Strætóskýli höfuðborgarsvæðisins eru núna vel merkt druslum á öllum aldri í tilefni af Druslugöngunni 2015. Þjóðþekktir einstaklingar í bland við fólk sem brennur fyrir málstaðnum birtast á strætóskýlunum sem og á plakötum um allt höfuðborgarsvæðið með áletrinu „ég er drusla“. Á strætóskýlunum eru meðal annars Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Magga Stína, tónlistarkona og Hilmar Hildarson Magnúsarson, formaður Samtakana 78, Pétur Kiernan, feministi og Alda Villiljós, listamaður.
Með plakötunum vilja skipuleggjendur Druslugöngunnar hvetja fólk til að mæta í gönguna þann 25. júlí næstkomandi og taka afstöðu gegn kynferðisofbeldi. „Fólkið sem mætir í Druslugönguna er þverskurður íslensks samfélags og er það boðskapur plakata Druslugöngunnar í ár,“ segir í fréttatilkynningu frá skipuleggjendum göngunnar. „Í hana mætir fólk af öllum kynjum, á öllum aldri og fólk með mjög ólíkar stjórnmálaskoðanir og sýna í verki samstöðu með þolendum kynferðisofbeldis. Þess vegna eru allir þeir sem leggja málefninu lið druslur. Því enginn, sama hvernig hann klæðir sig eða hegðar ber ábyrgð á ofbeldi sem hann verður fyrir. Við eigum okkur sjálf og erum að taka orðið úr höndum þeirra sem nota það til að orsaka skömm og vanlíðan.“
Nú þegar hafa yfir 3000 manns boðað komu sína í Druslugönguna á Facebook viðburði göngunnar, og er von skipuleggjanda göngunnar að slá öll met í ár en markið er sett á að minnsta kosti 20.000 manns. Yfirlýst markmið göngunnar er að færa ábyrgð kynferðisglæpa af þolendum og yfir á gerendur og ítreka að klæðnaður, hegðun eða fas þolenda er aldrei afsökun fyrir slíkum glæpum.
Druslugangan hefur fest rætur sínar sem árviss viðburður í Reykjavík og verið í forystu í baráttunni fyrir breyttu hugarfari og orðræðu um kynferðisofbeldi. Druslugangan hefur dregið fram í dagsljósið það sem okkur sem samfélagi dylst allt of oft eða þorum ekki að horfast í augu við. Fjöldi fólks hefur skilað skömminni í aðdraganda göngunar og í kjölfar hennar, deilt sögum sínum og orðið öðrum innblástur. Með því að vera móttækileg fyrir því að heyra þessar sögur, með því að mæta í gönguna og senda þar með skilaboð um samstöðu með þolendum kynferðisofbeldis byggjum við betra samfélag. Orkan í göngunni er einsök og stemningin einkennist af samstöðu, gleði, baráttuanda og vilja til að breyta samfélaginu til hins betra. Að sögn Maríu Rutar Kristinsdóttur, eins skipuleggjenda Druslugöngunnar, er það samt mikilvægast að þetta er ekki bara einn dagur á ári sem gangan hefur áhrif, heldur hefur hún áhrif alla daga ársins.
Druslugangan fer fram þann 25. júlí næstkomandi og lagt verður af stað klukkan 14:00 frá Hallgrímskirkju. Gengið verður í átt að Austurvelli þar sem við taka ræðuhöld og tónleikar. Friðrik Dór, Úlfur Úlfur, Boogie Trouble og Mammút munu meðal annars spila og verða kynnar og ræðuhaldarar kynntir til leiks þegar nær dregur göngu. Mætum öll og göngum fyrir breyttu samfélagi laust við ofbeldi og skömm.
The post Stefnt á metþátttöku í Druslugöngunni í ár appeared first on FRÉTTATÍMINN.