Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Rappið er ekki strákasport

$
0
0

Rappdúettinn Úlfur úlfur hefur vakið mikla athygli að undanförnu fyrir plötu sína Tvær plánetur sem kom út fyrr í sumar. Þeir Arnar Freyr Frostason og Helgi Sæmundur Guðmundsson eru aldir upp á Sauðárkróki í Skagafirði og stofnuðu ungir hljómsveitina Bróður Svartúlfs sem sigraði í Músíktilraunum Tónabæjar árið 2009. Þeir byrjuðu ungir að rappa og segja rappsenuna á Íslandi vera í miklum blóma í dag.

Úlfur úlfur er skipuð Skagfirðingunum Arnari Frey og Helga Sæmundi. Þeir hafa vakið verðskuldaða athygli að undanförnu fyrir rímur sínar og tónlist. Platan þeirra, Tvær plánetur kom út í byrjun sumars og greinilega eru vinsældir sveitarinnar alltaf að aukast. Þeir félagarnir segjast spila mjög mikið opinberlega og segja flóruna af röppurum á Íslandi mjög stóra, en ólíka.
„Hljómsveitin okkar Bróðir Svartúlfs, sem vann músíktilraunir árið 2009, var allt önnur hljómsveit bókstaflega,“ segir Arnar þegar þeir eru spurðir út í bakgrunninn. „Allt aðrar hugmyndir og stefnur sem okkur fannst gaman, en við áttuðum okkur á því að þetta var ekki það sem okkur langaði raunverulega að gera,“ segir hann. „Við stigum því á bremsuna, sögðum sorrí við strákana og stofnuðum okkar eigið band.“
„Við bjuggum á þessum tíma saman í Reykjavík og höfðum alltaf verið að gera alls konar hluti saman, líka áður en við stofnuðum Bróður Svartúlfs,“ segir Helgi. „Svo þetta var bara rökrétt framhald af því. Okkur fannst bara svo gaman að fikta saman heima að það varð aðal hjá okkur,“ segir Arnar. „Það yfirtók Bróður Svartúlfs í rauninnni. Kannski fórum við líka að beina orkunni í aðra átt því við vorum bara orðnir hugmyndasnauðir í hljómsveitinni,“ segir hann. „Við vorum allir með svo ólíkar hugmyndir,“ bætir Helgi við. „Geggjaðir tímar samt og góð reynsla,“ segir Arnar.

Nauðsynlegt að vera raunverulegir
Arnar og Helgi fluttu til Reykjavíkur í kringum tvítugt og báðir hafa þeir menntað sig meðfram tónlistarsköpun sinni. Helgi er að læra ferðamálafræði og Arnar er að klára viðskiptafræðina, sem er kannski ekki svona það sem fólk giskar fyrst á þegar það hlustar á íslenska rappara. Þeir segja rappara á Íslandi vera ólíka og bakgrunninn misjafnan. „Rappsenan er í blóma núna,“ segir Arnar. „Hún hvarf á tímabili og um tíma voru þetta bara Blaz Roca og Emmsjé Gauti sem voru að rappa. Það var enginn sena. Í dag er þetta mjög fjölbreytt. Steríótýpan í dag af íslenskum rappara er gaur sem lítur ekkert endilega út fyrir að vera rappari,“ segir hann. „Rapparar í dag eru bara einhverjir venjulegir gaurar, í námi eða að gera einhvern fjandann. Gísli Pálmi er kannski sá eini sem lítur út fyrir að vera rappari. Það fer honum líka vel af því að hann er raunverulegur,“ segir Arnar. „Við gætum ekki verið eins og Gísli Pálmi því við erum ekki þannig. Þú þarft að vera raunverulegur til þess að tekið sé mark á þér og mér finnst flestir af íslenskum röppurum vera raunverulegir,“ segir hann. „Það eru líka allir vinir í þessari senu og við erum duglegir að mæta á tónleika hver hjá öðrum. Mér finnst líka fjölbreytnin sem er í gangi svo frábær. Stelpurnar eru líka að koma mjög sterkar inn og það er geggjað að það eru 17 stelpur saman að pæla í rappi, eins og í Reykjavíkurdætrum. Það er líka gott að þetta sé ekki eitthvert strákasport,“ segir Arnar.

Markhópurinn stór
Platan Tvær plánetur er fyrsta stóra plata Úlfs úlfs, en árið 2011 gáfu þeir út stuttskífu í takmörkuðu upplagi sem seldist upp. „Það var í rauninni bara samansafn af lögum og hún var eiginlega bara seld á útgáfutónleikunum okkar þá, og seldist eiginlega upp þá helgina,“ segir Helgi. „Nýja platan er okkar fyrsta plata sem er með eitthvert konsept,“ segir Arnar.
Er eitthvert konsept í gangi?
„Það er konsept, en það er erfitt að setja fingur á það,“ segir Arnar.
„Þetta er bara tímabil í lífi okkar. Platan er samin síðasta sumar og fjallar um það. Ískaldur raunveruleiki tveggja gaura.“
Þið eruð búnir að vera duglegir undanfarin ár, þið spilið mikið er það ekki?
„Jú, við erum búnir að spila nánast einu sinni í viku í nærri þrjú ár,“ segir Arnar. „Við erum búnir að vera að búa fólk undir það andlega að það sé plata á leiðinni.“
Hvaða fólk er það sem hlustar á Úlf úlf?
„Við náum ekki alveg að staðsetja markhópinn okkar,“ segir Helgi.
Hann er miklu stærri en ég þorði að vona, bætir Arnar við.
„Við erum að heyra reglulega að foreldrar í dag séu að hlusta á plötuna okkar með börnunum sínum. Setning eins og „Ég fíla nú ekki rapp, en ég fíla ykkur,“ er eitthvað sem ég heyri oft. Ég held að markhópurinn sé bara fólk á okkar aldri, en af því að platan fjallar bara um venjulegt líf þá nái fullorðið fólk líka að tengja,“ segir Arnar. „Við erum að tala um hluti sem fólk er að díla við. Okkar raunveruleiki er ólíkur veruleika margra annarra rappara og því kannski tengja fleiri við hann, við erum t.d mjög ólíkir Blaz Roca og Gísla Pálma í okkar lífi þó við fílum hver annan.“
Þannig að þið eruð ekki daglega á Prikinu?
„Við erum reyndar furðulega oft á Prikinu,“ segir Arnar og þeir skella báðir upp úr.
„Vinir okkar eru þarna.“

Hávamál kveiktu áhugann
Þeir Arnar og Helgi segjast ekki vita af hveru tveir ungir menn á Sauðárkróki taki upp á því að byrja að rappa. Kannski er það körfuboltahefðin í bænum, og kannski er það bara eitthvað allt annað. „Ég byrjaði að rappa 12 ára,“ segir Helgi. „Ég var beðinn um að rappa Hávamál fyrir kvenfélagið á Króknum og ég gerði það,“ segir hann og Arnar engist um af hlátri. „Þetta er svo gott,“ segir Arnar. „Ég stal bara einhverjum takti af netinu og það var í fyrsta sinn sem ég kom fram og rappaði,“ segir Helgi. „Svo þróaðist þetta bara. Ég hlustaði alltaf á rapp og Arnar var að því líka og þannig bara byrjaði þetta.“
„Ef það hefði ekki verið fyrir Helga þá hefði ég aldrei byrjað að rappa,“ segir Arnar. „Ég sá bara hann sem var einu ári eldri en ég að rappa sem mér fannst mjög kúl, og ég hugsaði bara. Ég er líka frá Sauðárkróki og ég get gert þetta líka,“ segir hann.
Tengist þetta eitthvað körfuboltanum á Króknum?
„Maður spilaði mikið körfu og hlustaði á rapp,“ segir Helgi.
„Það var stemning í því og það var ákveðin körfuboltamenning á Króknum og líklega tengist þetta eitthvað.“
Eruð þið með eitthvert plan? Hvað er framundan?
„Arnar er alltaf fullur af hugmyndum og hringir í mig daglega með eitthvert plott,“ segir Helgi.
„Stundum segi ég já og stundum segi ég kannski,“ segir hann.
„Við byrjuðum að pæla í því fyrir löngu að okkur langar að gefa út EP-plötu fljótlega,“ segir Arnar. „Við viljum ekki segja nákvæmlega hvenær en við erum með næsta skref planað,“ segir hann.
„Annars erum við bara búnir að spila ótrúlega mikið til þess að kynna plötuna og verðum að áfram,“ segir Helgi. „Við ætlum samt í smá frí í ágúst, en í haust langar okkur að halda stóra tónleika fyrir norðan. Borga smá tilbaka fyrir stuðninginn að norðan,“ segir hann.
„Sauðárkrókur hefur alltaf staðið við bakið á okkur og það er alltaf gaman að koma heim,“ segir Arnar.

Útgáfutónleikar Úlfs úlfs fara fram fimmtudaginn 24. júlí í Gamla bíói.

The post Rappið er ekki strákasport appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652