Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Vöntun á losunarbrunnum fyrir rútur

$
0
0

Mikið hefur borið á því að salerni sem eru til staðar í mörgum langferðabifreiðum á Íslandi séu ekki í notkun. Ferðmenn hafa talað um það að salerni séu alls ekki í öllum bifreiðum, og að í þeim sem þau eru séu þau ekki aðgengileg. Þórir Garðarsson stjórnarformaður Iceland Excursion segir ástæðuna eingöngu vera þá að ekki séu nægir losunarbrunnar á landinu. Brunnarnir eru tveir í Reykjavík og þá eru þeir upptaldir.

„Ég get auðvitað bara talað fyrir mitt fyrirtæki,“ segir Þórir Garðarsson hjá Iceland Excursion þegar hann er spurður út í málið. „Það eru salerni í nokkrum bílum hjá okkur og þau eru almennt ekki notuð nema sérstaklega sé beðið um bíla með salernum. Þetta er mjög vandmeðfarið þar sem það eru mjög fáir staðir á Íslandi þar sem hægt er að losa rútusalerni,“ segir hann. „Við erum með einn brunn hjá okkur í Klettagörðum, annar er hjá Orkuveitunni og þá er það nánast upptalið,“ segir Þórir. „Ég þykist vita að þessu umræða sé sprottin út frá salernismálum á ferðamannastöðum á landinu. Staðreyndin er sú að innan við 40% af ferðamönnum á Íslandi ferðast með hópferðabílum. Bílaleigubílar eru um 50% og aðrir á eigin vegum. Þar fyrir utan eru svo allir Íslendingarnir sem gleymast stundum í allri þessari umræðu,“ segir Þórir. „Manni finnst svona í umræðunni að það sé verið að ýta vandamálinu yfir á rútufyrirtækin í staðinn fyrir að horfa lausnamiðað á vandamálið og fjölga salernum á landinu.“ Af öllum þeim fjölda ferðamanna sem panta þjónustu hópferðabíla á landinu segir Þórir það ekki stórt hlutfall sem biðji sérstaklega um bíla með salernum. „það er mjög sjaldgæft í raun og veru,“ segir hann. „Hjá okkur erum við með salerni í flestum bílunum en þau eru ekki notuð í venjulegri ferð eins og gullna hringnum. Það er ekki það langt á milli salerna. Það er helst ef við erum í einhverjum sérferðum með viðskiptavini sem biðja sérstaklega um það,“ segir hann. „Þegar við erum að kaupa nýja bíla þá er það misjafnt hvort það eru salerni í þeim eða ekki. Þetta fer allt eftir stærð og slíku og við kaupum á bilinu 12-18 bíla á ári.“ Þórir segir þó losunarmöguleikann stærsta vandamálið. „Við getum ekki tekið kassann úr eins og í hjólhýsum og slíku,“ segir hann. „Bílarnir þurfa að geta keyrt yfir brunn og losað salernin. Þetta er eitthvað sem þarf að bæta ásamt því að fjölga salernum. Við rekum áfangastað á Hveravöllum þar sem við settum niður 60.000 lítra rotþró fyrir tveimur árum sem er framkvæmd upp á rúmlega 20 milljónir, bara neðanjarðar. Svo þetta er svolítið mál. Vandamálið er ekki leyst þótt hægt sé að sturta niður,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Iceland Excursions.

The post Vöntun á losunarbrunnum fyrir rútur appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652