mjög sjálfstæður og einn að berjast í sínum fótboltaferli. Hann fékk ekki mikinn stuðning í fótbolta fyrr en á unglingsárum og hefur því unnið fyrir allri sinni velgengni sjálfur.“
The post Hann stendur alltaf upp aftur eftir áföll appeared first on Fréttatíminn.