Viðskiptaráð og Neytendasamtökin fagna áætlun stjórnvalda um afnám tolla á fatnað, skó og aðrar vörur en hvetja þau til að afnema einnig tolla á matvörur. Samkvæmt áætlun Viðskiptaráðs myndi afnám tolla á matvæli skila meðalheimili um 76 þúsund kr. sparnaði til viðbótar á ári við þær 30 þúsund kr. sem sparast við afnám tolla á aðrar vörur.
„40% af matvælum sem íslensk heimili neyta eru vörutegundir sem eru tollverndaðar og verðið á þeim er allt að 59% hærra en í öðrum ríkjum,“ segir Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs. „Það er aðallega kjöt, ostar og mjólkurvörur sem myndu lækka í verði væru þessir tollar afnumdir.“
Björn hvetur stjórnvöld til að afnema tolla á matvæli en bendir á að sú aðgerð sé flóknari en að afnema aðra tolla. „Í tilfelli matvæla eru innlendir framleiðendur sem þyrftu að aðlagast breyttu samkeppnisumhverfi og samhliða því þyrfti að endurskoða styrkjafyrirkomulag í landbúnaði. Það er flóknari aðgerð sem tekur lengri tíma að undirbúa. Við fögnum þessu fyrsta skrefi stjórnvalda núna en hvetjum til þess að næsta skref verði afnám tolla á matvöru og þá jafnframt breytt fyrirkomulag styrkja til landbúnaðarins.“
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagaráðherra, hefur boðað afnám tolla á fatnað og skó þann 1. janúar 2016 og annara tolla, að matvöru undanskilinni, þann 1. janúar 2017. Í mars á þessu ári skipaði fjármála- og efnahagsráðherra þriggja manna starfshóp um endurskoðun tollskrár. Starfshópurinn skilaði greinagerð í maí þar sem fram kemur að gjaldfærðar tekjur ríkissjóðs af tollum námu á árinu 2014 um 5,7 milljörðum króna. Hlutfall matvöru var 34,2%, hlutfall fatnaðar 31,5% og hlutfall annarra vara var 34,3%. Í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu segir að afnám tolla muni lækka vöruverð til neytenda, bæta samkeppnishæfni seljanda og auka skilvirkni á innlendum markaði.
The post Kalla eftir afnámi tolla á matvæli appeared first on FRÉTTATÍMINN.